Úrskurður nr. 69/2015
ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA
nr. 69/2015
Ár 2015, miðvikudaginn 18. mars, er tekið fyrir mál nr. 6/2014; kæra A, dags. 23. desember 2014. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 20. maí 2014. Kæranda var birt ákvörðun um útreikning leiðréttingarfjárhæðar og ráðstöfun hennar sitt í hvoru lagi. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð lána var 2.446.041 kr. og frádráttur vegna niðurfærsla 7.310.526 kr. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð kæranda var því 0 kr. og var sú fjárhæð birt kæranda 11. nóvember 2014.
Með kæru, dags. 23. desember 2014, hefur kærandi kært fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána og framkvæmd leiðréttingar, sbr. 11. gr. sömu laga. Í kæru kveðst kærandi ekki sjá neitt réttlæti í „þessum aðgerðum“. Hann hafi neyðst til að selja fasteign sína þar sem lán hafi verið orðið jafnhátt markaðsverði. Ella hefði eignarhluti hans farið í mínus og nú sé kærandi húsnæðislaus.
II.
Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. febrúar 2015, var kæranda tilkynnt að kæran fullnægði ekki þeim skilyrðum sem kveðið væri á um í 4. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, þar sem ekki kæmi fram í kærunni rökstuðningur fyrir kröfum. Í bréfinu var farið yfir þau atriði sem útreikningur leiðréttingarfjárhæðar byggist á. Var kæranda bent sérstaklega á að kanna hvort þau atriði væru rétt og upplýsa um ef svo væri ekki og útskýra nánar, s.s. lán sem voru grundvöllur vaxtabóta, sbr. lið 5.2. í skattframtölum, eða nýtt til endurbóta á íbúðarhúsnæði, hjúskaparstöðu og frádráttarliði. Var veittur 14 daga frestur til að bæta úr nefndum annmörkum á kærunni.
Af hálfu kæranda hefur ekki verið bætt úr þeim annmörkum á kærunni. Ekki er þar að finna kröfugerð kæranda eða rökstuðning fyrir kærunni. Þykir því verða að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni, sbr. 4. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kærunni er vísað frá úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.