Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir

7/2011

Mál nr. 7/2011. Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998. Ár 2011, fimmtudaginn 23. júní, kom úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir. Fyrir var tekið mál nr. 7/2011 K. Steindórsson sf., Hofgörðum 18, Seltjarnarnesi gegn Orkuveitu Reykjavíkur, Bæjarhálsi 1, Reykjavík. Í málinu er kveðinn upp svofelldur úrskurður: I. Aðild kærumáls og kröfur Með stjórnsýslukæru, dags. 22. mars 2011, kærði Gunnar Rafn Einarsson, löggiltur endurskoðandi, f.h. K. Steindórssonar sf. (hér eftir nefnt kærandi) ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur (hér eftir nefnd kærði) um álagningu fráveitugjalds vegna 486,0 fermetra fasteignar við Hringbraut í Reykjavík (fastanúmer 200-2302). Kærandi gerir þær kröfur að álagning fráveitugjalds á umrædda húseign, sem hvorki hafi vatnslögn né frárennslislögn, verði felld niður. Kærði telur að hafna beri kröfum kæranda og staðfesta hina kærðu ákvörðun um álagningu fráveitugjalds. II. Málmeðferð Kæra málsins barst úrskurðarnefndinni þann 25. mars 2011 og byggir hún á kæruheimild í 22. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009, sbr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Meðfylgjandi kæru voru álagningarseðill vegna vatns- og fráveitugjalda 2011 og svar kærða, dags. 24. febrúar 2011, við athugsemd kæranda vegna vatns- og fráveitugjalda fyrir árið 2011. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 6. apríl 2011, og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum með greinargerð, dags. 27. apríl 2011. Greinargerð kærða var kynnt kæranda með bréfi, dags. 3. maí 2011. Sendi kærandi úrskurðarnefndinni athugasemdir, dags. 11. maí 2011, við greinargerð kærða. Voru athugasemdir kæranda kynntar kærða með bréfi, dags. 17. maí 2011. Frekari gögn hafa ekki borist. III. Málsavik Kærandi er eigandi húseignar við Hringbraut í Reykjavík, fastanúmer 200-2302. Er þar um að ræða 486,0 fermetra vörugeymslu/skemmu. Í janúar 2011 sendi kærði kæranda álagningu fráveitugjalds vegna húseignarinnar að fjárhæð 101.732 kr. IV. Málsástæður og rök kæranda Í kæru greinir kærandi frá því að umrædd fasteign kæranda sé óeinangruð bárujárnsskemma, byggð árið 1938 og í henni sé engin vatnslögn og hvorki frárennslislögn né annað fráveitukerfi. Kærandi kveður skemmuna hafa verið án þessara lagna frá upphafi eða í 73 ár og að því muni ekki verða breytt þar sem til standi að rífa skemmuna. Kærandi vísar til 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna og segir að lagaheimild til álagningar fráveitugjalds nái ekki til umræddrar fasteignar sem sé ekki tengd fráveitu, hafi aldrei verið tengd fráveitu og muni ekki tengjast slíkri veitu um ókomna framtíð. Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða segir m.a. að ekki falli meiri úrkoma á þak mannvirkisins, en sem hefði án tilvistar þess fallið á yfirborð jarðar. Því vatni, sem þar falli sé vissulega veitt með rennum í niðurfallsrör niður með hlið mannvirkisins, en aðeins niður að yfirborði jarðar þar sem jarðvegur taki við með sama hætti og hann hefði gert án tilvistar mannvirkisins. Um enga tengingu við fráveitu sé að ræða. Þá kveður kærandi að ekki sé fyrirhugað að koma slíkri tengingu á, þar sem gert sé ráð fyrir að rífa mannvirkið. Vegna tilvísunar kærða til athugasemda með 14. gr. frumvarps að lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna gerir kærandi í athugasemdum sínum að umtalsefni hver geti verið merking orðsins ?hjallur?. Kveður kærandi að tilvísuð athugasemd með lagafrumvarpinu taki til allra húsa sem séu án tengingar við vatnsveitur og að þar séu ?hjallar? aðeins nefndir sem dæmi um slík hús. Segir kærandi að væntanlega sé þakflötur með rennum og niðurfallsrörum á flestum ?hjöllum?, hvort sem þau rör séu tengd fráveitu eða ekki. V. Málsástæður og rök kærða Í greinargerð kærða segir að samkvæmt 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna sé heimilt að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar séu eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags. Þá er vísað til athugasemda með 14. gr. frumvarps þess sem varð að gildandi lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, þar sem segir að ekki sé gert ráð fyrir að hús þar sem engu vatni sé veitt inn og ekkert frárennsli sé frá, svo sem hjallar sem svo um hátti, greiði fráveitugjald. Kveðst kærði telja að fasteign sú sem mál þetta varðar falli ekki undir að vera ?hjallur?, þar sem í fasteignaskrá segi að um sé að ræða vörugeymslu, byggða úr timbri. Þá kveðst kærði telja að allar líkur séu á að vatni sé veitt af þaki hússins um rennur í fráveitukerfið, eins og venja sé til og að umrætt hús nýti því fráveitu og tengist henni. VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar Í máli þessu er deilt um álagningu fráveitugjalds á 486,0 fermetra húseign við Hringbraut í Reykjavík. Húseignin mun vera vörugeymsla eða skemma og er ekki tengd vatni, hvorki köldu né heitu. Í 1. mgr. 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009 er kveðið á um fráveitugjald og þar segir að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar séu eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags. Í frumvarpi til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, sem lagt var fram á 136. löggjafarþingi Alþingis, var lagt til að 1. mgr. 14. gr. laganna heimilaði að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar væru eða gætu tengst fráveitu sveitarfélags. Í athugasemdum við þetta ákvæði sagði jafnframt í frumvarpinu að ekki væri gert ráð fyrir að hús, þar sem engu vatni væri veitt inn og ekkert frárennsli væri frá, greiddi fráveitugjald og eru hjallar nefndir þar í dæmaskyni. Í nefndaráliti umhverfisnefndar um frumvarp til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna segir að fram hafi komið ábending um að orðalag 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins væri of víðtækt með því að heimila innheimtu fráveitugjalds af fasteignum sem gætu tengst fráveitu. Tók nefndin undir ábendinguna og lagði til þá orðalagsbreytingu að heimildin næði til fasteigna sem væru tengdar eða myndu tengjast fráveitu. Voru lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna samþykkt með því orðalagi. Í framangreindu nefndaráliti segir jafnframt að ákvæðum frumvarps til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna um gjaldtöku sé ætlað að tryggja að gjaldheimta sé í samræmi við þá þjónustu sem veitt sé. Í 10. gr. reglugerðar um fráveitur sveitarfélaga nr. 982/2010, sem sett var með stoð í 21. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, er kveðið á um fráveitugjald. Þar segir í 1. mgr. að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum, þ.m.t. óbyggðum lóðum sem tengdar séu, muni tengjast fráveitu sveitarfélags eða njóti þjónustu hennar. Frárennsli er skilgreint í 1. tölulið 3. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna sem ?Rennsli frá mannvirkjum, götum, lóðum, gönguleiðum eða opnum svæðum, svo sem ofanvatn og/eða skólp og vatn frá upphitunarkerfum mannvirkja sem veitt er í fráveitur.? Kærandi heldur því fram að húseign hans sé ekki tengd fráveitu Reykjavíkurborgar og muni ekki tengjast fráveitu borgarinnar. Af hálfu kærða hafa ekki verið lögð fram gögn sem staðfesta að umrædd húseign sé tengd fráveitu eða nýti hana. Fullyrðingum kæranda um að húseign hans sé ekki tengd vatnslögn hefur ekki verið mótmælt af hálfu kærða. Þá hefur kærði ekki sýnt fram á að húseignin sé tengd fráveitu og að rennsli frá henni vegna t.d. ofanvants sé veitt í fráveitu. Með vísan til orðalags 1. mgr. 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna og þeirra breytinga sem gerðar voru á orðalagi þess frá því sem lagt var til í upphaflegu frumvarpi að lögunum, sbr. það sem að framan er rakið, telur úrskurðarnefndin að til þess að heimild til álagningar fráveitugjalds eigi við verði að vera verulegar líkur á að viðkomandi fasteign tengist eða muni tengjast fráveitu viðkomandi sveitarfélags. Ekki hefur verið sýnt fram á það í máli þessu að umrædd húseign sé tengd eða muni tengjast fráveitu Reykjavíkurborgar, heldur má þvert á móti ætla að um sé að ræða húseign, sem engu vatni sé veitt inn og ekkert frárennsli sé frá. Því telur úrskurðarnefndin að fallast verði á kröfu kæranda og gera kærða að fella niður álagningu fráveitugjalds á 486,0 fermetra vörugeymslu/skemmu kæranda sem stendur við Hringbraut í Reykjavík. Úrskurðarorð: Felld er niður álagning Orkuveitu Reykjavíkur á fráveitugjaldi á 486,0 fermetra vörugeymslu/skemmu í eigu K. Steindórssonar sf. við Hringbraut í Reykjavík, fastanúmer 200-2302. Steinunn Guðbjartsdóttir Gunnar Eydal Arndís Soffía Sigurðardóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta