Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 27/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 27/2024

Miðvikudaginn 24. apríl 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 16. janúar 2024, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. janúar 2024 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 15. desember 2023. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 3. janúar 2024, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing hefði ekki verið fullreynd. Kærandi sótti aftur um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með rafrænum umsóknum, mótteknum 28. desember 2023 og 29. janúar 2024. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 1. febrúar 2024, var umsóknum kæranda synjað á sama grundvelli og áður.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. janúar 2024. Með bréfi, dags. 30. janúar 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 20. febrúar 2024, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. febrúar 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kæranda hafi verið synjað um örorkulífeyri þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd.

Kærandi sé of veik til að sinna endurhæfingu, það gangi afar illa að „mótivera“ hana til að taka lyfin sín og nærast. Hún liggi í rúminu sínu 23 klst. á sólarhring og hafi afar lítið úthald til virkni en hún geti í mesta lagi að farið til sjúkraþjálfara. Kærandi geti kannski sinnt einu verkefni á dag. Vegna taugaverkja og stoðkerfisvanda geti kærandi ekki sinnt dæmigerðri endurhæfingu sem að jafnaði kalli á virkni og viðveru alla virka daga. Sem dæmi þá gæti hún aldrei setið námskeið. Kærandi sé einhverf og ekki mjög ráðþægin þegar gerðar séu kröfur til hennar. Það sé gífurlega erfitt að „mótivera“ og sannfæra hana til að koma sér í virkni eða stunda áhugamál. Hún eigi erfitt með að ganga einhverjar vegalengdir. Ef kærandi sé til í að koma út, til dæmis á kaffihús, þá verði mæðgurnar að leggja rétt hjá kaffihúsinu því annars eigi hún erfitt með gang. Kærandi sé með stöðugan svima, hana sortni fyrir augum, sé með stöðugan verk í rófubeini, glími við átröskun og næringarvanda sem kallist „Arfid disorder“ sem tengist einhverfunni og skynjunarvanda við matarræði. Kærandi hafi alla tíð þurft á mikilli aðstoð og stuðningi að halda. Móðir kæranda sé orðin úrvinda á því hve miklar og krefjandi stuðningsþarfir kærandi hafi.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á umsókn kæranda um örorkulífeyri á þeim grundvelli að endurhæfing sé ekki fullreynd.

Kveðið sé á um skilyrði og ávinnslu örorkulífeyris í 24. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Í 1. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar segi: „Greiðslur örorkulífeyris séu bundnar því skilyrði að umsækjendur hafi verið metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.“ Í 2. mgr. 25. gr. laganna segi: „Tryggingastofnun metur örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Heimilt er að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007.“ Í 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð segi að heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18 til 67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi hafi átt lögheimili hér á landi samfellt síðustu 12 mánuði og taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi sé á X. aldursári. Umönnunargreiðslur hafi verið inntar af hendi vegna hennar frá apríl 2017 til desember 2023. Samkvæmt læknisvottorði, dags. 12. desember 2023, sé kærandi greind með bernskueinhverfu (F84.0), átröskun (F50.9), truflun á virkni og athygli (F90.0), og geðlægðarlotu (F32.9). Í læknisvottorðinu sé lýst ýmsum erfiðleikum í daglegu lífi. Varðandi endurhæfingu sé tekið fram í vottorðinu að kærandi sé á námskeiði hjá C og haldi áfram í meðferð hjá D. Kærandi hafi tengst C frá árinu 2022 og hafi árið 2023 fengið greiningu á átröskun og næringarskorti og hafi þá verið fyrir með einhverfugreiningu, truflun á virkni og athygli, og þroskaröskun. Kærandi hafi farið í svokallaða einhverfukulnun (e. autistic burnout), hún hafi ekki nærst nægjanlega vel og hafi einangrast meira en áður, þó að hún haldi tengslum við jafnaldra í gegnum samskiptamiðla.

Kærandi hafi fyrst sótt um örorkulífeyri 15. desember 2023 og aftur með umsókn 28. desember 2023. Umsókninni hafi verið synjað 3. janúar 2024 þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Í kjölfarið hafi læknabréf verið sent stofnuninni, dags. [12]. janúar 2024, þar sem komi fram sjónarmið læknis um að kærandi sé ófær um að nýta sér endurhæfingu að gagni vegna mikils framtaksleysis, orkuleysis og andstöðu. Hún muni með aðstoð aðstandenda og E, fötlunartengis […], halda áfram að vinna að bættri heilsu svo frekari endurhæfing verði möguleg. Kærandi hafi sótt um að nýju þann 29. janúar 2024 en þeirri umsókn hafi verið synjað 1. febrúar 2024 á sama grundvelli og áður.

Í synjunarbréfi Tryggingastofnunar frá 3. janúar 2024 sé vísað í 25. gr. laga um almannatryggingar um að heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi. Þá sé tekið fram að samkvæmt gögnum málsins sé ekki tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing sé ekki fullreynd. Þá segi orðrétt:

„Það eru margir sem hafa komið að máli umsækjanda, hefur verið í sjúkraþjálfun í F, verið hjá G sálfræðingi og H barnageðlækni hjá D. Ráðgjafi í málefnum fatlaðs fólks er í málinu hjá I, fengið einstaklingsstuðning 16 stundir á mánuði og verið er að skoða önnur úrræði sem geti ýtt undir frekari virkni. Verið á námskeiði hjá C og heldur áfram í meðferð hjá D. Samkvæmt læknisvottorði má búast við að færni batni með tímanum enda fullum taugaþroska ekki náð sökum ungs aldurs.“

Að þessu sögðu hafi kæranda verið bent á reglur um endurhæfingarlífeyri og hún hvött til að hafa samband við heimilislækni sinn til að leita ráðgjafar um þau endurhæfingarúrræði sem í boði væru. Margir fagaðilar hafi aðstoðað kæranda.

Í synjunarbréfi Tryggingastofnunar frá 1. febrúar 2024 sé ítrekað að endurhæfing sé ekki fullreynd þar sem fullum taugaþroska sé ekki náð sökum ungs aldurs umsækjanda. Lögð hafi verið áherslu á að kærandi muni halda áfram að vinna að bættri heilsu með aðstoð fötlunartengils hjá […] í því augnamiði að frekari endurhæfing verði möguleg, auk áframhaldandi þjónustu hjá Landspítala, taugalæknum, barnageðlækni og heimilislækni sínum.

Niðurstaða lækna Tryggingastofnunar hafi verið sú að ný gögn hafi ekki breytt fyrra mati og því bæri að synja kæranda aftur um örorkulífeyri, en henni hafi verið bent á endurhæfingarlífeyri.

Hafa verði í huga í málum af þessum toga að Tryggingastofnun sé bundin af jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar um að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Læknar Tryggingastofnunar telji að reyna verði til ítrasta endurhæfingu hjá svo ungum einstaklingum sem glími við heilsuvanda af því tagi sem kærandi glími við. Yfirlýsing um að kærandi treysti sér ekki í endurhæfingu dugi ekki til að tryggja henni örorku að svo komnu máli.

Benda megi á að lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi verið breytt með lögum nr. 124/2022 og endurhæfingartímabil hafi verið lengt úr 18 mánuðum í 36 mánuði, með möguleika á framlengingu í 24 mánuði, þannig að endurhæfingarlífeyrir sé greiddur í samtals fimm ár. Það sjónarmið hafi verið uppi að aukin áhersla á endurhæfingu/virkni ætti ekki síst að grípa þann hóp sem kærandi tilheyri, þ.e.a.s. ungt fólk sem hafi glímt við einhverfu, athyglisbrest og annan andlegan heilsuvanda. Sérlega mikilvægt sé að endurhæfing sé reynd til hins ítrasta hjá einstaklingum með slíkan vanda til að reyna að stuðla að atvinnuþátttöku og auknum lífsgæðum til langframa, í stað þess að setja einstaklinga strax á varanlega örorku. Í því sambandi sé tekið fram að í raun sé „tímabundin örorka“ ekki úrræði í íslenskum rétti, þó að örorkumat sé oft samþykkt til ákveðins tíma, heldur sé litið á að sú örorka sem liggi til grundvallar örorkulífeyri sé varanleg. Af þeim sökum sé talið mikilvægt að samþykkja ekki örorku fyrr en á því tímamarki þegar ljóst þykir hver heilsuvandi einstaklings verði til langframa.

Í ljósi alls framangreinds sé niðurstaða Tryggingastofnunar sú að afgreiðslan á umsókn kæranda sé í senn lögmæt og málefnaleg. Fyrir nefndinni fari stofnunin fram á staðfestingu á ákvörðun frá 1. febrúar 2024 um að synja kæranda um örorkulífeyri.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt hafi verið að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 25. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar eru greiðslur örorkulífeyris bundnar því skilyrði að umsækjendur hafi verið metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. og 2. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi hafi átt lögheimili hér á landi samfellt síðustu 12 mánuði og taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 24 mánuði enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila, sbr. 1. mgr.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð J, dags. 12. desember 2023. Í vottorðinu er greint frá eftirfarandi sjúkdómsgreiningum:

„BERNSKUEINHVERFA

ÁTRÖSKUN, ÓTILGREIND

TRUFLUN Á VIRKNI OG ATHYGLI

GEÐLÆGÐARLOTA, ÓTILGREIND“

Um fyrra heilsufar segir:

„Einhverf stúlka sem þó talaði eðilega en var með mikinn þrjóskuvanda sem barn.

Kjörþögli frá leikskóla aldri.

Einhverfugreining og ADHD 2016.

Gekk illa að vera í skóla og viðkvæm fyrir hljóðum og öllu áreiti.“

Um heilsuvanda og færniskerðingu segir:

„Einhverfa sem birtist aðallega sem þrjóskröskun í bernsku en greind með einhverfu og ADHD 2016 þá X ára. Mikil vannæring og Arfid átröskun frá 2019.

Verið í eftirliti og meðferð á D og í sambandi við C.

Innlögð í september 2023 á barnadeild LSH vegna vannæringar þá 172,5cm og 44kg eða BMI 14,7.

Ekki verið í skóla síðan 2021 í K og fékk þá "autistic burnout" sem hún hefur ekki enn jafnað sig á.

Þarf mikla aðstoð í öllu daglegu lífi, sérstaklega í tengslum við næringu. Sækir sér ekki mat sjálf og borðar ekki nema með aðstoð og hvatningu, mjög sérhæfðan mat og matarlyst mjög óregluleg.

Orkuleysið gífurlegt og sortnar fyrir augum eftir að hafa gengið á milli hæða á heimilinu. Verkir í stoðkerfi við minnsta álag og göngu og verkir í rófubeini við að sitja.

Hefur fengið umönnunarbætur sem barn.“

Í læknisvottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að megi búast við því að færni aukist með tímanum. Í frekari áliti á vinnufærni og horfum á aukinni færni segir:

„Er á námskeiði hjá C og heldur áfram í meðferð hjá D.“

Einnig liggur fyrir læknabréf J, dags. 12. janúar 2024, þar sem greint er frá því að borist hafi greinargerðir frá tveimur meðferðaraðilum. Í bréfinu segir:

„Læknabréf frá H barna og unglingageðlækni á D 15.12.2023 segir:

Mitt mat á starfrænni getu þessarar stúlku er að hún sé afar hömluð af sinni taugaþroskaröskun. Ég tel hana vera fatlaða og líkur á svo verði til framtíðar.

Læknabréf frá C frá 03.01.2024:

Ljóst er að þörf er á heildrænni þjónustu út frá langvarandi stuðningsþörfum.

Stúlkan er í dag ófær um að nýta sér endurhæfingu að gagni vegna mikils framtaksleysis, orkuleysis og andstöðu. Hún mun halda áfram með aðstoð aðstandenda og E hennar fötlunartengils […] að vinna að bættri heilsu svo frekari endurhæfing verði möguleg.“

Í útskriftarbréfi frá göngudeild C, dags. 3. janúar 2024, segir um stöðu við útskrift:

„A hefur mikla umönnunarþörf vegna flókins vanda: taugaþroskafrávika, geðvanda og næringarvanda. Það ber mikið á erfiðleikum með athafnir daglegs lífs. Hún þarfnast mikillar aðstoðar og hvatningar við að nærast og til að komast í einhverja virkni. A hefur rýran vöðvamassa, slaka líkamsburði og hefur hún verið að glíma við mikla stoðkerfisverki. Hún sækir sjúkraþjálfun þar sem unnið er að því að byggja upp styrk, bæta líkamsstöðu til að vinna á verkjum og þrekleysi. Tilvísun var send til VIRK en henni var vísað frá sökum mikils heilsubrests. Til vinnslu er umsókn um tímabundna örorku. Ljóst er að þörf er á heildrænni þjónustu út frá langvarandi stuðningsþörfum

[…]

Meðferð af hálfu C telst hér með lokið.“

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar, sem kærandi lagði fram með umsókn um örorkumat, svaraði hún spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni. Í lýsingu á heilsuvanda nefnir kærandi að hún sé með flóknar og erfiðar greiningar og nefnir í því samhengi dæmigerða einhverfu, mótþróaþrjóskuröskun, ADHD, næringarvanda, verki og þunglyndi. Í spurningalistanum kemur fram að kærandi eigi í erfiðleikum með ýmsar athafnir daglegs lífs vegna næringarvanda, orkuleysis, svima og verkja, auk þess sé hún með kjörþögli. Spurningu hvort kærandi glími við geðræn vandamál er svarað á eftirfarandi máta:

„Hún er með ýmsan geðrænan vanda. En það sem háir henni mest er skapið og andfélagsleg hegðun. Hún er greind með dæmigerða einhverfu, mótstöðuþrjóskuröskun, þunglyndi og kjörþögli. Einnig er hún með sértæka átröskun sem tengist einhverfunni, sem kallast ARFID, það er skammstöfun á Avoidant Restrictive Food Intake Disorder. Vegna þessa vanda var hún inni á C í byrjun árs 2023 þar sem hún er langt undir kjörþyngd. Það er mikil vinna fyrir fjorsjáraðila að koma næringu í hana.. Hún hefur lítið frumkvæði og liggur meirihluta dagsins í rúminu.“

Í athugasemd í spurningalista er vísað í skjal sem fylgdi með umsókn um hækkun á umönnunarbótum sumarið 2022, greint er frá því að staðan í dag sé ekki betri.

Meðal gagna málsins eru tillaga K, hegðunarráðgjafi hjá I, að umönnunarmati, dags. 15. desember 2023, þar segir meðal annars:

„A fór í einhverfu kulnun (autistic burnout), nærðist ekki, einangraðist enn frekar,datt úr úr allri virkni og lá fyrir upp í rúmi. Staðan á henni þegar hún var lögð inn á C var mjög alvarleg og er það ennþá þrátt fyrir nokkur skref í rétta átt. A á í skrifuðum samskiptum í gegnum samskiptamiðla, allt erlenda jafnaldra og spilar með stundum með þeim tölvuleik. Hún á ekki vini í raunheimum og einangraðist frá þeim á tímum covid. A er með kjörþögli og talar eingöngu við þau sem standa henni næst. Hún treystir sér ekki að fara ein á meðal almennings, ekki í búðir eða annað tengt áhugamálum sínum. Líkamlegt ástand hennar hefur aðeins lagast eftir innlögnina og núna getur hún farið í t.d. með móður sinni í búð eða í stuttar gönguferðir án þess að örmagnast vegna næringarskorts. Hún er þó ennþá veikburða, með D-vítamínskort, með mikla verki í vöðvum og stoðkerfi. A er ekki í skóla, skipulögðum tómstundum eða íþróttum og hefur ekki verið síðan hún hætti að mæta í skólann í X.bekk. A er mjög viðkvæm fyrir skynáreiti, áferð, lykt og hávaða.

[…]

Það eru margir sem koma að málum A. Á C hittir hún næringarfræðing og fer í iðjuþjálfun. Hún er í sjúkraþjálfun í F, er hjá G sálfræðingi og hittir H barnageðlækni hjá D. Ráðgjafi í málefnum fatlaðs fólks er í máli A hjá I, hún fær einstaklingsstuðning 16 stundir á mánuði og verið er að skoða önnur úrræði sem getur ýtt undir frekari virkni.“

Meðal gagna málsins er bréf E, félagsráðgjafa, dags. 16. janúar 2024, þar segir meðal annars:

„Óskað er eftir tímabundinni örorkulífeyri meðan verið er að vinna leiðir og lausnir til að veita A þá þjónustu og stuðning sem hún þarf á að halda. A er [..] X ára og því eðlilega er móðir hennar að kynnast öðru umhverfi og þjónustu sem stendur til boða fyrir þá sem eru 18 ára og eldri. Gífurleg mikil vinnsla hefur verið í máli A og fjölskyldu. A er og mun koma til með að vera langtímamál hér í I.

Ljóst þykir að A er ekki í þeirri stöðu að geta farið í endurhæfingu og er því óskað eftir tímabundinni örorkulífeyri.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd.

Metið er sjálfstætt og heildstætt í hverju tilviki fyrir sig hvort endurhæfing sé fullreynd. Samkvæmt gögnum málsins glímir kærandi við flókin og alvarleg vandamál, meðal annars taugaþroskafrávik, geðvanda og næringarvanda, og þarf mikla aðstoð í öllu daglegu lífi. Kærandi hefur verið í eftirliti og meðferð hjá D og í meðferð hjá C. Í fyrrgreindu læknisvottorði J, dags. 12. desember 2023, kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að búast megi við að færni aukist með tímanum. Þá segir í læknabréfi J, dags. 12. janúar 2024, að kærandi sé í dag ófær um að nýta sér endurhæfingu að gagni vegna mikils framtaksleysis, orkuleysis og andstöðu.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að endurhæfing sé ekki raunhæf að sinni eins og ástandi kæranda er háttað. Úrskurðarnefndin telur því rétt að Tryggingastofnun ríkisins meti örorku kæranda samkvæmt örorkustaðli.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að fella úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Málinu er vísað til Tryggingastofnunar á ný til mats á örorku kæranda.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum