Úrskurður nr. 162/2015
ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA
nr. 162/2015
Ár 2015, mánudaginn 13. apríl, er tekið fyrir mál nr. 122/2015; kæra A og B, dags. 19. febrúar 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Málavextir eru þeir að af hálfu kærenda var sótt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 19. maí 2014. Útreikningur á leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána kærenda grundvallaðist á þeim verðtryggðu lánum sem tilgreind voru í lið 5.2 í skattframtölum kærenda árin 2009 og 2010 vegna tekjuáranna 2008 og 2009, nánar tiltekið á lánum frá sjóði X nr. 1 seinna árið og 2 bæði árin.
Með kæru til úrskurðarnefndar, dags. 19. febrúar 2015, var kærð fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í kæru kemur fram að það vanti inn í útreikninga leiðréttingar sjálfsábyrgðarbankalán sem kærendur hafi fengið fram að 7.000.000 kr. láninu frá sjóði X. Það lán hafi kærendur haft allt árið 2008 og fram til þess að þau fengu 7.000.000 kr. lánið [og eiga kærendur þar væntanlega við lán sjóðsins nr. 1]. Vextir umrædds láns hafi verið háir og stýrivextir á hraðri uppleið, en fasteignaverð hafi ekki hækkað í sveitarfélaginu V.
Þann 31. mars 2015 sendi úrskurðarnefndin kærendum beiðni um frekari rökstuðning fyrir kæru með vísan til 4. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014. Í bréfinu var farið yfir þau atriði sem útreikningur leiðréttingarfjárhæðar byggist á, s.s. lán sem voru grundvöllur vaxtabóta, sbr. lið 5.2. í skattframtölum, eða nýtt til endurbóta á íbúðarhúsnæði, hjúskaparstöðu og frádráttarliði. Lagt var fyrir kærendur að yfirfara forsendur ákvörðunar ríkisskattstjóra og tilkynna til úrskurðarnefndar ef ákvörðun byggðist á röngum staðreyndum að þeirra mati. Sérstaklega var óskað eftir upplýsingum um hvort lánið sem kærendur kröfðust að yrði leiðrétt væri verðtryggt, auk upplýsinga um lánsnúmer þess og um það hvort lánið hafi verið nýtt til öflunar eigin húsnæðis eða endurbóta á slíku húsnæði.
Svar barst frá kærendum 13. apríl 2015. Þar kom fram að þegar framkvæmdir hófust á byggingu fasteignar kærenda að M-götu hafi þau óskað eftir láni vegna nýbyggingar í útíbúi sjóðsins Y (síðar bankinn Z). Kærendur segja það hafa verið gert þar sem ekki hafi fengist lán hjá sjóði X fyrr en eftir lok ákveðins byggingarstigs fasteignar þeirra. Hafi þá verið búinn til sérstakur byggingarreikningur með yfirdrætti sem brúaði bilið fram að þeim tíma sem hægt var að fá lán sjóðs X greitt. Byggingareikningurinn sé enn til og númer hans sé nú ...-26-..., en áður hafi verið á honum annað bankanúmer en sama reikningsnúmer. Samhliða svari sínu sendu kærendur yfirlit reikningsins. Kærendur kveðast hafa greitt vexti af honum, nánar tiltekið 380.471 kr. árið 2008 og 128.063 kr. árið 2009. Kærendur svöruðu ekki fyrirspurn úrskurðarnefndarinnar um hvort lánið væri verðtryggt.
II.
Í lokamálslið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, kemur fram það skilyrði fyrir því að lán sé leiðrétt samkvæmt ákvæðum þeirra laga að umrætt lán hafi verið verðtryggt. Af höfuðbókarnúmeri brúarláns nr. ...-26-... má ráða að það sé í formi yfirdráttarláns á tékkareikningi og samrýmist það málsatvikalýsingu kærenda og framlögðum gögnum. Almennt eru yfirdráttarlán óverðtryggð. Kærendur hafa ekki byggt á því að yfirdráttarlán þeirra hafi verið verðtryggt og því ekki að sjá að framangreint lagaskilyrði sé uppfyllt. Ákvörðun ríkisskattstjóra á leiðréttingafjárhæð kærenda, sem byggir á því að lán frá sjóði X nr. 1 og 2 séu leiðrétt, hefur að öðru leyti ekki sætt andmælum og verður því ekki hnekkt. Kröfu kærenda er hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kærenda er hafnað.