Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána

Úrskurður nr. 82/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

 nr. 82/2015

 

Ár 2015, miðvikudaginn 18. mars, er tekið fyrir mál nr. 51/2015; kæra A, dags. 22. janúar 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :


I.

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána sinna þann 18. maí 2014. Kæranda var birt ákvörðun um útreikning leiðréttingarfjárhæðar og framkvæmd hennar sitt í hvoru lagi. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð lána kæranda var 1.344.966 kr., en frádráttarliðir námu 938.642 kr. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð kæranda var því 406.324 kr. og var hún birt kæranda 11. nóvember 2014. Ráðstöfun leiðréttingarinnar var síðan birt kæranda 9. janúar 2015.

Með kæru, dags. 22. janúar 2015, hefur kærandi kært framkvæmd leiðréttingar, sbr. 11. gr. laga. nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í kæru er þess krafist að frádráttur frá útreiknaðri leiðréttingu lána kæranda, að fjárhæð 938.642 kr., verði felldur niður og kæranda ákvörðuð leiðréttingarfjárhæð án frádráttar. Í kæru kemur fram að ástæða frádráttarliðarins sé einkum sú að sambýlismaður kæranda, B, hafi fengið niðurfellt verðtryggt fasteignaveðlán samkvæmt 110% leiðinni. Kærandi greinir frá því að hann hafi verið skráður í sambúð frá 8. júní 2009. Þrátt fyrir að kærandi sé skráður í sambúð hafi hann haldið fjárhag sínum aðskildum og hafi ekki talið sameiginlega fram til skatts með sambýlismanni sínum. Kærandi kveðst á leiðréttingartímabilinu hafa átt íbúð að M götu en selt hana fyrri hluta árs 2011. Niðurfellingin sem sambýlismaður kæranda naut sé vegna láns sem hvíldi á eign sambýlismannsins að N götu. Kærandi greinir nánar frá því að hann og sambýlismaður hans búi að öllu jöfnu ekki saman. Sambýlismaður kæranda eigi íbúð í X bæ en kærandi búi í sameiginlegri íbúð þeirra í Y bæ. Kærandi telur að engin rök standi til þess að færa niður leiðréttingu á láni hans vegna þeirrar niðurfærslu sem sambýlismaður hans naut enda hafi ekkert fjárhagslegt hagræði verið af skráningu í sambúð í þeirra tilviki og engin almenn lög til um fjármál sambúðarfólks. 


II.

Ágreiningsefni máls þessa snýr í raun að fjárhæð leiðréttingar. Kærandi var á tímabilinu 8. júní 2009 til 31. desember 2009, þ.e. hluta af leiðréttingartímabili 1. gr. og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, í skráðri sambúð með B og ekki liggur fyrir annað en að sambúð þeirra sé óslitinn síðan þá. Í forsendum ríkisskattstjóra er þó gert ráð fyrir að sambúðin hafi varað frá áramótum 2009 og 2010 og því ekki á leiðréttingartímabilinu.

Í 3. gr. laga nr. 35/2014 er fjallað um afmörkun leiðréttingar samkvæmt lögunum. Þar segir í 2. mgr. að leiðrétting samkvæmt lögunum taki til heimila, þ.e. einstaklinga, hjóna og sambýlisfólks sem uppfyllti skilyrði til samsköttunar innan leiðréttingartímabils skv. 1. mgr. Taki leiðrétting til áhvílandi lána á sameiginlegu heimili hjóna eða sambýlisfólks, óháð því hvor aðilinn var skráður fyrir lánunum á tímabilinu. Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014 segir að leiðrétting einstaklings og hámark hennar ráðist af hjúskapar- eða heimilisstöðu eins og hún var á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins.

Nánar er fjallað um útreikning leiðréttingar og ráðstöfun í 4. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar segir í 3. mgr. að fjárhæð leiðréttingar einstaklings og hámark hennar ráðist skv. 5. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014 af hjúskapar- eða heimilisstöðu eins og hún var á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins, 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Ef breytingar hafi orðið á högum umsækjanda, einu sinni eða oftar, sbr. 1. málsl., á leiðréttingartímabilinu skuli útreikningur leiðréttingar miða við að breytingin taki gildi í sama mánuði. Í 4. mgr. segir að heildarsamtala fjárhæðar útreiknaðrar leiðréttingar hvers heimilis geti að hámarki orðið 4 milljónir kr. Við útreikning á hámarki leiðréttingar hvers heimilis skuli, eftir atvikum, skipta fjárhæð leiðréttingar í samræmi við breytingar á hjúskapar- eða heimilisstöðu hvers einstaklings á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins.

Ljóst er að útreiknuð leiðrétting lána kæranda samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014 er 1.344.966 kr. Af hálfu kæranda er tekið fram að ekki séu gerðar athugasemdir við útreikning ríkisskattstjóra á  leiðréttingu lána og verður hann lagður til grundvallar.

Frá útreiknaðri leiðréttingu dragast frádráttarliðir, sbr. 8. gr. laga nr. 35/2014, samtals að fjárhæð 938.642 kr. Þar af ber helst að nefna helming af niðurfærslu samkvæmt 110% leið af lánum X banka nr. 1 og 2, samtals kr. 808.807. Nánar tiltekið er um að ræða lækkun skulda samkvæmt c-lið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014. Einnig er um að ræða sérstakar vaxtabætur sem kæranda voru ákvarðaðar 1. ágúst 2011, kr. 54.499 og 1. ágúst 2012, kr. 75.336. Þar er um að ræða lækkun skulda f-liðar 1. mgr. 8. gr. sömu laga.

Í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014 kemur fram að frádráttur einstaklings samkvæmt 1. mgr. þeirrar greinar taki mið af hjúskapar- eða heimilisstöðu, sbr. 6. mgr. 7. gr. laganna eins og hún var við framkvæmd niðurfellingar.

Í tilviki kæranda hefur því ekki verið mótmælt að lækkun lána nr. 1 og 2 hafi verið framkvæmd á árinu 2011 eftir að kærandi hóf sambúð með B. Útreikningur á frádrætti einstaklings tekur mið af hjúskapar og heimilisstöðu við framkvæmd niðurfellingar. Skiptir ekki máli í þeim efnum að hann hafi verið vegna fasteignar sem var skráð eign sambýlismanns kæranda. Útreiknuð fjárhæð leiðréttingar kæranda er því í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hana gilda. Á því hefur ekki verið byggt af hálfu kæranda að önnur atriði útreikningsins séu röng. Ákvörðun ríkisskattstjóra um útreikning leiðréttingarfjárhæðar verður ekki hnekkt og er kröfu kæranda því hafnað.

  

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta