Úrskurður nr. 549/2015
ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA
NR. 549/2015
Ár 2015, fimmtudaginn 15. október 2015, er tekið fyrir mál nr. 518/2015; kæra A, og B, dags. 25. maí 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Málavextir eru þeir að kærendur sóttu um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 11. ágúst 2014. Við vinnslu máls kærenda sendi ríkisskattstjóri kærendum fyrirspurn og áttu sér stað samskipti milli þeirra á tímabilinu 15. desember 2014 til 7. mars 2015. Útreiknuð leiðrétting lána kærenda var samtals 3.238.656 kr. Frádráttur vegna niðurfærslna var 3.849.876 kr. Leiðréttingarfjárhæð kærenda var því 0 kr. og var sú fjárhæð birt þeim 8. maí 2015.
Með kæru, dags. 25. maí 2015, hafa kærendur kært fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í kæru kemur fram að forsendur fyrir höfnun séu rangar vegna þess að kærendur hafi aldrei undirgengist svokallaða 110% leið, enda fasteign þeirra ekki yfirveðsett. Tekið var fram í kæru að kærendur væru bæði ólöglærð og áskildu sér rétt til að færa frekari rök fyrir kærunni.
Viðbótarrökstuðningur barst frá kærendum þann 19. ágúst 2015. Í honum kom fram að það hefði komið kærendum á óvart þegar þau hafi frétt að þau hefðu ekki fallið undir skilyrði leiðréttingar ríkisstjórnarinnar á verðtryggðum fasteignaveðlánum. Kærendur hafi kært þá niðurstöðu og jafnframt leitað frekari skýringa á stöðu sinni, meðal annars með því að senda banka X erindi vegna lána sem hafi hvílt á fasteigninni F. Kærendum hafi nú borist svar frá banka X um að hann telji sig hafa verið að leiðrétta lán 1 með skírskotun til svokallaðrar 110% leiðar. Vísi bankinn um það til bréfs síns, dag. 29. janúar 2014. Í því bréfi hafi verið vísað til tveggja tilgreindra dóma Hæstaréttar um lækkun gengistryggðra fasteignalána og gefinn upp endurútreikningur skv. þeim dómum. Á hinn bóginn var jafnframt sagt að lán 1 hafi verið hluti af 110% úrræði, án gleggri skýringar.
Kærendur byggja á að ekki verði með öruggum hætti ráðið af bréfi banka X að lækkunin hafi verið vegna 110% leiðar, heldur frekar vegna dóma Hæstaréttar sem vísað hafi verið til. Kærendur benda á að fasteign þeirra F, hafi aldrei verið yfirveðsett. Um það beri þinglýsingavottorð merki. Þessi einhliða lækkun bankans verði ekki dregin til baka, enda sé það ekki ósk kærenda að það verði gert. Á hinn bóginn eigi hún ekki að þurfa að koma í veg fyrir að kærendur fái leiðréttingu á öðrum fasteignaveðlánum líkt og aðrir landsmenn. Kærendur vísa að lokum til þess að þau hafi orðið illa úti vegna þeirra fjármálavandræða sem hafi gengið yfir haustið 2008 og síðar. Erfiðleikar þeirra með greiðslu lána sem á fasteign þeirra hafi hvílt hafi aukist til muna.
Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar banka X þann 3. september 2015, með vísan til 5. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014. Farið var fram á að banki X upplýsti úrskurðarnefndina um hvort kærendur hafi notið 110% niðurfellingar og sendi gögn sem staðfestu það. Umsögn banka X barst 4. september 2015. Þar kom fram að í maí 2011 hafi banki X tilkynnt opinberlega að lán með veði í íbúðarhúsnæði yrðu færð niður í 110% veðsetningarhlutfall miðað við fasteignamat í ákveðnum tilvikum, án þess að sótt væri um það. Hafi þetta átt við um lán með veði í íbúðarhúsnæði með fasteignamat allt að 30.000.000 kr. Lán kærenda nr. 1 hafi fallið undir úrræðið, enda hafi fasteignamat veðsins, fasteignar F, þá numið 26.550.000 kr. Meðfylgjandi umsögn bankans var afrit af kvittun fyrir afskrift á láni nr. 1. Lækkun hafi á viðmiðunardegi, þann 1. júlí 2011, numið 4.315.693 kr. Meðfylgjandi umsögninni var einnig afrit af bréfi, dags. 29. janúar 2014, sem banki X kvað hafa verið sent kærendum eftir að í ljós hafi komið að leiðrétta hafi þurft endurútreikning á umræddi láni. Hefði lánið ekki notið 110% leiðar hefði ný staða þess eftir leiðréttan endurútreikning numið 4.920.712 kr. Staða eftir 110% leið hafi numið 1.402.027 kr. og því hafi það úrræði verið látið standa í stað leiðréttingar á endurútreikningi, enda hagfelldara fyrir kærendur. Skráð niðurfærsla vegna 110% leiðar hafi verið lækkuð úr ofangreindri afskriftarfjárhæð um þann mun sem hafi verið á láni fyrir leiðréttan endurútreikning og eftir, enda ljóst að ef búið hefði verið að leiðrétta endurútreikninginn hefði afskrift samkvæmt 110% leið verið lægri sem næmi þeim mismun. Mismunur hafi numið 797.008 kr. og því hafi afskrift verið lækkuð í 3.518.685 kr. og þar með fjárhæð skráðrar niðurfærslu.
Í umsögn banka X var jafnframt tekið fram að ofangreint lán hvíldi nú á 5. veðrétti á fasteign F. Til að ákvarða afskriftarfjárhæð samkvæmt 110% leið hafi verið miðað við fasteignamat á fasteign F. Áhvílandi á 1.-3. veðrétti hafi verið lán frá sjóði Y og á 4. veðrétti hafi hvílt lán frá Z sjóði. Lán banka X nr. 1 (áður í sjóði Þ) hafi verið á 5. veðrétti. Staða áhvílandi lána, að frádregnu fasteignamati, hafi myndað upphaflega afskriftarfjárhæð.
Banki X vísar í umsögn sinni í lög um leiðréttingu veðtryggðra fasteignaveðlána nr. 35/2014. Í c-lið 8. gr. komi fram að draga skuli frá leiðréttingarfjárhæð lækkun skulda samkvæmt eða í tilefni af samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila, óháð því hvort sótt hefur verið um slíka lækkun eða hún framkvæmd að frumvæði lánveitanda. Það sé því niðurstaða banka X að kærendur hafi notið 110% niðurfærslu að fjárhæð 3.518.685 kr.
Umsögn banka X ásamt fylgiskjölum var send kærendum þann 9. september 2015 og þeim gefinn kostur á að leggja fram gögn til skýringar og tjá sig um þau atriði sem þau teldu ástæðu til innan 7 daga. Tekið var fram að að þeim tíma liðnum mættu kærendur búast við að úrskurðarnefndin tæki mál þeirra til meðferðar eins og það lægi fyrir. Kærendur svöruðu ekki erindinu.
II.
Ágreiningsefni máls þessa snýr að fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014. Leiðrétting lána kæranda samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014 er 3.238.656 kr. og hafa kærendur ekki ekki mótmælt fjárhæð hennar. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ákvörðun ríkisskattstjóra um leiðréttingarfjárhæð byggist á, eru samkvæmt 8. gr. laga nr. 35/2014 dregnar samtals 3.849.876 kr. frá útreiknaðri leiðréttingarfjárhæð lána samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014, sbr. 9. gr. sömu laga. Þar af eru 3.518.685 kr. vegna lækkunar láns frá banka X, samkvæmt samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila, dags. 15. janúar 2011 (110% leið), sem ágreiningur í þessu máli snýr að. Auk þess dragast frá 331.190 kr. vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu.
Um frádráttarliði einstaklinga er fjallað í 8. gr. laga nr. 35/2014. Þar kemur fram í c-lið 1. mgr. að frá þeirri fjárhæð leiðréttingar sem ákvarðast samkvæmt 7. gr. laganna skuli draga m.a. lækkun skulda samkvæmt eða í tilefni af samkomulagi lánveitanda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila (110% leiðinni), dags. 15. janúar 2011, óháð því hvort sótt hafi verið sérstaklega um slíka lækkun eða hún framkvæmd að frumkvæði lánveitanda.
Nánar er fjallað um frádráttarliði í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar segir að þeir frádráttarliðir einstaklings skv. 8. gr. laga nr. 35/2014 sem komið hafa til framkvæmda eða samkomulag verið gert um, á tímabilinu 1. janúar 2008 til samþykktardags ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laganna dragist frá leiðréttingarfjárhæð skv. 7. gr. laga nr. 35/2014.
Gögn liggja fyrir um að kærendur hafi verið skuldarar að láni banka X og þar með notið þeirra úrræða sem koma til frádráttar útreiknaðri leiðréttingu. Lán kærenda var lækkað samkvæmt samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila (110% leiðinni). Sú lækkun kemur til frádráttar útreiknaðri leiðréttingu lána kærenda, sbr. c-lið 8. gr. laga nr. 35/2014 og auk þess lækkun vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu, sbr. f-lið sömu lagagreinar.
Með vísan til framangreinds er ljóst að frádráttur frá útreiknaðri leiðréttingu vegna lækkunar láns kærenda, samkvæmt samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila, og vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu, er í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hana gilda. Af umsögn banka X má ráða að aðeins hafi þar verið dregin frá útreiknaðri leiðréttingu lána kærenda sú niðurfærsla sem hafi verið umfram lækkun erlends láns vegna endurútreiknings á því. Hefur það ekki sætt andmælum af hálfu kærenda. Ekki hafa af hálfu kærenda verið gerðar aðrar athugasemdir við einstaka liði útreiknings ríkisskattstjóra. Ákvörðun ríkisskattstjóra um leiðréttingarfjárhæð, að teknu tilliti til frádráttarliða, verður ekki hnekkt. Kröfu kærenda er því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kærenda er hafnað.