Úrskurður nr. 254/2001
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir, og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.
Með bréfi til Úrskurðarnefndar almannatrygginga dags. 8. október 2001 kærir A afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um feðralaun.
Óskað er greiðslu feðralauna frá 1. mars 1999.
Málavextir eru þeir að með umsókn dags. 8. mars 2001 sótti kærandi sem er með þrjú börn á framfæri um greiðslu feðralauna frá 1. mars 1999. Tryggingastofnun ákvarðaði kæranda feðralaun frá 1. mars 2001. Við þau tímamörk er kærandi ósáttur.
Í rökstuðningi fyrir kæru segir:
„a) Sýslumaðurinn í B veitir lögskilnað á grundvelli 37. gr. sbr. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 31/1993. Sú lagagrein kveður á um að samvistaslit hafi staðið í tvö ár hið skemmsta.
b) Meðfylgjandi er yfirlýsing C lögmanns konunnar, um að hún hafi verið búsett í D-landi allan þann tíma sem hann sinnti skilnaðarmálum hennar.
c) Sýslumaðurinn í B úrskurðar að kona skuli greiða meðlag frá 1. maí 1997.
Í ljósi framangreindra upplýsinga óska ég hér með eftir því að áðurnefnd umsókn verði tekin til greina að fullu.”
Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 26. október 2001 eftir greinargerð Tryggingastofnunar. Greinargerðin er dags. 7. nóvember 2001. Þar segir:
„ Samkvæmt 2. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 118/1993, er heimilt að greiða mæðra- og feðralaun til einstæðra foreldra sem hafa börn sín undir 18 ára aldri á framfæri og eru búsett hér á landi.
Einstætt foreldri er, samkvæmt skilgreiningu lífeyristryggingasviðs, aðili sem er skilinn við maka sinn og hefur börn á framfæri sínu, eða hefur eignast börn utan hjúskapar og er ekki í sambúð við föður eða móður barns.
Synjun á greiðslu feðralauna aftur í tímann til A er í samræmi við ofangreint lagaákvæði og samþykkt tryggingaráðs. Ekki verður séð að það ráði úrslitum í málinu að skilnaðargrundvöllur hafi verið 37. gr. hjúskaparlaga. Greiðslur mæðra- og feðralauna einskorðast við einstæða foreldra, og er vandséð að það geti farið saman að vera hvort tveggja, einstæður og í hjúskap.”
Greinargerðin var send kæranda með bréfi dags. 12. nóvember 2001 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða frekari gögnum. Slíkt hefur ekki borist.
Álit úrskurðarnefndar:
Mál þetta varðar kröfu föður um feðralaun með þremur börnum sínum sem öll eru undir 18 ára aldri. Krafan er reist á 2. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 118/1993 segir:
„Heimilt er að greiða mæðra- og feðralaun til einstæðra foreldra sem hafa börn sín undir 18 ára aldri á framfæri og [eru búsett] hér á landi. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um greiðslu mæðra- og feðralauna.”
Fyrir liggur að heimildarákvæði 2. gr. laga nr. 118/1993 hefur verið nýtt og einstæðum
feðrum og mæðrum verið greiddar bætur skv. ákvæðinu. Tilgangur bótanna er að rétta
þeim foreldrum hjálparhönd sem standa ein að rekstri heimilis.
Í lagaákvæðinu er kveðið á um að ráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um greiðslu mæðra/ feðralauna. Slík reglugerð hefur ekki verið sett en tryggingaráð ákvað á fundi sínum 12. mars 1980 að mæðralaun greiddust frá útgáfudegi skilnaðarleyfisbréfs. Síðar hefur tryggingaráð fjallað ítrekað um skilyrði greiðslu mæðra-/ feðralauna.
Tryggingaráði er ekki falið skv. lögunum að setja ákvæði um greiðslur mæðra/feðralauna. Gera verður þá kröfu að slíkar reglur séu settar með lögformlegum hætti og eigi ótvíræða lagastoð. Svo er ekki um reglu tryggingaráðs og verður henni því ekki beitt við úrlausn máls þessa.
Þar sem ekki hafa verið settar stjórnvaldsreglur lögum samkvæmt er mæla fyrir um skilyrði greiðslu mæðra- / feðralauna ber fyrst og fremst að líta til orðalags 2. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð og túlka það þannig að tilgangi laganna um aðstoð verði náð. Skoða þarf hvert tilvik sérstaklega við mat á því hvort viðkomandi sé einstætt foreldri í skilningi lagaákvæðisins.
Tryggingastofnun ríkisins bendir réttilega á, að kærandi hafi verið í hjúskap allt þar til skilnaðarleyfi var gefið út á grundvelli 37. gr. laga nr. 31/1993. Fallist er á að skráning aðila í hjúskap felur að jafnaði í sér löglíkur fyrir því að viðkomandi sé ekki einstæður. Sá sem heldur öðru fram hefur sönnunarbyrði fyrir staðhæfingu sinni þar að lútandi.
Ágreiningslaust er í málinu, að móðir barnanna fluttist til D-lands árið 1996 og hefur búið þar síðan, sbr. vottorð E, fyrrum Fprests dags. 29. október 2001. Frá þeim tíma hafa börnin búið hjá föður sínum sem haldið hefur þeim heimili. Því er ekki haldið fram í málinu, að hann hafi stofnað til sambúðar aftur.
Tilvik kæranda er sérstakt fyrir margra hluta sakir. Ágreiningslaust er að konan fluttist utan og hefur lítil sem engin samskipti haft við kæranda og börnin. Þá liggja fyrir upplýsingar frá sýslumanninum í B um að kærandi hafi þegar þann 7. apríl 1998 sótt um skilnað. Loks er það grundvöllur lögskilnaðar að samvistarslit hafi staðið eigi skemur en tvö ár. Að þessu virtu telur nefndin sannað að kærandi hafi í raun einn séð um framfærslu barna sinna frá því að kona hans fluttist utan 1996. Því telur nefndin, með hliðsjón af framanrituðu og með vísun til atvika máls þessa að rétt sé að líta svo á að kærandi njóti réttarstöðu einstæðs foreldris frá þeim tíma er sótt var um skilnað.
Umsókn kæranda er dags. 8. mars 2001 og sækir hann um feðralaun frá 1. mars 1999. Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. laga nr. 117/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 118/1993 er óheimilt að ákveða bætur lengra aftur í tímann en tvö ár. Kæranda eru því ákvörðuð feðralaun frá l. apríl 1999 að telja.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Greiða ber A feðralaun frá og með 1. apríl 1999.
F.h. Úrskurðarnefndar almannatrygginga
_______________________________________
Friðjón Örn Friðjónsson,
formaður