Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána

Úrskurður nr. 602/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 602/2015

Ár 2015, fimmtudaginn 15. október, er tekið fyrir mál nr. 548/2015; kæra A, dags. 19. júní 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.

 

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 19. maí 2014. Kæranda var birt ákvörðun um útreikning leiðréttingarfjárhæðar og ráðstöfun hennar sitt í hvoru lagi. Ákvörðuð leiðréttingarfjárhæð kæranda var 1.056.742 kr. og var sú fjárhæð birt henni 11. nóvember 2014. Kæranda var upphaflega tilkynnt að leiðréttingarfjárhæð skyldi ráðstafað inn á lán sjóðs X nr. 1.

Kærandi gerði athugasemd til ríkisskattstjóra, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, við ráðstöfun leiðréttingar þann 5. febrúar 2015 og kvaðst ekki lengur vera skuldari láns sjóðs X. Athugasemdinni var svarað 13. febrúar og 7. maí 2015. Þann 17. júní 2015 tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda að frestur hennar til að samþykkja leiðréttingarfjárhæð rynni út 23. sama mánaðar og sama dag rynni út kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar.

Með kæru, dags. 19. júní 2015, er kærð framkvæmd leiðréttingar, sbr. 11. gr. laga nr. 35/2014. Í kæru kemur fram að kærandi sé ekki greiðandi láns. Kærandi hafi átt með fyrrverandi sambýlismanni sínum íbúð að M götu. Þann 1. desember 2011 hafi þau skilið og kærandi selt fyrrverandi sambýlismanni sínum sinn hluta íbúðarinnar. Um leið hafi hann tekið við öllum áhvílandi lánum. Þegar leiðréttingin hafi komið fyrst hafi kærandi verið stödd á Íslandi og farið í bankann til að athuga með þetta lán. Hvergi hafi verið  hægt að sjá kæranda sem greiðanda fyrr en láninu sjálfu hafi verið flett upp og það skoðað. Þá hafi sést að kærandi hafi verið meðgreiðandi á láni og hafi það verið eina veðlánið sem kærandi hafi verið var meðgreiðandi að. Fyrrverandi sambýlismaður kæranda hafi því farið í bankann og skráð lánið á sitt nafn þar sem eitthvað hafi klikkaði við skilnaðinn. Kærandi hafi sent inn ábendingu en samt fengið aftur leiðréttingu inn á sama lán. Kærandi tekur fram að hún sé skilin, eigi ekki íbúð en hafi samt borgað af henni til 1. desember 2011. Þá hafi hún selt íbúðina sína og kaupandi yfirtekið öll lánin. Hún sé því ekki samþykk því að hennar leiðrétting fari inn á lán á nafni núverandi eiganda íbúðarinnar heldur vilji hún að leiðréttingin komi inn sem sérstakur persónuafsláttur eða fari inn á óverðtryggt lán sem kærandi sé með hjá Y banka á Íslandi.

Þann 25. september 2015 sendi úrskurðarnefndin kæranda erindi. Í því var vísað til þess að samkvæmt umsjónarkerfi leiðréttingarinnar væri gert ráð fyrir að leiðréttingarfjárhæð kæranda yrði ráðstafað inn á lán Z banka nr. 2, en ekki inn á lán sjóðs X sem kærandi hafi upphaflega gert athugasemd við hjá ríkisskattstjóra. Var kærandi beðin um að upplýsa nefndina um það hvort þetta væri rétt ráðstöfun að mati hennar og hvort hún drægi til kæru sína. Ella var óskað eftir upplýsingum inn á hvaða lán kærandi krefðist að leiðréttingarfjárhæð yrði ráðstafað. Kærandi svaraði erindi úrskurðarnefndarinnar þann 26. september 2015.  Í svarinu kom fram að kærandi væri ekki með neitt lán í Z banka.

Í kjölfarið leitaði úrskurðarnefndin umsagnar Z banka þann 28. september 2015. Í umsögn bankans, sem barst samdægurs, kom fram að samkvæmt yfirlýsingu væri fyrrverandi sambýlismaður kæranda nú einn greiðandi af veðskuldabréfinu. Kærandi hafi því ranglega ennþá verið skráð meðgreiðandi í gagnaskilakerfi bankans en búið væri að breyta því og kærandi eftir það skráð skuldlaus við Z banka. Kærandi var upplýst um það 29. september 2015 að málið yrði tekið til meðferðar úrskurðarnefndarinnar m.v. þær forsendur.

 

II.

 

Ágreiningsefni máls þessa snýr að framkvæmd leiðréttingar. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun átti að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð kæranda inn á lán Z banka nr. 2. Kröfugerð kæranda verður að skilja sem svo að hún óski þess að leiðréttingarfjárhæð verði ráðstafað til hennar í formi sérstaks persónuafsláttar, sbr. 12. gr. laga nr. 35/2014.

Um framkvæmd leiðréttingar er fjallað í 11. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í 2. mgr. þeirrar greinar kemur fram að ef sú leiðréttingarfjárhæð sem eftir stendur skv. 1. mgr. greinarinnar er hærri en 200.000 kr. skal leiðréttingin fara fram með lækkun á verðtryggðum og/eða óverðtryggðum fasteignaveðlánum í íslenskum krónum samkvæmt þessari grein. Að öðrum kosti fer um framkvæmd leiðréttingar skv. 12. gr. laganna.

Nánar er fjallað um framkvæmd leiðréttingar í 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í 2. mgr. þeirrar greinar kemur fram að ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar til að lækka höfuðstól fasteignaveðlána umsækjanda samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014 skuli fara eftir veðröð þeirra lána sem hvíla á fasteign eða fasteignum umsækjanda. Ef tvö eða fleiri lán hvíla á sama veðrétti fasteignar eða fasteigna umsækjanda skal leiðréttingarfjárhæð fyrst ráðstafað til að lækka það lán sem er með hæstu eftirstöðvar á samþykktardegi ráðstöfunar leiðréttingarfjárhæðar, því næst til að lækka lán sem með næst hæstu eftirstöðvar á samþykktardegi og svo koll af kolli. Ef tvö eða fleiri fasteignaveðlán eru tryggð með sama tryggingarbréfi skal leiðréttingarfjárhæð fyrst ráðstafað til að lækka þá kröfu sem er með hæstu eftirstöðvar á samþykktardegi. Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014 verður leiðréttingarfjárhæð aðeins ráðstafað til að lækka fasteignaveðlán umsækjanda sem hann er skráður skuldari að og tryggð eru með veði í fasteign annars einstaklings eða annarra einstaklinga samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014 ef ekki er unnt að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð að fullu inn á fasteignaveðlán sem hvíla á fasteign umsækjanda.

Í ljósi umsagnar Z banka frá 28. september 2015, er óumdeilt að kærandi er ekki greiðandi að láni bankans nr. 2. Því er ljóst að ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar inn á lánið er ekki í samræmi við framangreind laga- og reglugerðarfyrirmæli sem um hana gilda. Við málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar hafa verið lögð fram gögn sem hafa ekki sætt efnisúrlausn hjá ríkisskattstjóra. Með vísan til 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 er kæran send ríkisskattstjóra til nýrrar ákvörðunar um ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 

Kærunni ásamt gögnum er vísað til ríkisskattstjóra til nýrrar ákvörðunar um ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar.



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta