Mál nr. 503/2024-Úrskurður
Mál nr. 503/2024
Miðvikudaginn 27. nóvember 2024
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með kæru, móttekinni 10. október 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. febrúar 2024 um að synja umsókn kæranda um heimilisuppbót.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. febrúar 2024, var umsókn kæranda um heimilisuppbót synjað. Með ákvörðun, dags. 24. október 2024, var umsókn kæranda um heimilisuppbót samþykkt frá 1. janúar 2024.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. október 2024. Með bréfi til kæranda, dags. 15. október 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir afriti af þeirri ákvörðun sem kæran varðaði. Engin svör bárust frá kæranda og því var óskað eftir hinni kærðu ákvörðun frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá bárust upplýsingar um nýja ákvörðun, dags. 24. október 2024, þar sem umsókn kæranda um heimilisuppbót hafði verið samþykkt frá 1. janúar 2024. Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu kæranda til þeirrar ákvörðunar með bréfi, dags. 24. október 2024. Engin svör bárust frá kæranda.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að umsókn kæranda um heimilisuppbót hafi verið hafnað þrátt fyrir að hann hafi lagt fram leigusamning. Kærandi hafi ætlað að leigja íbúð í kjallara B af foreldri. Kærandi myndi búa þar einn og greiða mánaðarlega. Tryggingastofnun ríkisins hafi hafnað umsókn hans þar sem kærandi væri skráður með lögheimili á sama stað og foreldri. Húsnæðið sé önnur íbúð í kjallara sem sé ekki tengd efra húsnæði. Þessi íbúð hafi verið samþykkt og staðfest af ríkinu.
III. Niðurstaða
Kærumál þetta varðaði upphaflega ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. febrúar 2024, um að synja kæranda um heimilisuppbót. Eftir að kæra barst tók Tryggingastofnun nýja ákvörðun, dags. 24. október 2024, þar sem umsókn kæranda um heimilisuppbót var samþykkt frá 1. janúar 2024. Með bréfi, dags. 24. október 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til nýrrar ákvörðunar stofnunarinnar en engin svör bárust frá kæranda.
Úrskurðarnefnd velferðarmála kveður upp úrskurði um ágreiningsefni vegna ákvarðana sem teknar eru á sem grundvelli laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 1. mgr. 13. gr. laganna. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á, m.a. um kærurétt til úrskurðarnefndar velferðarmála og um hækkun bóta. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að ágreiningur sé til staðar á milli kæranda og Tryggingastofnunar ríkisins. Stofnunin hefur samþykkt umsókn kæranda um heimilisuppbót. Þar sem enginn ágreiningur er til staðar í máli þessu er kæru vísað frá úrskurðarnefndinni.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir