Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána

Úrskurður nr. 115/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA 

 nr. 115/2015

 

Ár 2015, miðvikudaginn 25. mars, er tekið fyrir mál nr. 93/2015; kæra A, dags. 8. febrúar 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :


I.

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 18. maí 2014. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð var 914.190 kr. og var sú fjárhæð birt kæranda 11. nóvember 2014.

Með kæru, dags. 8. febrúar 2015, hefur kærandi kært fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána og framkvæmd leiðréttingar, sbr. 11. gr. laganna. Í kæru kveðst kærandi óska þess að eiginkona hans fái einnig leiðréttingu láns. Kærandi tekur fram að hann og eiginkona hans hafi skilið árið 2013 og tekið aftur saman árið 2014. Útreiknuð leiðrétting kæranda sé aðeins 50% en eigi að vera 100% vegna beggja aðila. Sökum misskilnings kæranda hafi hann aðeins sótt um því hann hafi verið skráður fyrir fasteignaveðláni. Skilja verður kæru á þann veg að þess sé krafist að umsókn kæranda um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána gildi jafnframt fyrir eiginkonu hans og henni verði reiknuð leiðrétting á grundvelli umsóknar kæranda. 


II.

Ágreiningsefni máls þessa snýr samkvæmt kæru að fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr laga nr. 35/2014. Útreiknuð leiðrétting lána kæranda grundvallaðist á láni X banka nr. 1 og er 1.010.759 kr. og frá þeirri fjárhæð dragast frádráttarliðir, sbr. 8. gr. laga nr. 35/2014, samtals að fjárhæð 96.569 kr. Þá var 81% lánsins tilgreint til íbúðarkaupa samkvæmt lið 5.2. í skattframtölum kæranda 2010 og 2009 vegna tekjuáranna 2009 og 2008, nánar tiltekið leiðréttingartímabili 1. gr., sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014. Kærandi var á því tímabili kvæntur eiginkonu sinni B og var hlutdeild hans í útreiknaðri leiðréttingarfjárhæð 50%.

Samkvæmt því sem fram kemur í kæru slitu kærandi og eiginkona hans samvistum á árinu 2013 og tóku ekki saman aftur fyrr en á árinu 2014. Er það í samræmi við forsendur ríkisskattstjóra en samkvæmt þeim tóku kærandi og eiginkona hans aftur upp samvistir í seinni hluta ársins 2014 eftir að hafa verið skilin frá árinu 2013. Kærandi og eiginkona hans voru því skilin í árslok 2013 og einnig þegar kærandi sótti um leiðréttingu þann 18. maí 2014.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014 var hjónum og sambýlisfólki sem uppfyllti skilyrði til samsköttunar skv. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, í árslok 2013 heimilt að sækja sameiginlega um leiðréttingu vegna lána sem veittu rétt til vaxtabóta á árunum 2008–2009 og annað eða bæði voru ábyrg fyrir. Ekki skiptir máli hvort hjóna hafi verið formlega ábyrgt fyrir láni á umsóknarári komi til lækkunar skv. 11. gr. vegna leiðréttingar á lánum skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014.

Um aðila sem uppfylla skilyrði samsköttunar samkvæmt 62. gr. laga nr. 90/2003 aðeins hluta úr ári er fjallað um í 63. gr. laga nr. 90/2003. Þar kemur fram í 1. mgr. að þeir skattaðilar sem uppfylla skilyrði 62. gr. aðeins hluta úr ári, t.d. vegna stofnunar eða slita hjúskapar á árinu eða slita á samvistum, skuli telja fram tekjur sínar á þeim tíma sem umrædd skilyrði voru uppfyllt í samræmi við ákvæði 62. gr. og skulu skattlagðir sem hjón þann tíma. Tekjur á öðrum tíma ársins skal telja fram hjá þeim, sem þær hafði, sem einstaklingi, og skattleggja þær samkvæmt því. Sérstaklega er tekið fram að hjónum sem slíta hjúskap eða samvistum á árinu sé heimilt að telja fram allar tekjur sínar á því ári hvoru í sínu lagi. Þarna er um að ræða heimildarákvæði en ekki er að finna sambærilegt heimildarákvæði fyrir því að aðilar séu samskattaðir eftir slit hjúskapar. Kærandi þessa máls og eiginkona hans skiluðu sitthvoru skattframtalinu 2014 vegna tekjuársins 2013.

Í ljósi framangreinds liggur fyrir að kærandi og eiginkona hans uppfylltu ekki skilyrði laga nr. 90/2003 fyrir samsköttun þann 31. desember 2013 og því áttu þau ekki rétt á því að sækja sameiginlega um leiðréttingu á grundvelli heimildarákvæðis 2. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014. Þar sem kærandi og eiginkona hans voru ekki samvistum á umsóknardegi um leiðréttingu gat kæranda ekki dulist að umsókn hans tæki ekki til eiginkonu hans. Í kvittun sem kærandi fékk senda í kjölfar móttöku umsóknar hans þann 18. maí 2015 kemur aðeins fram nafn hans og er hann þar einn skráður í umsóknarheimili. Eiginkona kæranda hefði þurft að sækja sjálf um leiðréttingu innan frests 1. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014.

Ekki er því til staðar lagaheimild til að láta umsókn kæranda taka einnig til eiginkonu hans. Á því hefur ekki verið byggt af hálfu kæranda að önnur atriði útreiknings ríkisskattstjóra séu röng. Útreiknuð fjárhæð leiðréttingar kæranda á láni X banka nr. 1 er því í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hana gilda. Ákvörðun ríkisskattstjóra um útreikning leiðréttingarfjárhæðar verður ekki hnekkt. Kröfu kæranda er því hafnað.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta