Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 258/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 258/2016

Miðvikudaginn 11. janúar 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 8. júlí 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. júlí 2016 um styrk til kaupa á bifreið.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 29. mars 2016, sótti kærandi um uppbót/styrk til kaupa á bifreið. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. júlí 2016, var samþykktur styrkur að fjárhæð 1.440.000 krónur vegna kaupa á bifreið og fram kom að hann yrði greiddur á tilteknu tímabili að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í því tilliti voru tilgreind sjö skilyrði. Þeirra á meðal var skilyrði um að kaupverð bifreiðar skyldi ekki vera lægra en fjárhæð styrksins. Yfirlýsing vegna kaupa kæranda á bifreið var móttekin hjá Tryggingastofnun ríkisins 6. júlí 2016. Í henni kom fram að kaupverð bifreiðar væri 1.200.000 krónur. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 7. júlí 2016, var kærandi upplýstur um að þar sem kaupverð bifreiðar væri lægra en fjárhæð styrksins væri ekki hægt að greiða styrkinn.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. júlí 2016. Með bréfi, dags. 13. júlí 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 29. júlí 2016, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. september 2016. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur en af gögnum málsins má ráða að hann krefjist þess að synjun Tryggingastofnunar ríkisins um styrk til bifreiðakaupa verði felld úr gildi.

Í kæru segir að kærandi hafi fengið upplýsingar um að hann gæti átt rétt á uppbót eða styrk til bifreiðakaupa hjá Tryggingastofnun ríkisins. Hann þurfi nauðsynlega á bíl að halda vegna hreyfihömlunar. Hann hafi fundið bíl á bílasölu þar sem uppsett verð hafi verið 1.700.000 krónur en hann náð að tala verðið niður í 1.200.000 krónur.

Kærandi hafi fengið bréf frá Tryggingastofnun ríkisins með tilkynningu um að hann fengi styrk að fjárhæð 1.440.000 krónur. Hann hafi sent stofnuninni umbeðin gögn. Síðar hafi hann fengið bréf með synjun á þeirri forsendu að kaupverð væri lægra en styrkur. Á eyðublaði stofnunarinnar komi ekkert fram um hvað bíllinn þurfi að kosta mikið. Í fyrrnefndu bréfi stofnunarinnar segi að bíllinn megi ekki kosta minna en styrkurinn. Þetta hafi kærandi ekki haft hugmynd um þegar hann keypti bílinn. Það sé verið að koma aftan að sér með þessari afgreiðslu og hann sé mjög ósáttur. Kærandi hafi ekki getað vitað þetta þegar hann sótti um og á þeim tíma sem kaupin fóru fram. Þá hafi kærandi hvorki viljað né þorað að fara í meiri fjárfestingu, þ.e. dýrari bíl. Kærandi velti því fyrir sér af hverju það sé ekki hægt að veita honum styrk sem samsvari kaupverðinu, þ.e. 1.200.000 krónur, eins og styrkurinn hafi verið fyrir hækkun hans síðastliðið haust.

Kærandi hafi skoðað möguleika á að kaupa nýjan bíl haustið 2015. Gamli bíllinn hafi endanlega hrunið um áramótin 2015/2016 og það sé þá sem hann hafi farið að skoða möguleika á styrk frá Tryggingastofnun ríkisins og síðar lagt inn umsókn.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærandi hafi sótt um styrk til bifreiðakaupa og stofnunin samþykkt styrk að fjárhæð 1.440.000 krónur með bréfi, dags. 4. júlí 2016.

Í yfirlýsingu til Tryggingastofnunar ríkisins vegna kaupa á bifreið, dags. 6. júlí 2016, komi fram að kaupverð bifreiðarinnar hafi verið 1.200.000 krónur. Með bréfi, dags. 7. júlí 2016, hafi kæranda verið tilkynnt að ekki væri hægt að greiða styrkinn vegna þess að kaupverð bifreiðar væri lægra en fjárhæð styrksins.

Styrkur vegna bifreiðakaupa sé veittur samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Samkvæmt ákvæðinu sé heimilt að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða vanti líkamshluta.

Sett hafi verið reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Í 4. og 5. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um styrki vegna bifreiðakaupa. Í 2. og 3. mgr. 4. gr., sbr. breytingu með reglugerð nr. 997/2015, komi fram að styrkurinn skuli vera 1.440.000 krónur og að kaupverð bifreiðar skuli ekki vera lægra en fjárhæð styrks.

Miðað við skýrt og afdráttarlaust orðalag ofangreindra ákvæða sé ljóst að til þess að hægt sé að greiða styrk samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar megi kaupverð bifreiðar ekki vera lægra en fjárhæð styrksins. Heimild til að lækka styrkgreiðsluna niður í kaupverð bifreiðar sé því augljóslega ekki fyrir hendi. Stofnunin hafi því réttilega synjað kæranda um greiðslu styrks til bifreiðakaupa.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um styrk til kaupa á bifreið.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar gildir sama um rekstur bifreiðar. Þá er samkvæmt. 3. mgr. sömu greinar heimilt að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Á grundvelli 2. málsl. nefndrar 3. mgr. setur ráðherra reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæðinu og er gildandi reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

Í 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 er að finna skilyrði sem uppfylla þarf til að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að greiða styrk til kaupa á bifreið. Þar kemur fram í 3. mgr. skilyrði um að kaupverð bifreiðar skuli ekki vera lægra en fjárhæð styrks að teknu tilliti til niðurfellds vörugjalds þegar það eigi við. Samkvæmt reglugerðinni, sbr. breyting með reglugerð nr. 997/2015, er fjárhæð styrksins 1.440.000 krónur.

Fyrir liggur í máli þessu að kaupverð bifreiðar kæranda er 1.200.000 krónur sem er lægri fjárhæð en fjárhæð styrksins. Með hliðsjón af því synjaði Tryggingastofnun ríkisins umsókn kæranda með vísan til 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009.

Í umræddu reglugerðarákvæði segir að kaupverð bifreiðar skuli ekki vera lægra en fjárhæð styrks. Úrskurðarnefnd telur að tilgangur ákvæðisins felist í því að koma í veg fyrir að Tryggingastofnun ríkisins greiði fullan styrk í tilvikum þar sem kaupverð bifreiðar er lægra en fjárhæð styrksins, þ.e. 1.440.000 krónur. Ekki verður ráðið af orðalagi ákvæðisins að stofnuninni sé óheimilt að greiða styrk í tilvikum þar sem kaupverð bifreiðar sé lægra en fjárhæð styrksins. Úrskurðarnefndin telur að í slíkum tilvikum sé stofnuninni hins vegar óheimilt að greiða styrk umfram kaupverð bifreiðar. Þegar af þeirri ástæðu felst úrskurðarnefnd ekki á túlkun stofnunarinnar á 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið er synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um styrk til kaupa á bifreið felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A, um styrk til kaupa á bifreið er felld úr gildi. Málinu er heimvísað til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta