Úrskurður nr. 208 Ofgreiddar bætur
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú r s k u r ð u r.
Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.
Með bréfi mótt. 13. júlí 2006 hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga kærir A ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurkröfu ofgreiddra bóta ársins 2004.
Óskað er endurskoðunar.
Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins dags. 5. maí 2006 var kæranda tilkynnt að ekki hefði verið unnt að taka tillit til andmæla hans við endurreikningi bóta ársins 2004. Stæði því áður kynnt niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2004 sem uppgjör bóta þess árs. Samkvæmt endurreikningi hefðu bætur verið ofgreiddar sem nam kr. 142.400 en að frádreginni staðgreiðslu skatta væri krafa Tryggingastofnunar kr. 88.672.
Í rökstuðningi fyrir kæru segir m.a.:
„Eins og fram kemur í bréfum mínum til Tryggingastofnunar ríkisins frá 7.12.05 og 8.6.2006 og einnig tölvupósti frá 17.5.2006 þá er ágreiningsatriðið mismunandi túlkun á fjármagnstekjum af ríkisskuldabréfum sem myndast á árunum 2000 til 2004.
Samkvæmt skattalögum var mér óheimilt að telja fjármagnstekjurnar fram árlega heldur aðeins á innlausnarári sem kemur sér illa fyrir mig eins og fram kemur í meðfylgjandi fylgiskjölum.“
Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 14. júlí 2006 eftir greinargerð Tryggingastofnunar. Greinargerðin er dags. 21. júlí 2006. Þar segir m.a.:
„Meginástæða þess að endurkrafa myndast í uppgjöri er sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2005 vegna tekjuársins 2004 hafði farið fram kom í ljós að fjármagnstekjur kæranda á árinu 2004 reyndust nokkuð hærri en vélræn tekjuáætlun vegna 2004 gerði ráð fyrir, og liggur ekki fyrir að kærandi hafi tilkynnt Tryggingastofnun um þær tekjur. Uppgjör bótagreiðslna til kæranda vegna ársins 2004 fór fram samkvæmt fyrirmælum 5. mgr. 10. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum. Þar kemur fram að Tryggingastofnun skuli endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt 10. gr. laganna þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Í 2. mgr. 10. gr. er skilgreint hvað skuli teljast til tekna og kemur þar fram að til tekna skv. II. kafla almannatryggingalaga teljist tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 90/2003. Fjármagnstekjur teljast til skattskyldra tekna, sbr. C lið 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, og skerða því bætur eins og nánar er kveðið á um í ákvæðum almannatryggingalaga.
Eins og fram kemur í fyrirliggjandi bréfi kæranda, dags. 7. desember 2005, innleysti hann ríkisskuldabréf á árinu 2004, sem hann keypti á árinu 1999. Fjármagnstekjur þessar voru því taldar fram til skattskyldra tekna á skattframtali kæranda vegna tekjuársins 2004. Það er í samræmi við ákvæði 2. tl. 2. mgr. 8. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, en þar er kveðið á um að vextir af kröfu skulu teljast til tekna þegar þeir eru greiddir eða greiðslukræfir. Eins og mælt er fyrir um í fyrrgreindu ákvæði 5. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga ber Tryggingastofnun að leggja til grundvallar upplýsingar á skattframtali um tekjur bótaþega þegar endurreikningur lífeyrisgreiðslna er framkvæmdur. Á skattframtali kæranda vegna tekjuársins 2004 koma fram fjármagnstekjur sem Tryggingastofnun er samkvæmt framansögðu skylt að taka tillit til við endurreikning lífeyrisgreiðslna til hans.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 25. júlí 2006 og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.
Niðurstaða úrskurðarnefndar:
Mál þetta varðar endurkröfu vegna ofgreiddra bóta ársins 2004.
Í kæru greinir kærandi frá því að hann hafi keypt ríkisskuldabréf árið 1999 sem hann hafi svo innleyst á árinu 2004. Samkvæmt skattalögum hafi honum verið óheimilt að telja fjármagnstekjur fram árlega heldur aðeins á innlausnarári.
Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að meginástæða þess að endurkrafa hafi myndast í uppgjöri sé sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2005 vegna tekjuársins 2004 hafi farið fram hafi komið í ljós að fjármagnstekjur kæranda hafi reynst nokkuð hærri en áætlað hafi verið. Liggi ekki fyrir að kærandi hafi tilkynnt um þá hækkun. Uppgjör bótagreiðslna ársins 2004 hafi svo farið fram samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 117/1993, með síðari breytingum, en þar sé mælt fyrir um endurreikning bóta þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Sé í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 117/1993 vísað til II. kafla laga um tekjuskatt nr. 90/2003 um hvað teljist tekjur.
Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. almannatryggingalaga er umsækjanda og bótaþega skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að afla upplýsinga um tekjur hjá skattyfirvöldum, Atvinnuleysistryggingasjóði, Vinnumálastofnun og hjá sambærilegum stofnunum erlendis ef við á, svo fremi að samþykki umsækjanda um bætur liggi fyrir. Eingöngu er þó um að ræða heimild stofnunarinnar en útreikningur bóta grundvallast almennt á upplýsingum frá bótaþegum sem þeim ber skylda samkvæmt lögunum að veita.
Í 5. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga er mælt fyrir um að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir, við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Komi í ljós að tekjutengdar bætur hafi verið ofgreiddar skuli innheimta þær samkvæmt 50. gr. laganna.
Í 1. mgr. 50. gr. almannatryggingalaga kemur fram að hafi Tryggingastofnun ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögunum skuli stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til. Í 2. mgr. 50. gr. er sérregla um tekjutengdar bætur. Þar segir að þær megi eingöngu draga frá bótum sem bótaþegi kunni síðar að öðlast rétt til ef tekjur á ársgrundvelli eru hærri en lagt var til grundvallar við samtímaútreikning og ofgreiðsla stafi af því að bótaþegi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna.
Fyrir liggur að fjármagnstekjur kæranda reyndust hærri á árinu 2004 en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlun fyrir það ár.
Í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar er vísað til II. kafla nr. 90/2003, um tekjuskatt, um hvaða tekjur skuli teljast til tekna samkvæmt almannatryggingalögum. Í 5. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga er mælt fyrir um endurreikning þegar endanlegar tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir. Þær upplýsingar liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Samkvæmt upplýsingum á skattframtali 2005 vegna tekjuársins 2004 var kærandi með hærri fjármagnstekjur en áætlað hafði verið og tilkynnti hann ekki um þá breytingu innan ársins til Tryggingastofnunar. Kærandi innleysti ríkisskuldabréf á árinu 2004 og bar því að telja tekjur vegna innlausnar fram sem fjármagnstekjur á því ári. Að mati úrskurðarnefndar er ekki heimilt, í ljósi orðalags 5. mgr. 10. gr. laga nr. 117/1993, að miða við annað en það sem fram kemur á skattframtali 2005 um fjármagnstekjur og er því endurkrafa Tryggingastofnunar staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Endurkrafa Tryggingastofnunar ríkisins, að fjárhæð kr. 88.672 á hendur A vegna ofgreiddra bóta ársins 2004 er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga
____________________________________
Friðjón Örn Friðjónsson,
formaður