Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 74/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 74/2023

Miðvikudaginn 6. mars 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 27. janúar 2023, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 27. október 2022, um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2021 og ákvörðun, dags. 20. desember 2022 um innheimtu ofgreiddra bóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2021 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 479.694 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu kröfunnar með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 27. október 2022. Kærandi andmælti framangreindri ákvörðun 24. nóvember 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. apríl 2023, var kæranda tilkynnt um að fyrri útreikningur stæði óbreyttur.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. janúar 2023. Með bréfi, dags. 19. apríl 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 3. maí 2023, barst greinargerð stofnunarinnar var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar. 9. maí 2023. Athugasemdir bárust ekki.

Með bréfi, dags. 21. ágúst 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir nánari rökstuðningi frá Tryggingastofnun ríkisins varðandi meðhöndlun á slysabótum kæranda við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2021. Rökstuðningur barst með greinargerð, dags. 1. september 2023, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 5. september 2023. Athugasemdir bárust ekki.

Með bréfi, dags. 6. nóvember 2023, gaf úrskurðarnefndin kæranda kost á að leggja fram nánari gögn um greiðslurnar „utbetaling fra skadeforsikring“ og benti á að bærust gögnin ekki kynni það að leiða til þess að nefndin úrskurðaði kæranda í óhag. Athugasemdir bárust frá kæranda 11. desember 2023. Með tölvupósti 14. desember 2023 ítrekaði úrskurðarnefndin að bærust engin gögn frá kæranda um framangreindar greiðslur kynni það að leiða til þess að nefndin úrskurðaði kæranda í óhag. Athugasemdir kæranda voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 22. desember 2023. Efnislegar athugasemdir bárust ekki frá Tryggingastofnun.

Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 24. janúar 2024, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 25. janúar 2024. Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun með bréfi, dags. 7. febrúar 2024, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 8. febrúar 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé niðurstaða endurreiknings og uppgjörs Tryggingastofnunar á tekjutengdum greiðslum ársins 2021. Krafist sé leiðréttingar á uppgjöri er varði barnalífeyri og innheimtu stofnunarinnar. Tryggingastofnun þurfi að virða jafngildar örorkubætur NAV og Tryggingastofnunar. 

Endurreikningi Tryggingastofnunar, dags. 27. október 2022, sé alfarið hafnað. Spurt sé hvaða forsendur séu fyrir endurreikningi og kröfu Tryggingastofnunar vegna ársins 2021. Engar skýringar hafi verið gefnar eða forsendur settar fram varðandi skerðingu vegna kröfu að fjárhæð 479.694 kr. Hið rétta sé að Tryggingastofnun hafi ranglega skráð örorkubætur frá Noregi sem lífeyrissjóðstekjur. Samkvæmt norsku skattframtali séu örorkubætur frá almannatryggingum „Uföretrygd fra folketrygden“. Tryggingastofnun skrái „skadeforsikring“, þ.e. eingreiðslu vegna slyss, sem aðrar tekjur. Með bréfi til Tryggingastofnunar, dags. 24. nóvember 2022, hafi andmælum verið komið á framfæri og kröfu hafnað. Niðurstaða endurreiknings Tryggingastofnunar byggi á röngum forsendum og beri að leiðrétta.

Lögð sé fram sú krafa að innheimta Tryggingastofnunar að upphæð 479.694 kr. verði stöðvuð. Krafan verði tekin til endurskoðunar þegar úrskurður liggi fyrir í málinu. Vangreiðslur Tryggingastofnunar við kæranda séu umtalsvert hærri en krafa stofnunarinnar. Mikilvægt sé að taka á málum heildstætt og leiðrétta.

Kærandi eigi inni hjá Tryggingastofnun ríkisins umtalsvert hærri fjárhæð en krafa stofnunarinnar sé. Tryggingastofnun þurfi að greiða og standa skil á barnalífeyri með einu barni samkvæmt 16. og 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Vangreiðsla sé á barnalífeyri vegna tímabilsins 1. ágúst 2019 til 30. nóvember 2021 auk vaxta. Tryggingastofnun þurfi að leiðrétta og endurgreiða innheimtu 2021 og greiða vexti, innheimtan hafi verið á röngum forsendum. Auk þess þurfi stofnunin að endurgreiða staðgreiðslu vegna áranna 2019 og 2020 og vexti sem stofnunin hafi ekki skilað til skattsins.

Tryggingastofnun þurfi að virða jafngildar örorkubætur Tryggingastofnunar og NAV. Ljóst sé að þessar stofnanir hafi verið í samstarfi að frumkvæði NAV og á grundvelli reglugerða (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa og reglugerð (EB) nr. 987/2009 sem kveði á um framkvæmd reglugerðar nr. 883/2004, meðal annars um samskipti stofnana. Fyrir liggi upplýsingar og tilkynningar milli NAV og Tryggingastofnunar um afgreiðslu stofnananna á örorkubótum til kæranda.

Kærandi spyr hver tilgangur Tryggingastofnunar sé með rangri skráningu og segja að örorkubætur NAV sé lífeyrissjóður. Staðreyndin sé sú að Tryggingastofnun hafi breytt innsendum gögnum kæranda vegna áranna 2019 og 2020. Kærandi hafi skráð örorkubætur rétt í tekjuáætlun sem Tryggingastofnun hafi sent og samkvæmt fylgiskjölum frá NAV og skattinum í Osló. Tryggingastofnun hafi síðan endurskráð tekjuáætlanir og skráð greiðslur NAV sem lífeyrissjóðstekjur. Þrátt fyrir að í fylgiskjölum og gögnum frá opinberum aðilum segi að greiðslur NAV séu örorkubætur.

Framganga Tryggingastofnunar, þ.e. að breyta skráningu á örorkubótum frá NAV og skrá þær sem lífeyrissjóðstekjur, byggi á röngum forsendum. Kærandi spyr hvers vegna stofnunin hafi breytt innsendum gögnum og hafi skráð greiðslur NAV sem lífeyrissjóðsgreiðslur. Hvers vegna hafi stofnunin ekki kannað og borið þessar fullyrðingar sínar um að örorkubætur NAV séu lífeyrissjóður undir lögaðila reglugerðar EB nr. 883/2004, sbr. 9. gr.

Í athugasemdum kæranda frá 11. desember 2023 kemur fram að árétta skuli að greiðsla frá tryggingafélagi í Noregi, sem greidd hafi verið í einni greiðslu í júní 2021, hafi engin áhrif haft til skerðinga örorkubóta og greiðslna kæranda hjá NAV árið 2021. Það hafi því komið algjörlega á óvart þegar Tryggingastofnun ríkisins hafi gert kröfu um endurgreiðslu á nær heildargreiðslu örorkubóta ársins 2021 og án allra skýringa eða forsendna fyrir kröfunni.

Tryggingastofnun ríkisins og NAV séu stofnanir skuldbundnar samkvæmt milliríkjasamningum sem Ísland og Noregur séu aðilar að, þ.e. EES-samningnum, reglugerð Evrópusambandsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa og reglugerð (EB) nr. 987/2009.

Tryggingastofnun ríkisins hafi endurreiknað greiðslur kæranda 2021 og innheimt nánast að fullu tæplega hálfa milljón króna. Hér sé tekist á um skerðingu vegna eingreiðslu frá „skadeforsikring“ sem hún hafi fengið greitt frá vátryggingafélagi atvinnurekanda í Noregi, vegna atvinnuslyss sem hún hafi orðið fyrir árið X. Það sé eingreiðsla „skadeforsikring“ og hluti hennar gefinn upp á skattaskýrslu í Noregi 2021. Þessi upphæð skerði ekki greiðslur örorkubóta frá NAV í Noregi 2021. Það hafi því komið algjörlega á óvart að þessi greiðsla skerði örorkubætur á Íslandi og þess vegna hafi hennar ekki verið getið fyrr en með skattaskýrslu. Þetta sé greiðsla vegna lokauppgjörs sem greidd sé tíu árum eftir atvinnuslys sem leiddi til 100% örorku að læknisfræðilegu mati.

Samkvæmt skattalögum í Noregi hefði kærandi getað deilt þessari upphæð niður á árin X-2021 og greitt umtalsvert lágan skatt af upphæðinni. Að skipta upphæðinni niður á öll árin hefði verið hagstæðara en það hefði haft umtalsverðan kostnað í för með sér, þ.e. að fá lögfræðing til að taka upp öll árin og ganga frá og deila upphæð á skattaskýrslur fyrri ára. Samkvæmt skattareglum í Noregi, hafi einnig mátt telja upphæðina fram sem tekjur 2021 og þar með greiða hærri skatt af upphæðinni. Samkvæmt ráðgjöf fagaðila hafi verið ráðlagt og talið einfaldara að ganga frá greiðslunni á skattaskýrslu 2021 þar sem það hafi legið fyrir að upphæðin skerði ekki örorkubætur NAV. Það yrði kostnaðarminna.

Í athugasemdum kæranda frá 24. janúar 2024 segir að Tryggingastofnun þurfi að standa skil á barnalífeyri með einu barni skv. 20. gr. í þágildandi lögum um almannatryggingar og núgildandi 1. mgr. 40. gr. laganna.

Tryggingastofnun þurfi að leiðrétta og endurgreiða innheimtu 2021, þ.e. innheimtu á röngum forsendum auk vaxta. Tryggingastofnun þurfi að endurgreiða staðgreiðslu vegna 2019 og 2020, sem stofnunin hafi ekki skilaði til Skattsins auk vaxta.

Í greinargerð Tryggingstofnunar, dags. 3. maí 2023, sé beitt endurskoðun á röngum forsendum á innsendum gögnum frá NAV og Skattinum í Noregi og staðreyndum breytt. Tryggingastofnun haldi því fram að örorkubætur frá almannatryggingum í Noregi „Uföretrygd fra folketrygden“ séu greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Það sé alrangt og eigi ekki við nein rök að styðjast. Eingreiðsla frá „skadeforsikring“ vegna atvinnuslyss sé skráð sem aðrar tekjur og skerði. Þetta sé „eingreiðsla“ sem skerði ekki örorkubætur í Noregi og eigi ekki að skerða réttindi á Íslandi samkvæmt milliríkjasamningum sem Ísland og Noregur séu aðilar að, m.a. reglugerð (EB) nr. 883/2004.

Tryggingastofnun þurfi að axla ábyrgð samkvæmt löggildri aðild Ísland að milliríkjasamningum og samstarfi, samkvæmt reglugerð EB nr. 883/2004. Tryggingastofnun beri að virða jafngildar örorkubætur Tryggingastofnunar og NAV. Ljóst sé að þessar stofnanir hafi verið í samstarfi að frumkvæði NAV og á grundvelli reglugerðar (EB) nr. 884/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa og reglugerðar (EB) nr. 987/2009 sem kveði á um framkvæmd hinnar fyrrnefndu, m.a. um samskipti stofnana. Upplýsingar liggi fyrir um tilkynningar milli NAV og Tryggingastofnunar um afgreiðslu beggja stofnana á örorkubótum og réttindum kæranda.

Hér skuli ítreka að réttur til örorkubóta og tengdra greiðslna séu skilgreind í tilkynningu Tryggingastofnunar til NAV með skjali (EB) „P6000 – Vedtak om pensjon“ dags. 3. ágúst 2021. Þar segi Tryggingastofnun réttindi vegna búsetu á Íslandi vera skýrt skilgreind samkvæmt 52. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004. Það séu hlutfallsleg réttindi samkvæmt lengd búsetu fram að atvinnuslysi sem Tryggingastofnun hafi skilgreint 51,61%. Þau réttindi byggi á milliríkjasamningum sem Ísland sé aðili. Þá hafi NAV gefið út skjal (EB) „P7000“, þ.e.: Samræmdar og samþykktar ákvarðanir um réttindi beggja stofnana, en þar segi að greiðslur beggja stofnana séu örorkubætur. Þetta sé einnig staðfest með skjali (EB) „P1- Tilkynning um samanlögð réttindi lífeyrisákvarðana, samkvæmt samhæfingu almannatryggingakerfa“.

Ljóst sé að endurreikningur og innheimta Tryggingastofnunar vegna greiðslna 2021 sé fordæmalaus, þar sem forsendur innheimtu skorti. Í ljós komi að krafa Tryggingastofnunar sé vegna eingreiðslu sem sé lokauppgjör vátryggingafélags (skadeforsikring), þ.e. uppgjör og lokagreiðsla að fjárhæð 1.026.455 NOK. Þetta séu bætur vegna afleiðinga atvinnuslyss og 100% örorku og spanni tíu ára tímabil frá atvinnuslysi X til lokauppgjörs 2021. Tryggingastofnun haldi eftirfarandi fram:

„Þær slysabætur sem kærandi fékk frá Noregi … falla ekki undir undantekningarákvæði 2. tölul. 28. gr. tekjuskattslaga heldur sé um að ræða skaðabætur eða vátryggingarfé vegna atvinnutaps. Slíkar tekjur eru tekjuskattsskyldar samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. tekjuskattslaga …).“

Upplýsingar sem Tryggingastofnun hafi gefið, meðal annars til Öryrkjabandalags Íslands, varðandi tekjur samkvæmt 7. gr. séu: „Bætur vegna slyss sem greiddar eru mánaðarlega og vegna tekjutaps eru skattskyldar.“ Fullyrðing Tryggingastofnunar að framan varðandi 2. tölul. A-liðar 7. gr. falli því um sjálfa sig og eigi ekki við hér þar sem greiðsla vátryggingafélags (skadeforsikring) til kæranda 25. júní 2021 sé eingreiðsla.

Forsendur sem Tryggingastofnunin gefi sér séu einhliða og útilokandi. Stofnunin greini ekki frá réttindum skjólstæðings og uppfylli ekki upplýsingaskyldur sínar.

Í aðfararorðum reglugerðar (EB) nr. 883/2004 segi m.a. eftirfarandi:

Í lið-4: „Nauðsynlegt er að virða sérkenni almannatryggingalöggjafar hvers lands og koma einungis á fót samræmingarkerfi.“

Í lið-5: „Nauðsynlegt er, innan ramma slíkrar samræmingar, að tryggja að innan Bandalagsins njóti hlutaðeigandi einstaklingar jafnrar meðferðar samkvæmt mismunandi landslögum.“

Örorkubætur á Íslandi eigi ekki að skerðast vegna eingreiðslu „skadeforsikring“, þ.e. vegna atvinnuslyss í Noregi. Gæta skuli jafnfræðis til að tryggja að einstaklingar innan Bandalagsins, Noregs og Íslands njóti jafnrar meðferðar samkvæmt mismunandi landslögum. Því skuli afgreiðsla Tryggingastofnunar vera í samræmi við afgreiðslu NAV, að greiðslur örorkubóta skerðist ekki vegna eingreiðslu „skadeforsikring“.

Inngangur greinargerðar Tryggingastofnunar 1. sept. 2023 beinist að því að útlista beiðni til kæranda, dags. 9. mars 2023. Þar hafi stofnunin óskað eftir upplýsingum um „umdeildar slysabætur.“ Þar segi:

„Kæranda er enda rétt og skylt að taka þátt í meðferð málsins, m.a. með því að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo unnt sé að taka ákvörðun um fjárhæð greiðslna og endurskoðun þeirra.“

Rétt sé að fram komi að Tryggingastofnun hafi sent þessa beiðni nær fimm mánuðum eftir að stofnunin hafi sent kæranda endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna 2021 án allra skýringa.

Kærandi hafi sent inn andmæli, dags. 24. nóvember 2022, vegna endurreiknings Tryggingastofnunar. Daginn eftir hafi móttaka á andmælum verið staðfest og í bréfinu segi:

„Tryggingastofnun hefur móttekið andmæli við endurreikning og uppgjöri tekjutengdra greiðslna ársins 2021. Þú mátt búast við svari innan 8 vikna frá dagsetningu þessa bréfs.

Andmæli fresta innheimtu krafna á meðan á afgreiðslu þeirra stendur, berist þau innan andmælaréttar. Endurreikningi og uppgjöri vegna ársins 2021 telst ekki lokið fyrr en að andmæli þín hafa verið afgreidd. Kærufrestur hefst þegar niðurstaða andmæla liggur fyrir.“

Þann 20. desember 2022 hafi komið inn tilkynning um innheimtubréf og greiðsluáætlun. Þessari greiðsluáætlun hafi Tryggingastofnun framfylgt frá 1. janúar 2023 og dregið 9.411 kr. af mánaðargreiðslum og einnig sent greiðsluseðil í banka að fjárhæð 34.451 kr. með tilheyrandi innheimtuskilyrðum. Tryggingastofnun hafi framfylgt innheimtuáætlun sinni og tekið nánast að fullu mánaðargreiðslur örorkubóta upp í skuld vegna innheimtuaðgerða. Ekki hafi verið haft samband við kæranda í marga mánuði. Þessi greiðsluáætlun og innheimtuaðgerð Tryggingastofnunar séu hvorki gerðar í samráði við né með samþykki kæranda.

Í 3. mgr. 55. gr. þágildandi laga um almannatryggingar segi:

„Ekki er heimilt að draga frá bótum meira en 20% af mánaðarlegum greiðslum til bótaþega, nema samið sé um annað, þó aldrei lægri fjárhæð en 3.000 kr., uns ofgreiðsla er endurgreidd að fullu.“

Ljóst sé að Tryggingastofnun ríkisins hafi ekki farið eftir þessu ákvæði laga um almannatryggingar.

Ákvæði reglugerðar (EB) nr. 883/2004 sé að meginstefnu ætlað að tryggja að löggjöf aðildarríkjanna á sviði almannatrygginga og félagslegs öryggis sé beitt með samræmdum hætti gagnvart einstaklingum sem flytjist milli aðildarríkja EES-samningsins, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 10077/2019.

Í 2. gr. reglugerðar nr. 442/2012 sé talið upp til hvaða málefna reglugerðirnar sem innleiddar séu með reglugerðinni taki. Svari sú upptalning til þeirrar sem komi fram í 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004. Samkvæmt c-lið taki reglugerðin meðal annars til örorkubóta og í f-lið, bóta vegna vinnuslysa og atvinnusjúkdóma.

Í  9. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004 um yfirlýsingar aðildarríkjanna um gildissvið segi:

„1. Aðildarríkin skuli tilkynna framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna, skriflega um yfirlýsingarnar sem um getur í 1. mgr, 1. gr., löggjöfina og kerfin sem um getur í 3. gr., samninga, sem gerðir voru eins og um getur … svo og um síðari efnislegar breytingar sem eru gerðar.

2. Þessar tilkynningar skulu sendar framkvæmdarstjórn Evrópubandalaganna árlega og birta í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.“

Ljóst sé að hér sé kveðið á um greiðslur og bætur ef fólk verði fyrir örorku eða slysum, bæði í Noregi og á Íslandi. Ef löndin breyti forsendum bóta með löggjöf og framkvæmd beri þeim skylda til að tilkynna það til framkvæmdastjórnar Evrópubandalaganna. Slíkar breytingar hafi ekki verið tilkynntar svo vitað sé.

Einnig sé vísað til samnings sem sé í gildi milli Tryggingastofnunar og NAV og varði réttindi og aðstæður yfir landamæri. Það sé samningur vegna starfstengdrar endurhæfingar sem veitt sé til aðstoðar fólki sem lent hafi í veikindum og slysum við atvinnu og búsetu yfir landamæri. Um grundvöll þessa samningsins segi meðal annars:

„Samningur þessi er byggður á reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins nr. 883/2004 og 987/2009, auk annarra skuldbindinga sem leiða af ákvæðum Norðurlandasamningsins sem varða endurhæfingaraðstæður yfir landamæri.“

Í samningi Tryggingastofnunar og NAV séu skilgreiningar yfir örorkubætur vegna langtíma veikinda og slysa sem leiði til örorku og fötlunar og bætur sem einstaklingar eigi rétt á. Örorkubætur séu: „Greiðslur í formi fjárhagslegra bóta vegna tekjumissis - vegna veikinda og slysa.“ Eingreiðsla sé: „Bætur vegna varanlegrar örorku, tekjutaps vegna veikinda, slyss eða heilsuskaða.“

Enn fremur segir: „Sérstaklega ætti sérhver ákvörðun, að vera í samræmi við bann við beinni og óbeinni mismunun eins og lýst er í 4. gr reglugerð (EB) nr. 883/2004, sem og ákvæði sem taka skuli tillit til jafnræðis við málsmeðferð að því er varðar, bætur, tekjur, aðstæður og atburði eins og lýst er í 5. grein reglugerðar 883/2004.“

Þessi samningur milli Tryggingastofnunar og NAV hafi hér gildi og endurspegli samstarf landanna.

Kærandi fjallar um 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004.

Ljóst sé að eingreiðsla frá vátryggingafélagi atvinnuveitanda (skadeforsikring) vegna atvinnuslyss X hafi þau réttaráhrif í Noregi að þessi eingreiðsla skerði ekki örorkubætur NAV. Þess vegna skuli þau réttindi og ákvæði þeirra sem viðurkennd séu í lögbæru aðildarríki einnig gilda um „jafngildar örorkubætur“ á Ísland, þ.e. að þær skerðist ekki. Hér sé krafist jafnræðis í málsmeðferð og að tekið verði tillit til aðstæðna vegna afleiðinga slyss vegna 100% örorku.

Hér skuli árétta að réttur til bóta sé skýr samkvæmt lögum vegna atvinnuslysa í Noregi og á Íslandi. Verði fólk fyrir atvinnuslysi sé réttur til bóta til staðar samkvæmt núgildandi lögum nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga nr. 45/2015.

Í Noregi séu sömu réttindi, sbr. 12. og 13. kafla norsku laganna nr. 19/1997 um almannatryggingar (n. lov om folketrygd).

Einnig sé réttur til bóta til staðar hjá vátryggingafélagi vinnuveitanda, bæði á Íslandi og í Noregi.

Í desember X hafi kærandi orðið fyrir atvinnuslysi. Hún hafi verið tryggð í starfi og fengið laun samkvæmt gildandi lögum og starfssamningi í eitt ár. Hún hafi farið í tvær erfiðar aðgerðir og fengið endurhæfingarlífeyri (n. arbædsavklaringspenger) og endurhæfingu á vegum NAV til 2019. Í lok árs 2018 hafi verið endanlega ljóst og staðfest að afleiðing atvinnuslyssins sé alvarlegur og óendurkræfur líkamlegur skaði.

Afleiðingar slyssins séu 100% örorka. Á árunum X og X hafi kærandi haft tæplega 1,1 milljón NOK í árslaun fyrir hvort ár, miðað við tekjur uppfærðar af NAV 2021. Við endanlegt örorkumat 2021 séu árstekjur ákveðnar 414.939 NOK. Það sé hámarks greiðsla örorkubóta samkvæmt kafla 12 og 13 í norsku almannatryggingalögunum vegna atvinnuslyss með sérákvæðum og full réttindi samkvæmt búsetu framreiknuð til 67 ára aldurs.

Þar sem Tryggingastofnun hafi haldið því fram að örorkubætur kæranda frá NAV séu lífeyrissjóðstekjur sé áréttað að það sé ekki rétt. Hún eigi engin réttindi í lífeyrissjóði í Noregi. Hún eigi réttindi í lífeyrissjóði á Íslandi en fái ekki krónu. Þau réttindi séu bundin því að einstaklingur slasist á Íslandi.

Réttindi í Noregi séu byggð á búsetu í landinu og norsku lögunum um almannatryggingar. Í grein 12-17 segi um örorkubætur vegna atvinnuslyss (uföretrygd ved yrkeskade):

„Þeir sem eru óvinnufærir vegna meiðsla, slysa eða sjúkdóma og falla undir 13. kafla, eru veittar örorkubætur samkvæmt sérákvæðum (særbestemmelser).“

Í kafla 13. um atvinnuslysatryggingu/vátryggingu (Yrkesskadedekning), segi meðal annars:

„Rétt til bóta samkvæmt sérstökum ákvæðum (særbestemmelser) á hver sá sem verður fyrir atvinnuslysi eða sambærilegum atvinnusjúkdómi sem fellur undir þennan kafla.

[…]

Með atvinnuslysi er átt við líkamstjón, skaða, veikindi eða dauðsfall af völdum vinnuslyss sem slysatryggður einstaklingur verður fyrir í starfi.“

Þá sé upptalið hvaða hópar falli undir þetta ákvæði 13. kafla. Það séu m.a. ákvæði um:

„Sjúkradagpeninga (sykepenger); endurhæfingarlífeyrir (arbeidsavklaringspenger) og örorkubætur (uföretrygd).“

Að framansögðu megi ljóst vera að kærandi njóti fullra réttinda í Noregi og fái örorkubætur greiddar samkvæmt almannatryggingum. Örorkubætur hennar taki á engan hátt mið af fyrri tekjum og séu ekki lífeyrissjóðsgreiðslur eins og Tryggingastofnun haldi fram.

Í áliti umboðsmanns Alþingis í sambærilegu máli nr. 10077/2019 segi:

„Ég tel að lokum rétt að vekja athygli á því að ég fæ ekki séð að þau almennu sjónarmið sem úrskurðarnefndin og Tryggingastofnun hafa vísað til um túlkun þess hvað teljist jafngildar bætur í skilningi

a-liðar 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004 séu að öllu leyti í samræmi við þá túlkun á hugtakinu sem lögð hefur verið til grundvallar í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins.

[…]

í Fyrrnefndum dómi Evrópudómstólsins í máli C-453/14 Knauer sem og í áliti aðallögsögumanns dómstólsins í sama máli er sérstaklega tekið fram að grundvöllur samanburðarins á því hvort bætur séu jafngildar lúti að markmiði og lagagrundvelli bótagreiðslna.“

Hvort bætur samkvæmt norsku almannatryggingarlögunum og lögum nr. 100/2007 um almannatrygginga séu jafngildar lúti að markmiði og lagagrundvelli greiðslna, og samanburði sem byggi á sambærilegum, þ.e. samanburðarhæfum gögnum. Slíkur samanburðar liggi fyrir og sýni að grundvöllur örorkubóta NAV og Tryggingastofnunar sé sambærilegur í grundvallar þáttum.

Markmið norsku laganna um almannatryggingar sé að veita fjárhagslegt öryggi og tryggja tekjur og bætur m.a. vegna örorku, elli o.fl. Markmið laganna sé einnig að styðja fólk til sjálfshjálpar svo einstaklingar geti framfleytt sér og stjórnað sínu daglegu lífi.

Markmið laga um almannatryggingar sé að tryggja þeim sem lögin taki til bætur og aðrar greiðslur. Með bótum og greiðslum skuli stuðla að því að þeir sem lögin taki til geti framfleytt sér og lifað sjálfstæðu lífi.

Full réttindi til almannatrygginga í Noregi og á Íslandi sé búseta í 40 ár. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur í hlutfalli við búsetutíma nema mælt sé fyrir um annað, sbr. sérákvæði 13. kafla norsku laganna, vegna atvinnuslyss.

Kostnaður vegna norsku almannatryggingalaganna og laga nr. 100/2007 um almannatryggingar greiðist í báðum löndunum úr ríkissjóði, m.a. með tryggingargjaldi (n. trygdeavgift) af launum einstaklinga og úr ríkissjóði samkvæmt ákvörðun Alþingis á Íslandi og Stortinget í Noregi.

Kærandi hafi fengið eingreiðslu frá „skadeforsikring“, þ.e. vátryggingafélagi atvinnuveitanda í Noregi vegna atvinnuslyss sem hún hafi orðið fyrir árið X. Það sé eingreiðsla og hluti af lokauppgjöri vátryggingafélags 2021. Upphæðin sé 1.026.455 NOK. Þessi eingreiðsla eigi ekki að skerða örorkubætur Tryggingastofnunar ríkisins 2021.

Þann 25. júní 2021 hafi lögmannsstofa í Noregi greitt greiðslu frá vátryggingafélagi atvinnuveitanda inn á bankareikning kæranda. Upphæðin sé 2.506.285 NOK. Skráð sé að upphæðin (n. belöpet gjelder) sé bætur (n. erstatning) frá vátryggingafélagi. Hluti af þessari greiðslu, þ.e. 1.479.830 NOK, sé lokauppgjör, eingreiðsla vegna framtíðartekjutaps. Annar hluti þessarar greiðslu sé 1.026.455 NOK.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2021 og synjun á greiðslu barnalífeyris.

Um útreikning örorkulífeyris sé fjallað í III. kafla þágildandi laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. IV. kafli núgildandi laga um almannatryggingar. Í 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi verið kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Samkvæmt 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi Tryggingastofnun borið að líta til tekna við útreikning bóta, meðal annars örorkulífeyris, sbr. 26. og 30. gr. núgildandi laga um almannatryggingar. Í 2. mgr. 16. gr. hafi komið fram að til tekna samkvæmt III. kafla laganna hafi talist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum, sbr. 30. gr. núgildandi laga um almannatryggingar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi bætur samkvæmt lögunum ekki talist til tekna þegar um hafi verið að ræða tekjutryggingu samkvæmt 22. gr. laganna og sama hafi gilt um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hafi gert samninga við samkvæmt 68. gr. laganna.

Ef tilteknar bætur hafi ekki fallið undir undantekningarákvæði 4. mgr. 16. gr. yrðu þær taldar til tekna þegar um væri að ræða tekjutryggingu samkvæmt 22. gr. laganna.

Í 58. gr. þágildandi laga um almannatryggingar segi að ráðherra geti með reglugerð ákveðið að frá bótum, sem bótaþegi eigi rétt á hér á landi, dragist bætur sem hann fái samkvæmt erlendri löggjöf fyrir sama tímabil og bætur séu greiddar fyrir hér á landi.

Í 22. gr. reglugerðar nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá segi að eigi einstaklingur rétt á bótum samkvæmt erlendri löggjöf fyrir sama tímabil og bætur séu greiddar fyrir hér á landi skuli draga þær frá nema annað leiði af milliríkjasamningum.

Samkvæmt 3. mgr. 22. gr. þágildandi laga um almannatryggingar skuli tekjutrygging lækka um 38,35% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns hún falli niður.

Í 1. mgr. 40. gr. laga um almannatryggingar segi að barnalífeyrir sé greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra sé látið eða sé örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram.

Í 10. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 frá 29. apríl 2004 um samræmingu almannatryggingakerfa segi að reglugerðin skuli hvorki veita né viðhalda rétti til margvíslegra bóta sömu tegundar fyrir sama tímabil skyldutrygginga, nema annað hafi verið tilgreint. Í greininni felist meginregla samhæfingar almannatryggingakerfa samningsríkja Evrópska efnahagssvæðisins um að komið skuli í veg fyrir að bætur skarist. Í 8. kafla reglugerðarinnar sé fjallað um fjölskyldubætur. Í 68. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um reglur um forgang þegar bætur skarist í þeim tilvikum þar sem bætur séu veittar á sama tímabili og vegna sömu aðstandenda samkvæmt löggjöf fleiri en eins aðildarríkis. Í iii. lið b-liðar 1. mgr. 68. gr. segi að ef um sé að ræða bætur sem greiðist af fleiri en einu aðildarríki á sama grundvelli og um sé að ræða rétt á grundvelli búsetu þá skuli forgangsröðun ákveðin með vísan til búsetustaðar barna. Í 2. mgr. 68. gr. segi að ef réttur sé fyrir hendi sem skarist skuli fjölskyldubætur greiddar í samræmi við þá löggjöf sem teljist hafa forgang í samræmi við 1. mgr. Réttur til fjölskyldubóta samkvæmt annarri löggjöf, einni eða fleiri, sem stangist á, falli niður að þeirri fjárhæð sem fyrrnefnda löggjöfin kveði á um en viðbót vegna mismunarins skuli greidd, ef þörf sé á, sem nemi fjárhæðinni sem sé umfram þá fjárhæð. Þó þurfi ekki að greiða slíka viðbót vegna mismunarins í tilvikum barna sem hafi búsetu í öðru aðildarríki ef viðkomandi bótaréttur byggist eingöngu á búsetu.

Kærandi hafi þegið örorkulífeyri frá 1. ágúst 2019. Með bréfi, dags. 27. október 2022, hafi kæranda verið tilkynnt niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2021. Niðurstaðan hafi verið skuld að upphæð 479.694 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu, þar sem heildargreiðslur til kæranda á árinu 2021 hafi numið hærri upphæð en hún hafi átt rétt á samkvæmt endanlegum upplýsingum skattyfirvalda um tekjur kæranda á árinu 2021 í skattframtali ársins 2022. Þennan mismun megi að mestu rekja til vanáætlunar tekna sem flokkaðar séu sem aðrar tekjur við áðurnefndan endurreikning og uppgjör. Á skattframtali komi fram að kærandi hefði haft 15.173.058 kr. í aðrar tekjur á árinu 2021 sem ekki hafi verið gert ráð fyrir á tekjuáætlun ársins.

Kærandi hafi í tölvupósti þann 24. nóvember 2022 andmælt niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2021. Kærandi hafi andmælt flokkun tekna í formi örorkubóta, sem hún hafi fengið í Noregi, sem lífeyrissjóðstekjur og flokkun tekna sem á skattframtali hafi verið nefndar „Udbetaling fra skadeforsikring (í. greiðsla slysabóta), sem aðrar tekjur. Þann 9. mars 2023 hafi, í ljósi andmælanna, verið óskað bréflega eftir frekari upplýsingum varðandi þær tekjur sem á skattframtali hafi verið nefndar „Udbetaling fra skadeforsikring.“ Í bréfinu hafi komið fram að myndu upplýsingarnar ekki berast frá kæranda fyrir 9. apríl 2023 þá myndi stofnunin líta svo á að hún hefði ekki frekari athugasemdir og að endurreikningurinn myndi því standa óbreyttur. Slíkar upplýsingar hafi borist 8. apríl 2023 en Tryggingastofnun hafi hins vegar talið að þær gæfu ekki tilefni til breytinga á fyrri útreikningi, sbr. bréf, dags. 26. apríl 2023.

Niðurstöðu endurreikningsins og uppgjörsins hafði kærandi upprunalega kært 30. janúar 2023 til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Samkvæmt framangreindu hafi aðrar tekjur kæranda reynst vera hærri á árinu 2021 en gert hafi verið ráð fyrir í tekjuáætlun og hafi þær leitt til kærðrar ofgreiðslukröfu. Eins og áður hafi komið fram hafi talist til tekna samkvæmt III. kafla þágildandi laga um almannatryggingar tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum, sbr. 2. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar. Tryggingastofnun greiði tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá beri stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur, sem greiddar hafi verið á grundvelli slíkra tekjuáætlana, með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur. Tryggingastofnun hafi því enga heimild til að líta fram hjá fjármagnstekjum sem komi fram á skattframtali kæranda.

Kærandi fullyrði að örorkubætur sem hún fái greiddar frá Noregi hafi við endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2021 verið ranglega flokkaðar sem lífeyrissjóðstekjur. Greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum hafi samkvæmt þágildandi lögum um almannatryggingar verið taldar til tekna við útreikning tekjutryggingar samkvæmt 22. gr. laganna. Sama hafi átt við um sambærilegar greiðslur frá öðrum ríkjum þar sem slíkar greiðslur hafi ekki talist sambærilegar bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 4. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar. Þessi framkvæmd hafi verið margstaðfest af úrskurðarnefndinni í gildistíð þágildandi laga um almannatryggingar.

Kærandi fullyrði að slysabætur sem á skattframtali hennar séu nefndar Udbetaling fra skadeforsikring, hafi við endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2021 verið ranglega flokkaðar sem aðrar tekjur. Samkvæmt 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi Tryggingastofnun borið að líta til tekna við útreikning bóta, meðal annars örorkulífeyris, sbr. 26. og 30. gr. núgildandi laga um almannatryggingar. Í 2. mgr. greinarinnar segi að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Í 2. tölul. A-liðar 7. gr. tekjuskattslaga segi að skattskyldar tekjur teljist með þeim undantekningum og takmörkunum, er síðar greini, hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnist og metin verði til peningaverðs og skipti ekki máli hvaðan þær stafi eða í hvaða formi þær séu, svo sem skaðabætur og vátryggingafé vegna sjúkdóms, slysa, atvinnutaps eða launamissis og hvers konar aðrar skaðabætur og vátryggingabætur, sbr. þó 2. tölul. 28. gr. Í 2. tölul. 28. gr. segi að ekki teljist til tekna eignaauki sem verði vegna greiðslu líftryggingarfjár, vátryggingabóta vegna sjúkdómatrygginga, dánarbóta, miskabóta og bóta fyrir varanlega örorku, enda séu bætur þessar ákveðnar í einu lagi til greiðslu. Þær slysabætur sem kærandi hafi fengið frá Noregi að nafni Udbetaling frá skadeforsikring falli að mati Tryggingastofnunar ekki undir undantekningarákvæði 2. tölul. 28. gr. tekjuskattslaga. Heldur sé um að ræða skaðabætur eða vátryggingarfé vegna atvinnutaps. Slíkar tekjur séu tekjuskattskyldar samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. tekjuskattslaga og teljist því til tekna samkvæmt 2. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar. Slíkar bætur komi því til frádráttar örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. þágildandi almannatryggingalaga, sbr. 58. gr. laganna og 22. gr. reglugerðar nr. 463/1999. Það sé einnig í samræmi við 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004.

Kærandi fullyrði að hún eigi inni barnalífeyri hjá Tryggingastofnun. Samkvæmt eyðublaði E-001 frá 30. janúar 2020 eigi kærandi rétt til barnalífeyris frá NAV í Noregi. Norsk löggjöf teljist því hafa forgang samkvæmt 1. mgr. 68. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004. Barnalífeyrir samkvæmt norskri löggjöf sé hins vegar tekjutengdur og vegna tekna kæranda fái hún ekki greiddan barnalífeyri á grundvelli hennar, sbr. áðurnefnt eyðublað.

Ef einstaklingur eigi rétt á bótum samkvæmt erlendri löggjöf fyrir sama tímabil og bætur séu greiddar fyrir hér á landi sé Tryggingastofnunum heimilt skv. 22. gr. reglugerðar nr. 463/1999, um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá, að draga þær frá nema annað leiði af milliríkjasamningum, sbr. 58. gr. þágildandi laga um almannatryggingar. Samkvæmt 2. mgr. 68. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004 skuli viðbót vegna mismunar greidd, þegar búið sé að draga erlendar bætur frá barnalífeyri samkvæmt lögum um almannatryggingar, ef þörf sé á, sem nemi fjárhæðinni sem sé umfram þá fjárhæð. Kærandi ætti rétt á þessum mismun þar sem barnalífeyrir samkvæmt lögum um almannatryggingar sé ekki einungis byggður á búsetu ef um sjálfstæðan rétt til barnalífeyris samkvæmt lögum um almannatryggingar væri að ræða. Kærandi hafi flutt til Noregs árið 1998 og hafi því verið tryggð samkvæmt norskri löggjöf þrjú síðustu ár fyrir framlagningu umsóknar um örorkulífeyri, dags. 6. janúar 2020. Kærandi hafi því uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 18. gr. þágildandi laga um almannatryggingar á grundvelli samlagningarreglu 6. gr. reglugerðar (EB) Evrópuþingsins og ráðsins nr. 883/2004. Vegna þess sé réttur hennar til barnalífeyris samkvæmt lögum um almannatryggingar ekki sjálfstæður réttur samkvæmt íslenskri löggjöf í skilningi reglugerðar (EB) nr. 883/2004. Kærandi eigi því ekki rétt á mismun norska barnalífeyrisins og barnalífeyris samkvæmt lögum um almannatryggingar eins og kveðið sé á um í 2. mgr. 68. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004, sbr. efnisgrein 19 í dómi Evrópudómstólsins í máli C-59/95 (Bastos Moriana). Barnalífeyrir kæranda samkvæmt lögum um almannatryggingar hafi því verið felldur niður, sbr. bréf Tryggingastofnunar, dags. 24. júlí 2020.

Að öllu framangreindu virtu sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna kæranda á árinu 2021 og ákvörðun um rétt til barnalífeyris hafi verið réttar, byggðar á fyrirliggjandi gögnum, faglegum sjónarmiðum sem og í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu samkvæmt gildandi lögum og reglum.

Tryggingastofnun fari því fram á að  ákvörðun stofnunarinnar frá 27. október 2022 verði staðfest fyrir nefndinni.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins frá 1. september 2023 segir að úrskurðarnefndin hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir þeirri afstöðu Tryggingastofnunar að slysabætur sem kærandi hafi fengið frá Noregi falli ekki undir undantekningarákvæði 2. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt heldur sé um að ræða skaðabætur eða vátryggingarfé vegna atvinnutaps. Rökstuðningurinn sé eftirfarandi.

Þar sem tekjur hafi mismunandi skerðingaráhrif á örorkulífeyri samkvæmt almannatryggingarlögum eftir tegund þeirra þurfi að flokka og greina þær í sundur eftir því hvernig þær séu tilkomnar. Með bréfi til kæranda, dags. 9. mars 2023, hafi Tryggingastofnun í því skyni óskað eftir frekari upplýsingum um umdeildar slysabætur, m.a. hver greiddi bæturnar og grundvöll þeirra. Kæranda sé enda rétt og skylt að taka þátt í meðferð málsins, m.a. með því að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu svo unnt sé að taka ákvörðun um fjárhæð greiðslna og endurskoðun þeirra. Samkvæmt takmörkuðum upplýsingum sem kærandi hafi veitt Tryggingastofnun í kjölfarið með bréfi, dags. 8. apríl 2023, hafi kærandi fengið umdeildar slysabætur vegna atvinnuslyss sem hún hafi orðið fyrir árið X. Að mati Tryggingastofnunar verði umdeildar slysabætur því flokkaðar sem skaðabætur eða vátryggingarfé vegna sjúkdóms, slysa, atvinnutaps eða launamissis í skilningi 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Enn fremur eigi að mati Tryggingastofnunar undantekningarákvæði 2. tölul. 28. gr. laga um tekjuskatt ekki við um umdeildar slysabætur þar sem þær flokkist ekki sem líftryggingarfé, vátryggingarbætur vegna sjúkdómatryggingar, dánabætur, miskabætur eða bætur fyrir varanlega örorku í skilningi ákvæðisins, sbr. 2. málsl. 3. og 4. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar.

Úrskurðarnefndin hafi einnig óskað eftir rökstuðningi fyrir þeirri afstöðu Tryggingastofnunar að umdeildar slysabætur séu ekki sambærilegar bótum samkvæmt lögum nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga, sbr. þágildandi 3. og 4. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Rökstuðningurinn sé eftirfarandi.

Á grundvelli laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga séu greiddir dagpeningar í kjölfar slyss, miskabætur vegna slyss sem valdi varanlegu tjóni, og dánarbætur til eftirlifandi maka þess látna. Dagpeningar samkvæmt lögunum séu greiddir frá og með 8. degi eftir að slys hafi orðið og þangað til hinn slasaði hafi orðið vinnufær, en þó ekki lengur en 52 vikur. Af þeim takmörkuðu upplýsingum sem kærandi hafi veitt Tryggingastofnun um umdeildar slysabætur hafi ekki mátt ráða að þær væru sambærilegar dagpeningum sem greiddir séu samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatryggingar, enda hafi umdeildar slysabætur verið greiddar í einu lagi 11 árum eftir að slysið hafi átt sér stað. Sama megi segja um dánarbæturnar, en samkvæmt upplýsingum sem kærandi hafi veitt Tryggingastofnun hafi umdeildar slysabætur verið veittar henni vegna slyss sem hún hafi orðið fyrir við vinnu en ekki vegna andláts maka. Þá megi ekki ráða af þeim upplýsingum sem kærandi hafi veitt Tryggingastofnun um umdeildar slysabætur að þær séu miskabætur sambærilegar þeim sem greiddar séu samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga. Miskabætur samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga séu ekki skattskyldar hérlendis samkvæmt 2. tölul. 28. gr. laga um tekjuskatt. Bætur sambærilegar íslenskum miskabótum í Noregi (n. erstatning for ikke-økonomisk skade) séu að jafnaði ekki skattskyldar samkvæmt kafla S-11-6 í handbók skattyfirvalda í Noregi um skattlagningu þar í landi.[1] Umdeildar slysabætur séu hins vegar, samkvæmt upplýsingum frá kæranda og skattframtali hennar í Noregi, skattskyldar þar í landi. Að mati Tryggingastofnunar séu bæturnar því ekki sambærilegar.

Með hliðsjón af framangreindu sé það mat Tryggingastofnunar að umdeildar slysabætur séu sambærilegar skaðabótum eða vátryggingarbótum vegna slyss, atvinnutaps eða launamissis í skilningi 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Slíkar tekjur séu tekjuskattskyldar hér á landi. Tekjuskattskyldar tekjur örorkulífeyrisþega skerði að meginreglu greiðslur þeirra frá Tryggingastofnun, sbr. 16., 18., 21. og 22. gr. þágildandi almannatryggingalaga.

Þá vilji Tryggingastofnun benda á að þrátt fyrir að það vissulega hvíli sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess, að eigin frumkvæði, að málsatvik séu nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin þá felst ekki nauðsynlega í þeirri ábyrgð að stjórnvald þurfi sjálft að afla allra upplýsinga, sbr. athugasemdir við frumvarp það er hafi orðið að stjórnsýslulögum. Þegar aðili sæki um tiltekin réttindi eða fyrirgreiðslu hjá stjórnvaldi geti stjórnvald beint þeim tilmælum til hans að hann veiti upplýsingar og leggi fram þau gögn sem nauðsynleg séu og með sanngirni megi ætla að hann geti lagt fram án þess að það íþyngi honum um of. Hafi aðili í slíkum tilfellum algjört forræði á upphafi máls og framvindu þess auk þess sem hann sé yfirleitt í bestu aðstöðu til afla sönnunargagna og geti lagt þau þannig fram að þau hafi sem mest sönnunargildi. Af þessum ástæðum hafi verið talið að ef mál byrji að frumkvæði málsaðila og hann sinni því ekki að veita umbeðnar upplýsingar, samkvæmt viðeigandi leiðbeiningum stjórnvalds, geti hann verið látinn bera hallann af því.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. febrúar 2023 segir að samkvæmt 2. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi lífeyrir meðal annars talist til tekna í skilningi laganna. Þá hafi mátt ráða af 4. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum skerði örorkulífeyri í samræmi við 5. mgr. 18. gr. laganna. Aftur á móti hafi bætur samkvæmt almannatryggingalögum ekki skert örorkulífeyri og ekki heldur sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hafi gert samninga við samkvæmt 68. gr. laganna. Noregur sé ásamt Íslandi eitt af aðildarríkjum EES-samningsins og því hafi bætur frá Noregi, sem hafi verið sambærilegar bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar, ekki skert örorkulífeyri. Lífeyristekjur kæranda frá Noregi hafi hins vegar verið sambærilegar greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og hafi sem slíkar því haft áhrif á rétt kæranda til örorkulífeyris til lækkunar.

Af þágildandi lögum almannatryggingar hafi mátt ráða að nauðsynlegt væri að greina þær tekjur sem bótaþegar afli og flokka þær, enda hafi að öðrum kosti ekki verið hægt að kveða á um hvaða skerðingaráhrif tekjurnar hefðu samkvæmt lögunum. Lífeyrisgreiðslur kæranda frá Noregi hafi verið taldar hafa meiri líkindi við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum heldur en ellilífeyrisgreiðslur samkvæmt almannatryggingalögum. Þessa framkvæmd hafi úrskurðarnefndin margsinnis staðfest. Skerðingaráhrifin samkvæmt almannatryggingalögum hafi því verið þau sömu og hafi gilt um áhrif greiðslna frá skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum hér á landi. Tekjur sem aflað hafi verið erlendis og ekki verið taldar fram hér á landi hafi þannig sætt sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og hefði þeirra verið aflað hér á landi, sbr. 2. málsl. 4. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar og 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Það leiði af 7. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, og bókun 35 við hann að samningurinn feli ekki í sér framsal löggjafarvalds. Hins vegar hafi meginmál EES-samningsins lagagildi hér á landi. Því sé eðlilegt að lögin sem lögfesti meginmál samningsins séu skýrð svo að einstaklingar eigi kröfu til þess að íslenskri löggjöf sé hagað til samræmis við EES-reglur. Í 3. gr. laga nr. 2/1993 sé mælt svo fyrir að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggist. Slík lögskýring taki eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum verði svo sem framast sé unnt ljáð merking sem rúmist innan þeirra og næst komist því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda eiga á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. dóma Hæstaréttar 9. desember 2010 í máli nr. 79/2010 og 24. janúar 2013 í máli nr. 10/2013. Ákvæðið geti þó ekki leitt til þess að litið verði fram hjá skýrum orðum íslenskra laga, sbr. Héraðsdóm Reykjavíkur 10. mars í máli nr. E-582/2021. Skýrt hafi verið kveðið á um meðferð erlendra tekna sem sambærilegar væru greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum í þágildandi lögum um almannatryggingar, sbr. 4. gr. 16. gr. þágildandi laga.

Meðferð Tryggingastofnunar á umdeildum lífeyrisgreiðslum kæranda hafi einnig verið í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. og 1. mgr. 54. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004 sé aðildarríki ekki heimilt að beita skerðingarákvæðum í sinni eigin löggjöf þegar um ræði skörun hlutfallslegra bóta sömu tegundar. Nánar tiltekið segi í 1. mgr. 53. gr. að öll skörun bóta vegna örorku, elli og til eftirlifenda, sem séu reiknaðar eða veittar á grundvelli trygginga- og/eða búsetutímabila sem einn og sami einstaklingur hafi lokið, skuli teljast skörun bóta sömu tegundar. Því séu bætur vegna örorku, elli og til eftirlifenda sem veittar séu á grundvelli sömu trygginga- og/eða búsetutímabila taldar vera bætur sömu tegundar í skilningi 1. mgr. 53. gr. Þegar umsækjandi um örorkulífeyri á Íslandi eigi einnig rétt til bóta í öðrum aðildarríkjum EES þurfi því að ákvarða hvort þær bætur séu vegna örorku, elli eða til eftirlifenda og teljist þar af leiðandi bætur sömu tegundar. Sé ekki um bætur sömu tegundar að ræða gildi sérregla 1. mgr. 54. gr. ekki um skörun bótanna.

Evrópudómstóllinn hafi komist að þeirri niðurstöðu í forúrskurðum sínum að um bætur sömu tegundar sé að ræða þegar tilgangur þeirra, grundvöllur útreiknings og skilyrði bótanna sé sá sami, sbr. efnisgrein 24 í dómi Evrópudómstólsins í máli nr. C-107/00. Ráði því ekki úrslitum hvert heiti bótanna sé í löggjöf hlutaðeigandi aðildarríkis heldur þurfi að bera tilgang, grundvöll og skilyrði íslensks örorkulífeyris saman við tilgang, grundvöll og skilyrði bótanna sem um ræði í hlutaðeigandi aðildarríki. Bætur verði því einungis taldar vera sömu tegundar í skilningi 1. mgr. 53. gr. grunnreglugerðarinnar samkvæmt Evrópudómstólnum ef þessir áðurnefndir eiginleikar þeirra séu hliðstæðir. Erlendur lífeyrir sem áunnist hafi á grundvelli atvinnuþátttöku eða blöndu af atvinnuþátttöku og annarri ávinnslu og búsetutengdur lífeyrir samkvæmt almannatryggingalögum hafi í gildistíð þágildandi almannatryggingalaga ekki verið taldar bætur sömu tegundar í skilningi 1. mgr. 53. gr. reglugerðarinnar. Evrópudómstóllinn hafi einnig komist að þeirri niðurstöðu að bætur verði ekki taldar hafa sama tilgang ef fjárhæðir bóta, sem bera eigi saman, séu ekki báðar í einhverju samræmi eða hlutfalli við þá framfærslu sem bótaþegi hafi haft áður en hann hafi byrjað að þiggja bæturnar, sbr. efnisgrein 35 í dómi Evrópudómstólsins í máli nr. C-453/14. Með öðrum orðum teljist tilgangur bóta sem ætlað sé að viðhalda sambærilegum lífskjörum og þeim sem bótaþegi hafi búið við áður ekki sá sami og bóta sem ætlað sé að tryggja lágmarksframfærslu. [Örorkulífeyrir] sé samkvæmt almannatryggingalögum ætlað að tryggja þeim framfærslu sem þess þurfi og fjárhæð [örorkulífeyris] ráðist af þörfinni. Fjárhæð umdeilds lífeyris í Noregi sé hins vegar í samræmi eða hlutfalli við framfærslu kæranda fyrir töku lífeyris þar sem hún ráðist jafnan af fjárhæð iðgjalda og tímalengd greiðslu þeirra. Af þeirri ástæðu hafi umdeildar lífeyrisgreiðslur kæranda frá Noregi fremur verið taldar sambærilegar greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum en greiðslum örorkulífeyris samkvæmt almannatryggingalögum. Þegar sérreglu 1. mgr. 53. gr. evrópureglugerðarinnar sleppir sé það enda meginregla hennar að ef almannatryggingabætur og aðrar tekjur hafi tiltekin réttaráhrif samkvæmt löggjöf í lögbæru aðildarríki skuli viðeigandi ákvæði þeirrar löggjafar einnig gilda um jafngildar bætur sem fáist samkvæmt löggjöf annars aðildarríkis eða um tekjur sem aflað sé í öðru aðildarríki, sbr. 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 883/2004. Sömu reglu var að finna í íslenskum landsrétti, sbr. 2. máls. 4. mgr. 16. gr. þágildandi almannatryggingalaga og 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009, en þar segi að tekjur sem aflað sé erlendis og séu ekki taldar fram hér á landi, skuli sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi. Sú flokkun á tekjum kæranda tryggi jafnræði greiðsluþega Tryggingastofnunar sem og þjóni markmiði evrópureglugerðarinnar um samhæfingu en ekki samræmingu mismunandi almannatryggingakerfa aðildarríkjanna.

Með breytingalögum nr. 18/2023, sem breyttu almannatryggingalögum, hafi verið kveðið á um að lífeyrir almannatrygginga frá ríkjum sem Ísland hafi gert samninga við, í samræmi við nánari ákvæði samninganna, skuli ekki teljast til tekna við útreikning á lífeyrisgreiðslum almannatryggingalaga, sjá nú um tekjugrunn örorkulífeyris í 6. tölulið 2. mgr. 30. gr. almannatryggingalaga. Erlendur lífeyrir almannatrygginga frá samningsríkjum EES samningsins, hvort sem réttur til hans sé byggður á atvinnuþátttöku eða búsetu, mun því almennt verða skilgreindur sem bætur sömu tegundar í skilningi reglugerðar (EB) nr. 883/2004 og því ekki teljast til tekna við útreikning á lífeyrisgreiðslum almannatryggingalaga frá 1. maí 2023. Setja verði þó fyrirvara við það ef tryggingatímabil á milli landa af einhverjum sökum skarist sem almennt ætti þó ekki að gerast nema í undantekningartilvikum.

Fyrir áðurnefnda lagabreytingu hafi erlendur lífeyrir, sem áunnist hafði á grundvelli atvinnuþátttöku eða blöndu af atvinnuþátttöku og annarri ávinnslu, og búsetutengdur lífeyrir samkvæmt almannatryggingalögum eins og áður segi ekki taldar sambærilegar bætur í samræmi við þágildandi 4. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga. Slíkur erlendur lífeyrir hafi hins vegar verið talinn sambærilegur lífeyrissjóðsgreiðslum hér á landi. Hafi slíkur erlendur lífeyrir því haft sömu áhrif á lífeyri samkvæmt almannatryggingalögum og lífeyrissjóðsgreiðslur hér á landi. Sú túlkun sé þrátt fyrir breytingu talin vera í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt ákvæðum EES-samningsins og reglugerðar (EB) nr. 883/2004 m.a. þar sem markmið greiðslu lífeyris samkvæmt lögum um almannatryggingar hér á landi, sbr. 1. gr. laganna, og lífeyris sem byggður sé á atvinnuþátttöku ekki þau sömu. Löggjafinn hafi hins vegar ákveðið að tilefni væri til að breyta meðferð erlends lífeyris á fyrrgreindan hátt.

Að lokum vilji stofnunin benda á að í bréfi, dags. 27. október 2022, hafi kæranda verið veittur frestur til þess að skila andmælum til 24. nóvember [2022] og hún upplýst um það að ef engin andmæli bærust fyrir það tímamark teldist uppgjöri lokið og að innheimta myndi hefjast 1. desember 2022. Andmæli kæranda hafi borist eftir það tímamark. Andmælunum hafi engu að síður verið svarað. Með bréfi, dags. 20. desember 2022, hafi kæranda verið tilkynnt um að innheimta myndi hefjast 1. janúar 2023. Þá hafi kærandi einnig verið upplýst um greiðsludreifingu innheimtunnar í því bréfi. Mánaðarlegur frádráttur vegna innheimtunnar hafi aldrei verið meiri en 20% af mánaðarlegum greiðslum til greiðsluþega.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2021.

Kærandi fékk greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2021. Samkvæmt þágildandi 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í þágildandi 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í þágildandi 2. mgr. ákvæðisins segir að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með undantekningum.

Í þágildandi 3. mgr. 16. gr. laganna segir :

„Þegar um er að ræða örorkulífeyri skv. 18. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum, lögum um slysatryggingar almannatrygginga og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr.“

Á grundvelli þágildandi 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.

Í þágildandi 68. gr. er kveðið á um milliríkjasamninga. Í þágildandi 1. mgr. ákvæðisins segir að ríkisstjórninni sé heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Í þeim má meðal annars veita undanþágur frá ákvæðum laganna og heimila takmarkanir á beitingu þeirra. Í samningum samkvæmt 1. mgr. má meðal annars kveða á um að búsetu-, atvinnu- eða tryggingatímabil í öðru samningsríki skuli talin jafngilda búsetutíma á Íslandi. Enn fremur er heimilt að kveða þar á um rétt til bótagreiðslna við búsetu í öðru samningsríki, jafnræði við málsmeðferð, skörun bóta og hvaða löggjöf skuli beita.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála haft hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Kærandi byggir meðal annars á því að Tryggingastofnun hafi ranglega skráð örorkubætur (uføretrygd) frá Noregi sem lífeyrissjóðstekjur við endurútreikning og að stofnunin hafi því byggt endurreikning vegna greiðslna 2021 á röngum forsendum. Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur þegar tekið það ágreiningsefni til úrlausnar með úrskurði í máli kæranda nr. 697/2021 og var það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að „uføretrygd“ félli ekki undir undantekningarreglu þágildandi 4. mgr. 16. gr. laganna og skyldi skerða tekjutrygginguna með sama hætti og greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum.

Af kæru má ráða að kærandi sé ósátt við að „skadeforsikring“ greiðsla sem hún fékk frá NAV skerði greiðslur hennar frá Tryggingastofnun. Við endurreikning Tryggingastofnunar á tekjutengdum greiðslum kæranda myndaðist skuld að fjárhæð 479.694 kr. sem tilkomin er vegna umræddrar greiðslu.

Af skattframtali kæranda frá Noregi verður ráðið að kærandi fékk greitt „utbetaling fra skadeforsikring“ á árinu 2021. Með bréfi, dags. 9. mars 2023, óskaði Tryggingastofnun eftir upplýsingum um það á hverju þessar greiðslur væru byggðar, þ.e. hvort þetta væri eingreiðsla, hvort þetta væri greiðsla vegna slyss og hvort greiðslurnar væru skattskyldar í Noregi. Bent var á að hægt væri að senda greiðsluseðla eða ákvörðun frá greiðsluaðila er varði greiðslurnar. Með bréfi, dags. 8. apríl 2023, greindi umboðsmaður kæranda frá því að um væri að ræða greiðslu frá „skadeforsikring“ vegna atvinnuslyss sem kærandi hafi orðið fyrir á árinu X. Um sé að ræða eingreiðslu og skattur hafi verið greiddur vegna greiðslunnar.

Með bréfi, dags. 6. nóvember 2023, gaf úrskurðarnefndin kæranda kost á að leggja fram nánari gögn um framangreinda greiðslu, til að mynda ákvörðun um greiðsluna frá greiðsluaðila. Engin gögn bárust frá kæranda en hún greindi frá því í athugasemdum 11. desember 2023 að greiðslan hafi verið greidd frá vátryggingafélagi atvinnurekanda kæranda í Noregi og að slysið hafi leitt til 100% örorku. Í athugasemdum kæranda frá 24. janúar 2024 greindi kærandi frá því að um væri að ræða hluta af lokauppgjöri vátryggingafélags. Meðfylgjandi var kvittun fyrir greiðslu frá Sbanken, dags. 25. júní 2021, að fjárhæð 2.506.285 NOK með skýringunni „utbet. erstatning fra Tryg“.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að meginreglan sé sú samkvæmt 2. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar, sbr. 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að skaðabætur og vátryggingabætur skerði örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Aftur á móti skerða bætur samkvæmt lögum nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga ekki örorkulífeyri og ekki heldur sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við samkvæmt þágildandi 68. gr. laganna, sbr. þágildandi 3. mgr. 16. gr. laganna. Með hliðsjón af framangreindum athugasemdum í kæru telur úrskurðarnefnd velferðarmála  rétt að taka til skoðunar hvort „skadeforsikring“  greiðslur kæranda frá Noregi séu sambærilegar bótum samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga og falli þar með undir undantekningarreglu þágildandi 3. mgr. 16. gr. laganna og komi ekki til skerðingar á örorkulífeyri.

Kærandi heldur því fram að „skadeforsikring“ greiðslur hennar séu eingreiðsla frá vátryggingafélagi atvinnurekanda hennar vegna slyss á árinu X en hefur ekki lagt fram nein frekari gögn um eðli þeirra greiðslna þrátt fyrir að hafa ítrekað verið veittur kostur á því. Í norskum lögum um vátryggingarsamninga (forsikringsavtaleloven, LOV-1989-06-16-69) segir í grein 2-1 að með „skadeforsikring“ sé átt við tryggingu gegn tjóni eða tapi á hlutum, réttindum eða öðrum ávinningi, ábyrgðartryggingu eða kostnaði og aðrar tryggingar sem ekki eru persónutryggingar. Svokölluð „yrkesskadeforsikring“ fellur þó einnig undir „skadeforsikring“ en þar er um að ræða atvinnutjónatryggingu sem vinnuveitendur utan hins opinbera verða að hafa fyrir starfsmenn sína og nær hún til meiðsla og sjúkdóma sem starfsmenn verða fyrir við vinnu á vinnustað, sbr. greinar 3 og 10 í norskum lögum um atvinnutjónatryggingu (yrkesskadeforsikringsloven, LOV-1989-06-16-65). Af upplýsingum á vefsíðu norska Vinnueftirlitsins (n. Arbeidstilsynet) verður ráðið að um vátryggingu hjá einkareknu vátryggingafélagi sé að ræða. Þá liggja fyrir upplýsingar frá norskum skattayfirvöldum (n. Skatteetaten) um að greiðsla vegna „skadeforsikring“ teljist til skattstofns kæranda í Noregi fyrir árið 2021.

Samkvæmt framangreindu gefa þær upplýsingar sem liggja fyrir í málinu til kynna að kærandi hafi fengið eingreiðslu frá vátryggingafélagi vegna slyss og að þær greiðslur séu skattskyldar í Noregi. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður ekki ráðið af gögnum málsins að norsku greiðslurnar séu sambærilegar við miskabætur samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga, enda eru miskabæturnar greiddar af Sjúkratryggingum Íslands og eru ekki skattskyldar samkvæmt 2. tölul. 28. gr. laga um tekjuskatt. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin ekki tilefni til að gera athugasemdir við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2021. Ákvörðun Tryggingastofnunar um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2021 er því staðfest.

Kærandi gerir athugasemdir við að Tryggingastofnun hafi byrjað innheimtu á skuld 1. janúar 2023 samkvæmt  ákvörðun um endurreikning og uppgjör, dags. 27. október 2022, þrátt fyrir að henni hafi verið tilkynnt með bréfi, dags. 25. nóvember 2022, að andmæli fresti innheimtu krafna á meðan á afgreiðslu þeirra standi, berist þau innan andmælafrests. Í fyrrgreindri ákvörðun Tryggingastofnunar frá 27. október 2022 var tilgreint að andmælafrestur væri til 25. nóvember 2022, en af gögnum málsins verður ráðið að andmæli kæranda hafi borist stofnuninni 24. nóvember 2022.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Fyrir liggur að kæranda var ekki gefinn kostur á að skila andmælum áður en ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 27. október 2022, var tekin heldur var farin sú leið að gefa kæranda kost á að skila andmælum við þá ákvörðun og tilgreint að ef engin andmæli bærust teldist uppgjöri 2021 lokið. Af gögnum málsins verður ráðið að Tryggingastofnun hafi fyrst brugðist við andmælum kæranda með bréfi, dags. 9. mars 2023, en þá hafi stofnunin óskaði eftir nánari upplýsingum frá henni um fyrrgreindar greiðslur frá „skadeforsikring“. Í kjölfar svara frá kæranda tilkynnti Tryggingastofnun með bréfi, dags. 26. apríl 2023, að fyrri útreikningur skyldi standa óbreyttur.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að með ákvörðun, dags. 20. desember 2022, um að hefja innheimtu 1. janúar 2023 hafi Tryggingastofnun farið strangar í sakirnar en nauðsyn bar til, sbr. meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin horfir til þess að Tryggingastofnun veitti kæranda ekki kost á að skila andmælum áður en ákvörðun Tryggingastofnunar um endurreikning og uppgjör, dags. 27. október 2022, var tekin og hafði ekki svarað andmælum kæranda þegar ákvörðun um innheimtu greiðslna frá 1. janúar 2023 var tekin með bréfi, dags. 20. desember 2022. Einnig er litið til þess að Tryggingastofnun taldi tilefni til að rannsaka málið nánar í kjölfar andmæla kæranda og hafði því ekki lagt fullnægjandi mat á eðli fyrrgreindrar eingreiðslu kæranda frá Noregi þegar innheimta hófst.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 20. desember 2022, um að hefja innheimtu 1. janúar 2023 felld úr gildi og þeim hluta kæru vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

Kærandi byggir á því að Tryggingastofnun þurfi að greiða og standa skil á barnalífeyri með einu barni samkvæmt 16. og 20. gr. laga um almannatryggingar. Barnalífeyrir hafi verið vangreiddur vegna tímabilsins 1. ágúst 2019 til 30. nóvember 2021 auk vaxta.

Fyrir liggur að kærandi sótti um greiðslu barnalífeyris með umsókn, dags. 5. desember 2019. Samkvæmt greiðsluáætlun ársins 2020, dags. 24. júlí 2020, var barnalífeyrir ekki meðal þeirra greiðslna sem Tryggingastofnun samþykkti að greiða kæranda.

Samkvæmt gögnum málsins liðu um tvö og hálft ár frá því að kæranda var tilkynnt um greiðsluáætlun ársins 2020, dags. 24. júlí 2020, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. janúar 2023. Þriggja mánaða kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því löngu liðinn þegar kæran barst nefndinni. Þar sem meira en ár leið frá því að kæranda var tilkynnt um greiðsluáætlun ársins 2020 þar til kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni verður þeim hluta kæru er varðar barnalífeyri ekki sinnt, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Kæranda er þó bent á að hún geti freistað þess að sækja um barnalífeyri á ný til Tryggingastofnunar ríkisins og verði hún ekki sátt við niðurstöðuna getur hún kært ákvörðun stofnunarinnar til úrskurðarnefndarinnar.

Að lokum telur úrskurðarnefndin rétt að benda kæranda á að hún geti óskað eftir endurupptöku á máli sínu hjá úrskurðarnefndinni leggi hún fram umbeðin gögn um eingreiðsluna frá vátryggingafélaginu í Noregi.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum A, á árinu 2021, er staðfest. Ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 20. desember 2022, um að hefja innheimtu 1. janúar 2023 er felld úr gildi og þeim hluta kæru er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar. Þeim hluta kæru sem varðar barnalífeyri er vísað frá.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


[1]https://www.skatteetaten.no/en/rettskilder/type/handboker/skatte-abc/gjeldende/s-11-skadeserstatning/S-11.029/ (sótt 01.09.2023)


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta