Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána

Úrskurður nr. 231/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

nr. 231/2015


Ár 2015, miðvikudaginn 3. júní, er tekið fyrir mál nr. 196/2015; kæra A og B, dags. 5. mars 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir að af hálfu kærenda var sótt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 18. maí 2014. Útreikningur á leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána kærenda grundvallaðist á því verðtryggða láni sem tilgreint var í lið 5.2 í skattframtali kærenda árið 2009 vegna tekjuársins 2008, nánar tiltekið á láni bankans X nr. 1. Lánið var greitt upp í marsmánuði 2008. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð kærenda var 0 kr.

Með kæru til úrskurðarnefndar, dags. 5. mars 2015, var kærð fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í kæru kemur fram að kærendur fái ekkert út úr leiðréttingunni. Rangt sé að greiða kærendum ekki útreiknaða leiðréttingu. Þau hafi greitt upp lánið árið 2008 og hafi lagt mikið á sig til þess þegar þau sáu hve lánið hækkaði hratt. Kærendur telja að ekki eigi að refsa þeim fyrir dugnaðinn.

 

II.

Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, kemur fram að leiðrétting samkvæmt lögunum taki til verðtryggðra fasteignaveðlána sem veitt hafi verið einstaklingum af lögaðilum sem uppfylltu nánar tilgreind skilyrði á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Skilyrði er að lánin hafi verið nýtt, í heild eða að hluta, til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota hér á landi og að þau hafi verið til staðar einhvern hluta sama tímabils. Þar sem kærendur greiddu fasteignaveðlán sitt upp í marsmánuði 2008 kemur, með vísan til framangreinds lagaákvæðis, ekki til skoðunar að lánið verði forsenda útreiknings leiðréttingar eftir það tímamark.        

Hvað varðar tímabilið frá 1. janúar 2008 til marsmánaðar sama ár er ljóst að kærendur voru á þeim tíma skuldarar að láni nr. 1. Var lánið því lagt til grundvallar útreikningi á leiðréttingu samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014 það tímabil. Niðurstaða þess útreiknings var að leiðréttingarfjárhæð lána kærenda og þ.a.l. leiðréttingarfjárhæð 9. gr. laga nr. 35/2014 væri 0 kr.

Í 7. gr. laga nr. 35/2014 er fjallað um útreikning á leiðréttingu einstaklings. Í 1. mgr. kemur fram að útreikningur á leiðréttingu hvers láns, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna, miðist við mismun raunverðbóta og leiðréttra verðbóta. Samkvæmt 2. mgr. skal við útreikning skv. 1. mgr. miða við að lánið hafi verið í fullum skilum miðað við það greiðsluflæði og þá lánaskilmála sem í gildi voru við upphaf leiðréttingartímabils þess, sbr. 1. mgr. 3. gr., að frádregnum umframgreiðslum sem kunna að hafa verið greiddar á tímabilinu. Útreikningurinn skal einnig miðaður við þannig reiknaðan höfuðstól í lok leiðréttingartímabils lánsins. Tekið er fram að með greiðsluflæði sé átt við samtölu afborgana og vaxta, án verðbóta, sem bar að greiða að teknu tilliti til umframgreiðslna. Í 3. mgr. segir að á greiðsluflæðið og reiknaða höfuðstólinn í lok leiðréttingartímabils láns séu reiknaðar verðbætur samkvæmt verðtryggingarvísitölu lánsins og teljist samtala þessara verðbóta raunverðbætur við útreikninginn. Í 4. mgr. kemur fram að á greiðsluflæðið og reiknaða höfuðstólinn í lok leiðréttingartímabils láns séu einnig reiknaðar verðbætur út frá viðmiðunarvísitölu og telst samtala þessara verðbóta leiðréttar verðbætur við útreikninginn. Í 5. mgr. kemur fram að leiðrétting einstaklings og hámark hennar ráðist af hjúskapar- eða heimilisstöðu eins og hún var á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins. Samkvæmt 6. mgr. skal heildarsamtala útreiknaðrar leiðréttingar einstaklings, hjóna, sambýlisfólks sem uppfyllir skilyrði til samsköttunar vegna hjúskaparstöðu sinnar og tveggja eða fleiri einstaklinga sem áttu í sameign heimili að hámarki verða 4 milljónir kr.

Um útreikningana er fjallað nánar í reglugerð nr. 698/2014 um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar kemur fram í 1. mgr. 4. gr. að viðmiðunarvísitölur skv. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014 miðist við 5,8% hækkun á ársgrundvelli. Þannig verði hvert gildi viðmiðunarvísitölu láns jafnt og síðasta gildi á undan margfaldað með 1,058 í veldinu einn deilt með tólf. Tekið er fram í 2. mgr. að öll lán skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014 skuli reikna sem eina heild miðað við þá lánaskilmála sem voru í gildi við upphaf leiðréttingartíma viðkomandi láns, óháð því hvort lán hafi færst á milli kröfuhafa eða innheimtuaðila á leiðréttingartímabilinu. Í 3. mgr. segir að fjárhæð leiðréttingar einstaklings og hámark hennar ráðist skv. 5. mgr. 7. gr. laga nr. 35/2014 af hjúskapar- eða heimilisstöðu eins og hún var á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Ef breytingar hafi orðið á á högum umsækjanda, einu sinni eða oftar, sbr. 1. málsl., á leiðréttingartímabilinu skal útreikningur leiðréttingar miða við að breytingin taki gildi í sama mánuði. Að lokum segir í 4. mgr. að heildarsamtala fjárhæðar útreiknaðrar leiðréttingar hvers heimilis geti að hámarki orðið 4 millj. kr. Við útreikning á hámarki leiðréttingar hvers heimilis skuli, eftir atvikum, skipta fjárhæð leiðréttingar í samræmi við breytingar á hjúskapar- eða heimilisstöðu hvers einstaklings á hverjum tíma innan leiðréttingartímabilsins.

 

III.

Ljóst er af framangreindu að útreikningur á leiðréttingu hvers láns, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna, skuli miðast við mismun raunverðbóta og leiðréttra verðbóta. Á því tímabili er kærendur voru skuldarar að láni bankans X nr. 1 var vísitölugildi lánsins og forsenda útreiknings raunverðbóta 279,9 í desember 2007, 281,8 í janúar 2008, 282,6 í febrúar 2008 og 282,3 í mars 2008. Leiðréttingarvísitala sem er forsenda leiðréttra verðbóta er sett jöfn raunvísitölu, 279,9 stig í desember 2007 og reiknast svo 281,218 stig í janúar, 282,543 í febrúar og 283,873 í mars. Hún er þannig lægri í febrúar og mars en vísitölugildi lánsins. Leiðréttingarfjárhæð samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014 er því neikvæð fyrir það tímabil sem kærendur voru skuldarar að láninu.

Með vísan til tilvitnaðra lagaákvæða hefur úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána yfirfarið mál kærenda. Ákvörðuð fjárhæð leiðréttingar kærenda hjá ríkisskattstjóra er 0 kr. og í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hana gilda. Ákvörðun ríkisskattstjóra um leiðréttingarfjárhæð verður ekki hnekkt og er kröfu kærenda því hafnað. 

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Kröfu kærenda er hafnað


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta