8/2011
Mál nr. 8/2011. Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998. Ár 2011, fimmtudaginn 23. júní, kom úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir. Fyrir var tekið mál nr. 8/2011 Margrét Ósk Tómasdóttir gegn Akraneskaupstað. Í málinu er kveðinn upp svofelldur úrskurður: I. Aðild kærumáls og kröfur Með stjórnsýslukæru, dags. 19. apríl 2011 kærði Auður Björg Jónsdóttir, hdl., f.h. Margrétar Óskar Tómasdóttur (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Akraneskaupstaðar (hér eftir nefndur kærði) frá 17. nóvember 2010 um afturköllun þriggja leyfa hennar til hundahalds í kaupstaðnum. Krefst kærandi þess að vikið verði frá kærufresti í málinu og að hin kærða ákvörðun verði felld niður. Kærði krefst frávísunar málsins á þeirri forsendu að kærufrestur sé liðinn en að öðrum kosti verði hin kærða ákvörðun staðfest. II. Málmeðferð Kæra málsins er dagsett 19. apríl 2011 og byggir hún á kæruheimild í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 28. apríl 2011 og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum í greinargerð, dags. 10. maí 2011. Úrskurðarnefndin kynnti kæranda greinargerð kærða og gaf henni kost á að koma á framfæri frekari athugasemdum af sinni hálfu. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi lögmanns hennar, dags. 27. maí 2011. Þá leitaði úrskurðarnefndin upplýsinga frá Íslandspósti hf. vegna afhendingar ábyrgðarbréfs og fékk senda útprentun um feril þess. III. Málsatvik Samkvæmt gögnum málsins var kæranda veitt leyfi til hundahalds í Akraneskaupstað nr. 233, 234 og 235 þann 9. september 2009. Ári síðar eða þann 9. september 2010 sendi heilbrigðiseftirlit Vesturlands kæranda bréf vegna kvörtunar sem borist hafði vegna hunda hennar. Þann 28. september 2010 sendi heilbrigðiseftirlitið bréf til kærða þar sem lagt var til að leyfi kæranda til hundahalds yrðu afturkölluð vegna brota á samþykkt kaupstaðarins um hundahald. Þann 30. september 2010 sendi kærði kæranda bréf þar sem henni var gerð grein fyrir að fyrirhugað væri að afturkalla leyfi hennar til hundahalds. Kærandi lagði fram andmæli vegna fyrirhugaðrar sviptingar leyfa til hundahalds. Andmæli hennar eru ódags., en stimpluð móttekin hjá kærða þann 11. október 2010. Með bréfi, dags. 17. nóvember 2010, gerði kærði kæranda grein fyrir að leyfi hennar til hundahalds á Akranesi væru afturkölluð frá og með 25. nóvember 2010. IV. Málstæður og rök kærenda Í kæru er því haldið fram að kæranda hafa verið ókunnugt um ákvörðun kærða um afturköllun leyfa til hundahalds í Akraneskaupstað þar til í mars 2011 og óskar kærandi þess að vikið verði frá kærufresti. Í rökstuðningi kæranda segir að hún hafi leitað til lögmanns eftir að þriggja mánaða kærufrestur hafi verið liðinn, en á þeim tímapunkti hafi henni ekki verið kunnugt um að hundaleyfin hafi þá þegar verið afturkölluð. Þá segir að kærandi hafi í tvígang fengið bréf frá heilbrigðiseftirliti Vesturlands þar sem fram hafi komið krafa heilbrigðiseftirlitsins um afturköllun hundaleyfa hennar og bréf frá kærða vegna málsins. Kærandi hafi falið lögmanni sínum að svara bréfi kærða, það hafi lögmaðurinn gert og þá hafi komið í ljós að leyfi kæranda til hundahalds hafi verið afturkallað með bréf, dags. 17. nóvember 2010. Fram kemur að kærandi velti fyrir sér hvort bréf kærða um afturköllun hundaleyfa hafi verið sent henni og að hún telji ljóst að þar sem bréfið hafi aldrei borist henni skuli kærufrestur ekki byrja að líða fyrr en 17. mars 2011 þegar kærði dagsetti bréf til lögmanns hennar þar sem fram kom að leyfið hefði verið afturkallað. Í athugasemdum við greingerð kærða er ítrekað af hálfu kæranda að hún kannist ekki við að hafa móttekið bréf kærða frá 17. nóvember 2010. Þá bendir kærandi á að kvittun fyrir móttöku ábyrgðarbréfs, sem kærði lagði fram í málinu, sé stimpill um ítrekun, dags. 25. nóvember 2009. Kærandi vísar enn fremur til 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og kveður að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Kveður kærandi að í því sambandi verði að hafa í huga að tilgangur þriggja mánaða kærufrests sé að stuðla að því að stjórnsýslumál verði til lykta leidd svo fljótt sem auðið sé. Tilgangurinn sé ekki að koma í veg fyrir að borgarar njóti réttar síns til að fá ákvörðun endurskoðaða hjá æðra stjórnvaldi. Líta verði til þess að hin kærða ákvörðun varði kæranda eina og þannig hafi meðferð kærunnar ekki áhrif á neinn annan borgara, sem leiði til þess að ekki megi túlka skilyrði 28. gr. stjórnsýslulaga þröngt. Um sé að ræða afar veigamikið mál fyrir kæranda, sem skipti hana mjög miklu máli enda varði málið hvort hún geti haldið hunda á heimili sínu. V. Málsástæður og rök kærða Í greinargerð kærða er rakin forsaga þess að leyfi kærandi til hundahalds hafi verið afturkallað. Þar segir m.a. að kærandi hafi þann 9. september 2009 fengið þau þrjú leyfi til hundahalds sem málið varðar. Vegna kvartana um hávaða frá hundum kæranda o.fl. hafi heilbrigðiseftirlit Vesturlands sent kæranda bréf þann 9. september 2010. Í því bréfi hafi m.a. komið fram að yrði um frekari brot að ræða á samþykkt um hundahald á Akranesi og ekki farið að tilmælum heilbrigðiseftirlitsins myndi verða farið fram á það við kærða að leyfi kæranda til hundahalds yrðu afturkölluð. Athugasemdir hafi borist frá kæranda 11. október 2010, sem ekki hafi breytt afstöðu heilbrigðiseftirlitsins og það farið þess á leit við kærða að leyfi kæranda til hundahalds yrðu afturkölluð. Kærði kveðst í greinargerðinni hafa tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 17. nóvember 2010, að leyfi hennar til hundahalds á Akranesi, þ.e. leyfi nr. 233, 234 og 235, hafi verið afturkölluð frá og með 25. nóvember 2010. Þá segir að í bréfinu hafi kæranda verið gerð grein fyrir því að hún gæti freistað þess að fá ákvörðunina endurskoðaða með því að bera hana undir framkvæmdaráð kærða og einnig hafi henni verið leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, svo og kærufrest í því sambandi. Í tilefni þess að kærandi heldur því fram að bréf kærða til hennar, þar sem tilkynnt var um afturköllun leyfa til hundahalds, hafi aldrei borist kæranda segir í greinargerðinni að samkvæmt útskrift frá Íslandspósti hf. hafi umrætt bréf verið afhent 25. nóvember 2010 og sé ljósrit af útskriftinni meðal fylgigagna greinargerðarinnar. Kveðst kærði telja að leggja verði til grundvallar að umrædd ákvörðun hans um afturköllun leyfa til hundahalds hafi verið birt kæranda með fullnægjandi hætti þann 25. nóvember 2005 [innskot; á líklega að vera 2010]. Kveður kærði að því sé kæra til úrskurðarnefndarinnar of seint fram komin og kveðst telja að úrskurðarnefndinni beri að vísa kærunni frá. VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar Ákvæði 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefur að geyma almenna reglu um kærufrest, sem á við um kærur til úrskurðarnefndar samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Þar er kveðið á um að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun. Í 28. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um hvernig fara skuli með kæru sem berst að liðnum kærufresti. Þar segir: ?Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema: 1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða 2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar. Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.? Í máli því sem hér er til úrlausnar snýr kæruefnið að ákvörðun kærða sem tekin var í nóvember 2010. Kærði kveðst hafa kynnt kæranda ákvörðunina með bréfi, dags. 17. nóvember 2010. Meðal gagna málsins er afrit af óundirrituðu bréfi kærða til kæranda, dags. 17. nóvember 2010, þar sem segir m.a. að leyfi kæranda til hundahalds á Akranesi nr. 233, 234 og 235 séu afturkölluð frá og með 25. nóvember 2010. Þá er í bréfinu leiðbeint um kæruheimild og kærufrest. Einnig hefur verið lagt fram afrit af kvittun fyrir afhendingu ábyrgðarbréfs. Ber kvittunin með sér að kærði hafi sent kæranda ábyrgðarbréf í nóvember 2010, sem hún hafi kvittað fyrir móttöku á. Á framangreindri kvittun stendur m.a.: ?Ítrekun um póstsendingu Komud./Prentd. 18.11.10 / 25.11.10 Endursendist 18.12.10? Þá er á kvittuninni stimpill þar sem stendur: ?Íslandspóstur hf. 25. NÓV 2009 ÍTREKAÐ? Vegna misræmis ártala á umræddri kvittun leitaði úrskurðarnefndin upplýsinga frá Íslandspósti hf. og fékk senda skráningu á ferli ábyrgðarbréfsins, sem hin framlagða kvittun varðar. Samkvæmt ferilsskráningu póstlagði kærði þann 17. nóvember 2010 ábyrgðarbréf til kæranda, þ.e. sama dag og bréf um afturköllun hundaleyfa er dagsett. Þann 18. nóvember 2010 fór ábyrgðarbréfið á aksturslista frá pósthúsi og þann 19. nóvember 2010 var skilin eftir tilkynning um bréfið, sem ítrekuð var 25. nóvember 2010. Þann 26. nóvember 2010 var bréfið afhent og samkvæmt framlagðri kvittun kvittaði kærandi fyrir móttöku þess. Með vísan til framangreindra gagna og upplýsinga telur úrskurðarnefndin að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi borist ákvörðun kærða um afturköllun leyfa til hundahalds í Akraneskaupstað þann 26. nóvember 2010. Þar með er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærufrestur vegna hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið þrír mánuðir frá 26. nóvember 2010 að telja og því staðið til 26. febrúar 2011. Kæra málsins barst úrskurðarnefndinni þann 28. apríl 2011 eða u.þ.b. tveimur mánuðum eftir að kærufresti lauk og heldur kærandi því fram að henni hafi verið ókunnugt um ákvörðun kærða þar til í mars 2011. Hafi henni borist vitneskja um ákvörðunina í kjölfar þess að lögmaður hennar sendi bréf, dags. 10. mars 2011, til kærða vegna málsins, en því bréfi hafi kærði svarað með bréfi, dags. 17. mars 2011, og gert þá m.a. grein fyrir að leyfi kæranda til hundahalds hefðu verið afturkölluð í nóvember 2010. Með vísan til þess sem að framan er rakið getur úrskurðarnefndin ekki fallist á þennan málatilbúnað kæranda og telur ótvírætt að tilkynning um afturköllun hundaleyfa hafi borist henni þann 26. nóvember 2010. Þá telur nefndin ekkert hafa komið fram í málinu sem bendi til þess að undantekningarákvæði 1. og 2. tö1uliðar 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga eigi við í tilviki kæranda. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir að vísa skuli kæru málsins frá nefndinni. Úrskurðarorð: Vísað er frá úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir kæru Margrétar Óskar Tómasdóttur, sem varðar ákvörðun Akraneskaupstaðar um að afturkalla leyfi er henni höfðu verið veitt til hundahalds í kaupstaðnum nr. 233, 234 og 235. Steinunn Guðbjartsdóttir Gunnar Eydal Arndís Soffía Sigurðardóttir