Úrskurður nr. 341/2015
ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA
nr. 341/2015
Ár 2015, fimmtudaginn 18. júní, er tekið fyrir mál nr. 150/2015; kæra A og B, dags. 3. febrúar 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Málavextir eru þeir að kærendur sóttu um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána sinna þann 29. ágúst 2014. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð kærenda var 0 kr. og var sú fjárhæð birt kærendum 8. nóvember 2014.
Kærendur sendu athugasemd til ríkisskattstjóra á grundvelli 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, þann 18. nóvember 2014.
Ríkisskattstjóri svaraði athugasemd kærenda þann 12. janúar 2015. Þar kom fram að í september 2014 hefði verið samþykkt að færa veðkröfu niður í 100% verðmæti eignar og því væri um að ræða hlutaafskrift að fjárhæð 4.800.086 kr. Í viðhengi fylgdi sundurliðun á hlutaafskrift frá bankanum X í desembermánuði 2014. Þar kom fram að uppgreiðsluverðmæti við afskrift hefði verið 4.800.086 kr. á láni nr. 1.
Með kæru, dags. 3. febrúar 2015, hefur umboðsmaður kærenda kært fjárhæð leiðréttingar fyrir hönd kærenda. Kærendur krefjast þess að fallið verði frá frádrætti vegna niðurfærslu frá bankanum X. Í kæru kemur fram að kærendur kannist ekki við að hafa fengið niðurfærslu hjá bankanum X. Kærendur hefðu tekið verðtryggt lán hjá lánastofnuninni Y til húsnæðiskaupa árið 2005. Kærandi, B, hafi orðið atvinnulaus í kjölfar falls bankanna árið 2008. Í apríl 2009 hefði lánastofnunin Y samþykkt að eingöngu yrðu greiddir vextir af láninu í skamman tíma. Láninu hafi verið skuldbreytt í ágústmánuði 2009 og fjárhæð þess verið 35.585.889 kr. Á árinu 2010 hafi verið sótt um fyrirgreiðslu til bankans á grunni úrræða sem stjórnvöld hefðu samið um vegna skuldavanda einstaklinga. Þeirri umsókn hafi verið synjað þar sem lánastofnunin Y hafi haldið því fram að skilmálabreyting hefði haft í för með sér að lánið frá árinu 2005 hefði orðið að nýju láni teknu 2009 og að úrræði stjórnvalda giltu ekki um lán tekin eftir 1. janúar 2008. Kærendur hafi síðan sótt um sértæka skuldaaðlögun hjá lánastofnuninni Y í febrúar 2011. Kærendur hafi hætt að greiða af láninu á þeim tíma, með samþykki lánastofnunarinnar Y og beðið úrlausnar lánastofnunarinnar. Bankinn X hafi yfirtekið lánastofnunina Y á haustmánuðum 2011 og þegar leitað hafi verið eftir niðurstöðu málsins hjá bankanum X 2012 hafi komið í ljós að starfsmaður lánastofnunarinnar Y hafi lokað málinu án þess hafa samband við kærendur eða tilkynna þeim um afgreiðsluna. Áfram hafi verið reynt að fá skuldaleiðréttingu hjá bankanum X án árangurs og viðræður hafi átt sér stað milli starfsmanna lögfræðideildar bankans og umboðmanns kærenda. Þeim viðræðum hafi lokið með skuldbreytingu í septembermánuði 2014. Með skuldbreytingunni hafi höfuðstóll lánsins, ásamt áföllnum gjalddögum, verið settur í 30 ára greiðsluferli með mánaðarlegum afborgunum. Umboðsmaður kæranda segir að höfuðstóll lánsins hafi ekki verið lækkaður og engar afborganir felldar niður. Breytingin hafi falist í því að áfallnir dráttarvextir hafi verið endurskoðaðir og vanskil reiknuð á ný á grundvelli þeirra vaxta sem hafi verið samið um við lántökuna á sínum tíma. Umboðsmaður kærenda leggur áherslu á að þetta hafi verið tilkomið vegna þess að kærendur hafi þurft að bíða eftir niðurstöðu frá árinu 2001 og samþykkti bankinn því að fella niður innheimtuþóknun, enda hafi málinu lokið án innheimtu og felldur hafi verið niður annar kostnaður, sem bankinn hafði fært á mál þeirra. Engin niðurfærsla höfuðstóls hafi átt sér stað. Í samkomulagi sem gert hafi verið við bankann X í septembermánuði 2014 væri hvergi minnst á niðurfellingu lána eða afskriftir af hálfu bankans. Meðfylgjandi kæru var samkomulag við bankann X, dags. í septembermánuði 2014, staða láns 4. janúar 2011 og 4. janúar 2014 og greiðsluáskorun dags. 11. mars 2014.
Þann 13. maí 2015 leitaði úrskurðarnefndin eftir umsögn bankans X og fór fram á að bankinn upplýsti nefndina um hvort kærendur hefði notið niðurfærslu í skilningi 8. gr. laga nr. 35/2014. Í umsögn bankans X, dags. 3. júní 2015, kemur fram að umboðsmaður kærenda hafi þann 23. september 2014 lagt til við lánanefnd bankans að veðskuldir yrðu færðar í 46,4 milljónir krónur og að fjárnámi yrði aflétt. Tillagan hafi verið sú að að veðskuldabréf yrði sett í 100% af meðaltali verðmata, um 44 milljónir króna auk áfallinna gjalddaga ársins 2014, alls 46,4 milljónir króna. Þessi tillaga hafi verið samþykkt. Staða skuldarinnar hafi þá verið um 51,2 milljónir króna, þar af um 13,6 milljónir króna í vanskilum. Afskrift hafi þar af leiðandi verið um 4,8 milljónir króna. Þá kemur fram að bankinn fallist ekki á að drátt á framkvæmd úrræðis vegna greiðsluerfiðleika megi rekja til hans eða forvera hans. Að mati bankans hafi úrlausn í máli kærenda verið í anda 110% leiðar þó miðað hafi verið við lægra veðhlutfall og ekki verði séð að gert verði upp á milli kærenda og manna sem fóru 110% leiðina. Bankinn X telur að 8. gr. laga nr. 35/2014 eigi við um lækkunina, sbr. 1. gr. laga nr. 102/2014, um breytingu á lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, nr. 35/2014 (frádráttarliðir).
Kærendum var send umsögn bankans X þann 3. júní 2015. Í svari þeirra, dags. 8. júní 2015, kemur fram að dráttarvextir hafi verið felldir niður og samningsvextir greiddir ásamt því að lögfræði- og innheimtukostnaður hafi verið felldur niður. Þetta telji kærendur ekki geta verið fellt undir niðurfellingu sem lög nr. 35/2014 taki til. Þá séu ítrekuð þau sjónarmið sem fram koma í kæru, um að kærendur hafi ekki notið neinna úrræða sem talin eru upp í 8. gr. laga nr. 35/2014. Þá kom fram að kærendur telji að vísun bankans X til bráðabirgðaákvæðis XXXVII í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt ekki hafa þýðingu við úrlausn í máli þeirra.
II.
Ágreiningsefni máls þessa snýr að fjárhæð leiðréttingar. Nánar tiltekið snýr hann að frádrætti frá útreiknaðri leiðréttingu. Um frádráttarliði einstaklinga er fjallað í 8. gr. laga nr. 35/2014. Þar kemur fram að frá þeirri fjárhæð leiðréttingar sem ákvarðast samkvæmt 7. gr. laganna skuli draga m.a. samtölu hlutdeildar einstaklings í niðurfellingu vegna fasteignaveðlána sem glatað hafa veðtryggingu í kjölfar nauðungarsölu eða annarri ráðstöfun eignar eftir 1. janúar 2008. Í 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna kemur fram að hið sama eigi við um endanlega niðurfellingu fasteignaveðlána. Í 2. mgr. 8. gr. laganna er sérstaklega ítrekað að önnur almenn lækkun frá og með 1. janúar 2008, sem var sambærileg þeim úrræðum sem getur í b- og c-lið 1. mgr. greinarinnar og telst ekki til tekna samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXXVII í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, skuli dregin frá útreiknaðri leiðréttingu samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014.
Nánar er fjallað um frádráttarliði í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar segir að þeir frádráttarliðir einstaklings skv. 8. gr. laga nr. 35/2014 sem komið hafa til framkvæmda eða samkomulag verið gert um, á tímabilinu 1. janúar 2008 til samþykktardags ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laganna dragist frá leiðréttingarfjárhæð skv. 7. gr. laga nr. 35/2014. Sömu tímafrestir skuli gilda um kröfur sem glatað hafa veðtryggingu en hafi ekki verið felldar endanlega niður gagnvart umsækjenda, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014.
Ágreiningslaust virðist vera að samkvæmt samkomulagi frá septembermánuði 2014 hafi bankinn X lækkað fasteignaveðkröfu sína. Hefur því ekki verið mótmælt að samkvæmt samkomulaginu, sem kærendur undirrituðu, nam afskrift 4.800.086 kr. Er sú fjárhæð umfram útreiknaða leiðréttingarfjárhæð kærenda, sbr. 7. gr. laga nr. 35/2014. Kærendur virðast einkum byggja málatilbúnað sinn á því að umrædd lækkun láns hafi eingöngu verið vegna kostnaðar vegna dráttar sem varð við afgreiðslu máls þeirra en ekki verið vegna lækkunar á upphaflegri skuld þeirra við bankann. Þá er jafnframt byggt á því að lækkun á láni þeirra falli ekki undir 8. gr. laga nr. 35/2014. Í málinu liggur fyrir að bankinn X lækkaði fasteignaveðlán nr. 1 sem tryggt var með veði í fasteigninni F1 um 4.800.086 kr. Í þessu samhengi skiptir ekki máli að lán kærenda hafi hækkað vegna vanskila og innheimtukostnaðar. Vegna sjónarmiða kærenda, um að umrædd lækkun á láni falli ekki undir 8. gr. laga nr. 35/2014, þykir rétt að vísa til ummæla sem fram koma í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 102/2014, um breytingu á lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, nr. 35/2014 (frádráttarliðir). „Í einhverjum tilvikum kann að mega halda því fram að einstakir liðir 1. mgr. 8. gr. hafi ekki verið gerðir fyrir atbeina stjórnvalda þar sem til dæmis fjármálastofnanir hófu beitingu úrræðanna fyrir undirritun viðkomandi samkomulags. Til að bregðast við þessu er talið rétt að lögfesta nýja málsgrein sem tekur af allan vafa um það að sambærileg úrræði leiða til sömu niðurstöðu hvað leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána varðar.“ Jafnframt er ljóst af greinagerð með frumvarpi að lögum nr. 102/2014 að lögin fólu ekki í sér breytingar á efnisatriðum laga nr. 35/2014 heldur var lagt til að tryggari og skýrari lagastoð yrði sett vegna þeirra frádráttarliða sem raktir voru í 8. gr. laganna. Skilyrði er að um fasteignaveðlán hafi verið að ræða og er það skilyrði uppfyllt.
Með vísan til framangreinds er ljóst að frádráttur vegna niðurfellingar hluta fasteignaveðláns nr. 1 er í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hana gilda. Ákvörðun ríkisskattstjóra um útreikning leiðréttingarfjárhæðar, að teknu tilliti til frádráttarliða, verður ekki hnekkt. Kröfu kærenda er því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kærenda er hafnað.