Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 266/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 266/2016

Föstudaginn 20. janúar 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 19. júlí 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. júní 2016, annars vegar niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2015 og hins vegar innheimtu ofgreiddra bóta.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða Tryggingastofnunar ríkisins á endurreikningi og uppgjöri tekjutengdra bóta ársins 2015 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 917.129 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu hennar með bréfi, dags. 21. júní 2016. Með bréfi, dags. 6. júlí 2016, andmælti kærandi niðurstöðunni. Andmælum kæranda var svarað með bréfi stofnunarinnar, dags. 12. júlí 2016.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. júlí 2016. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins. Með bréfi, dags. 29. júlí 2016, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. september 2016. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að kærandi óski eftir endurskoðun á ákvörðunum Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. júní 2016, annars vegar niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2015 og hins vegar innheimtu ofgreiddra bóta.

Í kæru segir að kærandi hafi farið á örorkubætur í október 2015 og verið tekjulaus frá árinu 2006. Vegna þessa hafi hún fengið afturvirkar greiðslur frá lífeyrissjóði vegna tímabilsins september 2013 til október 2015. Greiðslurnar hafi allar verið greiddar í lok árs 2015 með þeim afleiðingum að þær fóru yfir greiðsluþak Tryggingastofnunar ríkisins það ár. Kærandi fékk endurgreiðslukröfu að fjárhæð 709.263 kr. vegna þessa, þrátt fyrir að stór hluti lífeyristekna hennar á árinu 2015, eða 2.362.570 kr., hafi verið afturvirkar greiðslur.

Kærandi hafi sent Tryggingastofnun ríkisins andmælabréf á þeirri forsendu að um afturvirkar greiðslur hafi verið að ræða og byggt það meðal annars á orðalagi úr bréfi stofnunarinnar, dags. 21. júní 2016, þar sem segi: „Ef inneignir myndast, hvort sem er vegna uppgjörs greiðslna annarra ára eða af öðrum ástæðum, er heimilt að nýta þær að hluta eða öllu leyti til lækkunar á skuld.“

Í svarbréfi stofnunarinnar, dags. 12. júlí 2016, hafi rökum kæranda verið hafnað og að engu leyti verið tekin til greina með orðalaginu: „Tryggingastofnun hefur ekki heimild til að líta framhjá tekjuupplýsingum sem fram koma í skattframtölum.“

Kærandi telur ósamræmi í rökum þessara tveggja bréfa og fari því fram á að úrskurðarnefnd velferðarmála fari yfir þetta mál og komist að niðurstöðu. Hvað sem öðru líði þá telji hún að sanngirnisrök vegi þungt í þessu máli þar sem öryrki þurfi að bíða fjárhagslegan skaða af því að fá þessar afturvirku greiðslur, hugsunin með þeim sé áreiðanlega önnur.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga um tekjuskatt nr. 90/2003 um hvað teljast skuli til tekna. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætlun ef svo sé ekki samkvæmt 39. gr. sömu laga en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Stofnunin hafi ekki heimild til að líta framhjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að þær hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Þar komi fram skylda Tryggingastofnunar ríkisins til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Kærandi hafi notið örorkulífeyris og tengdra greiðslna frá 1. apríl 2015. Fyrsta greiðsla hafi komið til greiðslu 24. júlí 2015.

Tryggingastofnun ríkisins sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.

Uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2015 hafi leitt í ljós ofgreiðslu að fjárhæð 709.263 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast í uppgjöri á hendur kæranda sé sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2015 vegna tekjuársins 2014 hafði farið fram, hafi komið í ljós að tekjur kæranda reyndust hærri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir. Endurreikningur byggist á upplýsingum úr skattframtali bótaþega.

Með umsókn kæranda um örorkulífeyri hafi fylgt tekjuáætlun vegna ársins 2015, dags. 18. mars 2015. Í þeirri tekjuáætlun hafi einu tekjurnar verið fjármagnstekjur að fjárhæð 340.305 kr.

Kærandi hafi sent inn nýja tekjuáætlun vegna tímabilsins 1. nóvember til 31. desember 2015, dags. 28. október 2015. Í þeirri tekjuáætlun hafi verið bætt við fyrri tekjuáætlun að lífeyrissjóðsgreiðslur myndu verða 185.366 kr. eða 93.183 kr. á mánuði.

Við endurreikning bóta vegna ársins 2015 hafi komið í ljós að lífeyrissjóðsgreiðslur kæranda voru 2.548.273 kr. það ár. Skipting þeirra samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra hafi verið eftirfarandi: 2.362.570 kr. í október, 92.817 kr. í nóvember og 92.886 kr. í desember.

Kærandi fari fram á að tekið verði tillit til þess að lífeyrissjóðsgreiðslur, sem tilteknar séu í staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra í október 2015, hafi verið vegna tímabilsins september 2013 til október 2015.

Tryggingastofnun ríkisins sé ekki heimilt að taka tillit til þess að tekjur sem komi fram í staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra á endurreiknuðu ári séu eingreiðsla vegna eldri ára. Til þess að breyting á endurreikningi af þessari ástæðu geti átt sér stað þurfi kærandi að fá samþykkta slíka breytingu á framtölum sínum hjá skattyfirvöldum að tekjur séu færðar yfir á framtal viðeigandi ára.

Með vísan til framangreinds telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2015 og innheimtu ofgreiddra bóta.

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2015 á tímabilinu frá 1. apríl til 31. desember. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Á grundvelli 7. mgr. þeirrar lagagreinar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.

Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta ofgreiddar bætur samkvæmt 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreiking og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Gögn málsins sýna fram á að tekjuáætlun kæranda fyrir árið 2015 gerði upphaflega ráð fyrir 340.305 kr. í fjármagnstekjur. Með nýrri tekjuáætlun kæranda, dags. 28. október 2015, var gert ráð fyrir lífeyrissjóðstekjum að fjárhæð 186.466 kr. og 255.231 kr. í fjármagnstekjur. Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali kæranda vegna tekjuársins 2015 reyndust lífeyrissjóðstekjur hins vegar töluvert hærri eða 2.548.273 kr. en fjármagnstekjur reyndust lægri. Ástæðu ofgreiðslu bótanna er því að rekja til vanáætlunar tekna í tekjuáætlun sem var forsenda Tryggingastofnunar við útreikning og greiðslu bóta á árinu 2015.

Tekjuáætlun kæranda gerði ráð fyrir töluvert lægri lífeyrissjóðstekjum en skattframtal vegna tekjuársins 2015 sýndi fram á, en um er að ræða tekjustofn sem hefur áhrif á bótarétt, sbr. 2. mgr. 16. gr. laganna og einnig 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi bótaþega og er það á ábyrgð bótaþega sem nýtur tekjutengdra bóta að hafa gætur á því að tekjuáætlun sé rétt og í samræmi við þær tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári, sbr. áðurnefnda 39. gr. laganna. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur.

Í kæru vísar kærandi til eftirfarandi sem kemur fram í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. júní 2016: „Ef inneignir myndast, hvort sem er vegna uppgjörs greiðslna annarra ára eða af öðrum ástæðum, er heimilt að nýta þær að hluta eða öllu leyti til lækkunar á skuld.“ Úrskurðarnefnd telur tilefni til að benda kæranda á að framangreindur texti varðar bætur Tryggingastofnunar ríkisins og tilvik þegar stofnunin hefur vangreitt bótaþega bætur. Ákvæðið tekur ekki til greiðslna frá lífeyrissjóðum.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar að staðfesta beri endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum ársins 2015 og þá ákvörðun að krefja kæranda um endurgreiðslu þeirrar ofgreiðslu.

Úrskurðarnefnd ítrekar ábendingu í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins um að kærandi geti óskað eftir leiðréttingu á skattframtölum sínum vegna eingreiðslu lífeyrissjóðsins B hjá skattyfirvöldum.

Þá bendir úrskurðarnefnd á að í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags er að finna ákvæði um undanþágu frá endurkröfu. Í ákvæðinu segir að heimilt sé að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Kærandi getur óskað eftir niðurfellingu endurkröfunnar hjá Tryggingastofnun ríkisins telji hann skilyrði ákvæðisins uppfyllt í tilviki sínu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör vegna tekjutengdra bótagreiðslna A, á árinu 2015 og innheimtu ofgreiddra bóta eru staðfestar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta