Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána

Úrskurður nr. 501/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 501/2015


Ár 2015, mánudaginn 14. september, er tekið fyrir mál nr. 522/2015; kæra A og B, dags. 27. maí 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 I.


Málavextir eru þeir að af hálfu kærenda var sótt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 11. ágúst 2014. Þann 29. janúar 2015 sendi ríkisskattstjóri fyrirspurnir til kærenda þar sem lán sem tilgreind höfðu verið í reit 5.2. í skattframtölum kærenda voru ekki skráð á þeirra nöfn á leiðréttingartímabili 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána og ekki fyrr en árið 2014. Samskipti við kærendur leiddu í ljós að lánin hefðu verið skráð á félagið F ehf., allt frá fasteignakaupum kærenda og fram til ársins 2011. Kærendur kváðu þar hafa verið um mistök að ræða.

Þann 25. apríl 2015 tilkynnti ríkisskattstjóri kærendum að í samræmi við 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014 verða aðeins verðtryggð fasteignaveðlán sem veitt eru einstaklingum tekin með til útreiknings leiðréttingarinnar. Miðað við þær upplýsingar sem komið hefðu fram væri lántaki lánanna sem kærendur krefðust leiðréttingar á einkahlutafélag. Lánin uppfylltu því ekki skilyrðið um að hafa verið veitt einstaklingi. Því yrðu lánin ekki tekin með við útreikning leiðréttingar skv. lögum nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.

Útreikningur á leiðréttingu kærenda var birtur þeim 27. apríl 2015 og grundvallaðist á þeirri forsendu að engin verðtryggð lán væru til staðar í tilviki kærenda á leiðréttingartímabili 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014.

Í kæru til úrskurðarnefndar, dags. 27. maí 2015, var kærð fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014. Vísa kærendur til þess að rök ríkisskattstjóra fyrir framangreindri niðurstöðu sinni virðist vera að lántaki lánsins hafi verið einkahlutafélag og lánið uppfylli því ekki skilyrði um að það hafi verið veitt einstaklingi, sbr. 1.mgr. 3.gr. laga nr. 35/2014. Kærendur segjast mótmæla þessu og krefjast leiðréttingar á lánum sjóðs X nr. 11, 12 og 13. Kærendur segjast hafa keypt fasteignina að S-götu af F ehf. og tekið yfir áhvílandi lán við sjóðinn X við kaupin. Lánin hafi upphaflega verið tekin af C á árunum 1986 til 1987 og lánsnúmer verið 1, 2 og 3. Lánin voru upphaflega tekin af einstaklingi og við afsal dags. 29. ágúst 2005 hafi kærendur orðið skuldarar nefndra lána. Vegna mistaka hafi nafnabreyting skuldara ekki verið gerð fyrr en 2011. Kærendur hafi frá kaupum árið 2005 greitt af nefndum lánum eins og sjáist á skattframtölum þeirra. Kærendur séu því óumdeilanlega skuldarar nefndra lána. Kærendur telji því að þau eigi fullan rétt á leiðréttingu samkvæmt lögum nr. 35/2014. Meðfylgjandi kæru var afrit af afsali dags. 29. ágúst 2005, þinglýstu 9. september 2005, afrit af skjali vegna yfirtöku lána, dags. 13. júlí 2011 og þinglýst 20. sama mánaðar, ásamt upphaflegum skuldabréfum, árituðum um yfirtöku þann 11. júlí 2015.

 

II.


Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014 kemur fram það skilyrði fyrir því að lán sé leiðrétt samkvæmt ákvæðum þeirra laga að umrætt lán hafi verið veitt einstaklingum af lögaðilum sem uppfylla, eða uppfylltu á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009, sömu skilyrði og lögaðilar skv. 2. mgr. 2. gr. laganna. Gögn málsins, nánar tiltekið afsal dags. 29. ágúst 2005, þinglýst 9. september sama ár, bera með sér að kærendur hafi þann 29. ágúst 2005 tekið að sér greiðslu lána sjóðsins X nr. 11, 12 og 13, sem þau krefjast nú leiðréttingar á, jafnvel þótt formlegt yfirtökuskjal hafi ekki verið undirritað fyrr en árið 2011. Kærendur töldu á leiðréttingartímabili 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014 umrædd þrjú lán sjóðsins X fram í reit 5.2. í skattframtölum sínum og voru lánin þannig grundvöllur útreiknings vaxtabóta vegna þeirra ára. Hafa kærendur byggt á því að þau hafi alla tíð verið greiðendur umræddra lána.

Við málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar hafa verið lögð fram gögn sem hafa ekki sætt efnisúrlausn hjá ríkisskattstjóra. Með vísan til 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 er kæran send ríkisskattstjóra til nýrrar ákvörðunar leiðréttingarfjárhæðar.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Kærunni ásamt gögnum er vísað til ríkisskattstjóra til nýrrar ákvörðunar leiðréttingarfjárhæðar.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta