3/2005
Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.
Ár 2005, miðvikudaginn 27. apríl, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík. Mætt voru Guðrún Helga Brynleifsdóttir Gunnar Eydal og Lára G. Hansdóttir.
Fyrir var tekið mál nr. 3/2005 Karató ehf. gegn Heilbrigðiseftirliti Suðurlands.
Í málinu er kveðinn upp svofelldur
úrskurður
I.
Stjórnsýslukæra Karató ehf. vegna Hallarinnar, hér eftir nefndur kærandi er dagsett 6. febrúar 2005. Kærð er ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands um takmörkun á starfsemi Hallarinnar við opnunartíma til kl 01.00 alla daga frá og með 17. janúar s.l. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands er hér eftir nefnt kærði. Gögn sem kærunni fylgdu eru :
1) Afrit af bréfi kærða dags. 7. desember 2004 um niðurstöðu mælinga og þvingunaraðgerðir.
2) Afrit af bréfi kærða dags. 5. janúar, 2005, svar kærða við tölvupósti kæranda dags. 29. desember 2004.
Afrit af gögnum kæranda var sent kærða sem svaraði með bréfi dags. 3. mars, 2005 og greinargerð ásamt eftirfarandi fylgiskjölum :
1) Afrit af starfsleyfi til handa Höllinni- Karató útg. 27. júní, 2001.
2) Afrit af starfsleyfi til handa Höllinni-Karató útg. 26. apríl, 2002.
3) Afstöðumynd hússins ásamt brunavarnaruppdrætti, grunnmynd 2. hæðar.
4) Afrit af greinargerð kærða v. hávaðamála, dags. 18. nóvember, 2002.
5) Afrit bréf ásamt mæliskýrslum frá Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur v. Hallarinnar.
6) Afrit af bréfi kærða til kæranda v. hávaðamælinga dags. 29. apríl, 2002.
7) Afrit af bréfi kærða dags. 24. maí 2002.
8) Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 17. október 2002 ásamt bréfi kærða til kæranda dags. 8. janúar, 2003 og bréfi kæranda dags. 14. janúar, 2003 og 27. janúar 2003.
9) Afrit af fundargerð fundar heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 5. febrúar 2003.
10) Afrit af bréfi til kærða dags. 5. maí, 2003, v. hávaðamælinga við Höllina.
11) Afrit af bréfi kæranda til kærða dags. 6. maí, 2003.
12) Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 27. maí, 2003 vegna hávaðavarna Hallarinnar.
13) Bréf kærða til kæranda dags. 1. júlí 2003.
14) Afrit af bréfi Höskuldar Kárasonar dags. 12. júlí 2003 til kærða hávaðamæling.
15) Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 29. september, 2003.
16) Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 22. október, 2003 ásamt afriti af bréfi vegna hávaðamælingar, afriti af bréfi kæranda til kærða dags. 1. október, 2003 og afrit af svarbréfi kærða til kæranda dags. 7. október, 2003.
17) Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 20.nóvember, 2003, tilkynning um ákvörðun.
18) Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 23. febrúar, 2004 v. hávaðavarna Hallarinnar.
19) Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 2. mars, 2004 v. hávaðavarna ásamt niðurstöðu hávaðamælinga 29. febrúar, 2004 og afriti af tölvupósti kæranda.
20) Afrit af bréfi Höskuldar Kárasonar dags. 10. apríl, 2004 með niðurstöðum hávaðamælinga.
21) Afrit af bréfi kærða dags. 13. apríl 2004 og afrit af bréfi kæranda til kærða dags. 23. apríl 2004.
22) Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 17. ágúst 2004, afrit af bréfi kæranda til kærða ódags. svo og afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 23. júlí 2004, bókun heilbrigðisnefndar Suðurlands.
23) Afrit af bréfi Höskuldar Kárasonar dags. 28. nóvember 2004, hávaðamæling.
24) Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 7. desember, 2004, afrit af bréfi Höskuldar Kárasonar dags. 28. nóvember 2004, hávaðamæling og afrit af bréfi kæranda til kærða dags. 10. desember 2004.
25) Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 15. desember 2004, tilkynning um þvingunaraðgerðir.
Afrit af gögnum kærða var sent kæranda sem svaraði með athugasemdum dags.
17. mars, 2005.
II.
Kæranda kærir ákvörðun kærða um þvingunaraðgerðir, sem komu til framkvæmda 17. janúar s.l. Þvingunaraðgerðirnar fólust í því að skerða opnunartíma Hallarinnar, skemmtistaðar kæranda við kl. 01:00 hverja nótt vegna hávaða. Kærandi vísar til þess að allt frá fyrstu skóflustungu hafi tveir nágrannar hússins kært starfsemi hússins vegna hljóðmengunar og matarlyktar. Gerir kærandi grein fyrir því að húsið sé 1200 fermetrar að grunnfleti og skiptist m.a. í tæplega 700 fermetra aðalsal og 200 fermetra koníaksstofu. Húsið hafi verið opnað í maí árið 2000 og hafi hýst helstu menningaratburði í Vestmannaeyjum síðan. Á síðasta ári hafi verið alls 16 dansleikir og af þeim u.þ.b. 5 sem flokkist undir hávaðasamar hlómsveitir. Dansleikjafjöldi þessi þyki mjög lítill á landsvísu þar sem flest hús séu með milli 4-8 dansleiki á mánuði. Kærandi kveðst ávallt hafa reynt að vinna að öllum þeim úrbótum sem heilbrigðisnefnd Suðurlands hafi óskað eftir. Vísar kærandi til þess að talið hafi verið að hljóðleki hafi mestur verið út um mænisglugga sem um leið sé reyklosun og hafi verið sett sérpöntuð postulínshúð sem máluð hafi verið á glerið og talið hafi verið að myndi lækka hljóðið út þaðan um 40%. Síðar hafi verið ráðist í ennþá stærri og fjárfrekari framkvæmd. Hafi geymsluherbergi verið smíðað á austurvegg hússins sem nýtist sem geymsla fyrir hljóðfæri, stativ og snúrur. Hafi veggir verið einangraðir með 4 tommu steinull og gipsklæddir til betri einangrunar. Þá hafi stórt fundarherbergi verið smíðað í norð-austurhorni hússins við hliðina á sviði. Sama einangrun og tvöföld gipsklæðning hafi verið notuð. Herbergið skermi af 4 stór gluggabil sem snúi að Fjólugötu 27. Að auki hafi verið keyptur svokallaður hljóðvaki og settur á kerfi hússins. Hljóðvakinn hafi verið settur upp og stilltur af viðurkenndum hljóðmanni. Aðgerðir þessar hafi allar skilað miklum árangri að mati kæranda og hafi verið nokkur friður fyrst á eftir. Hljóðvakinn hafi svo bilað s.l. haust og þá hafi kvartanir hafist aftur frá nágrönnum. Hljóðvaki hafi þá verið lagfærður og endurstilltur. Heilbrigðisnefnd Suðurlands hafi svo látið hljóðmæla hinn 28. nóvember s.l. og í kjölfar þeirra mælinga hafi verið send tilkynning um þvingunaraðgerðir 17. janúar s.l. Getur kærandi þess sérstaklega að stórhljómsveitin Sálin hans Jóns míns hafi spilað þetta kvöld. Kærandi mótmælir fyrrgreindum mælingum, þó svo hann kveðist vita að meira heyrist frá stórhljómsveit eins og þeirri sem tilgreind er sem sé með mikinn sviðsbúnað og keyri músíkina þéttar en flestar hljómsveitir. Kærandi kveður að þessa nótt hafi mikil umferð verið í bænum og veður ekki gott, mikil umhverfishljóð hafi því verið og ekki unnt að staðsetja meðalstyrk. Kærandi kveður að vindhraði megi ekki vera skv. staðli yfir 5 m á sek. annars fari hávaði frá vindinum að hafa áhrif til hækkunar á mælinguna. Blautar götur og aðrir fletir endurkasti meira hljóði en þurrar þannig að hávaði mælist meiri en við staðalaðstæður. Þá kveður kærandi að vindur geti valdið truflun á mælingu innandyra, aðallega þegar mæld séu lágtíðnihljóð. Sé hávaði frá vindi sem skelli á rúðum og húsi umtalsverður sé ekki hægt að framkvæma mælingar innandyra. Meðan hljóðmælingar hafi verið gerðar hafi verið mikil bílaumferð í næsta nágrenni og alla leið niður við kirkju og hafi sá umferðarhávaði farið mjög hátt upp. Kveðst kærandi af þessum ástæðum kæra mælingarnar og óski eftir því að þvingunaraðgerðum verði aflétt tafarlaust. Kærandi bendir á að hann hafi ásamt hljóðmanni hússins verið að skoða leiðir til lagfæringar eða lækkunar hljóðstyrks. Hafi hátalarbox sem hengd voru í keðjur neðan í þakbitana verið tekin niður og færð niður á svið. Telji kærandi að þetta skili strax árangri. Þá hafi verið haft samband við bæjarstjóra um aðstoð við frekari aðgerðir og aðkomu að málinu. Hafi bæjarstjóri tekið vel í málaleitan og sé allur af vilja gerður til að koma inn í málið með einhverjum framkvæmdum. Hafi bæjarstjóri nefnt að hljóðhönnuður sé væntanlegur í bæinn vegna íþróttahússins og muni hann koma því við að sá skoði hús kæranda í leiðinni. Þá hafi bæjartæknifræðingur lofað aðstoð í málinu og sé verið að kanna svokölluð hljóðtjöld til að klæða sviðið innan.
Í athugasemdum við greinargerð og gögn kærða minnir kærandi á að í Vestmannaeyjum sé afar vindasamt. Því hafi umhverfishljóð gífurlega mikil áhrif á mælitæki manna sem notuð séu við hljóðmælingar. Telur kærandi að ekki hafi verið vandað nægilega til hljóðmælinga við Höllina og hafi kærandi aldrei fengið svör við því á hvern máta augljós umhverfishljóð hafi verið dregin frá í mælingum. Kærandi vísar til þess að þegar starfsleyfi hafi verið veitt hafi legið fyrir umsagnir og afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar fyrir starfsemi hússins. Í byrjun árs 2002 hafi verið settur upp hljóðvaki til að hindra að hávaði færi yfir ásættanleg mörk. Hafi kerfið verið stillt fyrir 95dB og toppur á 110 dB. Nýr vaki hafi verið keyptur í apríl, 2003. Þá hafi lagfæringar verið gerðar á mænisglugga eftir endilöngu húsinu og einnig hafi verið sett upp herbergi í norðausturhluta salar til að loka af stór gluggabil næst íbúðabyggðinni austan og ofan við Höllina. Kærandi vísar enn til þess að hávaði í bifreiðum hafi hækkað mælingu um 60-80 dB. Hafi kærandi ítrekað gert athugasemdir við mælingar, en svarið hafi verið að tillit yrði tekið til þess, án þess að nokkur grein hafi verið gerð fyrir viðmiðunum.
Kærandi mótmælir greinargerð kærða. Umsögn um að Höllin sé nær ballhúsi svarar kærandi svo að slíkar fullyrðingar séu alrangar. Böll árið 2004 hafi alls verið 16. Dansleikir með vinsælustu og öflugustu hljómsveitunum séu 4-5 á ári. Mælingar hafi undantekningarlaust verið gerðar þegar stórhljómsveitir hafi verið að spila. Þá bendir kærandi á þekkingarleysi kærða varðandi lausn á hljóðdreifingu þegar kærði tali um uppsetningu á mön undir glugga til að koma í veg fyrir að hljóð komi út um mænisglugga. Kveður kærandi að slíkt sé ekki framkvæmanlegt nema að mokað sé yfir húsið. Kærandi bendir á aðkomu lögreglu að málinu vegna margvíslegra athugasemda. Þá bendir kærandi á að þegar þvingunaraðgerðir hafi verið settar hafi hann enn verið að vinna að ýmsum þáttum í úrbótum til þess að stuðla að friði um Höllina og starfsemi hennar. Einhvers staðar hljóti þó mörkin að vera. Kærandi kveðst hafa verið í Reykjavík í mars, til þess að skoða hvað unnt væri að gera. Óskað hafi verið álits á hljóðeinangrun hússins og fáist álit á næstu vikum. Ræddir hafi verið möguleikar á stillingu og uppsetningu hljóðkerfa við færan sérfræðing á því sviði og fleiri möguleikar séu til skoðunar. Þá hafi kærandi boðist til þess að kosta ísetningu á gleri í hús kvörtunarmanna, þreföldu gleri sem takmarka eigi hljómburð utan frá inn í húsin. Allt þetta sýni að kærandi hafi fullan vilja og sé enn að vinna að endurbótum. Með tilvísan til alls þessa óskar kærandi eftir því að þvingunarbanni verði nú þegar aflétt.
III.
Bréf kærða, sem greinargerð og gögn fylgdu, er dags. 3. mars, 2005. Greinir kærði frá því að fyrsta erindi sem borist hafi kærða vegna Hallarinnar veitingastaðar kæranda hafi verið 11. maí, 2000 beiðni um umsögn við teikningar frá byggingarfulltrúa. 15. júní, 2001 hafi borist umsókn um starfsleyfi frá forsvarsmönnum kæranda. Sama dag sé umsögn veitt af sýslumanni, en þar komi fram að kærði geri ekki athugasemdir við að Höllin verði nýtt sem skemmtistaður “svo framarlega sem staðið sé við þær kröfur sem gerðar hafa verið s.s. í sambandi við þrifaáætlanir, fjölda gesta og hávaðatakmarkanir.” Starfsleyfi hafi verið afgreitt 27. júní 2001 enda hafi legið fyrir afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar sveitarfélagsins á málinu. Veitt hafi verið leyfi vegna skemmtistaðar með veislu- og framleiðslueldhúsi. Leyfið hafi verið endurnýjað 26. apríl, 2002 og þá vegna skemmtistaðar, veisluþjónustu og framleiðslu tilbúinna rétta.
Kveður kærði að fljótlega eftir að starfsemi hafi hafist hafi farið að bera á kvörtunum nágranna vegna hávaða frá samkomuhaldi í Höllinni. Séu til margvísleg gögn um kvartanir yfir hávaða. Kærði kveðst hafa unnið úr kvörtunum með eftirliti hjá kærða auk þess sem settar hafi verið fram kröfur til að fyrirbyggja meint ónæði sem íbúar hafi orðið fyrir. Tekur kærði fram að einungis hafi verið gerðar alvarlegar athugasemdir er snerti hávaða frá starfseminni en aðbúnaður, umgengni oþh. hafi oftast verið í mjög góðu lagi. Deilt hafi verið um hvort húsið í heild sinni sé heppilegt til dansleikja- og skemmtanahalds, en það sé grind úr límtrésbitum, með álklæðningu auk þess sem ein hlið hússins/salarins sé gler. Eftir endilöngu þaki hússins sé svo mænisgluggi sem talið hafi verið að “læki” hávaða. Hafi íbúar við Smáragötu og Fjólugötu kvartað yfir hávaða og hafi mælingar verið gerðar við þessar götur. Leitað hafi verið leiða bæði með forsvarsmönnum fyrirtækisins og íbúum í nágrenni þess til að ná fram settum markmiðum um hávaðatakmarkanir en þær hafi ekki náð tilætluðum árangri. Málið sé búið að vera í nokkuð stöðugri meðferð hjá kærða alveg frá því starfsemi hófst.
Kærði gerir grein fyrir því að þegar heilbrigðisnefndir sveitarfélaga beiti sér vegna hávaða með atvinnustarfsemi gildi um það reglugerð nr. 933/1999 um hávaða, sbr. og reglugerð nr. 478/2003 um breytingu á fyrrgreindri reglugerð. Skv. 1. gr. rgl. gildi hún um viðmiðunargildi fyrir hávaða og hávaðavarnir og eigi m.a. við um atvinnurekstur. Þá sé að finna almennt ákvæði í rgl. nr. 941/2002 sem vísi jafnframt í hávaðareglugerð. Þá vísar kærði til þess að byggingareglugerð gildi um hávaða sem berist með byggingum og byggingarhlutum og lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum um hávaða frá vinnustöðum. Hafi því kærði stuðst við rgl. nr. 933/1999, rgl. nr. 941/2002 og l. nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir við meðferð málsins og ákvarðanatöku. Í samræmi við 22. gr. áðurnefndrar hollustuháttareglugerðar hafi heilbrigðisnefnd Suðurlands sett fram ákvæði um hávaðatakmarkanir á samkomum. Hafi verið samþykkt á fundi nefndarinnar 24. apríl, 2001 að miða jafngildishljóðstig við 95dB og hávaðatopp við 110 dB. Hafi ákvörðunin tekið mið af þeim hávaðatakmörkunum sem Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hafi sett og séu gildin þau sömu og þar. Sé þessi samþykkt um hávaðatakmarkanir enn í gildi. Þar með hafi verið hægt að gera mælingar innandyra í Höllinni með það fyrir sjónum að meta hvort hávaði hafi verið of mikill eða ekki . Auk þess hafi mælingar verið gerðar utandyra, í íbúðabyggð, þar sem tekið hafi verið mið af þeim kröfum sem gildi um hávaða í íbúabyggð að næturlagi skv. reglugerð umhávaða nr. 933/1999. Ennfremur hafi verið gerðar mælingar inni í híbýlum íbúða, bæði meðan á dansleikjahaldi stóð og svo mæld “eðlileg” umhverfishljóð.
Þar sem kærði eigi ekki viðurkenndan mælibúnað fyrir hljóðmælingar hafi sú þjónusta verið keypt af Höskuldi Kárasyni, Vinnueftirliti ríkisins í Vestmannaeyjum og Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur. Gerir kærði grein fyrir því sem máli skiptir vegna ákvörðunar nefndarinnar :
1) Kærði hafi fengið sérfræðing Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur til að gera mælingar á hávaða 23. og 24. mars, 2002. Í skýrslu komi fram að kvartanir íbúa vegna hávaða frá Höllinni séu á rökum reistar. Að jafnaði hækki mæligildi innandyra um 4-10 dB án leiðréttingar við dansleikjahald en mun meira ef leiðrétt er fyrir högghljóðum. Hins vegar séu ekki til í reglugerðum gildi fyrir leyfileg hljóðstig innandyra vegna hávaða frá atvinnustarfsemi en miðað sé við 25 dB til viðmiðunar. Í skýrslunni komi fram hvert ríkjandi umhverfishljóð sé hverju sinni og tekið sé fram að greinilega hafi mátt heyra texta laga inni í herbergi íbúða. Mælingar innandyra í Höllinni hafi sýnt að hljóðstig innandyra hafi verið of hátt miðað við gildandi hávaðasamþykkt. Mælingar utandyra í íbúabyggð hafi einnig verið yfir leyfilegum gildum. Þá komi fram í skýrslunni að aðstæður hafi ekki verið heppilegar til mælinga vegna veðurs, en metin sé leiðrétting vegna vinds og endurkast hljóðs vegna bleytu.
2) Í kjölfar skýrslu hafi kærði send kæranda bréf dags. 29. apríl 2002 þar sem farið hafi verið fram á endurstillingu hávaðatemprunarbúnaðar þannig að jafngildishljóðstig fari ekki upp fyrir 95 dB og toppur ekki yfir 110 dB
3) 24. maí 2002 hafi kærði sent svarbréf til íbúa í nágrenninu sem sent höfðu inn skriflega kvörtun. Komi fram í bréfinu m.a. að talið hafi verið að árangur hafi náðst með kröfum settum 29. apríl 2002 en kærði muni bregðast við kvörtunum með frekari kröfum.
4) Kærði hafi farið fram á skriflegar upplýsingar um stöðu mála vegna úrbóta ásamt tímasettri framkvæmdaáætlun hinn 17. október 2002. Ekki hafi verið orðið við því og hafi bréf verið sent 8. janúar 2003 þar sem upplýst hafi verið að kærði hygðist beita þvingunaraðgerðum með takmörkun opnunartíma til kl. 01.00 á hverju kvöldi. Hafi kærandi sent svarbréf 14. janúar 2003 þar sem rakin hafi verið staða mála og í bréfi kæranda dags. 27. janúar 2003 hafi verið tímasett framkvæmdaáætlun.
5) Kærði fjallar um bréfin á fundi 5. febrúar 2003 og fer fram á að framkvæmdum verði hraðað og að fullu lokið fyrir 1. júlí 2003.
6) Mælingar hafi farið fram 17. apríl að næturlagi (yfir mörkum), 29. apríl og 4. maí til stillingar á hljóðvaka, niðurstöður mælinga séu í bréfi dags. 5. maí.
7) Kærandi hafi gert grein fyrir niðurstöðu hönnunar auk áætlaðra verkloka fyrir 1. júlí 2003 í bréfi sínu dags. 6. maí 2003.
8) Ákveðið á fundi heilbrigðisnefndar 21. maí 2003 að meðan unnið sé að úrbótum skuli hávaðavaki stilltur neðar eða á jafngildið 92 dB og hávaðatopp 99 dB.
9) Kærði fer fram á skýrslu um úrbætur ásamt niðurstöðum hávaðamælinga bæði innan- og utandyra, með bréfi dags. 1. júlí 2003. Upplýsingum verði skilað fyrir 10. júlí.
10) Mælingar gerðar 12. júlí 2003, hávaði enn yfir mörkum, engri skýrslu skilað.
11) Samþykkt hafi verið af heilbrigðisnefndinni 19. ágúst 2003 að fá lögfræðilegt álit á málinu. Álit hafi legið fyrir 22. september 2003 og í kjölfarið hafi kæranda verið sent bréf þar sem tilkynnt hafi verið um meðferð máls og gefinn kostur á að koma að athugasemdum.
12) Svarbréf kærða hafi borist 2. október 2003 með rökum forsvarsmanna kæranda og ósk um frekari mælingu. Kærandi varð við beiðni og lét mæla 19. október þegar hljómsveit var í húsinu. Niðurstöður mælingar á sama veg og áður mikið yfir leyfðum mörkum sem séu 40 dB. Tilkynning hafi verið um ákvarðanatöku á grundvelli fyrirliggjandi gagna með bréfi dags. 22. október 2003.
13) Á fundi heilbrigðisnefndar 19. nóvember, 2003 hafi verið tekin ákvörðun um að takmarka starfsemi Hallarinnar þannig að frá kl. 23:00-07:00 hvern dag skyldi lækka hljóðstyrk hljómtækja hússins svo að ákvæði hávaðareglugerðar væru uppfyllt. Fallið var frá þessari ákvörðun.
14) Svarbréf kæranda um að miklum endurbótum til hljóðeinangrunar á húsnæði væri lokið ásamt staðfestingu skipulags- og byggingafulltrúa. Á grundvelli þessara upplýsinga hafi nefndin samþykkt að færa hávaðatakmarkanir til fyrra horfs, eða í jafngildið 95 dB og hávaðatopp í 110 dB. Ennfremur hafi verið farið fram á að skilað yrði inn mælingum á næstu auglýstu dansleikjum.
15) Mælingar gerðar 29. febrúar 2004 hafi sýnt að ekki hafi náðst tilætlaður árangur vegna hávaðavarna og hafi hávaði farið langt upp fyrir mörk við íbúðabyggð auk þess sem kærandi hafi ekki uppfyllt kröfur um hávaðatakmarkanir innandyra. Hafi því verið farið fram á tafarlausa endurstillingu hávaðavaka og mælingu vegna endurstillingar.
16) Hljóðvaki hafi verið endurstilltur 24. mars 2004 á tilskilin gildi og mæling aftur gerð 10. apríl, eða á næsta dansleik. Niðurstöður mælinga voru á sömu leið, allt of milkill hávaði bæði innan-og utandyra.
17) Í bréfi kærða dags. 13. apríl 2004 hafi verið tilkynnt ákvörðun um að takmarka starfsemi fyrirtækisins við opnunartíma 01:00 hverja nótt auk þess sem sérstaklega er óskað skýringa á því hvernig hávaði geti farið upp yfir stillingu hljóðvaka. Kærandi hafi svarað 23. apríl og gefið hugsanlega skýringu að hljóðvaki hafi bilað.
18) Á fundi heilbrigðisnefndarinnar 26. maí 2004 hafi verið farið fram á frekari staðfestingu á bilun hljóðvaka og að fyrir næsta dansleik yrði tæki endurstillt skv. fyrri kröfum og staðfestingu skilað til kærða. Engin svör hafi borist og hafi kærði ítrekað fyrri bókun á næsta fundi 21. júlí 2004. Erfitt hafi reynst að ná til aðila sem stilla hljóðvaka sbr. bréf og beiðni kæranda um frest dags. 13. ágúst 2004 m.a. vegna þess að ekkert dansleikjahald var í húsinu. Frestur hafi verið veittur til 1. september 2004.
19) Mælingar gerðar að nýju og hljóðvaki hafi verið stilltur 1. september. Mælingar utandyra hafi ekki verið raunhæfar vegna umferðarþunga og hafi því verið mælt að nýju 28. nóvember 2004 við dansleikjahald. Niðurstöður hafi enn verið langt fyrir ofan gildandi mörk.
20) Kærði tilkynnir kæranda með bréfi dags. 7. desember 2004 að þrátt fyrir úrbætur og endurteknar mælingar hafi ekki náðst viðunandi úrbætur og kærði hafi til skoðunar að takmarka starfsemina við kl. 01:00 dag hvern. Athugasemdir hafi borist 10. desember 2004.
21) Kærði tekur ákvörðun um að takmarka opnunartíma staðar kæranda og skyldu þvingunaraðgerðir taka gildi 17. janúar s.l.
Kærði vísar til þess að hann hafi í störfum sínum og ákvarðanatöku tekið mið af stjórnsýslulögum 37/1999 auk áður tilgreindra laga og reglna. Sérstaklega hafi nefndin haft til hliðsjónar 12. gr. laganna og leitast við að beita vægasta úrræðinu hverju sinni til að ná fram settum markmiðum. Kærandi hafi gert úrbætur á húsnæðinu, en því miður hafi aðgerðir þeirra ekki náð tilætluðum árangri. Hafi kærandi leitast við að koma til móts við sjónarmið kæranda en talið hafi verið fullreynt að unnt yrði að verða við kröfum hennar með vægari úrræðum en þeim sem gripið var til 14. desember s.l. og tóku gildi 17. janúar s.l. Hafi kærði fyrst og fremst byggt ákvarðanir sínar á mælingum vegna brota á reglum um hávaða sbr. samþykkt um hávaðatakmarkanir en kærandi virðist geta farið fram hjá stillingum þrátt fyrir ítrekaðar endurstillingar. Þá hafi kærði tekið mið af gildandi hávaðamörkum í íbúðabyggð sem skuli vera 40 dB að næturlagi. Þyki sannað að hávaði sem berist frá fyrirtækinu valdi því að umrædd mörk náist ekki í skilgreindri íbúðabyggð. Í kæru sé niðurstöðum mælinga sem gerðar hafi verið 28. nóvember s.l sérstaklega mótmælt vegna slæms veðurs og mikillar bílaumferðar. Mæliskýrsla geti hins vegar um að veður hafi verið gott, logn og þurrt en það séu einmitt kjöraðstæður til mælinga. Farið hafi að rigna um nóttina en sérstaklega hafi verið leiðrétt með tilliti til þess. Þá kveður kærði rétt að benda á jafngildismælingu sem mæli meðaltalshljóð í mínútu. Í öllum tilvikum hafi sú mæling verið of há og sé langt yfir mörkin í mælingu gerðri 28. nóvember s.l. Með jafngildismælingu séu einnig lágmörkuð áhrif þeirra bíla sem keyri framhjá hverju sinni. Rétt sé að benda á viðmiðunarmælingu í þessu sambandi þar sem umhverfishljóð á mælistöðum hafi verið 21.0-23.7 dB.
Kærði ítrekar að leitast hafi verið við að vinna með forsvarsmönnum fyrirtækisins að settu marki m.a. með því að verða við óskum um fresti, endurteknar mælingar og að taka tillit til úrbóta kæranda. Telur kærði að með því hafi hann unnið skv. ákvæðum laga nr. 7/1998, 37/1999 til að ná fram settum markmiðum skv. rgl. nr. 941/2002 og nr. 933/1999.
IV.
Krafa kæranda er að ákvörðun kærða um þvingunaraðgerðum vegna skemmtistaðar kæranda Hallarinnar verði aflétt.
Í rgl. nr. 933/1999 kemur fram að reglugerðin gildi um viðmiðunargildi fyrir hávaða og hávaðavarnir hér á landi og eigi við um atvinnurekstur samgöngur og athafnir einstaklinga eins og við geti átt. Í 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram að heilbrigðisnefnd hafi eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar. Í 5. gr. reglugerðarinnar segir að hávaði skuli vera undir þeim viðmiðunarmörkum sem fram komi í viðauka sbr. þó 8. gr. þar sem heilbrigðisnefnd geti vegna sérstakra, óviðráðanlegra aðstæðna og að höfðu samráði við Hollustuvernd ríkisins leyft að á ákveðnum, afmörkuðum svæðum megi hávaði vera yfir viðmiðunarmörkum. Reglugerðin er sett með stoð í 5. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Svo sem fram kemur í tilgreindum lögum og reglugerðum er það hlutverk kærða að sinna hávaðavörnum skv. rgl. 933/1999. 11. gr. rgl. 933/1999 er ákvæði um valdsvið og þvingunarúrræði og vísað til 26 gr. laga nr. 7/1998. Ekki verður séð að kærði hafi farið út fyrir heimildir sínar til athafna í málinu með vísan til fyrrgreinds lagaákvæðis.
Ekki verður annað séð en mælingar af hálfu kærða hafi verið í samræmi við hefðbundnar mælingar. Er því hafnað málsástæðu kæranda um að mælingar hafi ekki verið marktækar. Ekkert í gögnum málsins styður þá fullyrðingu. Ljóst er að kærandi hefur unnið að margvíslegum úrbótum til þess að uppfylla kröfur en benda verður á að það er á valdi kæranda sjálfs að endurheimta fyrra starfsleyfi með endurbótum sínum. Með tilvísan til framangreinds er hafnað kröfu um afléttingu þvingunaraðgerða kærða hjá kæranda vegna Hallarinnar.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hafnað er kröfu kæranda um afléttingu þvingunaraðgerða af hálfu kærða.
___________________________________
Lára G. Hansdóttir
__________________________ ______________________________
Gunnar Eydal Guðrún Helga Brynleifsdóttir