Mál nr. 399/2020
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 399/2020
Miðvikudaginn 11. nóvember 2020
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.
Með rafrænni kæru, móttekinni 17. ágúst 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins frá 25. júní 2020 á umsókn kæranda um uppbót/styrk til kaupa á bifreið.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um uppbót/styrk til kaupa á bifreið með umsókn, dags. 19. júní 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. júní 20200, var umsókn kæranda um uppbót til bifreiðakaupa samþykkt.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. ágúst 2020. Með bréfi, dags. 19. ágúst 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 21. september 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. september 2020. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru greinir kærandi frá því að hún sé þakklát fyrir að hún uppfylli skilyrði til að fá uppbót til kaupa á bifreið. Upphæðin sem hafi verið samþykkt sé 360.000 kr. Kærandi vilji með þessari kæru koma á framfæri að hún hafi orðið fyrir vonbrigðum með að fjárhæðin hafi ekki verið hærri. Bifreiðin sem kærandi þurfi að kaupa þurfi að vera það góð að hún endist í fimm ár og að þeim tíma liðnum verði hún helst að vera seljanleg. Fjárhagur kæranda sé ekki sterkur og þess vegna fari hún fram á endurskoðun á þessari upphæð.
Verð nýrra bíla hafi hækkað og við athugun virðist verð notaðra bíla ekki gefa kæranda þá bjartsýni að hennar eigið framlag, auk styrksins, dugi fyrir svo góðum bíl. Að öllum líkindum yrði val hennar að vera gamall notaður bíll með væntanlega hárri bilunartíðni sem sé þungur baggi að bera á örorku og hana ói við því. Kærandi viti að hún geti fengið 180.000 kr. í vaxtalaust lán hjá Tryggingastofnun en þó svo að það sé vaxtalaust þurfi hún að borga það til baka og fái þá lægri örorkubætur á meðan hún sé að endurgreiða það sem henni lítist ekki á.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé afgreiðsla á umsókn um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa samkvæmt reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.
Kærandi hafi sótti um styrk uppbót/styrk samkvæmt 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 vegna kaupa á bifreið með umsókn, dags. 19. júní 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 25. júní 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar um uppbót samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar hefði verið samþykkt. Umsókn kæranda um styrk samkvæmt 4. gr. hafi hins vegar ekki verið samþykkt.
Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Sama gildi um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkustyrkþegar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.
Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð sé Tryggingastofnun heimilt að veita styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti.
Í 1.–3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 komi meðal annars fram að heimilt sé að greiða elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar, en 2. og 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar hljóði svo:
„Uppbót er eingöngu heimilt að veita þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.
2. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggi fyrir.
Við mat á umsóknum skal fyrst og fremst líta á bifreiðina sem hjálpartæki hreyfihamlaðra og hvort umsækjandi þurfi bifreið til að komast ferða sinna, s.s. til vinnu, í skóla, sækja reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.“
Strangari kröfur séu gerðar til þeirra sem hljóti styrk samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Í þeim tilvikum sé skilyrði að umsækjandi sé verulega hreyfihamlaður og noti til dæmis tvær hækjur og/eða sé bundinn hjólastól að staðaldri. Markmiðið sé að koma til móts við þá sem séu verr settir en þeir sem fái uppbót og þurfi meira rými vegna fötlunar sinnar. Til þess að fá hann þurfi því að sýna fram á að vegna hreyfihömlunarinnar sé aukin þörf fyrir stóran eða sérútbúinn bíl sem sé dýrari en almennt gerist. Skilyrði 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar hafi hljóðað svo þegar ákvörðun hafi verið tekin í máli kæranda:
„Styrkur skal vera kr. 1.440.000 og skal eingöngu veittur þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.
2. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggur fyrir.
3. Einstaklingur er verulega hreyfihamlaður og er t.d. bundinn hjólastól og/eða notar tvær hækjur að staðaldri.
4. Mat á ökuhæfni liggur fyrir.
5.Hinn hreyfihamlaði er sjúkratryggður hér á landi, sbr. 10. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar.“
Í 4. mgr. 4. gr. komi einnig fram að skilyrði sé að mat liggi fyrir um þörf á bifreið með hliðsjón af notkun hjálpartækja.
Skilyrði séu uppfyllt fyrir veitingu uppbótar vegna kaupa og reksturs bifreiðar á þeim forsendum að göngugeta sé undir 400 metrum. Við matið hafi legið fyrir læknisvottorð, dags. 8. júní 2020. Einnig hafi legið fyrir eldri gögn hjá Tryggingastofnun.
Fram komi að kærandi sé X ára gömul kona sem hafi verið öryrki í meira en X ár, einkum vegna geðrænna vandamála. Hún sé með krónískan teppusjúkdóm í lungum og sögu um X pakkaár af reykingum, en sé hætt að reykja. Kærandi glími einnig við verulegan ofþyngdarvanda. Fram komi einnig að gönguþol sé mjög skert og sé talvert minna en 400 metrar á jafnsléttu. Vísað sé til læknisvottorðs varðandi frekari upplýsingar.
Við yfirferð málsins hafi réttur kæranda til styrks samkvæmt 4. gr. verið skoðaður. Þegar veittur sé styrkur samkvæmt 4. gr. þurfi skilyrði 2. mgr. 4. gr. að vera uppfyllt. Þar sé meðal annars kveðið á um að einstaklingur sé verulega hreyfihamlaður og sé til dæmis bundinn hjólastól og/eða noti tvær hækjur að staðaldri. Engar upplýsingar hafi verið í læknisvottorði eða öðrum gögnum varðandi hjálpartæki til gangs.
Það sé mat Tryggingastofnunar að kærandi uppfylli skilyrði uppbótar samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar en ekki skilyrði styrks samkvæmt 4. gr. Eftir að farið hafi verið yfir gögn málsins verði ekki séð að kærandi sé verulega hreyfihömluð í þeim skilningi sem lagður sé í 4. gr. reglugerðarinnar, þ.e. sé sambærilega hreyfihömluð og einstaklingur sem sé bundinn hjólastól eða þurfi tvær hækjur.
Samkvæmt ofangreindum upplýsingum hafi skilyrði um hreyfihömlun talist uppfyllt en ekki viðbótarskilyrði vegna styrks.
Af kæru megi ráða að kærandi sé fyrst og fremst að gera athugasemdir við fjárhæð uppbótarinnar en ekki við hreyfihömlunarmatið sem slíkt. Tryggingastofnun vilji því taka fram að fjárhæð uppbótar samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 sé bundin við 360.000 kr. eins og fram komi 1. tölul. 4. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar, sbr. a. lið 1. gr. breytingareglugerðar nr. 997/2015.
Einu undantekinguna á því sé að finna í 2. tölul. 4. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar, en þar komi fram að heimilt sé að veita þeim, sem séu að kaupa bifreið í fyrsta sinn, 720.000 kr. í uppbót til bifreiðakaupa, sbr. b. lið 1. gr. breytingareglugerðar nr. 997/2015.
Samkvæmt yfirliti yfir bifreiðaeign kæranda frá X eigi það ekki við í tilfelli kæranda.
Tryggingastofnun hafi farið ítarlega yfir mál kæranda. Stofnunin telji að miðað við fyrirliggjandi gögn sé ljóst að afgreiðsla málsins hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög um almannatryggingar, reglugerð nr. 170/2009 og fyrri úrskurði úrskurðarnefndar vegna núgildandi reglugerðar og sambærileg ákvæði fyrri reglugerðar nr. 752/2002. Megi þar meðal annars vísa til úrskurðar í máli nr. 297/2017.
Eftir að farið hafi verið yfir mál kæranda telji Tryggingastofnun ekki ástæðu til að breyta fyrri ákvörðun sinni.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa.
Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrks til kaupa á bifreið er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í nefndri 10. gr. segir meðal annars svo:
„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.
[...]
Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“
Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Í 3. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar segir að með líkamlegri hreyfihömlun sé átt við sjúkdóm eða fötlun sem skerði verulega færni til að komast ferða sinna þannig að göngugeta sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þar sé fyrst og fremst um að ræða:
„a. lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar,
b. mæði vegna hjarta- eða lungnasjúkdóma,
c. annað sambærilegt.“
Samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er það skilyrði fyrir veitingu uppbótar til bifreiðakaupa að nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar sé ótvíræð og að mat á hreyfihömlun liggi fyrir. Þá er í 4. gr. reglugerðarinnar að finna skilyrði sem uppfylla þarf til að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að greiða styrk til kaupa á bifreið. Í 2. mgr. þeirrar greinar koma eftirtalin skilyrði fram:
„1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.
2. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggur fyrir.
3. Einstaklingur er verulega hreyfihamlaður og er til dæmis bundinn hjólastól og/eða notar tvær hækjur að staðaldri.
4. Mat á ökuhæfni liggur fyrir.
5. Hinn hreyfihamlaði er sjúkratryggður hér á landi, sbr. 10. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar.“
Í máli þessu liggur fyrir að Tryggingastofnun ríkisins hefur samþykkt að veita kæranda uppbót til bifreiðakaupa samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Kærandi óskar eftir hærri fjárhæð en samþykkt hefur verið. Fjárhæð uppbótar til bifreiðakaupa er 360.000 kr. samkvæmt 1. tölul. 4. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar, sbr. breytingu með a. lið 1. gr. reglugerðar nr. 997/2015, nema umsækjandi sé að kaupa bifreið í fyrsta sinn. Samkvæmt gögnum málsins er ekki um að ræða fyrstu bifreiðakaup kæranda. Þá er engin heimild til þess að greiða hærri uppbót til bifreiðakaupa vegna erfiðra fjárhagsaðstæðna umsækjanda.
Í ljósi kröfu kæranda um hærri fjárhæð telur úrskurðarnefndin rétt að taka til skoðunar hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir greiðslu styrks til bifreiðakaupa, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Til skoðunar kemur hvort skilyrði 3. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar um að einstaklingur þurfi að vera verulega hreyfihamlaður, til dæmis bundinn hjólastól og/eða noti tvær hækjur að staðaldri, sé uppfyllt í tilviki kæranda. Að mati úrskurðarnefndarinnar leiðir af orðalagi reglugerðarákvæðisins að við mat á því hvort einstaklingur uppfylli skilyrðið um að teljast verulega hreyfihamlaður sé horft til þess hvort viðkomandi sé bundinn hjólastól og/eða þurfi að notast við tvær hækjur að staðaldri. Upptalning á hjálpartækjum sé þannig tiltekin í dæmaskyni til skýringar á því hvað við sé átt með verulegri hreyfihömlun. Sú túlkun er einnig í samræmi við orðalag 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð en þar er veiting styrks til bifreiðakaupa ekki bundin því skilyrði að umsækjandi þurfi að nýta sér hjálpartæki. Það er því ekki fortakslaust skilyrði fyrir veitingu bifreiðastyrks að umsækjandi sé bundinn hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri. Hins vegar leiðir, að mati úrskurðarnefndarinnar, af orðalagi reglugerðarákvæðsins að viðkomandi verði að vera hreyfihamlaður til jafns við þá sem hafa þörf fyrir framangreind hjálpartæki að staðaldri.
Við mat á því hvort skilyrði um verulega hreyfihömlun sé uppfyllt þarf að fara fram einstaklingsbundið mat í hverju tilviki fyrir sig. Fyrir liggur læknisvottorð B, dags. 8. júní 2020, þar sem fram kemur að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:
„Chronic obstructive pulmonary disease, unspecified
Cardiac arrest with successful resuscitation
Hjartagangráður á sínum stað
Bakverkur, ótilgreindur
Myalgia
Offita, ótilgreind
Aðrir geðhvarfaklofar
Almenn kvíðaröskun
Gastro-oesophageal reflux disease with oesophagitis“
Í lýsingu á sjúkdómsástandi kæranda segir í læknisvottorðinu meðal annars:
„X ára gömul kona, sem hefur verið öryrki í meira en X ár, einkum vegna geðrænna vandamála. Hún er með krónískan teppusjúkdom í lungum og sögu um X pakkaár af reykingum. […]. Glímir við verulegan ofþyngdarvanda. […] Hún verður fljótt mjög móð við alla áreynslu. Er einnig viðkvæm í mjóbaki, […] Saga um hartastopp, […] Er með bjargráð. Löng saga um vöðvaverki í herðum og hálsi. Getur ekkert borið nema stuttar vegalengdir, vegna vöðvaþreytu og mæði þolir lítið álag á herðar og handleggi. […] Gönguþol er mjög skert og er talsvert minna en 400 metrar á jafnsléttu. […] Fellur í súrefnismettun við göngupróf vegna COPD, lungnaþembu.
Hún er mjög háð bifreið til að komast ferða sinna og þarf að geta nýtt sérmerkt stæði fyrir hreyfihamlað, svo sem við matarinnkaup og önnur aðföng til heimilisins.
Ofanskráð vottast vegna umsóknar A um stæðiskort fyrir hreyfihamlaða, styrk til bifreiðakaupa og styrk til reksturs bifreiða.“
Þá er merkt við í vottorðinu að göngugeta kæranda sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Ekki er merkt við að kærandi noti hjálpartæki að staðaldri.
Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, telur að ráðið verði af gögnum málsins að kærandi búi við skerta göngugetu og mæði. Af fyrrgreindu læknisvottorði B má ráða að kærandi notist ekki við hjálpartæki. Úrskurðarnefndin telur að ekki verði ráðið af sjúkdómsástandi kæranda að hún sé hreyfihömluð til jafns við þá sem bundnir eru hjólastól eða háðir því að nota tvær hækjur að staðaldri. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi uppfylli ekki skilyrði 3. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um verulega hreyfihömlun.
Afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins frá 25. júní 2020 á umsókn kæranda um uppbót/styrk til kaupa á bifreið er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A um uppbót/styrk til kaupa á bifreið, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir