Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Nr. 397/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 397/2018

Miðvikudaginn 20. febrúar 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 10. nóvember 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 26. október 2017 um stöðvun greiðslna til kæranda og innheimtu ofgreiddra bóta, ákvörðun stofnunarinnar frá 29. október 2018 þar sem kæranda var synjað um afturvirkar greiðslur örorkulífeyris og ákvörðun stofnunarinnar frá 29. október 2018 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi var á endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á tímabilinu X til X. Kærandi fékk síðan greiddan örorkulífeyri frá X. Tryggingastofnun ríkisins tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 19. september 2017, að í ljósi breytinga á lögheimili hans frá Íslandi til B þann X 2017 væri fyrirhuguð stöðvun allra greiðslna til hans. Kærandi andmælti ákvörðun stofnunarinnar með tölvupósti 21. september 2017 en ákvörðunin var látin standa og var kæranda tilkynnt með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. október 2017, um stöðvun greiðslna frá X 2017 og kröfu að fjárhæð X kr. með 15% álagi.

Með umsókn, dags 4. október 2018, sótti kærandi um örorkulífeyri. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. október 2018, var umsókn kæranda synjað með þeim rökum að hann væri enn með skráð lögheimili á B og samkvæmt 4. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar væri búseta á Íslandi eitt af skilyrðum fyrir greiðslum almannatrygginga nema annað leiði af milliríkjasamningnum.

Með erindum, dagsettum 16. og 18. október 2018, fór kærandi fram á greiðslu örorkulífeyris og tengdra bóta tvö ár aftur í tímann fyrir töku örorkulífeyris, auk dráttarvaxta að viðbættu 25% álagi. Með bréfi, dags. 29. október 2018, var beiðni kæranda synjað á þeim grundvelli að ekki væri fyrir hendi heimild í lögum nr. 100/2007 til að greiða örorkulífeyri fyrir tímabil þar sem hann hafi ekki uppfyllt skilyrði örorkulífeyris.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. nóvember 2018. Með bréfi, dags. 12. nóvember 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 10. desember 2018, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með tölvupósti úrskurðarnefndar 11. desember 2018. Með tölvupósti, mótteknum 17. desember 2018, bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. desember 2018. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti, mótteknum 2. janúar 2019, og voru þær kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kröfugerð kæranda í málinu er ekki skýr en ráða má af gögnum málsins að kærandi krefjist þess að felld verði úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. október 2017, um stöðvun örorkulífeyris og innheimtu ofgreiddra bóta. Einnig má ráða af gögnunum að kærandi geri kröfu um að felld verði úr gildi synjun Tryggingastofnunar um örorkulífeyri, dags. 29. október 2018, og að greiðslurnar verði veittar. Þá má ráða af gögnum málsins að kærandi geri kröfu um greiðslur örorkulífeyris í tvö ár aftur í tímann fyrir gildistöku fyrsta örorkumats, dags. X.

Í kæru kemur fram að Tryggingastofnun hafi synjað umsókn kæranda um örorkumat vegna lögheimilis erlendis en stofnunin hafi ekki vald til þess.

Tryggingastofnun hafi einnig synjað kæranda um leiðréttingu á greiðslum tvö ár aftur í tímann frá því að örorka hans byrjaði. Þessi krafa sé byggð á úrskurði umboðsmanns Alþingis um að Tryggingastofnun hafi alltaf átt að gera þetta en hafi aldrei gert.

Kærandi spyrji hvernig Tryggingastofnun geti brotið á rétti hans samkvæmt 65. gr. og 76. gr. stjórnarskrár Íslands. Frá X 2017 hafi öllum greiðslum frá Tryggingastofnun verið hætt. Einnig hafi hætt að koma […] og fleira sem bundið sé í stjórnarskrá. Þess sé krafist að úrskurðarnefnd breyti þessu og virði áðurnefndar greinar stjórnarskrár Íslands. Um mismunun sé að ræða að einstaklingur sem sé búsettur fyrir utan EES, Kanada og Bandaríkjanna fái engar örorkubætur. Þá hafi Tryggingastofnun stöðvað allar greiðslur þann X 2017, þrátt fyrir skýr ákvæði í 76. gr. stjórnarskrárinnar um að öryrkjar eigi rétt á fjárhagsaðstoð.

Í athugasemdum kæranda, mótteknum 17. desember 2018, er ítrekað að Tryggingastofnun, ásamt íslenska ríkinu, sé að brjóta á réttindum kæranda samkvæmt 76. grein stjórnarskrár Íslands. Öll þau lög sem skerði stjórnarskrárvarinn rétt hans teljist ólögleg með öllu.

Einnig brjóti Tryggingastofnun, ásamt íslenska ríkinu, á réttindum kæranda samkvæmt 65. grein stjórnarskrár Íslands. Það sé gert á grundvelli mismunandi samninga sem ríkið hafi gert. Ef kærandi væri búsettur innan EES, Kanada eða Bandaríkjanna þá myndi hann halda örorkubótum sínum. Þá spyr kærandi hvort brjóta megi á honum þar sem hann hafi gifst B konu.

Þessar tvær greinar í stjórnarskrá Íslands ættu að verja kæranda fyrir því ofbeldi hann hafi orðið fyrir af hálfu Tryggingastofnunar.

Tryggingastofnun telji að sumt sé hreinlega fyrnt og ekki eigi að bæta þann missi samkvæmt stjórnsýslulögum. Tryggingastofnun hafi átt að leiðbeina kæranda samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga, en hafi ekki gert það. Kærandi vilji meina að Tryggingastofnun hafi brotið 72. gr., 139. gr. og 140 gr. almennra hegningarlaga auk fleiri brota og sé fyrningarfresturinn 15 ár ef brot varði meira en 10 ára fangelsi.

Máli sínu til frekari stuðnings segir kærandi að í dag séu meira en 1.000 öryrkjar með engar greiðslur frá Tryggingastofnun. Stofnunin viðhafi kerfislægt ofbeldi gagnvart þeim sem sæki um örorkubætur. Sem dæmi nefnir kærandi meðhöndlun Tryggingastofnunar á eingreiðslum frá lífeyrissjóðum og að Tryggingastofnun uppfylli ekki leiðbeiningarskyldu sína gagnvart skjólstæðingum sínum. Þrátt fyrir úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga um að þetta sé rangt, þá haldi stofnunin áfram að brjóta lögin. Ef miðað sé við að margítrekuð brot séu framin og að sterkur brotavilji sé til staðar þá fyrnist mál á 15 árum ef brot varði meira en 10 ára fangelsi.

Það sé mjög alvarlegt að Tryggingastofnun ljúgi að úrskurðarnefnd varðandi það hvernig mál hans hafi byrjað. Tryggingastofnun segi að vegna „GRUNS“ um rangt heimilisfang, þá hafi stofnunin óskað eftir upplýsingum frá Þjóðskrá. Þetta sé ekki rétt, [...] hafi tilkynnt kæranda [...] til Tryggingastofnunar og hafi notað til þess „TILKYNNINGARHNAPP“ sem hafi verið dæmdur ólöglegur af Hæstarétti Íslands. Þar sem um ólögmæta sönnun hafi verið að ræða eigi að fella málið strax niður.

Á árinu X hafi úrskurðarnefnd almannatrygginga úrskurðað að Tryggingastofnun ætti að fella niður kröfu á hendur honum að öllu leyti vegna bágrar fjárhagsstöðu hans. Í X 2017 hafi komið krafa frá Tryggingastofnun um ofgreiðslu upp á X með 25% álagi. Kærandi spyrji hvernig fjárhagur hans hafi breyst. Seinustu X mánuði hafi kærandi [...] hans eingöngu verið með X kr. á mánuði frá lífeyrissjóði.

Kærandi vísar til 76. gr. og 65. gr. stjórnarskrár Íslands og ítrekar fyrri kröfur sínar.

Í athugasemdum kæranda, mótteknum 2. janúar 2019, kemur fram að síðustu tvö árin hafi verið mjög erfið fyrir kæranda [...]. Fyrir einstakling eins og hann, sem sé með geðræn vandamál, þá aukist veikindin við árásir Tryggingastofnunar, Þjóðskrár og ríkisins.

Úrskurðarnefndinni sé bent á að lífeyrissjóðir kæranda hafi fyrir mörgum árum samþykkt að ekki væri þörf á endurmati, sem segi að veikindi hans séu þess eðlis að engin von sé um bata. Í öll þessi ár sem kærandi hafi þurft að endurnýja örorkumat sitt með vottorði frá lækni, þá hafi að minnsta kosti fimm mismunandi læknar staðfest veikindi hans.

Varðandi það að Tryggingastofnun hafi lýst því yfir að þar sem ekki séu til samningar við B um sjúkratryggingar beggja landa, þá geti stofnunin brotið á kæranda samkvæmt 76. grein stjórnarskrár Íslands. Réttur kæranda til fjárhagslegrar aðstoðar sé bundinn í þessari grein stjórnarskrárinnar. Varðandi það sem Tryggingastofnun hafi haldið fram að einhver „GRUNUR“ hafi vaknað hjá stofnuninni um að hann [...] væru erlendis sé bara lygi. Tryggingastofnun hafi fengið þessa vitneskju frá [...] sem vilji hefna sín á honum og þá sé sú vitneskja brot á lögum um persónuvernd. Kærandi sé með mál hjá C vegna þess.

Ástæða fyrir dvöl kæranda [...] sé margþætt. Fyrir það fyrsta þá hafi eiginkona hans greinst með [...]. Að greinast með [...]. Eiginkona hans vilji [...] í veikindum sínum. Þau geti ekki búið á Íslandi þar sem Útlendingastofnun gerir kröfu um framfærslu og öruggt húsnæði sem þau hafi ekki. Aðstæður [...] séu erfiðar og þau vilji bara fá að lifa sem bestu lífi þar til eiginkona hans [...].

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærðar séu tvær ákvarðanir stofnunarinnar, dags. 29. október 2018. Annars vegar ákvörðun um að synja umsókn kæranda um endurmat á örorkulífeyri og hins vegar ákvörðun um að synja kæranda um greiðslur örorkulífeyris í tvö ár áður en örorka kæranda byrjaði.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. 

Um endurhæfingarlífeyri segi meðal annars í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18 til 67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Tryggingastofnun greiði út lífeyri til þeirra einstaklinga sem séu í tryggingum og með lögheimili hér á landi, sbr. 4. gr. laga um almannatryggingar. Einnig greiði stofnunin lífeyri til þeirra einstaklinga sem hafi búsetu í þeim löndum sem Ísland hafi gert samninga við, sbr. 68. gr. laga um almannatryggingar.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um almannatryggingar ákvarði Tryggingastofnun sjálfstætt hvort einstaklingur teljist tryggður hér á landi eða ekki. Einstaklingur teljist tryggður hafi hann búsetu hér á landi, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga um almannatryggingar, en með búsetu sé átt við skráningu á lögheimili samkvæmt lögheimilislögum, sbr. 5. lið 1. mgr. 2. gr. laga um almannatryggingar. Einstaklingar sem flytji búsetu sína frá Íslandi teljist ekki tryggðir nema annað leiði af milliríkjasamningum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá skuli Tryggingastofnun halda sérstaka skrá um tryggingaréttindi einstaklinga. Skráin skuli vera til viðbótar við Þjóðskrá. Jafnframt segi í 17. gr. að lífeyrisþegar sem taki upp búsetu innan Evrópska efnahagssvæðisins eigi rétt á að halda skráningu sinni sem tryggðir hjá almannatryggingum. Þá ákvarði Tryggingastofnun hvort einstaklingur teljist tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar og áðurnefndri reglugerð, sbr. 20. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar skuli sækja um allar bætur samkvæmt lögunum.

Í 2. mgr. 53. gr. sé fjallað sérstaklega um greiðslu bóta aftur í tímann. Þar segi að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berist stofnuninni. Um sé að ræða undantekningarákvæði sem eingöngu skuli beita í undantekningartilfellum.

Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar geti enginn notið fleiri en einnar tegundar greiddra bóta samkvæmt lögum þessum og lögum um slysatryggingar almannatrygginga vegna sama atviks eða fyrir sama tímabil nema annað sé þar sérstaklega tekið fram.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi frá X til X 2017 verið á greiðslum hjá Tryggingastofnun ríkisins. Fyrst á endurhæfingarlífeyri frá X til X og síðan hafi kærandi fengið örorkulífeyri og tengdar bætur frá X til X 2017. 

Kærandi hafi fengið greiðslur frá Tryggingastofnun á meðan að hann hafi uppfyllt skilyrði almannatrygginga um búsetu til þess að njóta þeirra greiðslna. Við eftirlit hjá Tryggingastofnun hafi vaknað grunsemdir um að kærandi byggi á B, og hafi gert í lengri tíma, en ekki á Íslandi. Í kjölfarið hafi því verið send ábending um það til Þjóðskrár Íslands. Eftir rannsókn Þjóðskrár Íslands hafi lögheimili kæranda svo verið fært til B og hafi sá flutningur gilt frá X 2017 eins og sjá megi af meðfylgjandi tölvupósti. Kæranda hafi verið veitt tækifæri til andmæla með bréfi, dags. 19. september 2017, sem kærandi hafi svarað með tölvupósti, mótteknum 20. sama mánaðar. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 26. október 2017, hafi kæranda verið tilkynnt endanlega um stöðvun greiðslna og endurkröfu. Sú ákvörðun Tryggingastofnunar hafi ekki verið kærð á sínum tíma og kærufrestur sé því löngu liðinn.

Með umsókn, dags. 4. október 2018, hafi kærandi óskað eftir endurmati á örorkulífeyri. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 29. október 2018, hafi honum verið synjað um endurmat þar sem hann hafi hvorki uppfyllt skilyrði örorkulífeyris samkvæmt 18. gr. né örorkustyrks samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar.

Með erindum þann 16. og 18. október 2018, hafi kærandi farið fram á að fá greiðslur örorkulífeyris í tvö ár áður en að örorka hans hófst. Tryggingastofnun hafi synjað þeim erindum með bréfi, dags. 29. október 2018.

Þessar tvær synjanir hafi nú verið kærðar.

Ekki sé deilt um það í málinu að kærandi sé búsettur í B og hafi verið með skráð lögheimili þar frá X 2017. Samkvæmt ákvörðun Þjóðskrár Íslands, sem sé þar til bært stjórnvald, sé kærandi skráður með lögheimili þar. Þá sé ekki deilt um það í málinu að ekki sé í gildi samningur við B um gagnkvæm almannatryggingaréttindi ríkisborgara Íslands og B.

Eins og fram hafi komið þá sé eitt af skilyrðum 18. gr. laga um almannatryggingar að kærandi þurfi að hafa verið búsettur á Íslandi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en að umsókn hafi verið lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka hafi verið óskert áður en umsóknin hafi verið lögð fram.

Einnig hafi komið fram að Tryggingastofnun skuli greiða út lífeyri til þeirra einstaklinga sem séu í tryggingum og með lögheimili hér á landi, sbr. 4. gr. laga um almannatryggingar. Einnig greiði stofnunin lífeyri til þeirra einstaklinga sem hafi búsetu í þeim löndum sem Ísland hafi gert samninga við, sbr. 68. gr. laga um almannatryggingar.

Þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði þess að fá greiddan örorkulífeyri eða örorkustyrk samkvæmt 18. og 19. gr. laga um almannatryggingar þá sjái Tryggingastofnun ekki að forsendur ákvörðunarinnar, dags. 26. október 2017, hafi breyst. Synjun Tryggingastofnunar, dags. 29. október 2018, standi því.

Þessi niðurstaða Tryggingastofnunar sé í samræmi við þau lög og reglur sem gildi um almannatryggingar og einnig fyrri fordæmi úrskurðarnefndar og megi þar meðal annars benda á mál nr. 19/2012 og 9/2016.

Varðandi kröfu kæranda um afturvirkar greiðslur örorkulífeyris þá hafi kærandi sent inn erindi þessi efnis, dags. 16. og 18. október 2018. Þeim erindum hafi verið synjað.

Í lögum um almannatryggingar sé ekki fyrir hendi nein heimild til þess að greiða bætur afturvirkt fyrir tímabil áður en skilyrði bóta séu uppfyllt. Tryggingastofnun sé því ekki heimilt að greiða kæranda örorkulífeyri fyrir tímabil þar sem hann hafi ekki uppfyllt skilyrði örorkulífeyris.

Sú heimild til afturvirkni greiðslna, sem kærandi vísi til í erindum sínum, sé að finna í 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar. Þar sé kveðið á um að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berist umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta. Þetta ákvæði eigi þó aðeins við ef umsækjandi hafi uppfyllt skilyrði lífeyrisgreiðslna á þessum tveimur árum. Þetta sé hins vegar ekki réttur til greiðslna bóta áður en skilyrði örorkulífeyris séu uppfyllt.

Við meðferð kærunnar í þessu máli hafi verið farið yfir málið og kannað hvort kærandi ætti einhvern frekari rétt ef litið væri á erindin, dags. 16. og 18. október 2018, sem beiðni um endurupptöku á upphaflegu örorkumati kæranda, dags. X. Ósk um slíka endurupptöku hefði einnig verið synjað.

Þann X hafi farið fram örorkumat kæranda. Samkvæmt mati tryggingalæknis hafi kærandi uppfyllt skilyrði staðals um hæsta örorkustig og hafi hann því átt rétt á greiðslu örorkulífeyris. Örorkumatið hafi gilt frá X til X, en hafi síðar verið framlengt. Fram að örorkumati hafi kærandi verið á endurhæfingarlífeyri frá X til X, eða í X mánuði.

Í samræmi við 2. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar geti einstaklingur ekki fengið bæði örorkulífeyri og endurhæfingarlífeyri á sama tíma og sé því ljóst að kærandi eigi ekki rétt á örorkulífeyri fyrir það tímabil sem hann hafi fengið endurhæfingarlífeyri.

Hvað varði tímabilið fyrir X þá sé samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar áður en til örorkumats komi. Endurhæfingarlífeyrir samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé greiddur þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys og því ótímabært að meta einstaklinginn til örorku. Það hafi verið mat Tryggingastofnunar að ekki hafi verið tímabært að meta kæranda til örorku á þessum tíma.

Í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 séu mál ekki tekin upp á nýjan leik ef meira en ár sé liðið frá þeirri ákvörðun sem óskað sé endurupptöku á, nema veigamiklar ástæður mæli með því. Tryggingastofnun telji að á sínum tíma hafi kærandi fengið öll þau réttindi sem hann hafi átt rétt á og því sé ekki hægt að sjá að veigamiklar ástæður séu til að endurupptaka málið.

Auk þess sé krafan hugsanlega fyrnd en réttur á einstökum mánaðarlegum greiðslum lífeyris almannatrygginga fyrnist á fjórum árum samkvæmt 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007, sbr. 6. gr. sömu laga.

Þessi niðurstaða sé einnig í samræmi við fyrri fordæmi úrskurðarnefndar og megi þar á meðal benda á niðurstöðu nefndarinnar í máli nr. 204/2015. Tryggingastofnun telji því ekki ástæðu til þess að endurskoða ákvörðun, dags. 29. október 2018.

Við vinnslu kærunnar hafi verið farið ítarlega yfir öll gögn málsins. Engin ný gögn hafi fylgt kæru. Tryggingastofnun telji að báðar synjanir stofnunarinnar á erindum kæranda séu í samræmi við þau lög og reglur sem gildi um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Synjanir á erindum kæranda standi því.

IV.  Niðurstaða

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af málsástæðum kæranda að kæra lúti að þremur ákvörðunum Tryggingastofnunar ríkisins. Í fyrsta lagi ákvörðun, dags. 26. október 2017, um stöðvun greiðslna og innheimtu ofgreiddra bóta vegna búsetu kæranda í B frá X 2017. Í öðru lagi ákvörðun, dags. 29. október 2018, þar sem kæranda var synjað um afturvirkar greiðslur örorkulífeyris frá fyrsta mati, dags. X. Í þriðja lagi ákvörðun, dags. 29. október 2018, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri vegna búsetu hans í B.

A. Stöðvun greiðslna vegna búsetu í B

Í málinu liggur fyrir ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. október 2017, um stöðvun greiðslna örorkulífeyris og tengdra greiðslna til kæranda frá X 2017 og innheimtu ofgreiddra bóta.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. nóvember 2018 en þá var kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar löngu liðinn.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

  1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
  2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Samkvæmt gögnum málsins leið rúmlega ár frá því að kæranda var tilkynnt um ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins þann 26. október 2017 og þar til kæra barst úrskurðarnefndinni þann 10. nóvember 2018. Þegar af þeirri ástæðu skal kæru ekki sinnt, sbr. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 37/1993. Er þessum lið kærunnar því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála þar sem kærufrestur er liðinn.

Úrskurðarnefndin telur aftur á móti rétt að benda kæranda á að hann getur lagt inn beiðni um niðurfellingu endurgreiðslukröfunnar til Tryggingastofnunar ríkisins á grundvelli undanþáguákvæðis 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, telji hann skilyrði ákvæðisins uppfyllt. Þar kemur fram að heimilt sé að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Þá skuli einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna greiðsluþega og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn.

B. Synjun um endurupptöku örorkumats

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda fyrst metinn örorkulífeyrir með ákvörðun, dags. X. Gildistíminn var ákvarðaður frá X til X. Það mat var síðar framlengt. Með erindum, dagsettum 16. og 18. október 2018, fór kærandi fram á greiðslu örorkulífeyris og tengdra bóta tvö ár aftur í tímann fyrir töku örorkulífeyris, auk dráttarvaxta að viðbættu 25% álagi. Tryggingastofnun synjaði beiðni kæranda á þeim grundvelli að ekki væri fyrir hendi heimild í lögum nr. 100/2007 að greiða örorkulífeyri fyrir tímabil þar sem hann hafi ekki uppfyllt skilyrði örorkulífeyris.

Af framangreindu verður ráðið að Tryggingastofnun hafi litið á beiðni kæranda um afturvirkar greiðslur örorkulífeyris sem nýja umsókn. Ef litið er á erindið sem nýja umsókn telur úrskurðarnefnd velferðarmála ljóst að ekki sé heimilt að fallast á kröfu kæranda þegar af þeirri ástæðu að ekki er heimilt að ákvarða bætur lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og nauðsynleg gögn hafa borist stofnuninni, sbr. 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur aftur á móti að líta beri á beiðni kæranda um greiðslu örorkulífeyris tvö ár aftur í tímann frá upphafstíma fyrsta örorkumats sem beiðni um endurupptöku á því mati. Tryggingastofnun fjallaði um það í greinargerð sinni í málinu að skilyrði endurupptöku væru ekki heldur uppfyllt og úrskurðarnefndin telur að í framangreindri umfjöllun felist synjun um endurupptöku.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um rétt aðila máls til þess að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný. Ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga er svohljóðandi:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.“

Endurupptökubeiðni kæranda lýtur að örorkumati Tryggingastofnunar ríkisins frá X. Beiðni um endurupptöku barst Tryggingastofnun tæplega X árum síðar, eða 10. nóvember 2018, og því þurfa veigamiklar ástæður að vera fyrir hendi svo að unnt sé að endurupptaka málið, sbr. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Á grundvelli örorkumatsins fékk kærandi greiddan örorkulífeyri frá X til X. Örorkumatið var síðar framlengt.

Samkvæmt þágildandi 1. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda fellur skuld eða önnur krafa, sem ekki hefur verið viðurkennd eða lögsótt innan þeirra tímamarka sem ákveðin eru í lögunum, úr gildi fyrir fyrningu. Kröfur um lífeyri fyrnast á fjórum árum samkvæmt þágildandi 2. tölul. 3. gr. laganna, sbr. einnig dóm Hæstaréttar frá 16. október 2003 nr. 549/2002. Krafa kæranda um greiðslu örorkulífeyris aftur í tímann er því fyrnd. Þegar af þeirri ástæðu að krafan er fyrnd mæla veigamiklar ástæður ekki með því að Tryggingastofnun taki örorkumat kæranda til endurskoðunar, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um endurupptöku örorkumats frá X. 

C. Synjun um örorkulífeyri

Um rétt til örorkulífeyris er fjallað í 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að rétt til örorkulífeyris hafi þeir sem hafi verið búsettir á Íslandi, sbr. II. kafla, séu á aldrinum 18 til 67 ára og hafi verið búsettir á Íslandi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka hafi verið óskert er þeir tóku hér búsetu.

Í 4. gr. laga um um almannatryggingar er fjallað um hverjir séu tryggðir samkvæmt lögunum og er ákvæðið svohljóðandi:

„Sá sem búsettur er hér á landi, sbr. 5. tölul. 2. gr., telst tryggður að uppfylltum öðrum skilyrðum laga þessara nema annað leiði af milliríkjasamningum.

Tryggingavernd fellur niður þegar búseta er flutt frá Íslandi nema annað leiði af milliríkjasamningum eða ákvæðum þessa kafla.

Tryggingastofnun ákvarðar hvort einstaklingur telst tryggður hér á landi samkvæmt lögum þessum.“

Samkvæmt framangreindu er það eitt af skilyrðum greiðslu örorkulífeyris að umsækjandi sé búsettur á Íslandi nema annað leiði af milliríkjasamningum. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá hefur kærandi verið búsettur í B frá X 2017 og hefur kærandi ekki andmælt því. Ljóst er því að kærandi uppfyllir ekki framangreint skilyrði um búsetu á Íslandi. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga um almannatryggingar er ríkisstjórninni heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Í þeim má meðal annars veita undanþágur frá ákvæðum laganna og heimila takmarkanir á beitingu þeirra. Enginn slíkur samningur hefur verið gerður við B. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi uppfylli ekki skilyrði fyrir greiðslum örorkulífeyris, sbr. 4. og 18. gr. laga um almannatryggingar.

Kærandi byggir á því að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja honum um örorkulífeyri sökum búsetu í B brjóti gegn 65. og 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Fram kemur að ef hann væri búsettur innan EES, Kanada eða Bandaríkjanna myndi hann halda örorkulífeyrisgreiðslunum sínum.

Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Þá segir í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar að öllum, sem þess þurfi, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja honum um örorkulífeyri vegna búsetu í B sé í samræmi við lög um almannatryggingar. Þá telur úrskurðarnefndin að framangreind ákvæði stjórnarskrárinnar komi ekki í veg fyrir að löggjafanum sé heimilt að setja í lög ákvæði um að búsetu og lágmarksdvöl á Íslandi til þess að einstaklingar öðlist rétt samkvæmt almannatryggingakerfinu. Ekki er því fallist á að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins brjóti gegn 65. og 76. gr. stjórnarskrárinnar.

Með hliðsjón af framangreindu er synjun Tryggingastofnunar ríkisins um örorkulífeyri staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og endurupptöku á örorkumati hans, eru staðfestar. Sá hluti kæru er varðar stöðvun greiðslna til kæranda og innheimtu ofgreiddra bóta er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta