Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 134/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 134/2023

Miðvikudaginn 31. maí 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 6. mars 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. febrúar 2023 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 12. janúar 2023. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 9. febrúar 2023, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. mars 2023. Með bréfi, dags. 16. mars 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 3. apríl 2023, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. apríl 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi sé kvæntur X barna faðir. Hann hafi unnið lengi í vinnu tengt F sem og á G í H og starfi á G í dag. Kærandi hafi lent í nokkrum slysum. Alvarlegustu slysin séu vinnuslys árið 1999 og bílslys árið 2019. Samkvæmt læknisvottorði, dags. 27. janúar 2013, sé kærandi með slit í baki, hálsi, hnjám og verkir séu heilt yfir við skoðun á hálsi og baki þar sem þreifieymsli séu til staðar báðum megin við hryggjarsúlu. Einnig sé hann með verki í hnjáliðum beggja vegna við hreyfingu og stirðleiki komi eftir setu. Kærandi sé þreytulegur í viðtali en með góðan „affect“ og innsýn í sinn vanda.

Kærandi hafi farið í aðgerð vegna brjóskloss í baki ásamt því að hafa þurft að undirgangast aðgerðir á öxlum. Þann 4. nóvember 2022 hafi þurft að framkvæma aftur aðgerð á annarri öxlinni. Kærandi hafi þurft að þola mikla verki í baki síðastliðin ár og hafi hann meðal annars farið í taugaendabrennslu í baki og sé farinn að verða slæmur að nýju. Til viðbótar hafi kærandi þurft að fá sterasprautur í bakið. Vegna verkjavanda hafi kærandi þurft að vera í eftirliti hjá verkjateymi Landspítalans.

Vegna verkja í baki geti kærandi mjög takmarkað setið, legið eða staðið í lengri tíma. Kærandi sofi yfirleitt ekki lengur en í tvo til þrjá tíma yfir nóttina vegna verkja og sé hann oft á fótum á nóttunni til að breyta um stöðu. Svefnvandinn sé farinn að hafa mikil áhrif á heilsu hans. Á morgnana sé kærandi oft mjög slæmur af verkjum ef hann hafi náð að sofna undir morgun og því sé það honum mjög erfitt að mæta til vinnu. Vegna fjárhagsaðstæðna hafi kærandi ekki val um að láta vinnu niður falla. Læknar hafi síðastliðin tíu ár nefnt og ráðlagt kæranda að sækja um örorku vegna líkamlegra vandamála en í hvert skipti sem læknir nefni örorku hafi kærandi skipt um lækni þar sem hann hafi ekki verið tilbúinn til að ræða örorku.

Kærandi geti ekki tekið öll þau lyf sem hann eigi að taka nema að hluta til ef hann eigi að mæta til vinnu. Hann vinni við G og mörg þeirra lyfja sem hann eigi að taka daglega séu sljóvgandi. Keyrsla á ökutækjum og öðrum vinnutækjum þarfnist fullrar athygli.

Í læknisvottorði komi fram að kærandi hafi leitað sér viðeigandi aðstoðar sérfræðinga sem hafi þó ekki borið nægilegan árangur, enn séu miklir verkir og erfiðleikar við vinnu til staðar og hann geti ekki lengur sinnt vinnu af þeim sökum. Árið 2020 hafi kærandi farið í magaermi vegna offitu. Margvísleg vandamál hafi fylgt þeirri aðgerð, svo sem blæðingar, og í átta mánuði hafi kærandi verið nánast einungis á fljótandi fæðu. Árið 2022 hafi kærandi orðið fyrir miklu áfalli þegar dóttir hans hafi verið lögð inn á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans vegna sjálfsvígstilraunar hennar. Hann hafi verið hjá sálfræðingi vegna þessa. Kærandi hafi þar að auki verið að mæta í sjúkraþjálfun í I síðastliðin ár. Að jafnaði hafi hann verið að fara einu sinni til tvisvar sinnum í viku. Kærandi geti haft samband við sinn sjúkraþjálfara eftir þörfum og hafi sjúkraþjálfarinn komið honum að í tíma samdægurs til að létta á verkjum ef þörf sé á.

Samkvæmt læknisvottorði hafi kærandi verið óvinnufær frá 4. október 2022 og ekki megi búast við að færni hans aukist. Endurhæfing og meðferð hafi verið í höndum sérfræðinga, bæði líkamleg meðferð og andleg. Kærandi hafi legið inni á Reykjalundi vegna bakvanda og þá hafi hann lært hugleiðslu sem hjálpi honum við að takast á við andlega vanlíðan í kjölfar verkjavanda sem hann glími við. Kærandi muni áfram vera hjá sínum sálfræðingi, leita aðstoðar sjúkraþjálfara eftir þörfum og leita til verkjateymis vegna bakverkjavanda. Þar að auki muni hann vera áfram í eftirliti bæklunarsérfræðinga og heimilislækna vegna axlar- og hnjávanda eftir þörfum.

Líkamleg og andleg staða kæranda sé ekki góð. Hann hafi reynt margt, til dæmis sjúkraþjálfun, lyfjagjöf, sterasprautur, taugaendabrennslu og aðgerðir, auk þess sem hann hafi legið inni á Reykjalundi og sótt sálfræðiaðstoð, allt með því markmiði að endurhæfa hann og styrkja líkamlega og andlega. Það hafi ekki skilað tilætluðum árangri eins og vonast hafi verið til.

Ástæða þess að sú ákvörðun hafi verið tekin að sækja strax um örorku í stað endurhæfingu hafi verið sú að endurhæfing hafi verið til staðar síðastliðin ár án árangurs þó svo að ekki hafi verið sótt um eiginlega endurhæfingu á vegum Tryggingastofnunar. Niðurstaða stofnunarinnar um að synja umsókn um örorku hafi grundvallast á því að endurhæfing væri ekki fullreynd og endurhæfing og meðferð væri enn í gangi. Tryggingastofnun líti alfarið fram hjá mati læknis sem hafi greint frá í meðfylgjandi læknisvottorði að kærandi sé óvinnufær og að ekki megi búast við að færni geti aukist. Óskað hafi verið eftir læknisvottorði frá verkjateymi Landspítalans en það hafi ekki enn skilað sér. 

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkumati, dags. 9. febrúar 2023. Í synjunarbréfi hafi kæranda verið synjað um örorkumat og honum verið vísað á lög og reglur um endurhæfingarlífeyri hjá stofnuninni. Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri og aðrar tengdar greiðslur með umsókn, dags. 12. janúar 2023, en hafi verið synjað með bréfi, dags. 1. mars 2023, á þeim grundvelli að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. Í niðurlagi 2. mgr. 18. gr. komi fram að heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum. Þar segi meðal annars að heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18 til 67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar.

Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Með lögum nr. 124/2022 hafi ákvæðinu um endurhæfingarlífeyri verið breytt þannig að heimil lengd endurhæfingarlífeyris séu 36 mánuðir og heimilt sé að framlengja um 24 mánuði eða samtals í 60 mánuði, þ.e. fimm ár.

Um endurhæfingarlífeyri gildi ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Um aðrar tengdar bætur fari eftir sömu reglum og gildi um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þeirra laga.

Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt, til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í áðurnefndri 7. gr. sé skýrt að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda sé ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinnufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris.

Kærandi hafi legið á sjúkrahúsi nokkrum sinnum í gegnum tíðina og hafi lent í nokkrum alvarlegum slysum. Kærandi hafi lent í meiriháttar slysi árið 1999 við vinnu þegar hönd hans hafi klemmst á milli kara á J. Kærandi hafi farið í fimm eða sex aðgerðir á hönd sinni vegna þessa og búið sé að skera báðar axlirnar, ein aðgerðin hafi verið afar stór axlaraðgerð. Kærandi hafi farið á Reykjalund í sex vikur árið 2003. Hann hafi verið meira eða minna á lyfjum sem útiloki taugaverki frá þeim tíma. Árið 2009 hafi kærandi farið í tvær brjósklosaðgerðir og hafi brjósklosið verið afar alvarlegt. Fyrri aðgerðin hafi verið gerð í maí og hin síðari um sumarið. Árið 2018 hafi góðkynja æxli verið fjarlægt í höfði á bak við eyra. Kærandi hafi verið í sjúkraþjálfun frá 2018.

Kærandi hafi lent í bílslysi árið 2019 sem hafi verið nokkuð alvarlegt. Kærandi hafi slasast á hálsi en ekki hafi verið hægt að skera þar sem 50% líkur hafi verið á því að hann yrði verri. Hausið 2021 hafi viðbein kæranda opnast úr líkama hans. Endi beinsins hafi verið skorinn og sett ankeri á það. Axlarliðurinn hafi verið orðinn svo slitinn að læknir hafi hreinsað úr liðnum og fóðrað liðinn. Árið 2021 hafi kærandi farið í magaermi til að létta á hryggnum. Þá hafi farið að blæða úr vélinda og af þeim sökum hafi kærandi ekki borðað neitt nema fljótandi fæðu í átta mánuði. Kærandi sé með 40% heyrn á öðru eyra og 20% á hinu eyranu. Kærandi hafi farið í magaermi vegna offitu í þeim tilgangi að öðlast betri líðan. Kærandi noti ýmis lyf og hafi reglulega verið í verkja- og sterasprautum í bak, háls og axlir. Um sé að ræða daglega lyfjatöku.

Miðað við læknisvottorð og greinargerð frá Félagsþjónustu B þyki ekki ljóst að kærandi hafi sótt virka endurhæfingu. Lega inni á Reykjalundi og nokkur skipti hjá sálfræðingi þyki ekki full endurhæfing og regluleg eins og lögin geri ráð fyrir til þess að einstaklingur uppfylli skilyrði um örorkulífeyri. Að mati sérfræðinga hjá Tryggingastofnun þyki endurhæfing ekki fullreynd. Bæta megi ákveðin atriði í endurhæfingunni með því að lengja tímabilið þannig að kærandi taki fullan þátt í endurhæfingunni en ekki aðeins að hluta. Eins og fram komi í synjun á örorkulífeyri, dags. 9. febrúar 2023, þyki engin endurhæfing hafi farið fram yfir höfuð. Ljóst sé að ekki sé um að ræða endurhæfingu með það að markmiði að koma kæranda aftur út á vinnumarkað.

Niðurstaða mats Tryggingastofnunar sé sú að endurhæfing kæranda hafi ekki verið fullreynd. Samkvæmt því mati uppfylli kærandi ekki skilyrði 2. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar um að viðeigandi endurhæfing skuli hafa verið fullreynd.

Mikilvægt sé að einstaklingar, sem hugsanlega sé hægt að endurhæfa, fullnýti öll möguleg endurhæfingarúrræði sem í boði séu við þeim heilsufarsvandamálum sem hrjái þá. Með endurhæfingarúrræðum í þessum skilningi sé átt við þverfagleg, einstaklingsmiðuð úrræði sem eigi að stuðla að virkri þátttöku einstaklingsins í samfélaginu.

Ekki verði ráðið af gögnum málsins að veikindi kæranda séu þess eðlis að endurhæfing geti ekki komið að gagni. Niðurstaða Tryggingastofnunar sé einnig sú að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 661/2020 sem geri ráð fyrir að örorka sé metin án örorkustaðals, en beiting undantekningarákvæðisins sé aðeins heimil ef líkamleg og andleg færni sé svo mikið skert að augljóst sé að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati Tryggingastofnunar eigi það ekki við í tilviki kæranda. Í ljósi alls framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðslan á umsókn kæranda, þ.e. að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri að svo stöddu, sé rétt miðað við fyrirliggjandi gögn. Sú niðurstaða sé byggð á faglegum sjónarmiðum sem og gildandi lögum og reglum.

Í fyrri sambærilegum málum fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála hafi verið staðfest að Tryggingastofnun hafi heimild til að krefjast þess af umsækjendum um örorkulífeyri að þeir fullreyni fyrst öll þau úrræði sem þeim standi til boða áður en til örorkumats komi. Tryggingastofnun fari því fram á staðfestingu ákvörðunar sinnar frá 9. febrúar 2023 um að synja kæranda um örorkulífeyri og aðrar tengdar greiðslur.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. febrúar 2023 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt hafi verið að synja kæranda um örorkumat samkvæmt þágildandi 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt þágildandi 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 24 mánuði enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila, sbr. 1. mgr.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð C, dags. 27. janúar 2023. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„SVEFNTRUFLUN

LUMBAGO WITH SCIATICA

INJURY OF TENDON OF THE ROTATOR CUFF OF SHOULDER

TOGNUN Á BRJÓSTHRYGG

HNÉ, INNRA BRENGL

TOGNUN / OFREYNSLA Á HÁLSHRYGG

AXLARMEINSEMDIR“

Um fyrra heilsufar kæranda segir í vottorðinu:

„Vanlíðan eftir áfall fyrir um ári síðan

Lá inni á Reykjalund vegna bakvanda og þá lærði hugleiðslu sem hjálpar, verið hjá sálfræðing vegna þessa.

Vinnuslys 99', bílslys 2019.

Slit og verkir í baki, hálsi og hnjám, aðgerð vegna brjóskloss. Aðgerðir á öxlum, nýlega þurft að gera enduraðgerð 04.10.2022.

Taugabrennsla vegna ekki hægt að framkvæma að gerð í baki, sem og sterasptrautur í eftirliti verkjaeymi landspítalans.

Aðgerð vegna offitu, magaermi 2020.“

Um heilsuvanda og færniskerðingu nú segir í vottorðinu:

„Færniskerðing vegna mikilla veikinda og slysa.

Leitað sér viðeigandi aðstoðar sérfræðinga en ekki borið nægilegan ávinning, verkir og erfiðleikar við vinnu sem hann getur ekki lengur sinnt vegna þessa.“

Lýsing læknisskoðunar er svohljóðandi í vottorðinu:

„Verkir heilt yfir við skoðun á hálsi og baki þar sem þreifieymsli eru til staðar beggja vegna hryggjasrsúlu. Verkir í hnjáliðum beggja vegna við hreyfingu og stirðleiki eftir setu. Þreytulegur í viðtali en góður affect, innsýn í sinn vanda.“

Í vottorðinu segir að kærandi hafi verið óvinnufær frá 4. október 2022 og að ekki megi búast við að færni geti aukist. Í athugasemdum segir meðal annars:

„Endurhæfing og meðferð verið í höndum sérfræðinga, bæði líkamlega og andlega síðastliðin ár. Hann mun áfram vera hjá sínum sálfræðing, leita aðstoðar sjúkraþjálfara eftir þörfum og leita til verkjastyemisins vegna bakverkjavanda. Hann mun einnig halda áfram að vera í eftirliti bæklunarsérfræðinga og heimilislækna vegna axlar- og hnjávanda eftir þörfum.“

Í matsgerð D bæklunarlæknis og E lögmanns, dags. 2. desember 2020, var lagt mat á áverka kæranda, annars vegar vegna umferðarslyss þann 20. júní 2019 og hins vegar vegna frítímaslyss þann 29. október 2019. Í samantekt og niðurstöðu segir um umferðarslysið að með hliðsjón af gögnum og skoðun á matsfundi telji matsmaður orsakatengsl vera fyrir hendi á milli umferðarslyssins þann 20. júní 2019 og núverandi einkenna kæranda frá hálsi, vinstri öxl, vinstra hnés og hluta núverandi einkenna hans frá baki. Í samantekt og niðurstöðu segir um frítímaslysið þann 29. október 2019 að orsakatengsl teljist vera fyrir hendi á milli slyssins og hluta núverandi einkenna í hægri úlnlið.

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar, sem kærandi lagði fram með umsókn um örorkumat, svaraði hann spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni. Í lýsingu á heilsuvanda nefnir kærandi bakverki, axlarverki, hálsverki, að hægri handleggur sé með 30% virkni, að hann sé með ónýtar hnéskeljar og að brennt hafi verið á taugaenda í baki. Af svörum kæranda verður ráðið að hann eigi erfitt með ýmsar daglegar athafnir sökum verkja. Kærandi greinir frá því að hann glími við kvíða.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki farið fram. Þá var kæranda leiðbeint að fá ráðgjöf hjá heimilislækni um þau endurhæfingarúrræði sem væru í boði.

Fyrir liggur að kærandi býr við ýmis vandamál af líkamlegum toga. Af gögnum málsins má ráða að kærandi hefur verið í nokkurri endurhæfingu en ekki heildstæðri og virkri starfsendurhæfingu. Í fyrrgreindu læknisvottorði C, dags. 27. janúar 2023, kemur fram að kærandi hafi verið óvinnufær frá 4. október 2022 og að ekki megi búast við að færni aukist.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ekki verði ráðið af eðli veikinda kæranda að frekari endurhæfing geti ekki komið að gagni. Eins og kemur fram í læknisvottorði C, dags. 27. janúar 2023, er kærandi í viðtölum hjá sálfræðingi, í tímum hjá sjúkraþjálfara, hjá verkjateymi Landspítalans og í eftirliti bæklunarsérfræðinga sem bendir til þess að endurhæfing sé í gangi. Einnig liggur fyrir að kærandi hefur ekki fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 60 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. febrúar 2023, um að synja kæranda um örorkumat.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkumat, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta