Úrskurður nr. 456/2015
ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRS FASTEIGNAVEÐLÁNA
NR. 456/2015
Ár 2015, föstudaginn 21. ágúst, er tekið fyrir mál nr. 462/2015; kæra A og B, dags. 14. apríl 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Málavextir eru þeir að kærendur sóttu um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 25. maí 2014, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð kærenda var 0 kr. og var sú fjárhæð birt þeim 11. nóvember 2014. Kærendum var kleift að kæra niðurstöðuna frá og með 23. desember 2014. Kærendur gerðu athugasemd til ríkisskattstjóra þann 2. mars 2015 og úr henni var leyst 24. sama mánaðar.
Með kæru, dags. 14. apríl 2015, er kærð fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014. Í kæru kemur fram að kærendur telji forsendur í útreikningi ríkisskattstjóra vera rangar, að því er varði tiltekinn frádráttarlið, með þeim afleiðingum að leiðréttingafjárhæð sem kærendur eigi rétt á sé verulega vanreiknuð. Kærendur krefjast þess að umdeildur frádráttarliður verði alfarið felldur brott og umrædd frádráttarfjárhæð reiknuð til lækkunar á áhvílandi verðtryggðu fasteignaláni sem hvíli á íbúðarhúsnæði kærenda að M-götu.
Kærendur lýsa málsatvikum þannig að þau hafi verið óslitið í skráðri sambúð frá árinu 2003 og með sameiginlegt lögheimili í húsnæði sínu að M-götu allt frá því í mars 2007. Verðtryggt fasteignaveðlán, sem á framangreindri fasteign hvíli, hafi hvílt á henni allt frá því að kærendur hafi orðið þinglýstir eigendur hennar, hafi verið óbreytt allan tímann og allan tímann uppfyllt skilyrði til þess að vera grundvöllur útreiknings vaxtabóta og verið talið fram sem slíkt. Kærendur segjast ekki hafa fengið aðra skuldalækkun vegna þessa fasteignaveðláns en sérstaka vaxtaniðurgreiðslu á árunum 2011 og 2012.
Kærendur segja að þann 9. júlí 2009 hafi A orðið þinglýstur eigandi að fasteigninni að N-götu. Fasteignin hafi áður verið þinglýst eign foreldra hans. Fasteignaveðlán það sem á fasteigninni hvílir hafi ekki uppfyllt skilyrði til þess að vera grundvöllur vaxtabóta. Kærendur hafi alfarið borið kostnað vegna fasteignarinnar með þeim fjárhagslega stuðningi sem í því hafi falist við foreldra/tengdaforeldra vegna verulegra fjárhagserfiðleika þeirra í kjölfar efnahagshrunsins, atvinnuleysis, hás aldurs, veikinda og örorku.
Kærendur segja í kæru að þann 3. júlí 2014 hafi banki X samþykkt að veita eftirgjöf á áhvílandi óverðtryggðu láni á fasteign að N-götu, með því sem virðist flokkast sem „frjáls samningur“ í skilningi 2. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014. Sú eftirgjöf sé reiknuð til frádráttar á leiðréttingafjárhæð skv. lögum nr. 35/2014, með vísan til 8. gr. laganna.
Til frekari rökstuðnings vísa kærendur til þess að þann 17. maí 2014 hafi tekið gildi lög nr. 35/2014. Um frádráttarliði hafi verið fjallað í 8. gr. laganna. Í 1. mgr. ákvæðisins sé tiltekið að niðurfelling vegna fasteignaveðlána sem hafi glatað veðtryggingu í kjölfar nauðungarsölu eða annarrar ráðstöfunar eignar eftir 1. janúar 2008, komi til frádráttar. Þá sé í sama ákvæði tekið fram að hið sama eigi við um nánar tilgreindar aðrar niðurfellingar skuldbindinga sem séu komnar til fyrir atbeina stjórnvalda með nánari tilvísun í a.-g. liði sama ákvæðis. Kærendur byggja á að þar sé að finna nákvæmari og tæmandi upptalningu á því um hvaða fjárhagslegu úrræði sé verið að vísa til í ákvæðinu. Enginn framangreindra frádráttarliða í 1. mgr. ákvæðisins geti átt við um hinn umdeilda frádráttarlið, enda sé hvorki um að ræða nauðungarsölu eða ráðstöfun eignar, né úrræði fyrir atbeina stjórnvalda, eins og ríkisskattstjóri hafi í raun staðfest í fram komnu svari, dags. 24. mars 2015.
Kærendur byggja á að umrædd lækkun á áhvílandi óverðtryggðu húsnæðisláni fasteignar að N-götu skuli skilgreind sem „frjáls samningur“, enda hafi tímafrestir hinnar svokölluð 110% leiðar verið löngu liðnir. Virðist kærendum sem umrædd lækkun falli innan skilgreiningar 2. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014, sbr. c-lið 1. mgr., þ.e. lækkun húsnæðisláns að 110% veðsetningarhlutfalli fasteignarinnar með frjálsum samningi við fjármálastofnun. Það ákvæði hafi aftur á móti ekki verið að finna í upphaflegri útgáfu laganna heldur komið nýtt inn í lögin með lögum nr. 102/2014 sem tekið hafi gildi þann 29. október 2014. Lækkun veðkröfunnar, þ.e. sá frádráttarliður sem um sé deilt í þessu máli, hafi farið fram þann 3. júlí 2014, þ.e. áður en að lög nr. 102/2014 tóku gildi. Með öðrum orðum þýði þetta að leikreglum niðurfellingarinnar hafi verið breytt eftir á, en ekki afturvirkt. Þetta þýði ennfremur að þegar skuldalækkunin hafi verið framkvæmd hafi verið í gildi lög sem heimiluðu ekki að umdeildur frádráttarliður (frjáls skuldalækkun) yrði færður til frádráttar. Það samræmist jafnframt þeim upplýsingum sem kærendur hafi fengið á þeim tíma sem verið var að taka afstöðu til skuldalækkunarinnar, þ.e. að umrædd skuldalækkun ætti engin áhrif að hafa á leiðréttingarfjárhæð kærenda vegna verðtryggðs fasteignaláns á íbúðarhúsnæði þeirra, sem beðið hafði verið eftir í tæplega sex ár. Þá breyti ákvæði reglugerðar nr. 698/2014 sem sett hafi verið á grundvelli framangreindra laga, engu þar um, enda hafi reglugerðin fyrst tekið gildi þann 8. júlí 2014.
Kærendur segja að af framangreindu leiði að engin lagaheimild standi til þess að færa skuldalækkun til frádráttar sem fellur undir skilgreiningu núgildandi 2. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014, enda hafi umrædd skuldalækkun fyrst komið til framkvæmda eftir að lög nr. 35/2014 tóku gildi og áður en lög nr. 102/2014 tóku gildi. Þar með hafi umrætt heimildarákvæði í 2. mgr. 8. gr. laganna ekki verið í gildi við töku ákvörðunar um skuldalækkunina á áhvílandi láni á fasteign að N-götu, í júlí 2014. Almenn réttaröryggissjónarmið standi til þess að hinn almenni borgari megi treysta því að hann fái skorið úr um réttindi sín á grundvelli þeirra laga sem eru í gildi við framlagningu umsóknar (25. maí 2014) og eigi síðar en við töku einstakrar ákvörðunar eins og í þessu tilfelli um að þiggja skuldalækkun (3. júlí 2014). Þetta verði hann að geta gert án þess að eiga það á hættu að réttarstaða hans verði verulega skert síðar með lagasetningu (29. október 2014). Kærendur fullyrða að það hefði leitt til þess að allt önnur ákvörðun hefði verið tekin í júlí 2014, hefðu þær forsendur legið fyrir þá, sem lágu fyrir í október 2014.
II.
Ágreiningsefni máls þessa snýr að fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014. Útreiknuð leiðrétting lána kærenda samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014 er 2.124.666 kr. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ákvörðun ríkisskattstjóra um leiðréttingarfjárhæð byggist á, eru 2.150.866 kr. dregnar frá útreiknaðri leiðréttingu lána, sbr. 8. gr. sömu laga. Þar af eru 1.932.422 kr. vegna fasteignaveðláns nr. 1 hjá banka X sem glataði veðtryggingu að hluta og var fellt niður.
Um frádráttarliði einstaklinga er fjallað í 8. gr. laga nr. 35/2014. Þar kemur fram að frá þeirri fjárhæð leiðréttingar sem ákvarðast samkvæmt 7. gr. laganna skuli draga m.a. samtölu hlutdeildar einstaklings í niðurfellingu vegna fasteignaveðlána sem glatað hafa veðtryggingu í kjölfar nauðungarsölu eða annarri ráðstöfun eignar eftir 1. janúar 2008. Í 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014 kemur fram að hið sama gildi um endanlega niðurfellingu fasteignaveðlána. Í 2. mgr. 8. gr. laganna er sérstaklega ítrekað að önnur almenn lækkun frá og með 1. janúar 2008, sem var sambærileg þeim úrræðum sem getur í b- og c-lið 1. mgr. greinarinnar og telst ekki til tekna samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXXVII í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, skuli dregin frá útreiknaðri leiðréttingu samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014. Af umfjöllun um 8. gr. í greinargerð með frumvarpi með lögum nr. 35/2014 kemur fram að ákvæðið eigi við um nauðungarsölu. Síðan segir þar: „Hið sama gildir þegar söluverð eignar í almennri sölu nægir ekki til greiðslu áhvílandi veðskulda og einnig þegar kröfuhafar hafa leyst til sín yfirveðsettar eignir. Hafi umsækjandi þannig þegar fengið felldar niður fasteignaveðkröfum umfram verðmæti eignar í kjölfar nauðungarsölu, sölu á almennum markaði eða í kjölfar eignaráðstöfunar í skuldaskilum við lánveitanda er talið rétt að slík niðurfelling komi til frádráttar leiðréttingu skv. 7. gr. frumvarpsins.“
Nánar er fjallað um frádráttarliði í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar segir að þeir frádráttarliðir einstaklings skv. 8. gr. laga nr. 35/2014 sem komið hafa til framkvæmda eða samkomulag verið gert um, á tímabilinu 1. janúar 2008 til samþykktardags ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laganna dragist frá leiðréttingarfjárhæð skv. 7. gr. laga nr. 35/2014. Sömu tímafrestir skuli gilda um kröfur sem glatað hafa veðtryggingu en hafi ekki verið felldar endanlega niður gagnvart umsækjenda, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014. Hið sama á við um sérstaka vaxtaniðurgreiðslu, sbr. f-lið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014.
Ágreiningslaust virðist vera að samkvæmt samkomulagi frá 3. júlí 2014 hafi banki X lækkað fasteignaveðkröfu sína. Hefur því ekki verið mótmælt að samkvæmt samkomulaginu hafi afskrift numið 1.932.422 kr. Er sú fjárhæð nálægt útreiknaðri leiðréttingarfjárhæð kærenda, sbr. 7. gr. laga nr. 35/2014. Kærendur virðast einkum byggja á því að lækkun á láni þeirra falli ekki undir 8. gr. laga nr. 35/2014 eins og hún var upphaflega, heldur aðeins eins og hún hafi orðið eftir gildistöku breytingarlaga nr. 102/2014. Vegna þeirra sjónarmiða kærenda þykir rétt að vísa til ummæla sem fram koma í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 102/2014, um breytingu á lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, nr. 35/2014 (frádráttarliðir). „Í einhverjum tilvikum kann að mega halda því fram að einstakir liðir 1. mgr. 8. gr. hafi ekki verið gerðir fyrir atbeina stjórnvalda þar sem til dæmis fjármálastofnanir hófu beitingu úrræðanna fyrir undirritun viðkomandi samkomulags. Til að bregðast við þessu er talið rétt að lögfesta nýja málsgrein sem tekur af allan vafa um það að sambærileg úrræði leiða til sömu niðurstöðu hvað leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána varðar.“ Til viðbótar segir í kafla VI. í greinargerðinni: „Frumvarpið felur ekki í sér eiginlegar breytingar á efnisatriðum laga nr. 35/2014. Með frumvarpinu er lagt til að skýrari lagastoð verði sett vegna þeirra frádráttarliða sem raktir eru í 8. gr. laganna.“ Málatilbúnaður kærenda um afturvirkni laga nr. 102/2014 á því ekki við rök að styðjast.
Með vísan til framangreinds er ljóst að frádráttur vegna niðurfellingar hluta fasteignaveðláns nr. 1 hjá banka X er í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hana gilda. Ákvörðun ríkisskattstjóra um útreikning leiðréttingarfjárhæðar, að teknu tilliti til frádráttarliða, verður ekki hnekkt. Kröfu kærenda er því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kærenda er hafnað.