Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 140/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 140/2017

Miðvikudaginn 18. október 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 5. apríl 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 30. mars 2017 um hámarksfjárhæð styrks til kaupa á sérútbúinni og dýrri bifreið.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Í maí 2013 fékk kærandi greiddan styrk að fjárhæð 1.200.000 kr. frá Tryggingastofnun ríkisins vegna kaupa á bifreið samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Með umsókn, dags. 21. febrúar 2017, sótti kærandi um 50–60% styrk til kaupa á sérútbúinni og dýrri bifreið vegna mikillar fötlunar samkvæmt 5. gr. sömu reglugerðar. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 30. mars 2017, var samþykktur 60% styrkur af grunnverði bifreiðar án aukabúnaðar samkvæmt síðastnefnda ákvæðinu. Í bréfinu segir að styrkur sem kærandi fékk greiddan í maí 2013 komi til frádráttar og því geti styrkur til hans að hámarki orðið að fjárhæð 3.800.000 kr.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 5. apríl 2017. Með bréfi, dags. 10. apríl 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 17. maí 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. maí 2017. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að viðurkennt verði að hann eigi rétt á fullum styrk, eða 5.000.000 kr. Til vara krefst kærandi þess að fjárhæðin verði lækkuð sem nemi 20.000 kr. á mánuði þá mánuði sem eftir verði af 5 ára tímabilinu þegar hann fái nýju bifreiðina.

Í kæru segir að ákveðið hafi verið að kæra styrkveitingu vegna kaupa á bifreið á grundvelli þeirrar reiknireglu sem notuð hafi verið. Á árinu 2012 hafi kærandi sótt um 50–60% styrk til kaupa á bifreið sem hafi verið samþykkt en af óskiljanlegum ástæðum hafi hjálpartækjamiðstöðin synjað umsókninni, þrátt fyrir greinargóðar skýringar lækna og sjúkraþjálfara. Þar af leiðandi hafi kærandi einungis sótt um 1.200.000 kr. styrk sem hann hafi fengið í apríl 2013.

Á þessum tíma hafi kærandi verið farinn að finna talsvert til í öxlum og sérstaklega þeirri hægri sem megi rekja beint til þess að hann hafi flutt sig í og úr bifreið án lyftu. Við þessar aðstæður hafi hann ætlað að reyna að þrauka þar til hann gæti sótt um styrk á ný í apríl 2018. Honum hafi hins vegar farið að versna hratt í hægri öxl og sársaukanum verið haldið niðri með verkjastillandi og bólgueyðandi lyfjum sem hafi gert þetta bærilegt inn á milli.

Allar götur síðan hafi kærandi verið að versna smátt og smátt og eftir myndatökur í kringum árin 2015–2016 hafi komið í ljós að aðgerð væri nauðsynleg. Myndirnar hafi verið sendar til hjálpartækjamiðstöðvar sem hafi samþykkt lyftu. Þá hafi kærandi átt eftir tvö ár af styrktímabilinu sem hann hafi ætlað að reyna að þrauka út.

Það hafi svo verið í X 2016 að verkja- og bólgueyðandi lyf hafi alveg verið hætt að virka og ákveðið hafi verið að gera aðgerð í þeirri von að reyna laga öxlina. Vegna mikilla slita hafi þurft að taka 1 cm af viðbeininu og sé það til marks um slit sem hafi verið komið inn á svæðið. Miklar bólgur hafi verið hreinsaðar frá. Aðgerðin hafi heppnast ágætlega en kæranda verið bannað að fara af sjálfsdáðum inn og út úr bifreið. Í raun hafi kærandi þurft að fá aðstoð í þrjá mánuði við alla flutninga í og úr hjólastólum. Eftir þetta tímabil hafi kærandi nánast orðið sársaukalaus í fyrsta skipti í fjögur til fimm ár og hafi það í raun verið ólýsanleg tilfinning þegar hann hafi verið farinn að geta sofið heila nótt án þess að vakna vegna sársauka.

Á sama tíma og kærandi hafi farið að nota bifreið af sjálfsdáðum hafi sársauki þegar verið byrjaður að koma aftur. Því hafi hann sótt um 50–60% styrk á nýjan leik og fengið án vandræða. Nú sé það reikniaðferð stofnunarinnar sem sé kæranda algjörlega óskiljanleg. „Styrkur sem var veittur í apríl 2013 uppá 1.200.000 kr á í raun ekki eftir nema 240.000 kr samkvæmt viðurkenndri reikniaðferð TR ef ég ætla að skila þessum styrk, en TR ætlar að draga af mér 1.200.000 kr ef ég fer í bílakaup fyrir apríl 2018.“

Þetta sé í raun fáránlegt þar sem kærandi væri ekki í þessari stöðu hefði hann fengið réttmæta meðferð í bifreiðamálum á árinu 2012 þegar hann hafi fyrst óskað eftir lyftubifreið og fengið samþykkta en síðan verið synjað. Þá hafi verið komið að endurnýjun og miðað við það hefði hún átt að vera á árinu 2017.

Núverandi aðstæður séu með öllu ólíðandi og kærandi í raun fangi á eigin heimili og geti ekki sinnt hefðbundnu uppeldi barna sinna þar sem hann sé vanur að sjá um að skutla og sækja eftir þörfum þegar konan hans sé í vinnu.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé stofnuninni heimilt að veita styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé þar sem líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti. Styrkir samkvæmt 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða séu greiddir á grundvelli þessa lagaákvæðis og teljist því báðir vera styrkir samkvæmt lagaákvæðinu.

Með breytingalögum nr. 120/2009, sem hafi tekið gildi 1. janúar 2010, hafi eftirfarandi málslið verið bætt við nefnda málsgrein:

„Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.“

Reglugerð nr. 170/2009 hafi verið sett með heimild í lögum um félagslega aðstoð. Í 4. og 5. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um styrki vegna kaupa á bifreiðum. Þar komi fram skilyrði fyrir greiðslu styrkjanna og upphæðir þeirra. Þar komi meðal annars fram að styrki sé einungis heimilt að veita á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

Í 6. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segi:

„Ef hinn hreyfihamlaði hefur móttekið uppbót samkvæmt 3. gr. og sjúkdómsástand hans versnar þannig að hann uppfylli skilyrði styrks samkvæmt þessu ákvæði er heimilt að greiða mismun á fjárhæð uppbótar og fjárhæð styrks. Styrkur og uppbót geta þó aldrei verið hærri en 1.440.000 kr. á fimm ára fresti.“

Í 5. gr. reglugerðarinnar sé svo veitt heimild til stofnunarinnar til að veita styrk til að afla bifreiðar sem nemi allt að 50–60% af kaupverði bifreiðar, þ.e. grunnverði án aukabúnaðar. Í þeim tilvikum þurfi að vera um að ræða einstakling sem ekki komist af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Heimildin eigi þó einungis við þegar viðkomandi uppfylli skilyrði 4. gr. reglugerðarinnar og aki sjálfur eða annar heimilismaður. Markmiðið sé að koma til móts við þá sem séu verr settir en þeir sem fái uppbót samkvæmt 3. gr. og styrk samkvæmt 4. gr. og þurfi meira rými vegna fötlunar sinnar. Til þess að fá hann þurfi því að sýna fram á að vegna hreyfihömlunar sé aukin þörf fyrir stóra eða sérútbúna bifreið sem sé dýrari en almennt gerist.

Kærandi hafi sótt um 50–60% styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 til kaupa á bifreið með umsókn, dags. 27. febrúar 2017. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 30. mars 2017, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hafi verið samþykkt. Í bréfinu hafi einnig komið fram að þar sem ekki hafi verið liðin fimm ár frá síðustu greiðslu sé fjárhæð 60% styrks að hámarki 3.800.000 kr.

Kærandi hafi síðast fengið greiddan styrk samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar til kaupa á bifreið í maí 2013 og því verði fimm ár liðin frá síðustu styrkveitingu í maí 2018.

Eins og áður hafi verið rakið sé stofnuninni ekki heimilt að veita styrk vegna kaupa á bifreið vegna sama einstaklings nema á fimm ára fresti. Rétt sé að vekja athygli á því að reglan sé afdráttarlaus og án undantekninga í 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Óumdeilt sé í málinu að ekki séu fimm ár liðin frá því að kærandi fékk síðast styrk samkvæmt lagaákvæðinu.

Í framkvæmd hafi Tryggingastofnun þó beitt ákvæði 6. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 með lögjöfnun yfir þau tilvik þar sem viðkomandi hafi áður móttekið styrk samkvæmt 4. gr. og sjúkdómsástand hans versni þannig að hann uppfylli skilyrði styrks samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar.

Rétt sé að vekja athygli á því að þessi framkvæmd byggi á lögjöfnun á orðalagi 6. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar eingöngu og sambærilegu ákvæði í fyrri reglugerð. Framkvæmdin hafi verið með þessum hætti frá því áður en fimm ára reglan hafi verið lögfest með breytingalögum nr. 120/2009 og það megi færa fyrir því rök að hún standist ekki afdráttarlaust orðalag hinnar breyttu 10. gr. laga um félagslega aðstoð, þ.e. með réttu ætti kærandi ekki að eiga rétt á mismuni á styrk samkvæmt 4. gr. og styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar þótt ástand hans hafi versnað.

Ekki hafi reynt á þessa framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála en sambærilegt mál hafi hins vegar nýlega farið fyrir Hæstarétt. Þann 10. mars 2016 hafi fallið dómur í málinu sem sé nr. 436/2015.

Í dómi Hæstaréttar hafi meðal annars komið fram að stefnandi hafi talið það í besta falli ásættanlegt að hlutfall af fyrri styrknum yrði dregið frá, en ekki styrkurinn allur í heild sinni, enda hafi verðgildi bifreiðarinnar fallið og ætti upphæð fyrri styrksins að taka mið af því. Dómstólar hafi ekki fallist á þessi sjónarmið stefnanda og vilji stofnunin vekja athygli á afdráttarlausum orðum Hæstaréttar í málinu en þar segi meðal annars:

„Þegar áfrýjandi sótti um styrkinn og stefndi tók hina umdeildu ákvörðun hafði 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 sem áður greinir verið breytt á þann veg að þar var svo fyrir mælt að heimilt væri að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Samkvæmt því var það í senn lögmætt og málefnalegt af stefnda að draga fjárhæð þess styrks, sem áfrýjandi hafði þegið til kaupa á bifreið í þágu sonar síns árið 2009, frá styrknum sem honum var veittur í sama tilgangi árið 2013 þar sem ekki voru liðin full fjögur ár frá ákvörðun um fyrri styrkveitinguna.“

Óumdeilt sé að ekki séu liðin fimm ár frá því að kærandi fékk síðast styrk samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Tryggingastofnun hafi samþykkt að greiða honum mismun á styrk þeim sem hann hafi fengið samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar í maí 2013 og styrk samkvæmt 5. gr. sem hann uppfylli nú skilyrði fyrir þar sem staða kæranda hafi versnað.

Tryggingastofnun hafi með framkvæmd sinni ívilnað einstaklingum í stöðu kæranda og veitt þeim rétt til greiðslu á mismun á styrk samkvæmt 4. gr. og 5. gr. reglugerðar þrátt fyrir afdráttarlaust orðalag í 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Stofnunin telji sig ekki geta gengið lengra í tilfelli kæranda heldur en heimilt sé að gera í málum sem 6. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar nái yfir samkvæmt orðanna hljóðan. Styrkir til kæranda geti því ekki verið hærri en 5.000.000 kr. á fimm ára fresti.

Tryggingastofnun hafi framkvæmt greiðslu þessa mismunar á sama hátt í mörg ár og sú framkvæmd verið staðfest af dómstólum. Stofnunin standi við ákvörðun sína í máli kæranda.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um hámarksfjárhæð styrks til kæranda vegna kaupa hans á sérútbúinni og dýrri bifreið.

Um bifreiðakostnað er kveðið á um í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. málsl. 3. mgr. lagagreinarinnar segir að heimilt sé að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti. Í 2. málsl. sömu málsgreinar segir að heimilt sé að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Þá segir í 3. málsl. sömu málsgreinar að ráðherra setji reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæðinu. Reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða hefur verið sett með framangreindri lagastoð.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009, með síðari breytingum, er heimilt að greiða styrk til kaupa á bifreið að fjárhæð 1.440.000 kr. vegna hreyfihömlunar að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. Þá er heimilt að greiða hærri styrk til kaupa á sérútbúnum og dýrum bifreiðum á grundvelli 5. gr. reglugerðarinnar að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum. Fjárhæð styrks samkvæmt síðastnefnda ákvæðinu getur hæst orðið 5.000.000 kr.

Í 6. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir:

„Ef hinn hreyfihamlaði hefur móttekið uppbót samkvæmt 3. gr. og sjúkdómsástand hans versnar þannig að hann uppfylli skilyrði styrks samkvæmt þessu ákvæði er heimilt að greiða mismun á fjárhæð uppbótar og fjárhæð styrks. Styrkur og uppbót geta þó aldrei verið hærri en 1.440.000 kr. á fimm ára fresti.“

Fyrir liggur að kærandi fékk greiddan styrk frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð 1.200.000 kr. í maí 2013 á grundvelli þágildandi 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Með umsókn, dags. 21. febrúar 2017, sótti kærandi um styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 og samþykkti stofnunin umsóknina með bréfi, dags. 30. mars 2017. Samkvæmt ákvörðuninni getur komið til greiðslu styrksins á tímabilinu frá 1. apríl 2017 til 1. apríl 2018 að uppfylltum öðrum skilyrðum ákvæðisins en fjárhæð styrks sem kærandi fékk greiddan á árinu 2013 kemur til með að koma til frádráttar. Því getur fjárhæð styrksins samkvæmt hinni kærðu ákvörðun hæst orðið 3.800.000 kr. en ekki 5.000.000 kr. eins og ákvæðið kveður á um.

Ágreiningur í máli þessu snýst um þá ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að fjárhæð styrks frá árinu 2013 komi til með að koma til frádráttar þeim styrk sem samþykktur var með hinni kærðu ákvörðun.

Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur til þess að samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð er heimilt að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Í framkvæmd hefur Tryggingastofnun ríkisins, meðal annars með hliðsjón af 6. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009, veitt undanþágu frá framangreindu ákvæði ef umsækjandi sem móttekið hefur styrk samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar uppfyllir skilyrði fyrir 50–60% styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar áður en fimm ár eru liðin frá síðustu styrkveitingu. Í þeim tilvikum er fjárhæð eldri styrksins dregin frá fjárhæð nýja styrksins. Hefur það verið gert jafnvel þótt í 5. gr. sé ekki að finna sams konar ákvæði og í 6. mgr. 4. gr. um að heimilt sé að draga frá styrk sem veittur er til kaupa á sérútbúinni og dýrri bifreið, styrk sem hinn hreyfihamlaði hefur áður þegið til kaupa á bifreið. Úrskurðarnefnd velferðarmála gerir ekki athugasemd við framangreinda framkvæmd stofnunarinnar sem er í senn lögmæt og málefnaleg. Þar sem kærandi fékk styrk að fjárhæð 1.200.000 kr. í maí 2013 er fallist á þá niðurstöðu Tryggingastofnunar ríkisins að fjárhæð styrksins samkvæmt hinni kærðu ákvörðun geti hæst orðið 3.800.000 kr.

Að því virtu, sem að framan er rakið, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um hámarksfjárhæð styrks til kæranda vegna kaupa á sérútbúinni og dýrri bifreið.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um hámarksfjárhæð styrks til A, vegna kaupa á sérútbúinni og dýrri bifreið, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta