Mál nr. 587/2022-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 587/2022
Miðvikudaginn 22. mars 2023
A
gegn
Sjúkratryggingum Íslands
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.
Með kæru, móttekinni 12. desember 2022, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 12. september 2022, um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi varð fyrir slysi við vinnu X. Tilkynning um slys, dags. 7. nóvember 2019, var send til Sjúkratrygginga Íslands sem samþykktu bótaskyldu. Með ákvörðun, dags. 12. september 2022, var kæranda tilkynnt að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins hefði verið metin 8%.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. desember 2022. Með bréfi, dags. 13. desember 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 5. janúar 2023, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. janúar 2023. Engar athugasemdir bárust.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi óskar þess að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands verði felld úr gildi og að ákvörðunin verði endurskoðuð þannig að varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vegna slyssins verði metin hærri en fram komi í ákvörðun stofnunarinnar.
Í kæru segir að mál þetta varði afleiðingar líkamstjóns sem kærandi hafi orðið fyrir í vinnuslysi þann X. Samkvæmt tölvusneiðmynd sem tekin hafi verið skömmu eftir slysið hafi afleiðingarnar meðal annars verið samfallsbrot í efri hluta tólfta liðar brjósthryggjarins í mið- og fremra umfangi liðbolsins. Enn fremur að kærandi hafi verið með beinbjúg í baki vegna slyssins.
Kærandi sé nú, X árum síðar, með viðvarandi verki í mjóbakinu og neðst í brjóstbakinu, sem aukist við álag, svo sem að sitja eða standa lengi, bogra eða lyfta þungu. Þá fylgi stundum verkja- og dofaleiðni niður í mitt utanvert hægra læri.
Tvívegis hafi verið gerðar skýrslur með mati á afleiðingum slyssins fyrir kæranda, annars vegar matsgerð C læknis og D hrl., dags. 10. maí 2021, og hins vegar með tillögu að mati sem unnin hafi verið af E lækni í aðdraganda ákvörðunar Sjúkratrygginga Íslands.
Í fyrrnefndu matsgerðinni hafi komið fram sú niðurstaða að varanleg örorka kæranda væri hæfilega metin 7%. Sú niðurstaða hafi fengist með hliðsjón af liðum VI.A.b.1. og VI.A.c.2. í miskatöflum örorkunefndar frá júní 2019, sbr.:
• VI.A.b.1 (Brjósthryggur) Áverki eða tognun með eymslum og hreyfiskerðingu 5-8%
• VI.A.c.2 (Lendhryggur) Mjóbaksáverki eða tognun, mikil eymsli allt að 8%
Í síðarnefndu matsgerðinni hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda talist hæfilega metin 8%. Sú niðurstaða hafi fengist með hliðsjón af lið VI.A.c.7. í miskatöflum örorkunefndar frá júní 2019, sbr.:
• VI.A.c.7 (Lendhryggur) Brot; minna en 25% samfall 5- 8%
Kærandi telji að við mat á örorku í tilviki kæranda þurfi að líta til allra framangreindra liða og meta þá samhliða og í heild, sbr. til dæmis niðurstöðu í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 342/2022 frá 7. september 2022 þar sem kærð hafi verið ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að varanleg læknisfræðileg örorka skyldi metin 10%:
„Miðað við lýsingu á áverka verður að álykta að kærandi hafi fengið áverka á hönd og álagsáverka á framhandlegg í slysinu. Hún er með hreyfiskerðingu í úlnlið og verki og hömlun í hendi og framhandlegg. Úrskurðarnefndin metur þann þátt til 8% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku með vísan í lið VII.A.c.2. í miskatöflunum en samkvæmt þeim lið leiðir daglegur áreynsluverkur með miðlungs hreyfiskerðingu í úlnlið og nokkurri skekkju til 8% örorku. Þá er snúningshreyfing í úlnlið aðeins minnkuð og í ljósi þess, auk verkja, er horft til liðar VII.A.b.1., sem fjallar um daglegan áreynsluverk með vægri hreyfingu, og það metið 5%. Varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vegna slyssins í heild er því metin 13%.“
Kærandi vísi enn fremur til sambærilegrar niðurstöðu úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 681/2021 frá 23. mars 2022 þar sem kærð hafi verið ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að varanleg læknisfræðileg örorka viðkomandi skyldi metin 5%:
„Úrskurðarnefndin metur einkenni kæranda frá hálsi á grundvelli liðar VI.A.a.2 til 5% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku. Þá er í lið VII.A.a.2 í miskatöflunum fjallað um áverka á upphandlegg og samkvæmt lið VII.A.a.2.2 leiðir daglegur verkur með vægri hreyfiskerðingu eftir áverka til 8% örorku. Með hliðsjón af framangreindum lið VII.A.a.2.2 metur úrskurðarnefndin örorku kæranda vegna áverka á hægri öxl með hreyfiskerðingu 8%. Varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins í heild er því metin 13%.“
Kærandi bendi á að verkir og afleiðingar slyssins hafi smám saman verið að koma fram eftir því sem tíminn hafi liðið þannig að telja megi að fullt tilefni sé til þess fyrir úrskurðarnefndina að ákvörðun og mat Sjúkratrygginga Íslands verði endurskoðað og eftir atvikum framkvæmt nýtt mat.
Kærandi vilji einnig koma því á framfæri að eina mögulega starfið sem hún geti sinnt eftir slysið sé létt skrifstofuvinna, þó þannig að kærandi eigi erfitt með að sitja lengi í einu. Öll verk, til dæmis heimilisverk, séu henni erfið og hún eigi erfitt með svefn vegna verkja. Þannig feli afleiðingar slyssins í sér verulega skert lífsgæði fyrir kæranda.
III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands
Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að með ákvörðun, dags. 11. ágúst 2021, hafi Sjúkratryggingar Íslands samþykkt umsókn kæranda um slysabætur og hafi slysið talist bótaskylt samkvæmt lögum nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga. Með ákvörðun þann 7. september 2022 hafi kærandi verið metin til 8% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku vegna þess slyss sem hún hafi orðið fyrir þann X. Sjúkratryggingar Íslands hafi sent kæranda bréf, dags. 12. september 2022, þar sem henni hafi verið tilkynnt að ekki yrði um greiðslu örorkubóta að ræða þar sem samanlögð örorka vegna eins eða fleiri slysa sem væru bótaskyld hjá stofnuninni næði ekki 10%, sbr. 5. mgr. 12. gr. laga nr. 45/2015.
Í hinni kærðu ákvörðun hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda verið metin 8%. Við ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands hafi verið byggt á örorkumatstillögu E læknis, CIME. Örorkumatstillaga E hafi verið unnin á grundvelli fyrirliggjandi gagna, auk viðtals og læknisskoðunar. Það sé mat Sjúkratrygginga Íslands að í tillögunni sé forsendum örorkumats rétt lýst og að rétt sé metið með hliðsjón af miskatöflum örorkunefndar. Tillagan sé því grundvöllur ákvörðunar Sjúkratrygginga Íslands og þess að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins sé rétt ákveðin 8%.
Með kærunni hafi fylgt matsgerð C læknis og D lögmanns, dags. 10. maí 2021, vegna vinnuslyss kæranda þann X. Samkvæmt þeirri matsgerð hafi það verið niðurstaða matsmanna að meta kæranda til 5 stiga læknisfræðilegrar varanlegrar örorku (miska). Talið hafi verið að varanlegar heilsufarslegar afleiðingar slyssins þann X „verða raktar til áverka á neðri hluta baks, m.a. samfallsbrots í neðsta lið brjósthryggjarins, með nýjum verkjum í brjósthrygg og versnun verkja í lendhrygg. Við mat á varanlegum miska af völdum slyssins er höfð hliðsjón af miskatöflu örorkunefndar frá júní 2019, liðum VI.A.b.1. og VI.A.c.2. og þykir varanlegur miski hæfilega metinn 5 (fimm) stig að teknu tilliti til fyrri baksögu til lækkunar. Matsmenn álíta ekki að tjón í þessu slysi sé með þeim hætti að það valdi sérstökum erfiðleikum í lífi [kæranda] sem ástæða sé til að meta til miska umfram miska sem metinn er skv. miskatöflu.“ Læknisskoðun hafi verið framkvæmd af C þann 26. apríl 2021 og niðurstöður hennar megi finna í matsgerð hans og D, dags. 10. maí 2021.
Framkvæmd hafi verið önnur læknisskoðun rúmu hálfu ári seinna, þ.e. þann 21. desember 2021, af E sem hafi unnið tillögu að örorkumati að beiðni Sjúkratrygginga Íslands. Tillagan hafi verið unnin á grundvelli fyrirliggjandi gagna, auk viðtals og læknisskoðunar, og hafi það verið niðurstaða stofnunarinnar að í tillögunni væri forsendum örorkumats rétt lýst og að rétt væri metið með vísan til miskataflna örorkunefndar vegna slyssins þann X. Sjúkratryggingar Íslands hafi því byggt ákvörðun sína um varanlega læknisfræðilega örorku samkvæmt 12. gr. laga nr. 45/2015 vegna slyssins á niðurstöðu tillögunnar. Það hafi verið niðurstaða Sjúkratrygginga Íslands að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins teldist hæfilega ákveðin 8%.
Í tillögu E, sem hafi borist Sjúkratryggingum Íslands þann 5. janúar 2022, hafi einkenni kæranda best verið talin samrýmast lið VI.A.c.7. í miskatöflum örorkunefndar. Við læknisskoðun sem framkvæmd hafi verið þann 21. desember 2021 hafi komið fram að kærandi sé: „X sm á hæð og vegur um X kg. Hún gengur ein og óstudd og situr eðlilega í viðtalinu. Ekki er að sjá neinar stöðuskekkjur í réttstöðu. Við framsveigju í hrygg kemst hún með fingur að miðjum leggjum, aftursveigja er skert með óþægindum. Bolvinda er einnig skert og tekur í mjóbakið. Eymsli við þreifingu á mótum 12. brjósthryggjarliðar og 1. lendarliðar.“ og í niðurstöðu tillögu E segi að kærandi: „hefur ekki fyrri sögu um áverka á bak. Í ofangreindu slysi hlaut hann áverka á 12. brjósthryggjarlið, samfallsbrot. Meðferð hefur verið fólgin í sjúkraþjálfun og verkjalyfjatöku. Núverandi einkenni hans sem rekja má til slyssins eru skert geta til ýmissa daglegra athafna, svefntruflanir og verkir. Ekki er talið að vænta megi neinna breytinga á ofangreindum einkennum í framtíðinni svo heitið geti. Þá er og litið til þess að einkennin megi rekja til slysatburðarins en ekki annars heilsubrests, þ.e. að skilyrði um orsakasamhengi séu uppfyllt.“
Það sem einkum virðist bera á milli tillögu E og matsgerðar C og D vegna slyssins X, séu tilvísanir til liða miskataflna örorkunefndar, þ.e. Sjúkratryggingar Íslands telji einkenni kæranda best samrýmast lið VI.A.c.7. í miskatöflum örorkunefndar en í matsgerð, dags. 10. maí 2021, sé höfð hliðsjón af liðum VI.A.b.1. og VI.A.c.2. Fyrir liggi sambærilegar læknisskoðanir og lýsingar á núverandi einkennum kæranda vegna eins og sama slyssins, þ.e. bæði í tillögu [E], sem hafi legið til grundvallar ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands og í matsgerð C og D.
Kærandi telji að við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku þurfi að líta til allra framangreindra liða og meta þá samhliða og í heild. Að mati Sjúkratrygginga Íslands nái liður VI.A.c.7. yfir atvikið og þau einkenni sem kærandi búi við með tæmandi hætti talið. Ekki sé hægt að líta til þess að meta afleiðingar slyssins með þeim hætti sem kærandi krefjist í kæru sinni, þ.e. að litið sé til allra liða og meta þá samhliða og í heild. Það hefði í för með sér að afleiðingar slyssins yrðu í raun tvímetnar. Líkt og að framan greini sé tillaga og matsgerð efnislega samhljóða hvað varði læknisskoðanir og þau einkenni sem kærandi búi við nú. Að mati Sjúkratrygginga Íslands rúmist einkenni kæranda, sem lýst sé í tillögu E og matsgerð C og D, innan liðar VI.A.c.7., sbr. ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands dags. 7. september 2022.
Það sé því afstaða Sjúkratrygginga Íslands að rétt sé að miða við mat á afleiðingum slyssins þann X við lýsingar á einkennum og niðurstöðu skoðunar sem fram komi í fyrirliggjandi tillögu E læknis að varanlegri læknisfræðilegri örorku þannig að rétt niðurstaða teljist vera 8% varanleg læknisfræðileg örorka.
Að öllu virtu beri því að staðfesta þá afstöðu Sjúkratrygginga Íslands, sem gerð hafi verið grein fyrir hér að framan, og staðfesta hina kærðu ákvörðun um 8% varanlega læknisfræðilega örorku.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ágreining um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X. Með ákvörðun, dags. 12. september 2022, mátu Sjúkratryggingar Íslands varanlega læknisfræðilega örorku kæranda vegna slyssins 8%.
Í áverkavottorði F læknis, dags. 15. maí 2020, segir um slysið:
„Í nótu hjúkrunarfræðings frá X kemur fram að A hafi kastast til í […]. Hún hafi strax fengið í bakið og sé stíf og eigi erfitt með hreyfingar. Hún hafi tekið Paratabs og Íbúfen. Sagt er að þetta sé ofarlega í mjóbaki, verra hægra megin og leiði upp. G læknir virðist hafa skoðað slösuðu sama dag. Þar segir að hún hafi […]. Verkir séu milli lumbalt L4-L5 og kröftug lordosa. Hún sé stíf neðst í mjóbakinu. Það virðist sem hún sé með paravertebralt verki og maður geti ekki útilokað skaða í lumbalhrygg. Spndylosa? stendur í nótu læknisins. Er með vekri í baki, þunglyndi og depurð. Hann setti hana á Cupralex í stað Venlafaxins þar sem hún þyngdist mikið. Í rafrænu svari af tölvusneiðmynd frá X segir að hún sé með compressions brot í efri hluta TH-12 í mið- og fremra umfangi liðbolsins. Afturkantur corpus er heill. Þetta brot eigi því að vera stabílt. Í nótu G frá X segir að hún hafi verið með beinbjúg í baki vegna falls á rassinn. Hún vinni á skrifstofu. Hún sé með samfall eftir tiltölulega lítið sly. Hún muni fara í beinþéttnimælingu, beiðni hafi verið send og þar sýni niðurstöðu rú TH10-TH 11 ekki brot.
Í nótu sama læknis X segir að hún hafi verið […] og fengið slæma verki og dofnað og hita og svitabað. Hún hafi fengið púlserandi slátt. Hún hafi reynst vera með brot í 12. thoracal, samfall og TS hafi sýnt brot í efri enda plötu eins og áður er rakið. Hún þurfi sjúkraþjálfun í framhaldinu. Send sé beiðni á sjúkraþjálfara og hún fái verkjalyf.
Þann X var sami læknir enn að hitta hana. Þar kemur fram að eftir slysið hafi henni gengið illa að halda þvagi. Hún sé ekki með dofa í kringum kynfæri eða þ.vagrásarop. Hann muni taka resurin. Hann ætli að láta taka segulómun af lumbo sacral hrygg vegna þessa. Resurin sé neikvætt. Hún hafi ekki fairð í neinar aðgerðir á kvið eða í pelvis. Segulómun var gerð X. Þar segir að brot í TH 12 sé óbreytt. Hún sé ekki með beinbjúg og ekki mænuþrýsting. Í L4-L5 og L5-S1 séu lágir dorsal bungandi diskar, bæg arthrosa í bogaliðum og væg spinal stenosa.
Í nótu G frá X segir að hann hafi hringt í A, hún sé með lágt kortisol. Hún hafi ekki fengið sterameðferð. Hún taki Avamys reglulega sem gæti haft áhrif á framleiðslu. Hann panti sinaktín.
Í viðtalsnótu hans X segir að sinaktín test sé líklega eðlilegt. Tradolan geti valdið þessu ástandi og hann ráðleggi henni að hætta með það.
Í nótu G frá X segir að mænugangur sé rúmur þrátt fyrir væga dorsal diskbungun. Samfallið sé álíka og áður.
Ég sé síðan að H hefur látið hana hafa lyfseðil á Tradolan þótt búið hafi verið að ákveða að hún hætti á því. Það gerðist fyrir 3 dögum.
Ég finn ekkert meira um þetta í okkar gögnum. Ég veit hins vegar af langri reynslu að fólk getur verið ansi lengi að jafna sig eftir brot á hryggjarliðum.“
Í ódagsettri tillögu E læknis að mati á varanlegri læknisfræðilegri örorku vegna slyss, segir svo um skoðun á kæranda 21. desember 2022:
„Tjónþoli er X sm á hæð og vegur um X kg. Hún gengur ein og óstudd og situr eðlilega í viðtalinu. Ekki er að sjá neinar stöðuskekkjur í réttstöðu. Við framsveigju í hrygg kemst hún með fingur að miðjum leggjum, aftursveigja er skert með óþægindum. Bolvinda er einnig skert og tekur í mjóbakið. Eymsli við þreifingu á mótum 12. brjósthryggjarliðar og 1. lendarliðar.“
Í niðurstöðu matstillögunnar segir svo:
„Tjónþoli hefur ekki fyrri sögu um áverka á bak. Í ofangreindu slysi hlaut hann áverka á 12. brjósthryggjarlið, samfallsbrot. Meðferð hefur verið fólgin í sjúkraþjálfun og verkjalyfjatöku.
Núverandi einkenni hans sem rekja má til slyssins eru skert geta til ýmissa daglegra athafna, svefntruflanir og verkir.
Ekki er talið að vænta megi neinna breytinga á ofangreindum einkennum í framtíðinni svo heitið geti. Þá er og litið svo á að einkennin megi rekja til slysatburðarins en ekki annars heilsubrests, þ.e. að skilyrði um orsakasamhengi séu uppfyllt:
1. Slysatburðurinn var nægilega öflugur til þess að valda líkamstjóni
2. Einkenni komu fljótlega eftir slysatburðinn
3. Einkenni hafa varað það lengi að þau teljast varanleg
4. Áverkarnir eru sértækir fyrir slysáverka og ólíklegir að hafa komið til án sérstakrar staðfestrar ástæðu.
Miskatöflur Örorkunefndar eru hafðar til hliðsjónar við mat þetta sem byggist á eðli áverkans og afleiðingum hans fyrir tjónþolann. Einkenni tjónþola eru best talin samrýmast lið VI.A.c.7. í töflunum. Með tilvísan til þess telst varanleg læknisfræðileg örorka hæfilega metin 8% (átta af hundraði).“
Í matsgerð C og D lögmanns, dags. 10. maí 2021, er skoðun á kæranda 26. apríl 2021 lýst svo:
„A kemur eðlilega fyrir og gefur greinargóðar upplýsingar. Það er aukin framsveigja á lendhryggnum. Bak er annars eðlilegt að sjá. Við frambeygju með bein hné vantar 31 cm upp á að hún komi fingurgómum niður á gólf. Afturfetta er talsvert skert og hliðarsveigja til vinstri vægt skert. Ferill annarra hreyfinga í baki er eðlilegur. Það tekur í lendhrygginn og brjósthrygginn við frambeygju, afturfettu og hliðarsveigjur, en í brjósthrygginn við bolvindur. Það eru eymsli í miðlínu á lendrhyggnum og neðsta þriðjungi brjósthryggjarins og í vöðvum meðfram hryggnum á sama svæði hryggjarins. Lasegue prófið er neikvætt beggja vegna. Það eru eðlilegir kraftar, sinaviðbrögð og húðskyn í ganglimum.“
Í samantekt matsgerðarinnar segir svo:
„Þann XX hlaut A mikið högg á sitjandann er […]. Hún fann strax fyrir sárum verkjum í bakinu og svitnaði. Hún leitaði tveimur dögum síðar til heilsugæslulæknis í I og lýsti verk ofarlega í mjóbaki og leiðni upp í brjóstbakið. Tölvusneiðmyndataka þann X sýndi samfallsbrot í efri hluta tólfta liðar brjósthryggjarins í mið- og fremra umfangi liðbolsins en afturkantur liðbolsins var heill. eftir það var A í meðferð hjá heilsugæslulæknum og sjúkraþjálfara en hefur þrátt fyrir þá meðferð áfram viðvarandi verki í mjóbakinu og neðst hluta brjósthryggjarins. Fyrir slysið hafði hún langa sögu um verki í mjóbkai og hafði vegna þeirra notað mikið af sterku verkjalyfi, Tramadól. Á matsfundi kemur fram hjá A að verkir sem hún hefur haft í bakinu eftir slysið hafi náð hærra upp eftir bakinu (hún bendir á neðstra þriðjung brjóstbaksins) og háð henni meira en áður.“
Um mat á varanlegum miska segir svo:
„Varanlegar heilsufarslegar afleiðingar slyssins þann X verða raktar til áverka á neðri hluta baks, m.a. samfallsbrots í neðsta lið brjósthryggjarins, með nýjum verkjum í brjósthrygg og versnun verka í lendrygg. Við mat á varanlegum miska af völdum slyssins er höfð hliðsjón af miskatöflu örorkunefndar frá júní 2019, liðum VI.A.b.1. og VI.A.c.2. og þykir varanlegur miski hæfilega metinn 5 (fimm) stig að teknu tillit til fyrri baksögu til lækkunar. Matsmenn álíta ekki að tjón í þessu slysi sé með þeim hætti að það valdi sérstökum erfiðleikum í lífi A sem ástæða sé til að meta til miska umfram miska sem metinn er skv. miskatöflu.“
Ákvörðun slysaörorku samkvæmt þágildandi ákvæðum laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga er eingöngu læknisfræðileg þar sem tilteknir líkamsáverkar eru metnir til ákveðins örorkustigs. Félagslegir þættir, svo sem vinnufærni og áhrif örorku á getu til tekjuöflunar, koma ekki til álita. Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatsskrár/ miskatöflur örorkunefndar frá árinu 2020 og/eða eftir atvikum hliðsjónarrit taflnanna þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka eru metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum, án tillits til starfs eða menntunar tjónþola.
Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á örorku kæranda og byggir mat sitt á fyrirliggjandi gögnum sem hún telur nægileg. Fyrir liggur að í slysinu X hlaut kærandi samfallsbrot á 12. brjósthryggjarlið sem nemur 25% eða minna. Einnig er til staðar löng saga um mjóbaksverki. Ljóst er að mati úrskurðarnefndarinnar að þau einkenni sem stafa frá mjóbaki verða, með hliðsjón af gögnum málsins, ekki tengd við áverkann heldur fyrra heilsufar. Viðbótareinkenni vegna þessa verða skýrð vegna samfallsbrotsins og falla þau að lið VI.A.b.3. í miskatöflum örorkunefndar en samkvæmt þeim lið er örorka vegna brots með minna en 25% samfalli metin á bilinu 5-8%. Vegna mikilla einkenna vegna samfallsbrotsins metur úrskurðarnefndin varanlega læknisfræðilega örorku kæranda vegna slyssins 8%, með hliðsjón af framangreindum lið.
Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 8% varanlega læknisfræðilega örorku kæranda er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 8% varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem A varð fyrir X er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson