Mál nr. 389/2020 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 389/2020
Miðvikudaginn 17. mars 2021
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.
Með kæru móttekinni 10. ágúst 2020, kærði B, f.h. A , til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. júlí 2020 um að endurreikningur tekjutengdra bóta hennar vegna ársins 2018 skyldi standa óbreyttur.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins frá 1. apríl 2018 til 31. desember 2018. Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2018 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 216.102 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. maí 2019. Kærandi andmælti niðurstöðu endurreikningsins þann 24. júní 2019 og með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. júlí 2019, var kærandi upplýst um þá niðurstöðu stofnunarinnar að endurreikningurinn skyldi standa óbreyttur en henni leiðbeint um að athuga með að fá leiðréttingu á skattframtali. Kærandi sótti um niðurfellingu framangreindrar kröfu með umsókn þess efnis, dags. 6. mars 2020. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. apríl 2020, var umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiddra bóta synjað. Í kjölfar samskipta umboðsmanns kæranda og Tryggingastofnunar var endurreikningur tekjutengdra bóta ársins 2018 endurupptekinn 12. júní 2020. Niðurstaða nýs endurreiknings 2018 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 72.841 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Umboðsmaður kæranda óskaði eftir endurskoðun á nýjum endurreikningi með bréfi, dags. 23. júní 2020. Með bréfi, dags. 3. júlí 2020, synjaði Tryggingastofnun um endurskoðun á endurreikningi tekjutengdra bóta ársins 2018 að óbreyttu skattframtali.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. ágúst 2020. Með bréfi, dags. 13. ágúst 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 17. september 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. september 2020. Athugasemdir umboðsmanns kæranda bárust úrskurðarnefnd 5. október 2020 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. október 2020. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru er farið fram á að ofgreidd laun kæranda að fjárhæð 344.183 kr., sem greidd voru í ágúst 2018, verði leiðrétt við útreikning Tryggingastofnunar á greiðslu endurhæfingarlífeyris fyrir árið 2018.
Í kæru segir að með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags 3. júlí 2020, hafi beiðni um endurskoðun á endurreikningi, að óbreyttu skattframtali, verið hafnað.
Kærandi hafi árið 2018 fengið bætur frá Tryggingastofnun vegna veikinda. Í ágúst 2018 hafi kærandi átt að fara í 31% vinnu en vegna mistaka launaskrifsstofu hafi hún auk þess fengið greidd 69% veikindalaun. Þessi mistök hafi ekki verið endurtekin og rétt laun hafi verið greidd eins og fram komi á launaseðli 9/2018. Þessi ofgreiddu laun að fjárhæð 344.183 kr. hafi, þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar, ekki verið tekin af hennar launum fyrr en á árinu 2019. Ítrekað hafi verið reynt að fá Tryggingastofnun til að taka tillit til þessara mistaka launadeildar, enda séu ofgreidd laun ekki tekjur, þau þurfi launagreiðandi ávallt að endurgreiða. Tryggingastofnun hafi fyrst bent kæranda á að kæra þyrfti málið til RSK og fá skattframtal leiðrétt. Það hafi verið gert en RSK hafi neitað af þeirri ástæðu gefinni að oftalin laun eitt árið sem tekin séu af framteljanda næsta ár á eftir komi á sama stað niður fyrir framteljanda. Það út af fyrir sig sé rétt, en skipti máli í tilfelli kæranda þar sem tekjur hennar hafi reynst hærri en tekjuáætlun árið 2018 hjá Tryggingastofnun hafi gert ráð fyrir, sem hafi numið þessum ofgreiddu launum. Það hafi orðið til þess að árið 2019 hafi kærandi verið krafin um endurgreiðslu á ofgreiddum bótum frá Tryggingastofnun.
Tryggingastofnun hafi ítrekað vísað til þess að stofnuninni sé ekki heimilt að færa tekjur samkvæmt skattframtali milli ára. Í 45. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segi: „Komi í ljós að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða einstaklingur hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að njóta tryggingar eða fá óréttmætar greiðslur skal greiðsluþegi endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi.“
Þessi grein hljóti að virka í báðar áttir, þ.e. ef launagreiðandi eða opinber aðili láti í té rangar upplýsingar hljóti að eiga að leiðrétta þær þannig að skjólstæðingur almannatrygginga hljóti ekki skaða af. Það sjái allir sem eitthvað skilja í bókhaldi að tekjur á skattframtali kæranda vegna ársins 2018 séu oftaldar. Kærandi treysti á að úrskurðarnefnd velferðarmála skilji þessa einföldu staðreynd og úrskurði um að fullt tillit skuli tekið til þessa við útreikning á greiðslum til kæranda árið 2018.
Til að skýra málið betur fylgi kæru þessari drög að kæru til nefndarinnar, dags 26. maí 2020. Áður en þau drög hafi verið fullgerð hafi lögfræðingur hjá Tryggingastofnun haft samband við kæranda og hafi sagst ætla að skoða mál hennar betur. Lögfræðingurinn virðist hafa lagst í flókna útreikninga vegna áranna 2018 og 2019 þar sem hann hafi tekið tillit til ofgreiddu launanna að hluta, en hafi hafnað þeirri einföldu kröfu að taka fullt tillit til þessara ofgreiddu launa við úreikning greiðslu frá Tryggingastofnun vegna ársins 2018. Þess vegna sé málið nú kært til úrskurðarnefndarinnar. Í raun hefði átt að kæra málið strax í maí. Málið hafi hins vegar verið látið bíða vegna síðari bréfa Tryggingastofnunar, dags. 12. júní og 3. júlí 2020. Í báðum þeim bréfum hafi verið neitað að taka tillit til mistakanna frá 2018 og sé þessi kæra því vel innan þriggja mánaða kærufrests til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Í athugasemdum frá 5. október 2020 komi fram að málið varði þá grundvallarspurningu hvort skjólstæðingur Tryggingastofnunar eigi að líða fyrir mistök og rangar upplýsingar frá opinberum aðila.
Í greinargerð Tryggingastofnunar komi fram að ekki sé heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtast á framtali bótaþega. Ákvæði 45. gr. laga um almannatryggingar hljóti að virka í báðar áttir, þ.e. að ef launagreiðandi eða opinber aðili láti í té rangar upplýsingar hljóti að eiga að leiðrétta þær á þá leið að skjólstæðingur almannatrygginga hljóti ekki skaða af.
Krafa kæranda sé einfaldlega sú að laun, sem C hafi greitt í ágúst 2018 en hafi verið dregin af launum hennar á árinu 2019, skerði ekki bótarétt vegna ársins 2018. Reynt hafi verið að fá skattframtal leiðrétt. Því hafi verið hafnað með þeim rökum að oftalin laun 2018 jafnist út þar sem laun 2019 verði lægri sem því nemur. Skattalega komi þetta eins út fyrir skattgreiðandann. Það sé að vissu leyti rétt en verði ekki fallist á að leiðrétta þessi mistök skerði það greiðslur frá Tryggingastofnun.
Í greinargerð Tryggingastofnunar sé viðurkennt að launin hafi verið ofgreidd í ágúst 2018. Þó að erfitt sé að skilja þá þvælu sem víða birtist í greinargerðinni virðist sem eitthvert tillit hafa verið tekið til þess. Að minnsta kosti hafi það gerst áður en málið hafi verið kært til úrskurðarnefndarinnar að upphæð endurkröfunnar, sem upphaflega var 216.102 kr., sé nú komin niður í 72.841 kr.
Hefði C ekki ofgreitt laun kæranda í ágúst 2018 hefðu laun hennar á árinu 2018 verið 821.055 kr. í stað 1.165.238 kr. sem fram komi á skattframtalinu, mismunurinn sé 344.183 kr. Í greinargerð Tryggingastofnunar segi að heildargreiðslur frá stofnuninni hafi verið 2.438.645 kr. árið 2018 en hefðu átt að vera 2.095.953 kr. Athyglisvert sé að bera saman mismuninn á þessum tölum, kr. 342.692 kr. við villuna hjá C upp á 344.183 kr. Þar sem launatekjur hafi að fullu áhrif á greiðslur frá Tryggingstofnun hefði samanburður við skattframtal sýnt að heildargreiðslur frá stofnuninni hafi verið réttar þannig að ekki hafi verið skekkja nema um rúmar eitt þúsund krónur ef C hefði gefið upp rétt laun.
Í greinargerð Tryggingastofnunar komi ítrekað fram að tekjuáætlun bótaþega hafi ekki verið rétt. Vakin sé athygli úrskurðarnefndarinnar á því að á árinu 2018 hafi kærandi verið sjúklingur í endurhæfingu og raunar mun lengur. Oft hendi það slíkt fólk að ná ekki að meðtaka hluti, hvað þá skila gögnum til stofnunar eins og Tryggingastofnunar. Að mati umboðsmanns kæranda komi það málinu ekkert við, hér sé verið að endurreikna réttindi miðað við öll framkomin gögn en ekki einhverja tekjuáætlun.
Umboðsmaður kæranda hafi farið með kæranda að ræða við einhvern hjá Tryggingastofnun. Þar hafi þau hitt ágæta konu sem hafi, eftir útskýringu á mistökum C frá í ágúst 2018, sagt strax að þetta væri augljóst og yrði að lagfæra en að lögfræðingar yrðu að lagfæra þetta. Hún gæti hins vegar fellt út kröfuna, sem þá hafi verið komin inn á heimabanka kæranda, þannig að hún angraði hana ekki. Kærandi hafi með aðstoð þessarar ágætu konu fyllt út umsókn um niðurfellingu kröfunnar. Eftir þetta hafi þó farið svo að búið sé að koma kröfu um endurgreiðslu í 72.841 kr.
Gerð sé sú krafa að ofgreidd laun upp á 344.183 kr. í ágúst 2018 verði leiðrétt við útreikning Tryggingastofnunar á endurhæfingarlífeyri fyrir árið 2018. Þessi ofgreiddu laun hafi verið gefin upp á launamiða vegna ársins 2018 en laun 2019 hafi lækkað um sömu upphæð. Skjólstæðingur Tryggingastofnunar eigi ekki að líða fyrir mistök og rangar upplýsingar frá opinberum aðila og þar með röng skattframtöl kæranda vegna þessara ára.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta ársins 2018 og synjun Tryggingastofnunar á umsókn kæranda um niðurfellingu á ofgreiðslukröfu sem hafi myndast í kjölfar uppgjörs tekjuársins 2018.
Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljast tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.
Í 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um áhrif tekna á örorkulífeyri samkvæmt 16. gr. laga um almannatryggingar. Í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð komi fram að um endurhæfingarlífeyri gildi ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar.
Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.
Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem komi fram í skattframtölum.
Á skýran hátt sé tekið fram í lögum um almannatryggingar og reglugerð nr. 598/2009 að meginreglan sé sú að Tryggingastofnun skuli innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 55. gr. laga um almannatryggingar sem sé svohljóðandi: „Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin endurkörfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“
Undantekningu frá þessari meginreglu sé að finna í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 varðandi þær kröfur sem myndist við uppgjör tekjutengdra bóta lífeyristrygginga. Þar segi að þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar sé heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Skuli þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildi um dánarbú eftir því sem við á.
Málavextir séu þeir að á árinu 2018 hafi kærandi verið með endurhæfingarlífeyri og tengdar greiðslur frá 1. apríl til 31. desember 2018. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins hafi leitt til 216.102 kr. ofgreiðslu, að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattframtali 2019 vegna tekjuársins 2018, hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur byggist á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega. Rétt sé að taka fram að uppgjörinu hafi verið breytt eins og fjallað verði um síðar í greinargerð þessari.
Kærandi hafi sent inn tekjuáætlun, dags. 13. apríl 2018, vegna umsóknar sinnar um endurhæfingarlífeyri. Í þeirri áætlun hafi kærandi ekki gert ráð fyrir neinum tekjum. Á grundvelli þeirrar áætlunar hafi Tryggingastofnun gert tillögu að nýrri tekjuáætlun þar sem miðað hafi verið við að kærandi myndi hafa 20.544 kr. í fjármagnstekjur á árinu 2018. Kæranda hafi verið kynnt þessi tekjuáætlun með bréfi stofnunarinnar, dags. 27. apríl 2018, en engar athugasemdir hafi borist. Á grundvelli þessarar tekjuáætlunar hafi kærandi fengið greitt frá 1. apríl 2018 til 31. október 2018.
Við reglubundið eftirlit Tryggingastofnunar í október 2018 hafi komið í ljós misræmi á milli tekjuáætlunar kæranda og upplýsinga úr staðgreiðsluskrá Skattsins. Tryggingastofnun hafi búið til nýja tillögu að tekjuáætlun á grundvelli upplýsinga úr staðgreiðsluskrá og hafi kæranda verið sent bréf, dags. 12. október 2018, þar sem tilkynnt hafi verið um hina nýju tillögu að tekjuáætlun. Samkvæmt henni hafi verið gert ráð fyrir óbreyttum fjármagnstekjum en gert hafi verið ráð fyrir að launatekjur yrðu 2.485.435 kr. á árinu. Ekki hafi verið gert ráð fyrir öðrum breytingum á tekjum, en tekið hafi verið tillit til iðgjalda í lífeyrissjóð til frádráttar, að fjárhæð 99.415 kr. Kærandi hafi ekki gert athugasemdir við þessa tekjuáætlun og hafi fengið greitt í samræmi við hana á tímabilinu 1. nóvember 2018 til 31. desember 2018.
Við bótauppgjör ársins 2018 hafi komið í ljós að endanlegar tekjur kæranda á tímabilinu 1. apríl 2018 til 31. desember 2018 hafi verið 1.165.238 kr. í launatekjur, 500.000 kr. í aðrar tekjur og 10.692 kr. í vexti og verðbætur. Einnig hafi verið tekið tillit til þess að greitt hafði verið 46.609 kr. í iðgjald til lífeyrissjóðs sem hafi komið til frádráttar.
Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2018, miðað við þær upplýsingar sem hafi legið fyrir um mitt ár 2019, hafi verið sú að kærandi hafi fengið ofgreitt í öllum bótaflokkum. Kærandi hafi fengið 2.438.645 kr. greiddar á árinu en hefði með réttu átt að fá 2.095.953 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 216.102 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu skatta.
Þann 24. maí 2019 hafi Tryggingastofnun borist andmæli sem hafi verið svarað með bréfi, dags. 3. júlí 2019, þar sem kæranda hafi meðal annars verið leiðbeint um að leita til skattyfirvalda um að fá leiðréttingu á skattframtali ef hún teldi að það væri ekki rétt. Í kjölfarið hafi kærandi sent Tryggingastofnun tölvupóst þar sem hún hafi tilkynnt að hún ætlaði að leita til skattyfirvalda eftir leiðréttingu.
Þann 6. mars 2020 hafi Tryggingastofnun borist umsókn um niðurfellingu á ofgreiðslukröfu vegna ársins 2018. Samráðsnefnd Tryggingastofnunar um meðferð ofgreiðslna hafi tekið málið fyrir á fundi og hafi synjað umsókninni með bréfi, dags. 8. apríl 2020.
Við afgreiðslu á beiðni kæranda um niðurfellingu hafi, ásamt fyrirliggjandi gögnum, meðal annars verið skoðuð ástæða ofgreiðslunnar, upplýsingar frá skattyfirvöldum um tekjur og eignir, að viðbættum þeim upplýsingum sem aflað hafi verið úr tölvukerfi stofnunarinnar um fjárhag og félagslega stöðu.
Ákvæði 55. gr. laga um almannatryggingar fjalli um innheimtu ofgreiddra bóta. Ákvæðið sé ekki heimildarákvæði um innheimtu heldur sé lögð sú skylda á Tryggingastofnun að innheimta ofgreiddar bætur. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum. Ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé undanþáguheimild og sem slíkt skuli skýra það þröngt. Í þessu ákvæði felist að við ákvörðun um hvort fella eigi niður kröfu eigi að fara fram mat, annars vegar á fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum umsækjanda, með tilliti til getu hans til að endurgreiða skuldina, og hins vegar á því hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn þegar hann hafi tekið við hinum ofgreiddu bótum. Aðstæður þurfi að vera sérstakar svo að undanþáguheimild 11. gr. reglugerðarinnar eigi við.
Umrædd krafa hafi orðið til við endurreikning ársins 2018. Eins og meðfylgjandi gögn beri með sér sé ljóst að ástæða ofgreiðslunnar hafi verið röng tekjuáætlun. Annars vegar hafi verið um að ræða launatekjur kæranda á greiðslutímabilinu og hins vegar óskilgreindar skattskyldar tekjur. Þessar tekjur hafi ekki komið fram á tekjuáætlun kæranda. Lífeyrisþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur hans og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna.
Skilyrði reglugerðarinnar um góða trú verði að skoða í ljósi ábyrgðar lífeyrisþega á því að gefa réttar tekjuupplýsingar hverju sinni. Af fyrirliggjandi gögnum sé ljóst að kærandi hafi ekki gefið Tryggingastofnun fullnægjandi upplýsingar um tekjur sínar á árinu. Samráðsnefnd hafi metið fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda á grundvelli upplýsinga sem stofnunin hafi aðgang að. Við skoðun þeirra hafi það verið mat nefndarinnar að ekki væri tilefni til að fella niður kröfuna. Hafi þar sérstaklega verið horft til stöðu kæranda í dag, sérstaklega launatekna hennar og almennrar fjárhagsstöðu.
Tekjur kæranda í dag séu umtalsvert hærri en óskertar greiðslur Tryggingastofnunar og reyndar það háar að hún sé á mörkum þess að eiga rétt á greiðslum frá Tryggingastofnun vegna tekna. Eignir kæranda séu ágætar miðað við skuldir. Það hafi því verið mat Tryggingastofnunar að ekki væri hægt að líta svo á að hún uppfyllti skilyrði undanþáguákvæðis 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009.
Ákveðið hafi verið að koma til móts við kæranda og samþykkja greiðsludreifingu kröfunnar á 36 mánuði í stað þeirra 12 sem að jafnaði sé gert ráð fyrir.
Þær breytingar sem hafi orðið á fjárhæð ofgreiðslunnar eftir breytingar sem gerðar hafi verið á endurreikningi ársins 2018 í júní mánuði 2020, gefi ekki tilefni til breytinga á fyrri ákvörðun stofnunarinnar um að synja umsókn hennar um niðurfellingu.
Í kjölfar synjunar Tryggingastofnunar á umsókn kæranda um niðurfellingu hafi verið nokkur samskipti við kæranda og umboðsmann hennar. Ákveðið hafi verið að líta á þau sem beiðni um endurupptöku og hafi málið verið tekið til nýrrar meðferðar á þeim grundvelli. Við meðferð andmælanna hafi vaknað grunsemdir hjá Tryggingastofnun um annars vegar að aðrar skattskyldar tekjur á árinu 2018 tilheyrðu að hluta til öðrum mánuðum en greiðslumánuðum samkvæmt staðgreiðsluskrá og hins vegar að atvinnutekjur kæranda á árinu 2019, sem ekki höfðu komið fram í staðgreiðsluskrá, hefðu fallið til eftir að kærandi hafi hætt á greiðslum endurhæfingarlífeyris. Kærandi hafi staðfest þessar grunsemdir stofnunarinnar og hafi skilað inn gögnum þar að lútandi.
Því hafi verið gerðar breytingar á uppgjörum áranna 2018 og 2019. Eftir þessar leiðréttingar hafi forsendur í bótauppgjöri ársins 2018 verið þær að endanlegar tekjur kæranda á tímabilinu 1. apríl 2018 til 31. desember 2018 hafi verið 1.165.238 kr. í launatekjur, 125.000 kr. í aðrar tekjur og 10.692 kr. í vexti og verðbætur. Einnig hafi verið tekið tillit til þess að greitt hafði verið 46.609 kr. í iðgjald til lífeyrissjóðs sem hafi komið til frádráttar.
Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2018, miðað við þær upplýsingar sem liggi fyrir í dag, hafi verið sú að kærandi hafi fengið 2.438.645 kr. greiddar á árinu en hefði með réttu átt að fá 2.294.254 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 72.841 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu og innborgunar að fjárhæð 31.354 kr.
Tryggingastofnun hafi farið gaumgæfilega yfir gögn málsins. Eins og fram komi í bréfi stofnununarinnar þann 12. júní 2020 sé ekki ástæða til að endurskoða áhrif greiddra launatekna frá C á lífeyrisréttindi ársins 2018, þrátt fyrir að kæranda hafi verið ofgreidd laun í ágúst það ár. Stofnunin hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjum sem komi fram á skattframtölum og hafi ekki heimild til að færa tekjur á milli ára. Þá þyki rétt að benda á að leiðrétting á ofgreiddum launum hafi verið framkvæmd í maí 2019 en samkvæmt staðgreiðsluskrá hafi launatekjur kæranda verið 160.006 kr. þann mánuð. Þar sem kærandi hafi enn notið endurhæfingarlífeyris á þeim tíma sé áætlað að tilfærsla ofgreiddu launanna, eða 344.183 kr., á milli viðkomandi mánaða, þ.e. ágúst 2018 og maí 2019, myndi þýða tap í heildarréttindum áranna 2018 og 2019 vegna mismunar á nýtingu frítekjumarks gagnvart atvinnutekjum sem er 109.600 kr. á mánuði. Áætlað sé að tapið myndi verða um 60.000 kr.
Tryggingastofnun hafi skoðað gögn málsins en telji ekki ástæðu til þess að breyta endurskoðaðri ákvörðun sinni um niðurstöðu endurreiknings greiðslna ársins 2018 eða fyrri ákvörðun sinni um synjun á ósk kæranda um niðurfellingarbeiðni.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2018.
Kærandi fékk greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun á árinu 2018 frá 1. apríl til 31. desember 2018. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.
Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með undantekningum. Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.
Samkvæmt a. lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 598/2009, skal Tryggingastofnun við endurreikning bóta til þeirra, sem fengu greiðslur hluta úr bótagreiðsluári, byggja á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda þegar um er að ræða tekjur sem eru staðgreiðsluskyldar samkvæmt lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Eingöngu ber að líta til tekna þeirra mánaða sem bótaréttur var fyrir hendi í.
Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.
Samkvæmt gögnum málsins sendi kærandi Tryggingastofnun tekjuáætlun, dags. 13. apríl 2019, þar sem ekki var gert var ráð fyrir neinum tekjum. Tryggingastofnun sendi kæranda tekjuáætlun í kjölfarið, dags. 27. apríl 2018, þar sem eingöngu var gert ráð fyrir 20.544. kr. í fjármagnstekjur á tímabilinu. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þá áætlun og voru bætur greiddar út í samræmi við þær tekjuforsendur. Í kjölfar samtímaeftirlits Tryggingastofnunar við staðgreiðsluskrá í október 2018 kom í ljós að kærandi hafði verið með launatekjur á árinu. Var í kjölfarið útbúin ný tekjuáætlun, dags. 12. október 2018, þar sem gert var ráð fyrir 2.485.435 kr. í launatekjur, 99.415 kr. í iðgjald í lífeyrissjóð til frádráttar og 20.544 kr. í fjármagnstekjur. Kærandi gerði ekki athugasemd við þá tekjuáætlun.
Fyrir liggur að kærandi naut greiðslna endurhæfingarlífeyris frá apríl og út árið 2018. Í samræmi við framangreint ákvæði 1. liðar 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 598/2009 hafa allar tekjur kæranda í þeim mánuðum áhrif á réttindi kæranda. Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda, vegna tekjuársins 2018, reyndust tekjur kæranda á umræddu tímabili hafa verið 1.165.238 kr. í launatekjur, 500.000 kr. í aðrar tekjur, 10.692 kr. í fjármagnstekjur, 46.609 kr. iðgjald í lífeyrissjóð til frádráttar og 46.609 kr. í iðgjald í séreignasjóð til frádráttar. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2018 leiddi í ljós ofgreiðslu að fjárhæð 216.102 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.
Tryggingastofnun framkvæmdi nýjan endurreikning, dags. 12. júní 2020, eftir að í ljós kom að svokallaðar aðrar tekjur, nánar tiltekið greiðslur frá sjúkrasjóði, féllu ekki allar til á því tímabili sem kærandi naut réttinda endurhæfingarlífeyris. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá var kærandi á umræddu tímabili með 125.000 kr. í aðrar tekjur en að öðru leyti voru tekjuforsendur óbreyttar. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2018 leiddi í ljós ofgreiðslu að fjárhæð 72.841 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.
Ástæða þess að endurkrafa myndaðist á hendur kæranda er sú að tekjur vegna tímabilsins 1. apríl til 31. desember 2018 voru hærri en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlunum. Um var að ræða launatekjur og svokallaðar aðrar tekjur, nánar tiltekið greiðslur frá sjúkrasjóði. Fyrir liggur að umræddir tekjustofnar hafa áhrif á bótarétt en í áðurnefndri 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með undantekningum. Í II. kafla síðastnefndu laganna er fjallað um skattskyldar tekjur. Þar falla launatekjur undir 1. tölulið A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt og greiðslur frá sjúkrasjóði undir 2. tölulið A-liðar 7. gr. laganna.
Ágreiningur málsins varðar þann tekjulið í skattframtali kæranda þar sem fram koma upplýsingar um launatekjur. Fyrir liggur að launagreiðandi greiddi kæranda laun á árinu 2018 sem hún átti ekki rétt á sem voru síðan leiðrétt á árinu 2019. Kærandi gerir þær kröfur að tekið verði tillit til þess við endurreikning ársins 2018.
Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að kærandi hafi sannarlega fengið greiðslur frá vinnuveitanda á árinu 2018 sem hafi síðar verið dregið af henni á árinu 2019. Úrskurðarnefndin horfir til þess að umræddar tekjur kæranda á árinu 2018 voru færðar á skattframtali kæranda vegna þess sama árs. Tryggingastofnun er ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtast á framtali bótaþega, enda kveður 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar skýrt á um að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli stofnunin endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt þessari grein. Að þessu virtu fellst úrskurðarnefnd ekki á kröfu kæranda um að ofgreiddar tekjur launagreiðanda á árinu 2018 skerði ekki tekjutengd bótaréttindi frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2018.
Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum ársins 2018.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2018, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir