Úrskurður nr. 491/2015
ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRS FASTEIGNAVEÐLÁNA
NR. 491/2015
Ár 2015, föstudaginn 21. ágúst, er tekið fyrir mál nr. 385/2015; kæra A, dags. 23. mars 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 8. júní 2014. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð kæranda var 825.403 kr. og var sú fjárhæð birt henni 18. mars 2015.
Með kæru, dags. 23. mars 2015, hefur kærandi kært fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í kæru er þess krafist að leiðréttingarfjárhæð kæranda verði endurskoðuð í ljósi þess að eiginmaður hennar hafi fallið frá árið 2004. Kærandi greinir frá því að samkvæmt niðurstöðum útreiknings sé hlutur kæranda 50% af reiknaðri leiðréttingu láns, þrátt fyrir að hún hafi verið ein greiðandi lánsins á leiðréttingartímabili. Upphaflega hafi lánið verið í nafni eiginmanns hennar en hafi verið flutt yfir á hennar nafn síðar. Kærandi telur að hún sem eini greiðandi lánsins eigi rétt á fullri leiðréttingu en ekki 50% eins og ákvörðun leiðréttingarfjárhæðar byggi á. Kærandi greinir frá því að engar breytingar hafi orðið á högum hennar á viðkomandi tímabili eða síðar.
Með tölvupósti úrskurðarnefndar, dags. 26. júní 2015, var leitað umsagnar ríkisskattstjóra vegna kæru kæranda, sbr. 5. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014. Óskað var skýringar á því hvers vegna hlutfall kæranda í leiðréttingu á láni nr. 1 væri 50% á tímabilinu frá 1. janúar 2008 til 16. mars 2009. Í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 8. júlí 2015, kemur fram að fyrirspurn hefði verið send lánveitanda. Í svari lánveitandans hafi komið fram að látinn maki kæranda hafi verið ranglega skráður inn á lánið til 16. mars 2009, þrátt fyrir að hafa andast 4. desember 2004. Lánveitandi hafi leiðrétt skráningu. Í ljósi þess óskaði ríkisskattstjóri eftir því að málið yrði sent embættinu til meðferðar.
II.
Í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, kemur fram að ef niðurstaða útreiknings samkvæmt 9. gr. laganna byggist á röngum upplýsingum skuli umsækjanda heimilt að óska eftir leiðréttingu til ríkisskattstjóra. Í athugasemd við 10. gr. í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 35/2014 segir um þetta atriði: „Í þessum tilvikum er ekki um það að ræða að lögfræðilegur ágreiningur sé uppi heldur að frumákvörðun sé byggð á röngum upplýsingum um staðreyndir. Óskir um leiðréttingar af þessum toga eiga því ekki undir úrskurðarnefnd skv. 14. gr.“
Í 5. mgr. 6. gr. reglugerðar um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána segir jafnframt að umsækjandi geti gert athugasemdir til ríkisskattstjóra vegna rangra upplýsinga um staðreyndir, s.s. um lán, hjúskaparstöðu eða frádráttarliði. Á þetta t.d. við ef ekki hefur verið tekið tillit til áhvílandi fasteignaveðláns við útreikning.
Með hliðsjón af þeim lagarökum sem búa að baki 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 og umsögn ríkisskattstjóra frá 8. júlí 2015 þykir rétt að vísa kæru með þeim rökstuðningi sem fram er kominn af kæranda hálfu til ríkisskattstjóra til umfjöllunar.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kærunni er vísað til ríkisskattstjóra til umfjöllunar.