Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána

Úrskurður nr. 348/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

nr. 348/2015

 

Ár 2015, fimmtudaginn 18. júní, er tekið fyrir mál nr. 329/2015; kæra A og B, dags. 19. mars 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 I.

Málavextir eru þeir að af hálfu kærenda var sótt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 30. ágúst 2014. Útreikningur á leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána kærenda grundvallaðist á lánum lánastofnunarinnar X sem tilgreind voru í lið 5.2 í skattframtölum kærenda árin 2009 og 2010 vegna tekjuáranna 2008 og 2009, nánar tiltekið á lánum nr. 1, 2, 3 og 4.

Þann 15. nóvember 2014, gerðu kærendur athugasemd til ríkisskattstjóra á grundvelli 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, við útreikning leiðréttingarfjárhæðar vegna rangra upplýsinga um lán. Með kæru, dags. 24. desember 2014, kærðu kærendur fjárhæð og framkvæmd leiðréttingar, sbr. 9. og 11. gr. laga nr. 35/2014. Þá hafði ríkisskattstjóri ekki tekið afstöðu til athugasemda kærenda. Vegna þess var kæru vísað frá úrskurðarnefndinni þann 11. febrúar 2015, með vísan til 7. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þann 16. mars 2015 svaraði ríkisskattstjóri athugasemd kærenda. Í svarinu kom fram að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014 taki leiðrétting til verðtryggðra fasteignaveðlána sem veitt hafi verið einstaklingum af lögaðilum sem uppfylla, eða uppfylltu á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009 þau skilyrði að starfa samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Lánið sem kærendur krefjist þess að lagt verði til grundvallar uppfylli ekki þessi skilyrði, þrátt fyrir að hafa verið til innheimtu hjá bankanum Y. Erindi kærenda var því hafnað.

Með kæru til úrskurðarnefndar, dags. 19. mars 2015, er kærð fjárhæð og framkvæmd leiðréttingar, sbr. 9. og 11. gr. laga nr. 35/2014. Í kæru er vísað til fyrri kæru. Kærendur segjast hafa verið með vísitölutryggt veðlán á sínu íbúðarhúsnæði. Það hafi verið tekið við  kaupin árið 1987 og kærendur síðan greitt af af því árlega til bankans Y. Hver hafi átt bréfið ef það hafi ekki verið bankans, þetta lán sé eins og þau lán sem leiðréttingunni sé ætlað að leiðrétta. Nú þegar ríkisskattstjóri loks úrskurði vilji kærendur kæra þann úrskurð og vænti þess að umrætt lán verði tekið með sem slíkt. Kærendur segjast vita þess dæmi að það hafi verið gert. Fylgigögn kæru voru greiðsluseðlar áranna 2009 til 2012 og afrit skuldabréfs. Þar kom fram að kröfuhafi væri C og að bankinn Y annaðist innheimtu bréfsins.

 

II.

Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014 kemur fram það skilyrði fyrir því að lán sé leiðrétt samkvæmt ákvæðum þeirra laga að umrætt lán hafi verið veitt einstaklingum af lögaðilum sem uppfylla, eða uppfylltu á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009, sömu skilyrði og lögaðilar skv. 2. mgr. 2. gr. laganna. Þar er um að ræða þ.e. lífeyrissjóði, Íbúðalánasjóð og fjármálafyrirtæki sem starfa skv. lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Gögn málsins bera með sér að lánveitandi að láni kærenda sé C. Engin fyrirliggjandi gögn benda til þess að lánveitandi hafi á einhverjum tímapunkti breyst. Afrit greiðsluseðla bera eingöngu með sér að um innheimtuskuldabréf hafi verið að ræða, til innheimtu hjá bankanum Y en ekki að bankinn hafi verið kröfuhafi. Kærendur hafa ekki byggt á því að kröfuhafi sé lífeyrissjóður eða starfi samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og því ekki að sjá að framangreint lagaskilyrði 1. mgr. 3. gr., sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 35/2014 sé uppfyllt. Ákvörðun ríkisskattstjóra á leiðréttingafjárhæð kærenda, sem byggir á því að lán lánastofnunarinnar X nr. 1, 2, 3 og 4 verði leiðrétt,  hefur að öðru leyti ekki sætt andmælum og verður því ekki hnekkt. Kröfu kærenda er hafnað.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Kröfu kærenda er hafnað.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta