Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána

Úrskurður nr. 164/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

nr. 164/2015

 

Ár 2015, mánudaginn 13. apríl, er tekið fyrir mál nr. 129/2015; kæra A, dags. 23. febrúar 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 20. júní 2014, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Kæranda var birt ákvörðun leiðréttingarfjárhæðar, 454.945 kr., þann 28. janúar 2015 og var honum tilkynnt að þeirri fjárhæð skyldi ráðstafað sem greiðslu inn á lán sparisjóðsins X nr. 1.

Með kæru, dags. 23. febrúar 2015, hefur kærandi kært framkvæmd leiðréttingar, sbr. 11. gr. laga nr. 35/2014. Í kæru er ráðstöfun leiðréttingar inn á lán sparisjóðsins X kærð. Kærandi kveður það lán hvíla á frístundafasteigninni F1, sem hann eigi að 1/3 hluta þess með tveimur öðrum eigendum, þeim B og C. Kærandi krefst þess að leiðréttingin gangi inn á lán lífeyrissjóðsins Y, er hvíli á 1. veðrétti íbúðarhúsnæðisins F2 í eigu kæranda. Kærandi kveðst ekki hafa sótt um leiðréttingu á lánum hjá sparisjóðnum X og blandi þannig ekki saman sínum einkahögum og sameign um sumarhús. Kærandi telji eðlilegt að leiðréttingin gangi einungis til lána er hvíla á íbúðarhúsnæði hans, þrátt fyrir að í lögum standi að leiðréttingin skuli fara til niðurgreiðslu á hæsta fasteignaveðláni sem hvíli á fyrsta veðrétti.

             

II.

Ágreiningsefni máls þessa snýr að framkvæmd leiðréttingar. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ákvörðun ríkisskattstjóra um ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar byggist á, er kærandi  skuldari tveggja lána á fyrsta veðrétti. Annars vegar er um að ræða sparisjóðsins X nr. 1 sem tryggt er með fyrsta veðrétti í fasteigninni F1. Eftirstöðvar þess láns þann 1. apríl 2015 voru 4.069.839 kr. Hins vegar er lán lífeyrissjóðsins Y nr. 2 sem tryggt er með fyrsta veðrétti í fasteigninni F2, sem jafnframt er lögheimili kærenda. Eftirstöðvar þess láns þann 1. apríl 2015 voru 2.242.188 kr.

Um framkvæmd leiðréttingar er fjallað í 11. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í 3. mgr. þeirrar greinar kemur fram að lánveitandi fasteignaveðláns á fremsta veðrétti skuli skipta láni í tvo hluta, frum- og leiðréttingahluta. Ef frumhluti fasteignaveðláns á fremsta veðrétti tæmist en hluta leiðréttingarfjárhæðar er enn óráðstafað skal lánveitandi  á næsta veðrétti á eftir á fasteign umsækjanda skipta því láni í tvo hluta, frum- og leiðréttingarhluta, og svo koll af kolli þar til leiðréttingarfjárhæð er náð eða frumhluti láns tæmist. Fasteignaveðlán umsækjanda sem tryggð eru með veði í fasteign annars einstaklings skulu einungis koma til skiptingar ef ekki er unnt að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð að fullu inn á fasteignaveðlán sem hvíla á fasteign umsækjanda.

Nánar er fjallað um framkvæmd leiðréttingar í 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í 2. mgr. þeirrar greinar kemur fram að ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar til að lækka höfuðstól fasteignaveðlána umsækjanda samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014 skal fara eftir veðröð þeirra lána sem hvíla á fasteign eða fasteignum umsækjanda. Ef tvö eða fleiri lán hvíla á sama veðrétti fasteignar eða fasteigna umsækjanda skal leiðréttingarfjárhæð fyrst ráðstafað til að lækka það lán sem er með hæstu eftirstöðvar á samþykktardegi ráðstöfunar leiðréttingarfjárhæðar, því næst til að lækka lán sem með næst hæstu eftirstöðvar á samþykktardegi og svo koll af kolli. Ef tvö eða fleiri fasteignaveðlán eru tryggð með sama tryggingarbréfi skal leiðréttingarfjárhæð fyrst ráðstafað til að lækka þá kröfu sem er með hæstu eftirstöðvar á samþykktardegi. Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014 verður leiðréttingarfjárhæð aðeins ráðstafað til að lækka fasteignaveðlán umsækjanda sem hann er skráður skuldari að og tryggð eru með veði í fasteign annars einstaklings eða annarra einstaklinga samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014 ef ekki er unnt að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð að fullu inn á fasteignaveðlán sem hvíla á fasteign umsækjanda.

Því hefur ekki verið mótmælt að kærandi sé skráður skuldari að láni sparisjóðsins X nr. 1 sem tryggt er með veði í fasteigninni að F1, sem kærandi kveður vera í sinni eigu að 1/3 hluta. Eftirstöðvar þess láns voru 4.069.839 kr. og þannig hærri en eftirstöðvar láns lífeyrissjóðsins Y nr. 2 sem tryggt er með fyrsta veðrétti í fasteigninni F2, sem kærandi kveðst eiga, en þær nema 2.242.188 kr.

Með vísan til framangreinds er ljóst að ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar inn á lán Sparisjóðs X nr. 1 er í samræmi við framangreind laga- og reglugerðarfyrirmæli sem um hana gilda. Ákvörðun ríkisskattstjóra um að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð, 454.945 kr., sem greiðslu inn á lánið verður ekki hnekkt. Kröfum kæranda er því hafnað.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta