Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána

Úrskurður nr. 488/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRS FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 488/2015

 

Ár 2015, föstudaginn 21. ágúst, er tekið fyrir mál nr. 360/2015; kæra A og B, dags. 22. mars 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 I.

 

Málavextir eru þeir að kærendur sóttu um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 4. júní 2014. Ákvörðuð leiðréttingarfjárhæð kærenda var samtals 3.532.320 kr. og var sú fjárhæð birt þeim 28. janúar 2015. Kærendum var tilkynnt um leið að leiðréttingarfjárhæð myndaði sérstakan persónuafslátt hjá þeim. Kærendur gerðu athugasemd til ríkisskattstjóra 6. febrúar 2015 og fengu svör 14. mars sama ár.

Með kæru, dags. 22. mars 2015, er kærð framkvæmd leiðréttingar, sbr. 11. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í kæru kemur fram að kærendur hafi ekki athugasemdir við útreikninga leiðréttingarfjárhæðar. Þau hafi hins vegar athugasemdir við ráðstöfun leiðréttingarinnar. Kærendur segjast hafa fengið leiðréttingu á tveimur húsnæðislánum. Annað þeirra hafi verið á nafni móður kæranda B, C, hjá lífeyrissjóði X með lánsveði í eign foreldra kæranda, B. Kærendur segjast vera umboðsmenn lánsins og hafa verið greiðendur þess frá upphafi. Þetta hafi ríkisskattstjóri samþykkt og kærendur hafi fengið útreiknaða leiðréttingu þessa láns. Þegar komi að ráðstöfun leiðréttingarinnar sé kærendum hins vegar eingöngu boðið upp á sérstakan persónuafslátt, en ekki niðurgreiðslu á lífeyrissjóðsláninu, þrátt fyrir að það séu tilmæli leiðréttingarinnar að leiðréttingu sé fyrst og fremst varið til niðurgreiðslu á eftirstöðvum lána. Þessa útfærslu leiðréttingarinnar hafi kærendur gert athugasemd við, árangurslaust, og kæri því framkvæmd leiðréttingarinnar. Krefjast kærendur þess að ráðstöfun verði breytt svo kærendur geti nýtt leiðréttinguna til niðurgreiðslu á lífeyrissjóðsláninu, í stað persónuafsláttar.

Þann 1. maí 2015 sendu kærendur viðbótarrökstuðning þess efnis að þau hefðu fengið samþykki fyrir því að vera meðskuldarar að lífeyrissjóðsláninu og bíði skjöl þess efnis undirskriftar og þinglýsingar.

Þann 25. júní 2015 upplýsti úrskurðarnefndin kærendur um það að aflað hefði verið umsagnar lífeyrissjóðs X. Samkvæmt henni hefði skráning kærenda sem meðskuldara að umræddu láni hefur ekki ennþá farið fram og því væri ekki hægt að leggja til grundvallar að þau væru skuldarar lánsins. Kærendur óskuðu eftir viðbótarfresti sem var veittur og þann 13. ágúst 2015 voru lögð fram þinglýst gögn því til staðfestingar að kærandi, B, væri meðskuldari að láni lífeyrissjóðs X nr. 1, að eftirstöðvum 4.283.912 kr. þann 7. apríl 2015, tryggðu með lánsveði í fasteign að M-götu. Staðfesting lífeyrissjóðs X þess efnis fékkst jafnframt í tölvupósti 18. ágúst 2015.

 

II.

 

Ágreiningsefni máls þessa snýr að framkvæmd leiðréttingar. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun átti að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð til kærenda í formi sérstaks persónuafsláttar og byggði hún á því að kærendur væru ekki skuldarar fasteignaveðláns. Kröfugerð kærenda var að leiðréttingarfjárhæð yrði ráðstafað inn á fasteignaveðlán lífeyrissjóðs X nr. 1, sem kærandi, B, væri meðskuldari að.

Um framkvæmd leiðréttingar er fjallað í 11. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í 2. mgr. þeirrar greinar kemur fram að ef sú leiðréttingarfjárhæð sem eftir stendur skv. 1. mgr. greinarinnar er hærri en 200.000 kr. skal leiðréttingin fara fram með lækkun á verðtryggðum og/eða óverðtryggðum fasteignaveðlánum í íslenskum krónum samkvæmt þessari grein. Að öðrum kosti fer um framkvæmd leiðréttingar skv. 12. gr. laganna. Í 3. mgr. greinarinnar kemur fram að lánveitandi fasteignaveðláns á fremsta veðrétti skuli skipta láni í tvo hluta, frum- og leiðréttingahluta. Ef frumhluti fasteignaveðláns á fremsta veðrétti tæmist en hluta leiðréttingarfjárhæðar er enn óráðstafað skal lánveitandi  á næsta veðrétti á eftir á fasteign umsækjanda skipta því láni í tvo hluta, frum- og leiðréttingarhluta, og svo koll af kolli þar til leiðréttingarfjárhæð er náð eða frumhluti láns tæmist. Fasteignaveðlán umsækjanda sem tryggð eru með veði í fasteign annars einstaklings skulu einungis koma til skiptingar ef ekki er unnt að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð að fullu inn á fasteignaveðlán sem hvíla á fasteign umsækjanda.

Nánar er fjallað um framkvæmd leiðréttingar í 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í 2. mgr. þeirrar greinar kemur fram að ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar til að lækka höfuðstól fasteignaveðlána umsækjanda samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014 skal fara eftir veðröð þeirra lána sem hvíla á fasteign eða fasteignum umsækjanda. Ef tvö eða fleiri lán hvíla á sama veðrétti fasteignar eða fasteigna umsækjanda skal leiðréttingarfjárhæð fyrst ráðstafað til að lækka það lán sem er með hæstu eftirstöðvar á samþykktardegi ráðstöfunar leiðréttingarfjárhæðar, því næst til að lækka lán sem með næst hæstu eftirstöðvar á samþykktardegi og svo koll af kolli. Ef tvö eða fleiri fasteignaveðlán eru tryggð með sama tryggingarbréfi skal leiðréttingarfjárhæð fyrst ráðstafað til að lækka þá kröfu sem er með hæstu eftirstöðvar á samþykktardegi. Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014 verður leiðréttingarfjárhæð aðeins ráðstafað til að lækka fasteignaveðlán umsækjanda sem hann er skráður skuldari að og tryggð eru með veði í fasteign annars einstaklings eða annarra einstaklinga samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014 ef ekki er unnt að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð að fullu inn á fasteignaveðlán sem hvíla á fasteign umsækjanda.

Í ljósi staðfestingar lífeyrisjóðs X, dags. 18. ágúst 2015, og framkominna gagna frá 13. ágúst 2015, er óumdeilt að kærandi B er skuldari fasteignaveðláns, tryggðu með veði í fasteign þriðja aðila. Með hliðsjón af því yrði leiðréttingarfjárhæð ráðstafað samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014, sbr. 3. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014.

Við málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar hafa verið lögð fram gögn sem hafa ekki sætt efnisúrlausn hjá ríkisskattstjóra. Með vísan til 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 er kæran send ríkisskattstjóra til nýrrar ákvörðunar um ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Kærunni ásamt gögnum er vísað til ríkisskattstjóra til nýrrar ákvörðunar um ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta