Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána

Úrskurður nr. 86/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA 

 Úrskurður nr. 86/2105

 

Ár 2015, miðvikudaginn 18. mars 2015, er tekið fyrir mál nr. 57/2015; kæra A, dags. 23. janúar 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :


 I.

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 31. júlí 2014. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð var samtals 600.793 kr. og var sú fjárhæð birt kæranda 11. nóvember 2014. Kæranda var tilkynnt þann 30. desember 2014 að þeirri fjárhæð skyldi ráðstafað sem greiðslu inn á lán nr. 1 hjá X banka.

Með kæru, dags. 23. janúar 2015, hefur kærandi kært framkvæmd leiðréttingar, sbr. 11. gr. laga nr. 35/2014. Í kæru kemur fram að kærandi óski eftir því að leiðréttingunni verði ráðstafað inná lán X  banka nr. 2 sem standi í samtals 3.420.409 kr. Í kæru er tekið fram að kærandi sjái fyrir sér að hann hafi með því móti meiri möguleika á að greiða það lán upp á lánstímabilinu þar sem höfuðstóll þess láns sé lægri en höfuðstóll láns X banka nr. 1.     

           

II.

 Ágreiningsefni máls þessa snýr að framkvæmd leiðréttingar. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ákvörðun ríkisskattstjóra um ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar byggist á, er kærandi skuldari að annars vegar þremur lánum hjá X banka nr. 3, 1 og 2, og hins vegar láni hjá lífeyrissjóði Y nr. 4. Lán X banka nr. 2 og 1 hvíla á fyrsta veðrétti á fasteign kæranda að M götu. Þann 6. mars 2015 námu eftirstöðvar láns X banka nr. 2 samtals 3.076.088 kr. og láns X banka nr. 1 samtals 7.280.000 kr.       

Um framkvæmd leiðréttingar er fjallað í 11. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í 3. mgr. þeirrar greinar kemur fram að lánveitandi fasteignaveðláns á fremsta veðrétti skuli skipta láni í tvo hluta, frum- og leiðréttingahluta. Ef frumhluti fasteignaveðláns á fremsta veðrétti tæmist en hluta leiðréttingarfjárhæðar er enn óráðstafað skal lánveitandi  á næsta veðrétti á eftir á fasteign umsækjanda skipta því láni í tvo hluta, frum- og leiðréttingarhluta, og svo koll af kolli þar til leiðréttingarfjárhæð er náð eða frumhluti láns tæmist. Fasteignaveðlán umsækjanda sem tryggð eru með veði í fasteign annars einstaklings skulu einungis koma til skiptingar ef ekki er unnt að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð að fullu inn á fasteignaveðlán sem hvíla á fasteign umsækjanda.

Nánar er fjallað um framkvæmd leiðréttingar í 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í 2. mgr. þeirrar greinar kemur fram að ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar til að lækka höfuðstól fasteignaveðlána umsækjanda samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014 skal fara eftir veðröð þeirra lána sem hvíla á fasteign eða fasteignum umsækjanda. Ef tvö eða fleiri lán hvíla á sama veðrétti fasteignar eða fasteigna umsækjanda skal leiðréttingarfjárhæð fyrst ráðstafað til að lækka það lán sem er með hæstu eftirstöðvar á samþykktardegi ráðstöfunar leiðréttingarfjárhæðar, því næst til að lækka lán sem með næst hæstu eftirstöðvar á samþykktardegi og svo koll af kolli. Ef tvö eða fleiri fasteignaveðlán eru tryggð með sama tryggingarbréfi skal leiðréttingarfjárhæð fyrst ráðstafað til að lækka þá kröfu sem er með hæstu eftirstöðvar á samþykktardegi. Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014 verður leiðréttingarfjárhæð aðeins ráðstafað til að lækka fasteignaveðlán umsækjanda sem hann er skráður skuldari að og tryggð eru með veði í fasteign annars einstaklings eða annarra einstaklinga samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014 ef ekki er unnt að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð að fullu inn á fasteignaveðlán sem hvíla á fasteign umsækjanda.

Óumdeilt er að eftirstöðvar láns X banka nr. 1 eru verulega hærri en eftirstöðvar láns X banka nr. 2. Með vísan til framangreinds er ljóst að ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar inn á lán nr. 1 er í samræmi við framangreind laga- og reglugerðarfyrirmæli sem um hana gilda. Ákvörðun ríkisskattstjóra um að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð, 600.793 kr., sem greiðslu inn á lán nr. 1 verður ekki hnekkt. Kröfu kæranda er því hafnað.    

  

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta