Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána

Úrskurður nr. 604/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 604/2015


Ár 2015, fimmtudaginn 15. október, er tekið fyrir mál nr. 595/2015; kæra dánarbús A, dags. 27. júlí 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.

 

Málavextir eru þeir að A sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 20. maí 2014. Hann lést þann 17. október 2014. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð var samtals 1.312.782 kr. og var sú fjárhæð birt umboðsmanni kæranda 9. júlí 2015. Honum var upphaflega tilkynnt þann sama dag að þeirri fjárhæð skyldi ráðstafað inn á lán sjóðs X nr. 1. Umboðsmanni kæranda var síðan tilkynnt í samskiptum sínum við ríkisskattstjóra að leiðréttingarfjárhæðin myndaði sérstakan persónuafslátt.

Með kæru, dags. 27. júlí 2015, hefur umboðsmaður kæranda, kært framkvæmd leiðréttingar. Í kæru eru málavextir raktir. Þar kemur fram að eignin sem lán sjóðs X hvíldi á hafi verið seld þann 27. janúar 2015. Umboðsmanni kæranda hafi verið tilkynnt að dánarbúið fengi ekki niðurfellingu þar sem eignin hafi verið seld og því væru engin lán til staðar. Umboðsmaður kæranda greinir frá því að þeim hafi ekki verið kynnt þessi framkvæmd í samskiptum sínum við ríkisskattstjóra, þrátt fyrir að hafa tekið fram að til stæði að selja eignina. Erfingjarnir telja að þau hefðu beðið með að gera upp dánarbúið ef þeim hefðu verið veittar þessar upplýsingar í tæka tíð. Í kæru er þess krafist að leiðréttingarfjárhæð kæranda verði ráðstafað inn á kröfu Tryggingarstofnunar ríkisins á hendur kæranda, nánar tiltekið skuld vegna erfðafjárskatts, eða inn á lán erfingja.

 

II.

 

Ágreiningsefni máls þessa snýr að framkvæmd leiðréttingar. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ákvörðun ríkisskattstjóra um ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar byggist á skuldar kærandi ekki fasteignaveðlán.

Um framkvæmd leiðréttingar er fjallað í 11. gr. laga nr. 35/2014. Í 1. mgr. þeirrar lagagreinar er fjallað um ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar inn á lán er glatað hafa veðtryggingu sinni. Í 2. mgr. 11. gr. kemur síðan fram að ef sú leiðréttingarfjárhæð sem eftir stendur skv. 1. mgr. sé hærri en 200.000 kr. skuli leiðrétting fara fram með lækkun á verðtryggðum og/eða óverðtryggðum fasteignaveðlánum í íslenskum krónum samkvæmt lagagreininni. Að öðrum kosti fari um framkvæmd leiðréttingar samkvæmt 12. gr.

Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 35/2014 kemur fram að leiðréttingarfjárhæð sem ekki verður ráðstafað skv. 11. gr. myndi sérstakan persónuafslátt. Í 2. mgr. sömu lagagreinar segir að sérstakur persónuafsláttur komi sem viðbót við almennan persónuafslátt við álagningu opinberra gjalda samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 66. gr., sbr. A-lið 67. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þó þannig að hann skuli deilast jafnt niður á fjögur ár án vísitöluhækkunar. Þegar sérstakur persónuafsláttur hefur verið nýttur á móti reiknuðum tekjuskatti, útsvari og fjármagnstekjuskatti skuli sá hluti staðgreiðslu sem nemur eftirstöðvum sérstaka persónuafsláttarins greiddur út án álags samkvæmt 122. gr. laga nr. 90/2003, og að teknu tilliti til ákvæða 112. gr. sömu laga. Sá hluti sérstaka persónuafsláttarins sem ónýttur kann að vera yfirfærist á milli ára þar til hann er fullnýttur eða ráðstöfunartímabilið útrunnið. Ónýttur sérstakur persónuafsláttur millifærist á milli hjóna og samskattaðs sambýlisfólks við álagningu.

Ekki er byggt á því af hálfu kæranda að ágreiningur sé um útreiknaða leiðréttingarfjárhæð. Ágreiningurinn takmarkast við framkvæmd leiðréttingar, nánar tiltekið það að leiðréttingin myndi sérstakan persónuafslátt hjá kæranda. Ekki er til staðar lagagrundvöllur fyrir ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar inn á óveðtryggðar kröfur Tryggingastofnunar ríkisins eða útgreiðslu til erfingja, sem hvorki er maki hins látna eða barn hans undir 18 ára aldri á árinu 2014 sem hefur yfirtekið eignir og skuldir hins látna, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014. Með vísan til framangreinds er ljóst að ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar á þá leið að hún myndi sérstakan persónuafslátt er í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hana gilda. Ákvörðun ríkisskattstjóra um að leiðréttingarfjárhæð 1.312.782 kr., myndi sérstakan persónuafslátt hjá kæranda verður ekki hnekkt. Kröfu kæranda er því hafnað.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 

Kröfu kæranda er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta