Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána

Úrskurður nr. 385/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 385/2015



Ár 2015, fimmtudaginn 9. júlí, er tekið fyrir mál nr. 317/2015; kæra A, dags. 18. mars 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 28. júní 2014. Kæranda var birt ákvörðun um útreikning leiðréttingarfjárhæðar og framkvæmd hennar sitt í hvoru lagi. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð var samtals 257.299 kr. og var sú fjárhæð birt henni 11. nóvember 2014.

Með kæru, dags. 18. mars 2015, hefur kærandi kært fjárhæð og framkvæmd leiðréttingar, sbr. 9. og 11. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í kæru kemur fram þegar kærandi opni skjalið varðandi leiðréttinguna inni á leiðretting.rsk.is sjái hún að það sé skráð að hún hafi farið 110% leiðina. Það sé ekki rétt og þetta sé í fyrsta sinn sem kærandi sjái að hún hafi farið þá leið. Það sé hvergi skráð og kærandi hafi aldrei verið látin vita af því. Hún hafi sótt um 110% leiðina til banka X á sínum tíma en ekki fengið hana samþykkta vegna þess að banki Y hafi átt lánin. Banki X hafi verið til í að semja við kæranda en banki Y hafi ekki tekið það í mál. Kærandi hafi leitað allra leiða með banka Y en ekkert hafi gengið og bankinn verið erfiður í samningum. Kærandi hafi óskað eftir því að lengja lánið og hafa afborganirnar þannig að kærandi myndi ráða við þær en það hafi bankinn ekki viljað. Kærandi hafi óskað eftir 110% leiðinni en bankinn ekki viljað fella neitt niður fyrir hana. Kærandi hafi tvisvar verið með kaupendur á íbúðinni en að mati banki Y hafi þeir ekki verið nógu sterkir. Kærandi telur að banki Y hafi bara haft eitt markmið og það hafi verið að ná íbúðinni af henni. Að lokum hafi það verið niðurstaðan að banki Y tæki yfir íbúðina og þau lán sem á henni voru. Við undirskrift og afhendingu íbúðarinnar hafi banki Y fellt niður einhvern hluta lána. Kærandi hafi skrifað undir pappíra en ekki fengið afrit sjálf. Það hafi átt að stimpla þá og senda kæranda í tölvupósti en það hafi aldrei gerst. Eftir að niðurstaða hafi verið komin í málið hafi kærandi mátt leigja fasteignina af banka Y á 100.000 kr. á mánuði í eitt ár. Kærandi hafi viljað losna strax en til þess hafi hún orðið að greiða banka Y 1.200.000 kr. Kærandi hafi þá tekið yfirdráttarlán og millifært fjárhæðina til banka Y. Kærandi spyr hvort sá peningur hefði átt að ganga upp í það sem fellt hafi verið niður. Kærandi segir að við undirskrift og afhendingu íbúðar hafi lán verið fellt niður og hafi það verið í hag banka Y en ekki kæranda. Hún hefði búið áfram í fasteign sinni ef 110% leiðin hefði verið farin.

Í tilefni af kæru kæranda sendi úrskurðarnefndin banka X umsagnarbeiðni, þann 12. júní 2015, með vísan til 5. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014. Var óskað upplýsinga um það hvort kærandi hafi farið 110% leiðina og eftir atvikum gögnum því til staðfestingar. Hafi kærandi ekki farið 110% leiðina var óskað upplýsinga um tilurð og útreikning fjárhæða annarra frádráttarliða 8. gr. laga nr. 35/2014.

Svar banka X barst samdægurs. Þar kom fram að ranglega hafi verið bókuð 110% leiðrétting sem hafi átt að vera glötuð veðkrafa. Það hafi verið þrjú lán frá sjóði Z áhvílandi á eign kæranda að M götu. Sjóður Z hafi samþykkt að fella niður lán á 2. og 3. veðrétti fasteignarinnar gegn afhendingu hennar. Það hafi verið gert og þannig séu hinar glötuðu veðkröfur tilkomnar.

Svar banka X var sent kæranda og henni gefinn kostur á að leggja fram gögn til skýringar og tjá sig um þau atriði sem hún teldi ástæðu til innan 7 daga. Tekið var fram að kærandi mætti að þeim tíma liðnum búast við að úrskurðarnefndin tæki mál hennar til meðferðar eins og það lægi fyrir. Kærandi svaraði ekki erindi nefndarinnar.

 

II.

Ágreiningsefni máls þessa snýr í raun að fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Útreiknuð leiðrétting samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, er 2.894.625 kr. hjá kæranda. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ákvörðun ríkisskattstjóra um leiðréttingarfjárhæð byggist á, eru samtals 2.637.326 kr. dregnar frá útreiknaðri leiðréttingarfjárhæð lána samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014, sbr. 8. og 9. gr. laganna. Þar af eru 2.402.918 kr. vegna 50% lána banka X (áður banka Y) nr. 1 og 2, glatað hafa veðtryggingu sinni og 234.408 kr. vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu sem ekki hefur sætt andmælum af hálfu kæranda.

Um frádráttarliði einstaklinga er fjallað í 8. gr. laga nr. 35/2014. Þar kemur fram að frá þeirri fjárhæð leiðréttingar sem ákvarðast samkvæmt 7. gr. laganna skuli draga m.a. samtölu hlutdeildar einstaklings í niðurfellingu vegna fasteignaveðlána sem glatað hafa veðtryggingu í kjölfar nauðungarsölu eða annarri ráðstöfun eignar eftir 1. janúar 2008. Af umfjöllun um 8. gr. í greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 35/2014 kemur fram að ákvæðið eigi við um nauðungarsölu. Síðan segir þar: „Hið sama gildir þegar söluverð eignar í almennri sölu nægir ekki til greiðslu áhvílandi veðskulda og einnig þegar kröfuhafar hafa leyst til sín yfirveðsettar eignir. Hafi umsækjandi þannig þegar fengið felldar niður fasteignaveðkröfur umfram verðmæti eignar í kjölfar nauðungarsölu, sölu á almennum markaði eða í kjölfar eignaráðstöfunar í skuldaskilum við lánveitanda er talið rétt að slík niðurfelling komi til frádráttar leiðréttingu skv. 7. gr. frumvarpsins.“

Nánar er fjallað um frádráttarliði í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar segir að þeir frádráttarliðir einstaklings skv. 8. gr. laga nr. 35/2014 sem komið hafa til framkvæmda eða samkomulag verið gert um, á tímabilinu 1. janúar 2008 til samþykktardags ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laganna dragist frá leiðréttingarfjárhæð skv. 7. gr. laga nr. 35/2014. Sömu tímafrestir skuli gilda um kröfur sem glatað hafa veðtryggingu en hafi ekki verið felldar endanlega niður gagnvart umsækjenda, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014. Hið sama á við um sérstaka vaxtaniðurgreiðslu, sbr. f-lið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014.

 Ágreiningslaust virðist vera að ráðstöfun fasteignar kæranda fór fram eftir 1. janúar 2008. Samkvæmt gögnum frá banka X sem fjallað var um hér að framan og hafa ekki sætt andmælum kærenda, nam 50% fjárhæða krafna sem glatað hafa veðtryggingu sinni 2.402.918 kr. og var endanlega felld niður gagnvart kæranda. Samkvæmt forsendum ríkisskattstjóra var umræddur frádráttur vegna 110% leiðar, sbr. c-lið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014, en ljóst er af umsögn banka X að það var ekki rétt. Fjárhæð frádráttarliðarins er þó óbreytt og dregst frá útreiknaðri leiðréttingu lána, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014 auk sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu.

 Með vísan til framangreinds er ljóst að frádráttur vegna niðurfellingar vegna fasteignaveðlána nr. 1 og 2 sem hafa glatað veðtryggingu er í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hana gilda. Ákvörðun ríkisskattstjóra um útreikning leiðréttingarfjárhæðar, að teknu tilliti til frádráttarliða, verður ekki hnekkt. Kröfu kæranda er því hafnað.

            

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Kröfu kæranda er hafnað.



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta