Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 232/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 232/2017

Miðvikudaginn 11. október 2017

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 19. júní 2017, kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 9. júní 2017 um bótaskyldu vegna slyss sem hún varð X 2016.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Sjúkratryggingum Íslands barst tilkynning, dags. 5. mars 2017, frá vinnuveitanda kæranda um að hún hefði orðið fyrir slysi við vinnu X 2016. Í tilkynningunni er slysinu lýst þannig að kærandi hafi farið út af vinnustað kl. 11:30. Snjór hafi verið yfir og hún runnið í [tröppunum] þar sem hún ásamt vinnufélaga fóru til að reykja. Þann X 2016 barst Sjúkratryggingum Íslands ódagsett tilkynning frá kæranda um slys við vinnu. Í tilkynningunni er slysinu lýst þannig að kærandi hafi verið að ganga niður tröppur sem ekki hafi verið búið að hreinsa af snjó. Hún hafi runnið í hálku og lent með bakið beint á tröppu. Sjúkratryggingar Íslands höfnuðu bótaskyldu með bréfi, dags. 24. apríl 2017. Í bréfinu segir að þar sem atvikið falli undir athafnir sem standi ekki í neinu sambandi við vinnu samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga sé ekki um vinnuslys að ræða í skilningi laganna.

Með beiðni, dags. 30. maí 2017, óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins í ljósi nýrra upplýsinga. Með beiðninni fylgdi tölvupóstur kæranda frá 27. apríl 2017 þar sem fram kemur að meginástæða þess að hún hafi runnið í [tröppunum] sé sú að hún hafi verið að sækja mat sem hafi verið geymdur í bifreið hennar á bílastæði íþróttahússins. Sjúkratryggingar Íslands endurupptóku málið og höfnuðu bótaskyldu á nýjan leik með bréfi, dags. 9. júní 2017. Í bréfinu segir að skýring kæranda í tölvupósti hennar frá 27. apríl 2017 hafi fyrst komið fram með beiðni um endurupptöku og Sjúkratryggingar Íslands telji að vart verði við það unað að kærandi geti skýrt mál sitt á annan hátt eftir að ákvörðun liggi fyrir og þannig hugsanlega fellt mál sitt undir bótaskylt atvik.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. júní 2017. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 14. júlí 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. júlí 2017, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að hafna bótaskyldu í máli hennar verði endurskoðuð.

Í kæru segir að kærandi hafi lent í vinnuslysi X 2016. Hún hafi starfað á þeim tíma í Íþróttamiðstöðinni C.

Slysið hafi gerst um kl. 11:30 en þá hafi kærandi verið í matarhléi. Starfsfólk í íþróttahúsinu hafi ekki fengið sérstakan matartíma. Gert hafi verið ráð fyrir að starfsfólk færi í mat þegar færi gæfist en það mætti kalla það úr mat ef þörf krefði. Þar af leiðandi væri greitt fyrir matartímann. Þennan dag hafi kærandi ákveðið að fara í matarhlé kl. 11:30. Hún hafi áttað sig á því að hún hafi gleymt nestinu sínu út í bíl þegar hún hafi komið um morguninn. Hún hafi því ákveðið að byrja matarhléið á að fara út í bíl og sækja nestið. Kærandi hafi ákveðið að reykja á leiðinni út í bíl. Hún hafi farið út úr íþróttamiðstöðinni, út um [...], en hafi þá runnið á snjó og hálku í tröppunum við innganginn. Kærandi hafi þá fallið og lent með bakið á tröppubrún. Hún hafi þegar fundið fyrir sársauka í bakinu en harkað það af sér. Nokkrum dögum seinna hafi hún svo læst alveg í bakinu og leitað í kjölfarið til læknis.

Þann X 2016 hafi kærandi leitað á Heilsugæsluna í D. Þar hafi hún lýst því fyrir lækni að hafa dottið fyrir einni og hálfri viku síðan í stiga og lent með bakið á tröppu. Hún hafi verið með verk vinstra megin á mótum hálshryggjar- og brjósthryggjarsvæðis og átt erfitt með að hreyfa sig almennilega. Daginn áður hafi hún svo fest í bakinu og þurft að rúlla sér út úr rúminu. Hún hafi lítið getað sofið vegna ástandsins. Skoðun læknis hafi gefið til kynna sárar snúningshreyfingar til hægri og vinstra megin í hálsi sem og við frambeygju. Einnig hafi verið eymsli við snúning á brjóstkassa, sérstaklega til hægri. Læknirinn hafi talið líklegast að kærandi hafi tognað þegar hún hafi dottið í hálkunni. Læknirinn hafi ávísað henni bólgueyðandi og verkjastillandi lyfjum.

Kærandi sé enn slæm í bakinu. Hún hafi leitað til læknis eftir þörfum og verið í sjúkraþjálfun. Til frekari upplýsinga vísi kærandi á læknisvottorð E, dags. 3. febrúar 2017.

Þann X 2016 hafi kærandi gert slysaskráningu vegna slyssins. Þar komi fram að slysið hafi gerst úti og að hún hafi fallið. Jafnframt að meiðsli hafi falist í tognun á hálsi og að kærandi hafi leitað til Heilsugæslu. Skráningin sé undirrituð af vaktstjóra hjá íþróttamiðstöðinni X.

Kærandi hafi leitað til lögmannsstofu í X 2016 vegna slyssins. Þegar hafi verið óskað eftir því fyrir hönd kæranda að vinnuveitandi hennar myndi tilkynna slysið til Sjúkratrygginga Íslands í samræmi við lög. Erfiðlega hafi gengið að fá tilkynningar frá vinnuveitanda. Í febrúar hafi kæranda borist afrit af tilkynningu vinnuveitanda til Vátryggingafélags Íslands hf. Þar komi fram um tildrög slyssins að kærandi hafi runnið í hálku í tröppum og fallið á bakið. Ítarlegri lýsing komi ekki fram. Jafnframt komi fram að kærandi hafi verið frá vinnu frá X til X 2016.

Með hliðsjón af samskiptum kæranda við vinnuveitanda, nánar tiltekið íþróttafulltrúa D, virðist ástæða þess að erfiðlega hafi gengið að fá tilkynningar frá vinnuveitanda hafi verið sú að íþróttafulltrúinn byggi á því að í fyrsta lagi að slysið hafi gerst þegar kærandi hafi farið út í óleyfi til að reykja. Í öðru lagi að slysið hafi ekki verið tilkynnt yfirmanni hjá íþróttamiðstöðinni og kærandi ekki kvartað um meiðsli vegna slyssins. Í þriðja lagi að kærandi hafi farið út við [tröppur] sem séu ekki í notkun sem inngangur í íþróttahúsið.

Miðað við upplýsingar kæranda og þau gögn sem liggi fyrir í málinu sé ljóst að þessar fullyrðingar fulltrúa vinnuveitanda séu rangar. Í fyrsta lagi hafi slysið gerst þegar kærandi hafi farið út í matarhlé til að sækja nestið sitt, sbr. atvikalýsingu kæranda. Í öðru lagi hafi slysið verið tilkynnt vaktstjóra nokkrum dögum eftir slysið, sbr. fyrirliggjandi slysaskráningu. Þar komi fram að kærandi hafi leitað til Heilsugæslu vegna meiðsla. Þá hafi kærandi verið frá vinnu vegna slyssins frá X til X 2016, sbr. tilkynningu vinnuveitanda til Vátryggingafélags Íslands hf. Í þriðja lagi hafi kærandi ekki farið út úr [...] heldur út um [...], sbr. atvikalýsingu kæranda.

Eftir ítrekuð samskipti við fulltrúa vinnuveitanda kæranda hafi hann loks sent tilkynningareyðublað til Sjúkratrygginga Íslands sem hafi verið fyllt út en hvorki stimplað né undirritað af hans hálfu. Á eyðublaðinu sé tildrögum slyssins lýst á eftirfarandi hátt: „A fór út af vinnustaðnum kl. 11:30. Snjór var yfir og rann hún í [tröppum] þar sem hún ásamt vinnufélaga fóru til að reykja.“

Eftir að eyðublað sem vinnuveitandi hafi sent hafi legið fyrir hafi Sjúkratryggingum Íslands verið sent bréf, dags. 20. mars 2017. Í bréfinu hafi verið tekið fram að kærandi teldi lýsinguna á eyðublaði vinnuveitanda ekki í samræmi við málsatvik og kærandi hafi þar af leiðandi sent Sjúkratryggingum Íslands sérstaka tilkynningu sem hún hafi undirritað, sem og afrit af tilkynningum hennar og vinnuveitanda til Vátryggingafélags Íslands hf. Í tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands, sem kærandi hafi undirritað, segi eftirfarandi um tildrög slyssins: „Var að ganga niður tröppur sem ekki var búið að hreinsa af snjó. Rennur í hálkunni og lendir með bakið beint á tröppu.“

Með bréfi, dags. 24. apríl 2017, hafi kæranda borist ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu. Í bréfinu komi fram að bótaskyldu sé hafnað með vísan til þess að atvikið falli undir athafnir sem ekki standi í neinu sambandi við vinnu samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga. Slysið hafi gerst þegar kærandi hafi verið að reykja en reykingar hafi ekki verið hluti af starfsskyldum hennar. Því sé ekki um að ræða vinnuslys.

Miðað við bréfið frá 24. apríl 2017 virðist stofnunin hafa lagt atvikalýsingu í óundirritaðri og óstimplaðri tilkynningu vinnuveitanda til grundvallar frekar en atvikalýsingu kæranda. Í ljósi þess hafi verið talið rétt að óska eftir endurupptöku með vísan til þess að ákvörðunin væri byggð á röngum upplýsingum. Frekari upplýsingar hafi því verið sendar stofnuninni ásamt atvikalýsingu kæranda, dags. 27. apríl 2017.

Með bréfi, dags. 9. júní 2017, hafi stofnunin tilkynnt að ekki væri fallist á sjónarmið kæranda, meðal annars með hliðsjón af nýjum gögnum frá vinnuveitanda. Atvikið ætti því ekki undir slysatryggingu almannatryggingalaga.

Þann 13. júní 2017 hafi kærandi óskað eftir afriti af hinum nýju gögnum frá vinnuveitanda frá stofnuninni. Gögnin hafi borist 14. júní 2017. Um sé að ræða tilkynningu vegna slyssins til Sjúkratrygginga Íslands sem sé undirrituð af hálfu vinnuveitanda, bréf fulltrúa vinnuveitanda, dags. 7. febrúar 2017 og afrit af bréfi kæranda til vinnuveitanda dags. 28. desember 2016.

Kærandi telji að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands í máli hennar sé ekki réttmæt. Hún eigi því ekki um aðra kosti að velja en kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Af hálfu kæranda sé á því byggt að ákvörðun stofnunarinnar sé byggð á röngum forsendum og sé ólögmæt. Hún telur að um bótaskylt atvik sé að ræða samkvæmt lögum nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/2015 taki slysatryggingar almannatryggingar til slysa sem verði við vinnu. Samkvæmt 2. mgr. sama ákvæðis teljist maður í vinnu „[þ]egar hann er á vinnustað á þeim tíma þegar honum er ætlað að vera að störfum, svo og í matar- og kaffitímum“.

Fyrir hönd kæranda sé byggt á því að slysið teljist bótaskylt vinnuslys samkvæmt 5. gr. laga nr. 45/2015 enda hafi það gerst á vinnustað þegar hún hafi verið í matartíma, sbr. framangreinda málsatvikalýsingu sem og atvikalýsingu kæranda frá 27. apríl 2017.

Byggt sé á því að ekki skipti máli þótt slysið hafi gerst utandyra. Slysið hafi gerst við inngang í Íþróttamiðstöðina, á lóð hússins, og teljist því hafa gerst á vinnustað. Því til stuðnings sé vísað til almenns málsskilnings sem og laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Samkvæmt 41. gr. laganna sé orðið vinnustaður ekki bundið við fasteignir og teljist vera allt umhverfi innan húss eða utan, þar sem starfsmaður hefjist við eða þurfi að fara um vegna starfa sinna.

Sjúkratryggingar Íslands hafi byggt á því að undanþága 3. mgr. 5. gr. laga nr. 45/2015 eigi við í málinu. Samkvæmt ákvæðinu teljist slys ekki verða við vinnu hljótist það af athöfnum slasaða sjálfs sem ekki standi í neinu sambandi við vinnuna. Kærandi mótmæli því að þessi undanþága eigi við enda hafi slysið gerst í matartíma hennar. Athafnir starfsfólks í matartíma standi eðli málsins samkvæmt ekki í neinu sambandi við vinnu þeirra. Þrátt fyrir það sé sérstaklega tekið fram í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 45/2015 að slys sem gerist í matartímum séu bótaskyld. Kærandi telji því að slysið sé bótaskylt á grundvelli þess ákvæðis.

Ofangreindu til stuðnings sé einnig vísað til þess að ekki hafi verið mötuneyti í íþróttahúsinu fyrir starfsfólk líkt og kæranda. Starfsfólk íþróttahússins hafi einungis fengið aðgang að eldhúsi og ætlast til þess að starfsfólk borði þar. Til þess að borða í hádeginu hafi kærandi því þurft að koma með mat eða fara og kaupa sér mat. Kærandi hafi yfirleitt komið með nesti með sér. Byggt sé á því að það að kærandi hafi lagt leið sína út í bíl að sækja nestið hafi verið eðlileg athöfn í matartímanum. Kærandi hafi ekki verið að haga sér óvenjulega eða að taka óeðlilega áhættu þegar slysið hafi gerst.

Sjúkratryggingar Íslands telji að það hafi úrslitaþýðingu í málinu að kærandi hafi verið að reykja þegar slysið hafi gerst. Varðandi það sé í fyrsta lagi bent á að tekið sé fram í gr. 3.1.1 í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsmannafélags D að matartími teljist almennt ekki til vinnutíma. Starfsfólk sé því ekki undir boðvaldi vinnuveitanda síns í matarhléi. Vinnuveitandi geti til dæmis ekki skyldað starfsfólk til að borða eitthvað ákveðið eða hvílast á ákveðinn hátt. Starfsfólkið sjálft taki ákvörðun um hvernig það nýti matartíma sinn. Starfsfólk íþróttahússins hafi einungis þurft að vera til taks í matarhléinu. Kærandi hafi því orðið að borða á staðnum. Kærandi telji að hún hafi mátt nýta matartíma sinn að öðru leyti á þann hátt sem hún kysi og að henni hafi verið heimilt að reykja á leið sinni út í bíl að sækja nestið sitt.

Í öðru lagi sé bent á að ekki séu orsakatengsl á milli þess að slysið gerðist og að kærandi hafi verið að reykja. Eins og komið hafi fram hafi kærandi verið í matarhléi. Hún hafi tekið með sér nesti að heiman um morguninn en gleymt því út í bíl. Til þess að geta borðað nestið sitt hafi hún því þurft að sækja það í bílinn, sem hafi verið á bílastæði við íþróttahúsið. Slysið hafi þar af leiðandi gerst af því kærandi hafi þurft að fara út að sækja nestið sitt, sem hún hafi ætlað að borða í matartímanum, en ekki af því að hún hafi verið að reykja. Slysið hefði gerst engu að síður þótt kærandi hefði ekki reykt. Kærandi telji því að stofnuninni sé ekki heimilt að hafna bótaskyldu á þeim grundvelli að hún hafi verið að reykja þegar slysið gerðist.

Í ljósi þess að Sjúkratryggingar Íslands hafi byggt höfnun sína á 10. gr. laga nr. 6/2002 um tóbaksvarnir, bendi kærandi í þriðja lagi á að það ákvæði banni ekki reykingar á lóðum íþróttahúsa. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. séu tóbaksreykingar með öllu óheimilar í „grunnskólum, vinnuskólum sveitarfélaga, á leikskólum, hvers konar dagvistum barna og í húsakynnum sem eru fyrst og fremst ætluð til félags-, íþrótta- og tómstundastarfa barna og unglinga“. Samkvæmt ákvæðinu séu tóbaksreykingar aðeins bannaðar í húsakynnum sem séu ætlaðar til íþrótta- og tómstundastarfs barna en ekki á lóðum húsanna. Slys kæranda hafi gerst á lóð íþróttahúss en ekki inni í húsinu. Kærandi telji þess vegna að stofnunin geti ekki byggt höfnun sína á lögum nr. 6/2002.

Í síðara höfnunarbréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 9. júní 2017, vísi stofnunin einnig til reglugerðar nr. 326/2007 um takmarkanir á tóbaksreykingum máli sínu til stuðnings. Kærandi telji að það sé á misskilningi byggt. Í 2. gr. reglugerðarinnar segi orðrétt:

„Tóbaksreykingar eru með öllu óheimilar í grunnskólum, vinnuskólum sveitarfélaga, leikskólum og hvers konar dagvistum barna. Nær bannið til húss og lóðar. Sama gildir um húsakynni sem ætluð eru til fræðslu-, félags-, íþrótta- og tómstundastarfa barna og unglinga svo og á opinberum samkomum innanhúss sem einkum eru ætlaðar börnum og unglingum.“

Í reglugerðinni sé sem sagt tekið fram að tóbaksreykingar séu bannaðar í bæði húsnæði og á lóðum grunnskóla, vinnuskóla sveitarfélaga og hvers konar dagvistun barna. Hvað íþróttahús varði nái bannið eingöngu til húsakynna en ekki lóðar, sbr. orðalag ákvæðins. Þetta sé áréttað í 6. gr. reglugerðarinnar þar sem skilgreint sé reykingabann í þjónusturými (húsakynnum) íþróttahúsa o.fl. Kærandi telji vegna þessa, og þar sem slysið hafi gerst á lóð íþróttahúss en ekki inni í því, að stofnunin geti ekki byggt höfnun sína á reglugerð nr. 326/2007.

Kærandi vilji einnig geta þess að afstaða og háttsemi fyrrum vinnuveitanda hennar í málinu hafi verið afar einkennileg og beri þess merki að um persónulega óvild í hennar garð sé að ræða. Kærandi telji að skoða verði öll gögn, sem stafi frá vinnuveitanda, og meta sönnunargildi þeirra í því ljósi. Bent sé á að fulltrúi vinnuveitanda sé meira að segja í andstöðu við sjálfan sig í málflutningi sínum. Í bréfi hans, dags. 7. febrúar 2017, sé gefið til kynna að ein ástæða þess að málið hafi farið í þennan farveg sé sú að kærandi hafi ekki tilkynnt sínum yfirmanni um slys á vinnutíma og/eða kvartað undan meiðslum eftir slysið. Síðar í bréfinu komi hins vegar bæði fram að kærandi hafi tilkynnt vaktstjóra um slysið nokkrum dögum eftir að það hafi gerst og að hún hafi orðið óvinnufær vegna þess X. Jafnframt komi fram að kærandi hafi leitað til heilsugæslu vegna slyssins. Í tilkynningu til Vátryggingafélags Íslands hf. tilgreini vinnuveitandi sérstaklega að kærandi hafi verið fjarverandi vegna slyssins frá X til X.

Bent sé á að fulltrúi vinnuveitanda hafi einnig haldið því fram að kærandi hafi gengið út um [...] á leið sinni út umrætt skipti. Kærandi hafi mótmælt þessu enda hafi hún verið að ganga út um [...] og sé notaður jafnt af starfsmönnum og gestum íþróttamiðstöðvarinnar, og hafi þurft að fara niður tröppur sem þar séu.

Atvikalýsingu kæranda til stuðnings sé bent á að afar ólíklegt sé að hún hefði lent með bakið á tröppunum ef hún hafi verið að ganga upp tröppur ([...]), en ekki niður þær við [...]. Hefði hún runnið þegar hún hafi verið að ganga upp tröppur hefði hún að öllum líkindum lent á maganum á tröppunum og/eða fallið aftur fyrir sig í átt að hurðinni/dyragætt. Bent sé á að kærandi hafi verið stöðug í frásögn sinni um að hún hafi lent á bakinu í tröppunum allt frá upphafi og sé hún því trúverðug. Því til stuðnings sé vísað til eftirfarandi. Í fyrsta lagi segi í samskiptaseðli hjúkrunar hjá Heilsugæslunni D, dags. X 2016: „Datt fyrir viku síðan í stiga og lendir með bakið á tröppu.“ Sambærilegar upplýsingar komi fram í læknisvottorði E, dags. 3. febrúar 2017. Í öðru lagi skrifi kærandi orðrétt í tilkynningu til Vátryggingafélags Íslands, dags. X 2016: „Var að ganga niður tröppur sem var ekki búið að moka vegna snjó. Ég renn í hálkunni og lendi með bakið beint á tröppu.“ Í þriðja lagi segi í tilkynningu vinnuveitanda til Vátryggingafélags Íslands hf., dags. 3. febrúar 2017: „Hún fór út á inniskóm og rann í hálku í tröppum og féll á bakið.“ Í fjórða lagi segi í ódagsettri tilkynningu kæranda til Sjúkratrygginga Íslands sem send hafi verið með bréfi, dags. 20. mars 2017: „Var að ganga niður tröppur sem ekki var búið að hreinsa af snjó. Rennur í hálkunni og lendir með bakið beint á tröppu.

Kærandi byggi á því að meta verði frásögn og afstöðu fyrrum vinnuveitanda hennar með hliðsjón af öllu þessu. Ljóst sé að atvikalýsing vinnuveitanda sé ósennileg og jafnframt í ósamræmi við lýsingu hans í tilkynningu til Vátryggingafélags Íslands hf. Kærandi telji að allur málatilbúnaður fyrrum vinnuveitanda síns sé að þessu marki brenndur.

Í bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 9. júní 2017, sé byggt á því að ekki sé hægt að leggja lýsingu kæranda, um að hún hafi verið að sækja nestið sitt þegar slysið gerðist, til grundvallar þar sem sú lýsing hafi fyrst komið fram í beiðni um endurupptöku. Stofnunin telji að ekki verði við það unað að kærandi geti skýrt mál sitt á annan hátt eftir að ákvörðun hafi legið fyrir og þannig hugsanlega fellt mál sitt undir bótaskylt atvik. Kærandi mótmæli þessum rökstuðningi stofnunarinnar harðlega.

Í fyrsta lagi sé bent á varðandi ofangreint að sú frásögn, að kærandi hafi verið að sækja nestið sitt, feli ekki í sér að hún sé að breyta atvikalýsingu sinni. Í tilkynningu kæranda til Sjúkratrygginga Íslands komi fram að hún hafi slasast þegar hún hafi runnið í tröppum og fallið við. Sú lýsing sé með engu móti önnur eða í andstöðu við þá lýsingu sem komi fram í atvikalýsingu kæranda, sem send hafi verið með endurupptökubeiðni, dags. 27. apríl 2017. Atvikalýsingin frá 27. apríl 2017 feli eingöngu í sér ítarlegri lýsingu á því hvernig slysið hafi gerst en fram komi í tilkynningunni.

Í öðru lagi sé kæranda óhjákvæmilegt annað en vísa til rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, í ofangreindu samhengi. Ljóst sé að stofnuninni hafi verið kunnugt um að ágreiningur hafi verið með fulltrúa vinnuveitanda og kæranda um það hvernig slysið hafi atvikast áður en stofnunin hafi tekið ákvörðun um bótaskyldu 24. apríl 2017, sbr. mismunandi lýsingar í tilkynningu kæranda og óundirritaðri tilkynningu sem fulltrúi vinnuveitanda hafi sent, sem og bréfi kæranda, dags. 20. mars 2017. Í ljósi þess hafi stofnuninni borið að rannsaka málið með ítarlegri hætti en venjulega áður en ákvörðun hafi verið tekin. Ákvörðun um bótaskyldu sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýsluréttar. Stofnuninni hafi því borið að fylgja reglum stjórnsýsluréttar, meðal annars rannsóknarreglu, við ákvarðanatökuna.

Samkvæmt 10. gr. laga nr. 37/1993 beri stjórnvaldi að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Í því felist að stjórnvald verði að undirbúa mál og rannsaka áður en ákvörðun sé tekin. Undirbúningurinn felist meðal annars í því að stjórnvald afli að eigin frumkvæði nauðsynlegra upplýsinga um málsatvik. Rannsóknarreglan tengist andmælarétti náið, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Í henni felist að stundum teljist mál ekki nægilega upplýst nema stjórnvald hafi gefið aðila kost á að kynna sér gögn máls og/eða að koma að frekari upplýsingum um atvik málsins. Varðandi andmælarétt sé rétt að benda á að það sé yfirleitt talið ótækt að leggja þýðingarmiklar upplýsingar til grundvallar sem séu aðila í óhag, án þess að honum hafi gefist færi á að tjá sig um þær og eftir atvikum leiðrétta þær og koma að fyllri upplýsingum.

Kærandi hafi ekki haft upplýsingar um það fyrir fram að Sjúkratryggingar Íslands hygðust hafna bótaskyldu, og leggja lýsingu vinnuveitanda hennar til grundvallar án athugasemda, og hafi því ekki haft ástæðu til að ætla að þörf væri á frekari upplýsingum frá henni. Kærandi hafi engan veginn átt von á því að stofnunin myndi leggja til grundvallar tilkynningu, sem vinnuveitandi hafi sent stofnuninni, en hafi hvorki verið undirrituð né stimpluð í samræmi við reglur stofnunarinnar. Kærandi hafi talið óumdeilt að slysið hafi gerst á vinnustað hennar, í matartíma og að það hafi uppfyllt skilyrði slysahugtaksins. Frásögn kæranda hafi að auki verið stöðug og trúverðug allt frá því að slysið hafi gerst. Kærandi mótmæli því harðlega að sú atvikalýsing sem hún vilji leggja til grundvallar sé eftiráskýring og/eða í andstöðu við þá lýsingu sem fram hafi komið í upphaflegri tilkynningu hennar til stofnunarinnar.

Hefðu Sjúkratryggingar Íslands gætt að rannsóknarreglunni, og óskað eftir frekari upplýsingum frá kæranda áður en ákvörðun hafi verið tekin, hefði kærandi að sjálfsögðu sent stofnuninni ítarlegri lýsingu á atvikum til þess að skýra málið frekar. Stofnunin hafi haft ríka ástæðu, í ljósi þess að ágreiningur hafi verið með málsaðilum um atvik, að óska eftir frekari upplýsingum áður en ákvörðun hafi verið tekin. Það sé almennt viðurkennt að þegar deilt sé um málsatvik, sem hafi verulega þýðingu fyrir úrlausn máls, beri stjórnvöldum að leggja ríka áherslu á að rannsaka þann þátt, sbr. sömu heimild, bls. 111. Kærandi telji að stofnunin hafi því miður ekki gætt að þessu.

Einnig sé bent á að samkvæmt ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 9. júní 2017 sé ljóst að stofnunin hafi óskað eftir frekari gögnum frá vinnuveitanda kæranda þegar endurupptökubeiðni hennar hafi komið fram. Þegar gögnin hafi legið fyrir hafi stofnunin tekið ákvörðun um að hafna bótaskyldu að nýju. Stofnunin hafi ekki kynnt kæranda þessi nýju gögn, eða að það stæði til að afla þeirra, áður en ákvörðunin hafi verið tekin 9. júní 2017. Í gögnunum sem hafi borist frá vinnuveitanda hafi meðal annars verið bréf hans, dags. 7. febrúar 2017, sem og tilkynning á eyðublaði Sjúkratrygginga Íslands, nú undirrituð af hálfu vinnuveitanda.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga, um andmælarétt, skuli aðili máls eiga kost á að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald taki ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Varðandi andmælarétt sé almennt viðurkennt að stjórnvaldi sé óheimilt að taka ákvörðun í máli fyrr en það hafi gefið aðila sérstakt færi á að kynna sér gögn og tjá sig um mál, ef honum sé ókunnugt um að ný gögn og upplýsingar hafi bæst við í máli hans, einkum og sér í lagi ef upplýsingarnar séu honum í óhag. Kærandi telji, í ljósi þess að afstaða hennar til nýju gagnanna frá vinnuveitanda hafi ekki legið fyrir, þá hafi stofnuninni borið að kynna henni gögnin áður en stofnunin hafi tekið ákvörðun um að hafna bótaskyldu að nýju.

Kærandi telji í ljósi þeirra annmarka sem hafi verið á afgreiðslu málsins hjá Sjúkratryggingum Íslands að eðlilegast væri að stofnunin afturkallaði ákvörðun sína og tæki málið til endurskoðunar að eigin frumkvæði. Ljóst sé að rannsóknarregla og andmælaréttur hafi ekki verið virtur auk þess sem ákvörðun stofnunarinnar virðist að hluta byggð á misskilningi um efni reglugerðar nr. 326/2007.

Með vísan til alls ofangreinds telji kærandi að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að hafna bótaskyldu í máli hennar hafi verið ólögmæt. Kærandi óski eftir því að málið verði tekið til endurskoðunar hjá úrskurðarnefnd velferðarmála.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að við úrlausn málsins hafi verið litið til I. kafla laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga. Samkvæmt 5. gr. laganna séu launþegar slysatryggðir við vinnu. Í ákvæðinu komi einnig fram að með slysi sé átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem valdi meiðslum á líkama þess sem tryggður sé og gerist án vilja hans.

Í 2. mgr. 5. gr. sé tilgreint að einstaklingur teljist vera við vinnu þegar hann sé á vinnustað á þeim tíma sem honum sé ætlað að vera að störfum, svo og í matar- og kaffitímum. Einnig sé hann í sendiferð í þágu atvinnurekstrar eða nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem farnar séu samdægurs á milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Þá segi að slys teljist ekki verða við vinnu hljótist það af athöfnum slasaða sjálfs sem ekki standi í neinu sambandi við vinnuna.

Í 1. mgr. 6. gr. laganna komi fram að þegar slys beri að höndum sem ætla megi að bótaskylt sé samkvæmt lögunum, skuli atvinnurekandi eða hinn tryggði tafarlaust senda tilkynningu um slysið á því formi sem sjúkratryggingastofnun skipi fyrir um. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna sé þó heimilt að greiða bætur samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setji þótt liðið sé ár frá því að slys hafi borið að höndum séu atvik svo ljós að drátturinn torveldi ekki gagnaöflun um atriði er máli skipti. Í reglugerð nr. 356/2005 um tilkynningarfrest slysa sé fjallað nánar um skilyrði þess að fallið sé frá eins árs tilkynningarfresti laganna, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Í ákvæðinu segi:

Skilyrði þess að fallið sé frá kröfu um að slys sé tilkynnt innan tilkynningarfrests er að fyrir liggi öll nauðsynleg gögn sem varpað geta ljósi á málið, þar með talið gögn frá þeim lækni sem sá slasaða fyrst eftir slys eða þeirri sjúkrastofnun sem hann leitaði fyrst til, svo og gögn um fyrra heilsufar slasaða. Jafnframt er skilyrði að fyrir liggi læknisfræðilegt mat á orsakasambandi, þ.e. að unnt sé að meta orsakasamband slyssins og heilsutjóns slasaða.

Í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 24. apríl 2017, komi fram að í tilkynningu vinnuveitanda til stofnunarinnar hafi verið að finna lýsingu á tildrögum og orsök slyssins. Þar hafi sagt að kærandi hefði farið út af vinnustað klukkan kl. 11:30 til þess að reykja. Hafi hún þá runnið í [tröppum] en snjór hafi verið yfir þeim. Í tölvupósti vinnuveitanda til stofnunarinnar, dags. 3. mars 2017, komi meðal annars fram að kærandi hefði farið út af vinnustaðnum á vinnutíma í óleyfi til að reykja. Slíkt sé með öllu bannað samkvæmt 10. gr. laga nr. 6/2002 um tóbaksvarnir. Umrætt bann sé vel auglýst og öllum starfsmönnum ljóst. Þá komi fram að staðurinn þar sem óhappið hafi átt sér stað sé ekki notaður sem inngangur í húsið og því séu ekki gerðar ráðstafanir þar vegna hálku.

Í erindi kæranda, dags. 20. mars 2017, hafi lýsingu atvinnurekanda í tilkynningu verið mótmælt og nýrri tilkynningu skilað inn, undirritaðri af kæranda. Í þeirri tilkynningu, sem sé ódagsett, komi fram að kærandi hafi verið að ganga niður tröppur sem ekki hafi verið búið að hreinsa af snjó, runnið í hálkunni og lent með bakið á tröppu.

Í læknisvottorði, dags. 3. febrúar 2017, komi fram að kærandi hafi leitað á heilsugæslu einni og hálfri viku eftir slysið og lýst að hún hafi dottið í tröppum í hálku og lent á bakinu.

Samkvæmt þessu hafi þótt ljóst að atvikið félli undir athafnir sem ekki stóðu í neinu sambandi við vinnu samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga, enda reykingar ekki hluti af starfsskyldum og þar að auki bannaðar lögum samkvæmt á umræddum vinnustað. Því hafi ekki verið um að ræða vinnuslys í skilningi laganna og skilyrði til greiðslu bóta úr slysatryggingum almannatrygginga því ekki verið uppfyllt.

Í lok ákvörðunar hafi komið fram að slys hafi verið tilkynnt meira en ári eftir að það hafi átt sér stað en tilkynningarfrestur sé eitt ár frá slysdegi samkvæmt 6. gr. laganna. Í ljósi ofangreindrar niðurstöðu hafi læknisfræðilegt mat á orsakasambandi ekki farið fram.

Varðandi frekari rökstuðning vísi stofnunin í ákvörðun sína frá 24. apríl 2017.

Þann 30. maí 2017 hafi Sjúkratryggingum Íslands borist beiðni um endurupptöku málsins með eftirfarandi rökstuðningi:

Umbjóðandi minn bendir á að skv. tilvísaðri lagagrein (10. gr. l. nr. 6/2002) eru reykingar bannaðar m.a. í grunnskólum, vinnustöðum sveitarfélaga og í húsakynnum sem fyrst og fremst séu ætluð til félags-, íþrótta- og tómstundastarfa barna og unglinga. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins nær gildissvið þess ekki til bílastæða þessara húsa eða svæða sem ætluð eru sem reykingasvæði. Umbjóðandi minn telur að umrætt ákvæði geti aldrei sem slíkt orðið grundvöllur höfnunar bótaskyldu slyssins samkvæmt lögum nr. 45/2015.

Umbjóðandi minn hefur ítrekað m.a. með framlögðum gögnum að þegar slysið varð hafi hún verið að sækja nestið sitt út í bifreið sem var lagt á bílastæði íþróttahússins. Ástæða þess að hún yfirgaf vinnustaðinn var því sú að hún var að sækja hádegismat sinn. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. l. nr. 45/2015 eru launþegar slysatryggðir við vinnu, þegar hann er á vinnustað á þeim tíma sem honum er ætlað að vera að störfum og í matar og kaffitímum. … Því var hún ekki að yfirgefa vinnustaðinn í óleyfi þegar hún fór að sækja nestið sitt í bifreið sína sem stóð á bílaplani íþróttamiðstöðvarinnar. Þá hafnar hún því að hún hafi yfirgefið vinnustaðinn í þeim tilgangi að reykja, og telur þær skýringar vinnuveitanda hennar órökstuddar og úr lausu lofti gripnar. Hún bendir á að hún hafi ekki samþykkt þessa lýsingu vinnuveitanda og ekki undirritað tilkynningu hans til SÍ með þessari lýsingu.

Með hliðsjón af rökstuðningi kæranda hafi Sjúkratryggingar Íslands óskað eftir nánari gögnum frá vinnuveitanda, þ.e. bréfaskrifum milli hans og kæranda, auk upplýsinga um hvort vitni gæti staðfest framburð hans um að kærandi ásamt samstarfsmanni hafi farið út að reykja. Gögn hafi borist 8. júní 2017 auk staðfestingar þess efnis að vitni hafi sagt svo frá að þau hefðu farið út að reykja.

Ekki hafi verið fallist á sjónarmið kæranda um að 10. gr. laga nr. 6/2002 um tóbaksvarnir gæti ekki orðið grundvöllur höfnunar bótaskyldu slyssins. Samkvæmt reglugerð nr. 326/2007 um takmarkanir á tóbaksreykingum komi fram að tóbaksreykingar séu með öllu óheimilar í grunnskólum, vinnuskólum sveitarfélaga, leikskólum og hvers konar dagvistun barna. Nái bannið til húss og lóðar. Hafi það verið mat stofnunarinnar að atvikið ætti ekki undir slysatryggingu almannatryggingalaga.

Í ákvörðuninni hafi komið fram að sú skýring kæranda um að hún hafi verið að ná í nestið sitt hafi fyrst komið fram með beiðni um endurupptöku og stofnunin talið að vart yrði við það unað að kærandi gæti skýrt mál sitt á annan hátt eftir að ákvörðun lægi fyrir og þannig hugsanlega fellt mál sitt undir bótaskylt atvik. Þá hafi það ekki breytt því að óheimilt hafi verið að reykja á umræddu svæði, sama hvort kærandi hafi farið út eingöngu til þess að reykja eða ná í nestið sitt og reykja í leiðinni.

Í kæru, dags. 19. júní 2017, komi fram að slysið hafi orðið þegar kærandi hafi verið að reykja fyrir utan vinnustað en hún ætlað að sækja nesti í bíl sinn til að borða í hádegishléi.

Leggja beri almennan skilning í skilyrði 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga um að slys hafi orðið við vinnu eða í beinum tengslum við vinnu eins og nánar segi í ákvæðinu, og hafi sú túlkun verið staðfest í úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála (áður úrskurðarnefnd almannatrygginga). Að mati stofnunarinnar sé ljóst að slysið hafi orðið þegar kærandi hafi verið að reykja fyrir utan vinnustað, í óleyfi þar sem reykingar hafi verið bannaðar fyrir utan vinnustað (á lóð). Þar af leiðandi sé Sjúkratryggingum Íslands ekki heimilt að líta svo á að umrætt slys hafi verið í tengslum við vinnu í skilningi 5. gr. laganna. Að mati stofnunarinnar skipti ekki máli hvað hún hafi ætlað að gera að reykingum loknum eða að hún hafi verið að reykja á leið sinni út í bíl.

Að öllu virtu telji Sjúkratryggingar Íslands rétt að nefndin staðfesti hina kærðu ákvörðun.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu vegna slyss sem kærandi varð fyrir X 2016.

Ákvæði um slysatryggingar má finna í II. kafla laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga. Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna taka slysatryggingar almannatrygginga til slysa við vinnu, iðnnám, björgunarstörf, hvers konar íþróttaæfingar, íþróttasýningar, íþróttakeppni eða heimilisstörf, enda sé hinn slasaði tryggður samkvæmt ákvæðum 7. eða 8. gr. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laganna telst maður vera við vinnu:

„a. Þegar hann er á vinnustað á þeim tíma þegar honum er ætlað að vera að störfum, svo og í matar- og kaffitímum.

b. Í sendiferð í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem eru farnar samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Sama gildir um lengri ferðir af þessu tagi ef starfsmaður er á launum hjá vinnuveitanda í ferðinni.“

Þá segir í 1. málsl. 3. mgr. 5. gr. laganna að slys teljist ekki verða við vinnu ef það hlýst af athöfnum slasaða sjálfs sem ekki standi í neinu sambandi við vinnuna.

Úrskurðarnefnd velferðarmála leggur á það sjálfstætt mat hvort bótaskylda vegna slyss kæranda telst vera fyrir hendi og metur það á grundvelli fyrirliggjandi gagna málsins sem úrskurðarnefndin telur nægileg. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort slys kæranda X 2016 hafi orðið við vinnu í skilningi 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga.

Í óundirritari tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands, dags. 3. febrúar 2017, segir um lýsingu á tildrögum og orsökum slyssins og hvernig það tengist vinnu:

„A fór út af vinnustaðnum kl. 11:30. Snjór var yfir og rann hún í [tröppum] þar sem hún ásamt vinnufélaga fóru til að reykja.“

Í bréfi kæranda til Sjúkratrygginga Íslands, dags. 20. mars 2017, kemur fram að hún telji lýsingu atvinnurekanda ekki vera í samræmi við málsatvik. Meðfylgjandi bréfinu væri því tjónstilkynning undirrituð af kæranda. Í þeirri tilkynningu segir um lýsingu á tildrögum og orsökum slyssins og hvernig það tengist vinnu:

„Var að ganga niður tröppur sem ekki var búið að hreinsa af snjó. Rennur í hálkunni og lendir með bakið beint á tröppu.“

Í tilkynningu um tjón til Vátryggingafélags Íslands hf., dags. X 2016, segir um hvernig slysið vildi til:

„Var að ganga niður tröppur sem var ekki búið að moka vegna snjó. Ég renn í hálkunni og lendi með bakið beint á tröppu. Finn högg en verkir koma nokkrum dögum síðar.“

Í læknisvottorði, dags. 3. febrúar 2017, segir um slysið:

„Fyrstu samskipti vegna áðurnefnd slyss eru X 2016. Hittir þá F lækni. Hafði dottið í tröppum í hálku einni og hálfri viku áður, hafði lent með bakið á tröppu.“

Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 24. apríl 2017, synjaði stofnunin bótaskyldu vegna slyssins á þeirri forsendu að atvikið falli undir athafnir sem standi ekki í neinu sambandi við vinnu samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga, enda reykingar ekki hluti af starfsskyldum kæranda. Með bréfi, dags. 30. maí 2017, óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í bréfinu kemur fram að slys kæranda hafi gerst þegar hún hafi verið að sækja nestið sitt. Sjúkratryggingar Íslands tóku málið upp að nýju og með bréfi stofnunarinnar, dags. 9. júní 2017, synjaði stofnunin umsókn kæranda um bótaskyldu. Í bréfi stofnunarinnar kemur fram að vart yrði við það unað að kærandi geti skýrt mál sitt á annan hátt eftir að ákvörðun lægi fyrir og þannig hugsanlega fellt mál sitt undir bótaskylt atvik.

Ágreiningur málsins lýtur sem fyrr segir að því hvort slys kæranda hafi orðið við vinnu í skilningi 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga. Kemur fyrst til skoðunar hvort kærandi hafi verið við vinnu í skilningi a-liðar 2. mgr. 5. gr. laganna.

Slys kæranda átti sér stað þegar hún rann í tröppum fyrir utan vinnustað hennar á þeim tíma sem henni var ætlað að vera að störfum. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður hugtakið vinnustaður ekki túlkað svo þröngt að það taki einvörðungu til umhverfis innan húss, sbr. 41. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, þar sem vinnustaður er skilgreint sem umhverfi innan húss eða utan, þar sem starfsmaður hefst við eða þarf að fara um vegna starfa sinna. Þar af leiðandi telst skilyrði a-liðar 2. mgr. 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga vera uppfyllt.

Því næst kemur til skoðunar hvort slysið teljist ekki hafa verið við vinnu þar sem það hafi stafað af athöfn kæranda sem ekki standi í neinu sambandi við vinnuna, sbr. 1. máls. 3. mgr. 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga. Í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 24. apríl 2017 kemur fram að ljóst þyki að atvikið falli undir athafnir sem ekki standi í neinu sambandi við vinnu samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laganna, enda reykingar ekki hluti af starfsskyldum kæranda og þar að auki bannaðar lögum samkvæmt á vinnustaðnum. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að líta verði svo á að orsakavaldur slyssins sé ekki sú athöfn kæranda að reykja heldur sú athöfn kæranda að ganga í tröppum utandyra. Þar af leiðandi ræður það ekki úrslitum við mat á bótaskyldu hvort kæranda hafi verið heimilt eða ekki að reykja á lóð íþróttahússins.

Úrskurðarnefndin telur að megintilgangur slysatrygginga sé að tryggja starfsmenn fyrir þeim hættum sem bundnar eru við framkvæmd vinnu og að við beitingu 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga verði að áskilja a.m.k. nokkur tengsl á milli athafnarinnar sem leiddi til slyssins við vinnu og framkvæmd hennar. Þar af leiðandi ræðst bótaskylda í þessu máli á því hvort sú athöfn kæranda að ganga í tröppum utandyra hafi nokkur tengsl við vinnu og framkvæmd hennar. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður 1. málsl. 3. mgr. 5. gr. laganna ekki túlkaður svo vítt að allar þær athafnir sem ekki teljast vera hluti af beinum starfsskyldum falli undir athafnir sem ekki standi í neinu samband við vinnu. Úrskurðarnefndin telur því að sú athöfn kæranda að ganga í tröppum utandyra við vinnustað sinn á vinnutíma sé ekki svo fjarlæg starfi hennar sem starfsmaður í íþróttahúsi að það teljist ekki standa í neinu sambandi við vinnuna, óháð því hvort hún hafi stigið út til þess að reykja eða til þess að sækja nestið sitt.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi hafi verið við vinnu samkvæmt a-lið 2. mgr. 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga þegar hún varð fyrir slysi 25. febrúar 2016. Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga er því felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til frekari meðferðar.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu vegna slyss A, sem hún varð fyrir X 2016, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til frekari meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta