Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir

11/2011

Mál nr. 11/2011. Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998. Ár 2011, föstudaginn 9. september, kom úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir. Fyrir var tekið mál nr. 11/2011 Helga Nína Heimisdóttir, Baldursgötu 24, Reykjavík gegn heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Í málinu er kveðinn upp svofelldur úrskurður: I. Aðild kærumáls og kröfur Með stjórnsýslukæru, dags. 25. maí 2011, kærði Helga Nína Heimisdóttir (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur (hér eftir nefnt kærði) um að takmarka starfsleyfi fyrir daggæslu barna í heimahúsi, sem starfrækt er að Baldursgötu 24, við 6 börn. Krefst kærandi þess að veitt verði starfsleyfi fyrir daggæslu í viðkomandi húsnæði fyrir 8 börn. Kærði krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest. II. Málmeðferð Kæra málsins er dags. 25. maí 2011 og byggir hún á kæruheimild í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 27. maí 2011 og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Greinargerð kærða, dags. 10. júní 2011, barst úrskurðarnefndinni þann 16. júní 2011 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 20. júní 2011. Úrskurðarnefndinni bárust athugasemdir, dags. 3. júlí 2011, frá kæranda og voru þær kynntar kærða með bréfi, dags. 6. júlí 2011. Þann 21. júlí 2011 bárust úrskurðarnefndinni viðbótarathugasemdir frá kærða. Frekari gögn hafa ekki borist vegna málsins. III. Málsatvik Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um starfsleyfi til kærða fyrir tvo dagforeldra til daggæslu allt að 10 barna í húsnæði að Baldursgötu 24, Reykjavík, en áður hafði henni verið veitt starfsleyfi fyrir daggæslu 5 barna. Með bréfi kærða til kæranda, dags. 28. febrúar 2011, var kæranda kynnt að kærði gæti gefið út starfsleyfi til kæranda sem takmarkaðist við að fjöldi barna yrði 6. Í bréfinu er vísað til 2. mgr. 40. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2000 og tekið fram að við eftirlit heilbrigðisfulltrúa hafi komið í ljós að leikrými í húsnæði kæranda mældist að hámarki vera 20 fermetrar og að sérstök hvíldaraðstaða í íbúðarherbergjum væri ekki til staðar. Segir þar jafnframt að að sögn kæranda sofi börnin í vögnum á lóð og skýli. Þá segir í bréfinu að niðurstaða kærða sé að húsnæði það sem kærandi ætli fyrir starfsemina uppfylli ekki kröfur framangreinds reglugerðarákvæðis varðandi leikrými fyrir 10 börn, heldur sé í húsnæðinu einungis leikrými fyrir 6 börn og því geti kærði einungis gefið út starfsleyfi með takmörkun á fjölda barna við 6 börn. IV. Málstæður og rök kæranda Í kæru til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að í kjölfar hinnar kærðu ákvörðunar hafi kærandi kynnt sér aðstöðu að Freyjukoti á Freyjugötu sem sé í eigu borgaryfirvalda en hafi verið leigt út til tveggja dagforeldra með 10 börn. Hafi kærandi gert samanburð á teikningum, sem samþykktar hafi verið af byggingarnefnd annars vegar vegna Freyjukots og hins vegar vegna Baldursgötu 24. Samkvæmt teikningunum sé heildarflatarmál neðri hæðar að Baldursgötu 24, þar sem daggæslan fari fram, 40,64 fermetrar þar af séu forstofa og baðherbergi 4 fermetrar, en leiksvæði 27 fermetrar. Hvíldaraðstaða sé í rými sem merkt sé stofa á teikningunum auk þess sem börn sofi í barnavögnum á lóð og í skýli. Heildarflatarmál Freyjukots sé hins vegar 42,77 fermetrar, þ.e. 2,13 fermetrum stærra en flatarmál Baldursgötu 24. Þar sé flatarmál forstofu og baðherbergis 19 fermetrar en flatarmál leikrýmis 23 fermetrar. Síðan segir að hvíldaraðstaða á Freyjukoti sé sambærileg því sem sé á Baldursgötu 24. Kveðst kærandi vera ósátt við hina kærðu ákvörðun og heldur því fram að aðbúnaður á Baldursgötu 24 sé töluvert betri en í Freyjukoti. Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða kemur fram að krafa hennar er að gefið verði út leyfi fyrir daggæslu á Baldursgötu 24 fyrir 8 börn. Þar segir að kærandi hafi mælt leikrýmið upp í samráði við tækniteiknara og borið saman við löggiltar teikningar frá byggingarnefnd. Samkvæmt því hafi leikrýmið reynst vera 27 fermetrar. Síðan segir að þau viðmið sem kærði fari eftir þegar tveir dagforeldrar starfi saman virðist taka að mestu leyti mið að leikskólum, nema þegar komi að rýmismælingum þá sé leiksvæði dagforeldra ætlað að vera að lágmarki 3 fermetrar en leiksvæði leikskóla að lágmarki 2,1 fermetri. Meðfylgjandi athugasemdum kæranda voru teikningar, samþykktar af byggingarfulltrúa, vegna Barónsborgar, Njálsgötu 70. Kveður kærandi að á teikningunum séu merkt þrjú leiksvæði eitt 28,7 fermetrar sem ætlað sé 12 börnum, annað 25,5 fermetrar sem ætlað sé 12 börnum og það þriðja 25,1 fermetri sem ætlað sé 10 börnum. Í athugasemdunum bendir kærandi á að þrátt fyrir mikla leit og upplýsingaöflun hafi henni ekki tekist að finna út nánari skýringu á því hvað felist í hugtakinu fullnægjandi íbúðarherbergi, engu að síður telji hún leikrými á Baldursgötu 24 vera í fullnægjandi íbúðarherbergjum. Þá tekur kærandi auk þess fram að úrbætur hafi verið gerðar á skiptiaðstöðu hjá henni. V. Málsástæður og rök kærða Í greinargerð kærða kemur fram að í tilefni umsóknar kæranda um starfsleyfi fyrir daggæslu allt að 10 barna að Baldursgötu 24 hafi heilbrigðisfulltrúar frá kærða farið í úttekt á húsnæðinu og m.a. mælt væntanlegt leiksvæði barna auk þess sem húsnæðið hafi verið skoðað með tilliti til hollustuhátta og öryggisatriða. Við skoðun þeirra hafi komið í ljós að leiksvæði reyndist vera að hámarki 20 fermetrar. Leikrými í stofu hafi mælst vera 16,1 fermetri, en eldhús og hol sé sameiginlegt og nýtist því aðeins að hluta sem leiksvæði. Þá er í greinargerðinni vísað í ákvæði 2. mgr. 40. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2000 og tekið fram að á grundvelli þess og framangreindra mælinga hafi kærði metið leiksvæði barna að Baldursgötu 24 einungis duga fyrir 6 börn. Vegna samanburðar kæranda á Baldursgötu 24 og Freyjukoti segir í greinargerðinni að húsnæðið á Freyjugötu 19 sé 43 fermetrar, það hafi upphaflega verið hannað sem leiksvæði barna og nýtist því allt fyrir daggæslustarfsemina. Innra skipulag þar sé þannig að það nýtist betur sem leiksvæði samanborið við húsnæðið að Baldursgötu 24, leikrými og gangur sé rúmlega 29 fermetrar, auk þess sem gott leiksvæði sé fyrir utan húsið. Síðan segir að húsnæðið sem nýta eigi undir starfssemina að Baldursgötu 24 sé minna og sé innra skipulag þar þannig að rými sem nýtist sem leiksvæði sé mun minna en á Freyjugötu 19. Þá fari hluti húsnæðisins undir annað, t.d. stiga upp á aðra hæð. Í greinargerðinni er jafnframt bent á að við mat á húsnæði fyrir daggæslu barna sé öruggi og heilnæmi barnanna í fyrirrúmi og að tekið hafi verið tillit til þess í hinni kærðu ákvörðun, auk þess sem athygli var vakin á samræmdum starfsleyfisskilyrðum fyrir dagvistun 6-10 barna í heimahúsum. VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar Með stoð í 34. gr. laga um félagslega þjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, hefur verið sett reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum nr. 907/2005. Þar segir í 7. gr. að starfsemi dagforeldra sé háð leyfisveitingu félagsmálanefndar um þau atriði sem falli undir reglugerðina og starfsleyfi heilbrigðisnefndar sveitarfélags í samræmi við reglugerð um hollustuhætti, nr. 941/2002, sé um að ræða daggæslu með sex börn eða fleiri. Ákvæði 13. gr. reglugerðar um daggæslu barna í heimahúsum varðar skilyrði leyfisveitingar og þar segir í 6. tölulið 1. mgr. varðandi húsakynni: ?Húsakynnin skulu uppfylla ákvæði reglugerðar um hollustuhætti, nr. 941/2002. Leiksvæði fyrir hvert barn innandyra skal að lágmarki vera 3 fm á gólffleti fyrir hvert barn. Bæði leikrými og hvíldaraðstaða skal vera í fullnægjandi íbúðarherbergjum. Baðherbergi, eldhús og svefnaðstaða heimilisfólks telst ekki til leikrýmis barna. Heimilt er að leita umsagnar heilbrigðisnefndar, hvað húsnæði varðar, ef ástæða þykir til. Sé um að ræða daggæslu með sex börn eða fleiri þarf að liggja fyrir starfsleyfi heilbrigðisnefndar sveitarfélags í samræmi við reglugerð um hollustuhætti, nr. 941/2002.? Í 4. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, segir að til þess að stuðla að framkvæmd hollustuverndar setji ráðherra í reglugerð almenn ákvæði um atriði sem þar eru talin upp í 23 töluliðum. Á grundvelli 13. töluliðar 4. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir hefur verið sett reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002, sem tekur m.a. til daggæslu í heimahúsum. Ákvæði 40. gr. reglugerðar um hollustuhætti varðar húsakynni daggæslu í heimahúsum. Þar segir: ?Eldhús skal búið fullnægjandi innréttingu og tækjum. Lágmarkstæki eru eldavél, kæliskápur og uppþvottavaskur. Leiksvæði fyrir hvert barn innandyra skal vera a.m.k. 3 m² að gólffleti á hvert barn. Leiksvæði og hvíldaraðstaða skal vera í fullnægjandi íbúðarherbergum. Um leikvallatæki, leikföng og lóð gilda ákvæði 35. gr., eftir því sem við á. Ákvæði 5. mgr. 14. gr. um aðskilnað á ekki við um starfsemi daggæslu í heimahúsum nema hvað svefnaðstaða heimilisfólks telst ekki til leikrýmis barna.? Samkvæmt framlagðri teikningu af Baldursgötu 24 mun heildarflatarmál af húsnæði því sem kærandi hefur til daggæslu í heimahúsi vera 40,6 fermetrar. Flatarmál einstakra rýma húsnæðisins er tilgreint þannig að forstofa sé 2 fermetrar, baðherbergi 3,1 fermetri, eldhús og hol sem eru í sama rými 12 fermetrar og stofa 17,8 fermetrar, eða samtals 34,9 fermetrar. Samkvæmt framangreindu ákvæði 6. töluliðs 1. mgr. 13. gr. reglugerðar um daggæslu barna í heimahúsum telst baðherbergi og eldhús ekki til leikrýmis barna. Leiksvæði barna í húsnæði kæranda að Baldursgötu 24 getur því verið rýmið sem merkt er á framlagðri teikningu sem stofa og sá hluti rýmisins sem merkt er eldhús/hol og sem ætla má að sé hol. Ætla verður samkvæmt framlagðri teikningu að verulegur hluti þess rýmis sem merktur er eldhús/hol nýtist sem eldhús, auk þess þess sem hluti þessa rýmis fer í stiga sem liggur upp á næstu hæð hússins og nýtist því ekki sem leiksvæði. Þá verður að ætla að tveggja fermetra anddyri nýtist ekki sem leiksvæði. Á grundvelli framlagðrar teikningar telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið farið of varlegt af hálfu kærða að meta í eftirlisferð að leikrými umrædds húsnæðis að Baldursgötu 24 væri að hámarki 20 fermetrar. Með vísan til framangreindrar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar, að rétt hafi verið af hálfu kærða að ákveða að leikrými fyrir börn í daggæslu að Baldursgötu 24 væri 20 fermetrar, staðfestir úrskurðarnefndin þá ákvörðun kærða að takmarka starfsleyfi til daggæslu barna í húsnæðinu við 6 börn. Úrskurðarnefndin vill taka fram að þó jafnræðis skuli gætt við útgáfu starfsleyfa þá getur það ekki veitt kæranda rýmri rétt en veittur er í laga- og reglugerðarákvæðum þó öðrum aðila kunni að hafa verið veitt starfsleyfi án þess að uppfyllt væru skilyrði laga- og reglugerðarákvæða. Því telur úrskurðarnefndin ekki tilefni fyrir nefndina til að bera saman teikningar af húsnæði kæranda og öðru húsnæði ætluðu til daggæslu barna. Komi hins vegar fram kæra þess efnis að aðila hafi verið veitt leyfi til daggæslu fyrir of stóran barnahóp yrði það tekið til sjálfstæðrar uppfjöllunar hjá úrskurðarnefndinni. Úrskurðarorð: Staðfest er ákvörðun heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um að takmarka starfsleyfi til daggsælu barna að Baldursgötu 24, Reykjavík, við 6 börn. Steinunn Guðbjartsdóttir Gunnar Eydal Arndís Soffía Sigurðardóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta