Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 283/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 283/2021

Miðvikudaginn 30. mars 2022

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 8. júní 2021, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 9. mars 2021 um að synja umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Sjúkratryggingum Íslands barst tilkynning frá kæranda, dags. 1. apríl 2020, um að hún hefði orðið fyrir slysi við vinnu X. Sjúkratryggingar Íslands höfnuðu bótaskyldu með bréfi, dags. 9. mars 2021. Í bréfinu segir að ekki séu fyrir hendi læknisfræðileg orsakatengsl á milli aðstæðna á vinnustað og líkamlegra einkenna kæranda. Því telji Sjúkratryggingar Íslands að ekki sé heimilt að víkja frá árs tilkynningarfresti laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. júní 2021. Með bréfi, dags. 10. júní 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 23. júní 2021, og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda með bréfi, dags. 3. ágúst 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. ágúst 2021, voru athugasemdir lögmanns sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar. Viðbótargreinargerð, dags. 8. september 2021, barst frá Sjúkratryggingum Íslands og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. september 2021. Úrskurðarnefndinni bárust athugasemdir frá lögmanni kæranda með bréfi, dags. 14. október 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. október 2021, voru athugasemdirnar sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar. Viðbótargreinargerð, dags. 15. nóvember 2021, barst frá Sjúkratryggingum Íslands og var hún var send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. nóvember 2021. Athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda með bréfi, dags. 29. nóvember 2021, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. nóvember 2021, voru þær sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar. Viðbótargreinargerð, dags. 13. desember 2021, barst frá Sjúkratryggingum Íslands og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. desember 2021. Úrskurðarnefndinni bárust athugasemdir frá lögmanni kæranda með bréfi, dags. 27. desember 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. janúar 2022, voru athugasemdirnar sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar. Viðbótargögn bárust frá lögmanni kæranda þann 13. janúar 2022 og voru þau kynnt Sjúkratryggingum Íslands með bréfi nefndarinnar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um endurskoðun hinnar kærðu ákvörðunar og að viðurkennt verði að bótaskylda sé fyrir hendi samkvæmt lögum nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga.

Í kæru segir að kærandi hafi hafið störf hjá C í X. Á þeim tíma er hún hafi veikst hafi C verið með aðsetur í húsnæði D. Árið X hafi komið í ljós heilsuspillandi myglu- og rakaskemmdir í húsnæði D og hafi verið ráðist í umfangsmiklar úrbætur á fasteigninni í X hið sama ár. Þann sama dag hafi kærandi orðið vör við þau sjúkdómseinkenni sem hún sé enn þann dag í dag að kljást við.

Áður en framkvæmdirnar hafi byrjað í X hafi kærandi aldrei orðið vör við þau líkamlegu einkenni sem hún hafi tekið að finna fyrir allt frá því að verktakar hafi tekið að eiga við fasteignina. Einkennin hafi farið stigvaxandi samhliða framkvæmdunum. Fyrst um sinn hafi þau helstu verið höfuðverkur, þurrkur í augum og hálsi, hæsi, bólgur, stíflur í kinn- og ennisholum og hitavellur.

Einkenni kæranda hafi ágerst og orðið viðvarandi með tímanum. Vegna þessa hafi hún margsinnis neyðst til að leita sér aðstoðar, meðal annars á heilsugæslu, auk ýmissa sérfræðinga, til dæmis háls-, nef- og eyrnalækna, talmeinafræðings og sjúkraþjálfara. Þá hafi hún þurft að fara á fjölda lyfjakúra, stera- og sýklalyfjakúra, farið í botox meðferðir sem og annars konar inngrip sem eðli málsins samkvæmt hafi kostað hana orku, tíma og fjármuni.

Kærandi hafi ekki enn náð fullri heilsu frá því sem áður var, fjarri lagi, enda heilsufar hennar í dag verulega bágborið og lífsgæði skert. Hún hafi verið óvinnufær með öllu frá því um X. Í dag lúti vandamál kæranda fyrst og fremst að raddböndunum, hún hafi svo til misst röddina, fái endurteknar sýkingar og verði í kjölfarið verulega veik. Einnig sé hún að glíma við viðvarandi höfuðverk, verulega skert minni, skerta úrvinnsluhæfni ásamt ýmsum öðrum kvillum sem taldir séu upp í fylgiskjölum. Samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorði E megi ljóst vera að sjúkdómur sá sem kærandi sé að kljást við „Laryngitis“ verði rakinn til viðveru hennar í ofangreindu húsnæði D. E hafi sérstaklega sent tilkynningu til Vinnueftirlitsins á þar til gerðu eyðublaði, dags. 5. febrúar 2019, um að hann teldi að um atvinnusjúkdóm væri að ræða.

Þá segir að í höfnunarbréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 9. mars 2021, hafi umsókn kæranda verið hafnað þar sem engin læknisfræðileg gögn staðfesti orsakatengsl á milli veikinda hennar og aðstæðna á vinnustaðnum. Kærandi telji hins vegar að fyrirliggjandi gögn staðfesti að sjúkdóminn og afleiðingar hans sé að rekja til myglu- og rakaskemmda í starfsaðstöðu vinnuveitanda hennar og því sé um atvinnusjúkdóm að ræða.

Kærandi hafi fyrst fundið fyrir umræddum einkennum þann dag sem framkvæmdir hafi byrjað á húsnæði D X. Starfsaðstaðan hafi verið ófullnægjandi, enda hafi fleiri starfsmenn tekið að veikjast frá og með þeim tíma er verktakar hafi farið að eiga við fasteignina. Kærandi hafi fundið til fyrrgreindra einkenna alla þá daga er hún hafi verið stödd í húsnæðinu að F en er liðið hafi fram á framkvæmdartímann hafi ástandið orðið viðvarandi og hún sífellt fundið til einkenna og verið lasin alla daga. Í X hafi verið brugðist við af hálfu vinnuveitanda með því að færa kæranda til í húsnæðinu, þá af X. hæð niður á X. hæð eða í „myglufrítt svæði“, sem síðar hafi svo ekki reynst vera.

Starfsaðstaða starfsmanna hafi oft verið rædd í vinnunni, bæði þeirra í millum en einnig við yfirmenn. Óskum starfsmanna um að fá að sinna starfsskyldum sínum utan vinnustaðar hafi verið hafnað. Stjórn C hafi gert þá kröfu að starfmenn inntu starf sitt af hendi á starfsstöð en ekki heiman frá sér. Kærandi telji að hagsmunir starfsmanna C hafi þar með að engu verið hafðir. Stjórnin hafi gert lítið úr alvarleika málsins og þeim starfsmönnum, er kváðust finna til einkenna, hafi í raun verið bent á að finna sér nýja vinnu.

Starfsmenn hafi ekki verið fluttir úr húsnæðinu fyrr en í X og þá á grundvelli „umfangs skemmdanna og neikvæðra áhrifa sem rakaskemmt efni var farið að hafa á heilsufar starfsfólks[…]“ (Sjá greinargerð til stjórnar D, dags. 22. ágúst 2017). Kærandi hafi þá verið búin að vera í myglu- og rakaskemmdu húsnæði í átta mánuði eða þar til í X er hún hafi sjálf orðið sér úti um starfsaðstöðu á F, þá loks með samþykki vinnuveitanda síns, til þess að geta sinnt störfum fyrir hann. Ljóst sé að viðvera hennar í heilsuspillandi húsnæði í þetta langan tíma, þrátt fyrir að augljós veikindi og tilkynningar til vinnuveitanda hennar þar um hafi valdið alvarlegum veikindum hennar og því hvernig ástatt sé um fyrir henni í dag.

Eftir að starfsemi C hafi verið flutt að G X hafi heilsufar kæranda farið batnandi en svo hafi farið að síga á verri hliðina á ný í X. Þá afturför reki kærandi beint til mengunar og smits af pappakössum með jólaskrauti og fleiri hlutum úr fyrra húsnæði í hið nýja. Flensueinkennin hafi ágerst ásamt truflunum á úrvinnsluminni og sjón og svo hafi verið allt fram til X er hún hafi farið í veikindaleyfi. Kærandi hafi ekki enn náð sér og í vottorði H háls-, nef- og eyrnalæknis, dags. 24. september 2019, komi fram að bati hafi verið mjög takmarkaður og líklegt sé að raddvandamálin séu orðin varanleg.

Líkt og sjá megi hafi einkenni kæranda minnkað er hún hafi ekki verið í húsnæðinu en aukist ella. Einkennin hafi síðan orðið viðvarandi án tillits til þess hvar hún hafi verið stödd hverju sinni en þó eitthvað vægari, til að mynda á þeim tíma er kærandi hafi flutt starfsstöð sína á G eins og áður greini. Í X hafi hún sætt skoðun hjá E, sérfræðingi í háls-, nef- og eyrnalækningum og […], eftir að hafa fyrr þann dag dvalist að F. Að mati E hafi eitrunareinkenni verið í hálsi og raddböndum. Áréttað sé að þann X hafi E sent sérstaka tilkynningu til Vinnueftirlitsins þar sem hann hafi upplýst um skoðun sína að um atvinnusjúkdóm væri að ræða. Sá málatilbúnaður Sjúkratrygginga Íslands að gera lítið út þessu skjali með vísan til þess að ekki sé um að ræða eiginlegt læknisvottorð dæmi sig sjálfur. Þessi tilkynning geti enda ekki verið byggð á öðru en læknisskoðun E en hann hafi í það minnsta tvisvar hitt kæranda vegna einkenna hennar.

Kærandi hafi verið heilsuhraust áður en atvik hafi orðið. Fyrirliggjandi gögn í málinu gefi skýrt til kynna að sjúkdómurinn verði rakinn til myglu- og rakaskemmda í starfsaðstöðu vinnuveitanda hennar í húsnæðinu að F. Heilsufarslegt tjón kæranda sé nú varanlegt sem hafi áhrif á líf hennar allt, fjölskyldu og fjárhag. Hún telji að veikindi sín frá því X og alvarlegar og varanlegar afleiðingar þeirra sem nú séu í ljós komnar sé sannarlega að rekja til aðstæðna á vinnustað.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Sjúkratrygginga Íslands, dags. 4. ágúst 2021, segir að í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands sé á því byggt að of miklir ágallar séu á upplýsingum í málinu til þess að staðfesta læknisfræðilegt orsakasamhengi á milli aðstæðna á vinnustað og þeirra varanlegu líkamlegu einkenna sem kærandi hefur.

Í endurmati trúnaðarlæknis J á orkutapi kæranda, dags. 25. maí 2021, komi fram að orkutapið sé enn 100% en til grundvallar þessari ákvörðun liggi vottorð  K trúnaðarlæknis, dags. 15. maí 2021. Þar komi fram að orkutap kæranda sé að mestu að rekja til veru hennar í húsnæði fyrrum vinnuveitanda hennar.

Einnig liggi fyrir sérfræðingsnóta frá L, ofnæmis- og ónæmislækni, dags. 14. ágúst 2019, þar sem fram komi að kærandi glími við úrvinnslutruflanir, minnisleysi og verulegt hæsi í kjölfar veru sinnar í húsnæði D.

Vísað er til greinargerðar N, dags. 25. mars 2016, þar sem sé að finna greiningu myglusveppa í húsi D að F þar sem fyrrum vinnuveitandi kæranda hafi verið með starfsaðstöðu. Í greinargerðinni sé getið nokkurra sveppategunda, svo sem Cladosporium, Aspergillus eða Penicillium sem sé að finna á lista yfir flokkaða líffræðilega skaðvalda sem valdið geti eitrunaráhrifum eða ofnæmi, sbr. III. viðauka reglna nr. 764/2001 um verndun starfsmanna gegn hættu á heilsutjóni af völdum líffræðilegra skaðvalda. Allar framangreindar sveppategundir séu taldar hafa áhrif á heilsu manna.

Kærandi ítreki að hún hafi alla tíð verið heilsuhraust og fengið fyrstu einkenni sama dag og framkvæmdir hafi byrjað í húsi D. Hún telji óumdeilt að orsakasamband sé á milli einkenna sinna og umhverfisþátta á vinnustað fyrrum vinnuveitanda síns.

Í athugasemdum kæranda við viðbótargreinargerð Sjúkratrygginga Íslands, dags. 14. október 2021, er áréttað varðandi orsakatengslin að ferlið hafi verið þannig í húsnæði D í X að hafi starfsfólk sem þar hafi starfað fundið fyrir einkennum hafi það verið sent til N og hafi ástæða þótt til, hafi starfsfólk verið sent áfram til sérfræðings. Kærandi hafi verið send til N í skimun þar sem hún hafi verið með einkenni og veikindi vegna veru sinnar í húsnæðinu. Í framhaldinu hafi hún verið send til L, sérfræðings í lyflækningum og ofnæmissjúkdómum, í X. Í sérfræðingsnótu L, dags. X, komi fram að það séu sýkingar eða bólgur í kinn- eða ennisholum kæranda. Í sjúkradagpeningavottorði, dags. X, sé ítarlega fjallað um einkenni kæranda á þeim tímapunkti.

Þá vísar kærandi til ítarlegs læknabréfs frá meðhöndlandi lækni, O, á Heilsugæslu G, dags. 12. október 2021, sem hún setti saman að beiðni B í kjölfar málatilbúnaðar Sjúkratrygginga Íslands fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála. Í stuttu máli séu niðurstöður O þær að sé tekið tillit til rannsókna sem liggi fyrir varðandi rakaskemmdir og myglu í húsnæði og áhrif þeirra á mannfólk, séu yfirgnæfandi líkur á að kærandi hafi orðið fyrir umfangsmiklu heilsutjóni sem rekja megi beint til myglu, sveppaeiturs (e. mycotocins) og mögulega rokgjarnra lífrænna efnasambanda frá raka í byggingarefnum (e. volatile organic compounds (VOC)) á vinnustað hennar. Í bréfinu sé að finna heimildaskrá og tilvísanir í rannsóknir sem O byggi niðurstöðu sína á að teknu tilliti til sjúkdómsástands kæranda og þeirrar staðreyndar að hún hafi starfað í húsnæði D. Fátt ef nokkurt húsnæði hér á landi hafi sætt jafnmikilli rannsókn og húsnæði D.

Í athugasemdum kæranda við viðbótargreinargerð Sjúkratrygginga Íslands, dags. 29. nóvember 2021, segir að í greinargerðinni sé í fyrsta lagi til þess vísað að eina mengunin sem skjalfest sé í tilviki D sé ryk sem myglutegundir hefðu ræktast úr. Þar komi jafnframt fram að ekki liggi fyrir upplýsingar um hvaða loftegundir hafi verið til staðar í húsnæðinu eða hvert magnið hafi verið. Fyrir liggi skýrsla M, dags. 25. október 2016, þar sem fram komi að fjórar myglutegundir hafi greinst úr snertisýni af ryki á X. hæð í húsnæði D, þar af tvær sem myndað geti sveppaeiturefni þar sem önnur geti vaxið í fólki. Þessar tvær tegundir sveppa, Chaetomium globosum og Paecilomyces variotii, hafi greinst í miklu magni, samanber niðurstöður framangreindrar skýrslu. Skýrsla þessi staðfesti að eitrandi sveppategundir hafi fundist í ryki í húsnæðinu sem léttilega berist í lofti á milli hæða.

Í framangreindri greinargerð Sjúkratrygginga Íslands sé á því byggt að þegar ekki sé um ofnæmi að ræða þurfi í flestum tilvikum ákveðna „exponeringu“ í formi magns og tímalengdar til að þróa atvinnusjúkdóm og að kenningar, um orsakir sjúkdóma, geti ekki talist forsenda fyrir því að sýnt hafi verið fram á orsakatengsl milli myglu og einkenna. Þar sé þess einnig getið að í tilviki kæranda sé um að ræða annars vegar afmarkað vandamál, þ.e. hæsi eða raddtruflun, og hins vegar önnur einkenni eða vanlíðan sem engin sjúkdómsgreining liggi fyrir og Sjúkratryggingar Íslands telji orsakir þeirra einkenna óljósar.

Í læknabréfi O, dags. 12. október 2021, komi fram að mengun af því tagi sem hafi fundist í húsnæði D og staðfest hafi verið með fyrirliggjandi skýrslum Náttúrufræðistofnunar Íslands getur valdið veikindum, þrátt fyrir að ofnæmi sé ekki til staðar. Í skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem getið sé um að framan, dags. 25. október 2016, komi einnig fram að sveppir sem myndað geti sveppaeiturefni og vaxið í fólki hafi fundist í miklu magni í sýnum sem tekin hafi verið úr húsnæði D. Fyrir liggi jafnframt að kærandi hafi dvalið í mengaða húsnæðinu í níu mánuði. Sú „exponering“, sem vísað sé til í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands, hafi því sannarlega verið til staðar í tilviki kæranda.

Þá segir að kærandi hafi byrjað að veikjast sama dag og framkvæmdir í húsnæði  D hafi byrjað. Einkenni hennar hafi stigmagnast og orðið meiri með tímanum en nú séu þau helst raddmissir, endurteknar öndunarfærasýkingar, höfuðverkir, minnistruflanir og skert úrvinnsluhæfi. Hún eigi enga fyrri sögu um veikindi af þessu tagi og því sé fullljóst að orsakatengsl séu á milli veru hennar í húsnæðinu og veikinda hennar. Þá megi einnig ítreka það sem fram hafi komið í kæru til úrskurðarnefndarinnar um að vinnuveitandi kæranda hafi flutt starfsemi sína í nýtt húsnæði X og þá hafi heilsufar kæranda farið batnandi. Þegar pappakassar með jólaskrauti og fleiri hlutum hafi verið fluttir úr hinu mengaða húsnæði og kærandi því aftur útsett fyrir myglunni, hafi flensueinkenni hennar ágerst, auk þess sem hún hafi farið að finna fyrir truflunum á úrvinnsluminni og sjón. Til hliðsjónar vísist í þessu sambandi í samantekt P sveppafræðings.

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands komi fram að það þurfi að vera sýnt fram á að mengun hafi verið í nægilega miklu magni og nægilega lengi til að valda sjúkdómnum og að sjúkdómurinn hafi komið til eftir að starfsmaðurinn hafi orðið fyrir menguninni. Kærandi telji að fyrirliggjandi sjúkragögn staðfesti að sjúkdómurinn sé sannarlega tilkominn eftir að hún hafi orðið útsett fyrir menguninni. Kærandi hafi verið útsett fyrir myglu og raka í níu mánuði og það hafi verið nóg til þess að hún glími nú við varanleg einkenni vegna þessa. Hvað magn mengunar varði verði að telja að kærandi eigi ekki að bera hallann af því hvernig staðið hafi verið að mælingum á menguninni í húsnæðinu. Það liggi þó vissulega fyrir skýrslur, svo sem skýrsla Náttúrufræðistofnunar Íslands, dags. 25. október 2016, sem staðfesti að sveppategundir, þeirra á meðal þær sem myndað geti sveppaeiturefni, hafi mælst í miklu magni í þeim sýnum sem skoðuð hafi verið.

Sjúkratryggingar Íslands telji jafnframt að mengun á vinnustaðnum kunni að hafa átt einhvern þátt í raddvandamáli kæranda en að það geti ekki verið orsök þess að vandamálið sé varanlegt. Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands sé jafnframt til þess vísað að það geti rennt stoðum undir orsakatengsl á milli mengunar og sjúkdóms, hafi fleiri starfsmenn á sama vinnustað verið með sömu einkenni.

Kærandi telji óljóst hvernig Sjúkratryggingar Íslands geti útilokað það að raddmissi hennar, sem nú sé varanlegur, sé ekki að rekja til veru hennar í hinu mengaða húsnæði, enda bendi öll læknisfræðileg gögn, sem fyrir liggi í málinu, til þess að öll þau einkenni sem hún sé að kljást við í dag verði rakin til veru hennar í húsnæðinu. Þá bendi kærandi á að í kæru til úrskurðarnefndarinnar hafi þegar verið bent á það að fleiri starfsmenn C sem og D hafi veikst um leið og framkvæmdir á húsnæði D hafi byrjað og er vísað til fréttar þar um frá X.

Í athugasemdum kæranda við viðbótargreinargerð Sjúkratrygginga Íslands, dags. 27. desember 2021, segir að texti á heimasíðu CDC (Centers for Disease Control), sem Sjúkratryggingar Íslands vitni til, sé nokkuð úreltur en margar aðrar rannsóknir hafi verið framkvæmdar frá því að hann hafi verið skrifaður. Til að mynda megi benda á nýja rannsókn frá 2016[1] þar sem meðal annars sé vísað til greinar CDC og bent á að hún styðjist við takmarkaðar heimildir:

„According to the World Health Organization (WHO), “Although mycotoxins can induce a wide range of adverse health effects in both animals and human beings, the evidence that they play a role in health problems related to indoor air is extremely weak.”1 The US Centers for Disease Control and Prevention (CDC) issued a report in 2004 that asserts there is no conclusive evidence of nonrespiratory conditions being caused by mold or damp buildings. Review of the current recommendations according to its Web site shows no apparent change in its position.2 These statements appear highly conclusive but are in fact based on a very limited body of published research and are probably outdated. Research in this area has been limited, because it has not been possible to build cohorts of individuals exposed to mycotoxins and their controls and study them. This is due primarily to the serious limitations of the testing technology used to detect the presence of hidden indoor mold.

There are many different testing approaches all with unique limitations and all with many false negatives. In addition, human testing for mold toxin load via sampling tissue and body fluids is very limited. At the time of this publication, we can test for only 4 mycotoxin groups with 15 individual toxins. There are likely hundreds of mycotoxins, possibly even an order of magnitude more. Another challenge with standard research is that statistical results in population groups inherently obfuscate individual susceptibility. This, of course, is where our medicine is so important for suffering patients who are outside those statistical norms. Clearly, we know that toxins affect individuals in different ways depending on their genetics, synergistic toxins present, and nutritional status. Studies that evaluate the most important variables of genetics, toxin exposure, and nutritional status and their complex effect on health need to be conducted.“

Þá megi einnig benda á að ýmsar aðrar upplýsingar sé að finna á sömu heimasíðu og textann sem vísað sé til í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands. Þær upplýsingar, sem ekki sé vísað til í greinargerðinni, útiloka ekki að einstaklingar geti fengið eitrunaráhrif af myglu. Sjá til að mynda eftirfarandi texta sem sé að finna á sömu heimasíðu:

„In 2009, the World Health Organization issued additional guidance, the WHO Guidelines for Indoor Air Quality: Dampness and Mould {Summary}. Other recent studies have suggested a potential link of early mold exposure to development of asthma in some children, particularly among children who may be genetically susceptible to asthma development, and that selected interventions that improve housing conditions can reduce morbidity from asthma and respiratory allergies.

A link between other adverse health effects, such as acute idiopathic pulmonary hemorrhage among infants, memory loss, or lethargy, and molds, including the mold Stachybotrys chartarum  has not been proven. Further studies are needed to find out what causes acute idiopathic hemorrhage and other adverse health effects.“

Af framangreindri tilvitnun megi ráða að þörf sé á frekari rannsóknum á umræddu sviði. Af þessu verði ekki ráðið að útilokað sé að einstaklingar geti fengið eitrunaráhrif af völdum myglu.

Kærandi telji jafnframt að yfirtryggingalæknir Sjúkratrygginga Íslands geti ekki fullyrt að fagsamfélagið í heild viðurkenni ekki að einstaklingar geti fengið eitrunaráhrif af völdum myglu í rakaskemmdu húsnæði. Nýjar rannsóknir liggi fyrir, sem áður hafi verið vísað til, svo sem í læknabréfi O, dags. 12. október 2021, sem bendi til þess að fólk geti sannarlega orðið fyrir eitrunaráhrifum vegna myglu en ekki þurfi sérfræðikunnáttu til að rýna í rannsóknir, samanber athugasemdir í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands við kunnáttu O.

Loks er ítrekað að kærandi hafi verið heilsuhraust áður en framkvæmdir hafi byrjað í húsnæði D að F. Sama dag og framkvæmdir hafi byrjað hafi heilsu hennar farið hrakandi. Fyrir liggi að sveppategundir þær, sem hafi fundist í sýnum sem tekin hafi verið úr húsnæðinu að F, geti myndað sveppaeiturefni, sbr. greinargerð M sveppafræðings, dags. 25. október 2016. Nýlegar rannsóknir, sem áður hafi verið vísað til í athugasemdum til nefndarinnar, sýni fram á að einstaklingar geti orðið fyrir eitrunaráhrifum vegna myglu og hafi kærandi lagt fram ýmis læknisvottorð, skýrslur og önnur gögn sem öll bendi til þess að einkenni hennar megi rekja til veru hennar í húsnæðinu að F.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að þann 1. apríl 2020 hafi stofnuninni borist tilkynning um slys sem kærandi hafi orðið fyrir X. Með ákvörðun, dags. 9. mars 2021, hafi umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga verið hafnað á þeim grundvelli að ekki væru fyrir hendi læknisfræðileg orsakatengsl á milli meintrar myglu á vinnustað kæranda og einkenna hennar.

Tekið er fram að slysatryggingar almannatrygginga falli undir ákvæði laga nr. 45/2015. Samkvæmt lögunum séu launþegar slysatryggðir við vinnu sína, að uppfylltum nánari skilyrðum. Í 6. gr. laganna komi fram að þegar slys beri að höndum sem ætla megi að sé bótaskylt skuli atvinnurekandi eða hinn tryggði tafarlaust senda tilkynningu um slysið á því formi sem Sjúkratryggingar Íslands skipa fyrir um. Hafi sá, sem hafi átt að tilkynna slys, vanrækt það skuli það eigi vera því til fyrirstöðu að sá sem fyrir slysi hafi orðið eða eftirlátnir vandamenn hans geti gert kröfu til bóta, sé það gert áður en ár sé liðið frá því að slysið bar að höndum. Þó sé heimilt að greiða bætur þótt ár sé liðið frá því að slys hafi borið að höndum, séu atvik svo ljós að drátturinn torveldi ekki gagnaöflun um atriði er máli skipti. Í 3. gr. reglugerðar nr. 356/2005 sé sett það skilyrði að fyrir liggi læknisfræðilegt mat á orsakasambandi, þ.e. að unnt sé að meta orsakasamband á milli slyssins og heilsutjóns hins slasaða.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi komið fram að það væri mat Sjúkratrygginga Íslands að ekki væru fyrir hendi læknisfræðileg orsakatengsl á milli meintrar myglu á vinnustað kæranda og einkenna hennar. Í læknisvottorði, dags. 3. maí 2019, komi fram að kærandi sé ekki með ofnæmi fyrir myglu eða óþol. Þá komi fram að einkenni hennar hafi ekki lagast, þrátt fyrir að hún hafi flutt starfsstöð sína úr umræddu húsnæði vinnuveitanda síns. Þar sem ekki hafi legið fyrir að kærandi sé með ofnæmi fyrir myglu og að sú mygla sem hún sé með ofnæmi fyrir hafi fundist í húsnæðinu, hafi það verið mat Sjúkratrygginga Íslands að læknisfræðilegt orsakasamband á milli aðstæðna á vinnustað og líkamlegra einkenna kæranda væri ekki ljóst. Enn fremur að ekki hafi verið sýnt fram á að lofttegundir eða ryk sem hugsanlega hafi komið út í andrúmsloft á vinnustaðnum vegna niðurbrots rakaskemmdra byggingarefna, hafi getað valdið varanlegu líkamstjóni kæranda.

Við yfirferð yfirtryggingalæknis á fyrirliggjandi gögnum áður en ákvörðun, dags. 23. júní 2020, hafi verið tekin, hafi verið ljóst að kærandi hafi unnið hjá hugbúnaðarfyrirtæki og haft starfsaðstöðu í húsi D á F árið X þegar einkenni hennar hafi byrjað eftir að viðgerðir á umræddu húsnæði vegna rakaskemmda hófust. Kærandi hafi farið að finna fyrir ýmsum einkennum. Hún hafi leitað til heilsugæslu í X með einkenni um efri loftvegasýkingu og öndunarfæraóþægindi. Raddtruflanir hafi verið tilgreindar í X. Skútabólga (sinusitis) hafi greinst með myndatöku og hiti og eymsli í eitlum hafi stutt þá greiningu og gefin hafi verið breiðvirk sýklalyf og nefúði samkvæmt ábendingu, en bati hafi látið á sér standa. Kærandi hafi farið til sérfræðinga í háls-, nef- og eyrnalækningum sem hafi framkvæmt rannsóknir og veitt meðferð. Kærandi hafi einnig fengið greininguna barkabólgu (laryngitis). Sjúkratryggingum Íslands þyki rétt að benda á að barkabólga og skútabólga séu ekki sérstaklega tengdar dvöl í menguðu húsnæði eða dvöl í húsnæði með rakaskemmdum, þótt ekki sé hægt að segja að hollt sé fyrir fólk, sem eigi til að fá þessa kvilla, að dvelja í slíku húsnæði. Algengast sé að tilfallandi sýkingar, sérstaklega veirusýkingar, hrindi af stað bólgum í öndunarfærum. Fræðilega sé mögulegt að dvöl í rakaskemmdu húsnæði geti ýtt undir að fólk fái öndunarfærasýkingar eða bólgur í öndunarveg, til dæmis vegna ertingar ryks og lofttegunda eða vegna ofnæmis fyrir myglu. Slík áhrif séu afturkræf þegar mengunin sé ekki lengur til staðar.

Kærandi hafi jafnframt verið rannsökuð af ofnæmislækni en ekki hafi verið sýnt fram á ofnæmi fyrir myglu. Ekki hafi verið lagðar fram niðurstöður ræktunar á örverum frá öndunarvegi kæranda. Þá hafi ekki verið lögð fram neins konar greinargerð um þá mengun sem gæti hafa valdið einkennum kæranda, hvorki hvers eðlis mengunin hafi verið né í hve miklu magni eða hvort þéttni mengunarefna í andrúmslofti hafi farið yfir mengunarmörk sem sett séu fyrir vinnustaði. Hvorki hafi verið lögð fram greinargerð um hvaða örverur hafi verið í umhverfinu né hvaða lofttegundir kunni að hafa verið þar.

Bent er á að sjúkdómur sá er kærandi þjáist af sé ekki skráður á lista Vinnueftirlitsins um tilkynningarskylda sjúkdóma. Háls-, nef- og eyrnalæknir hafi sent Vinnueftirlitinu tilkynningu í febrúar 2019 um meintan atvinnusjúkdóm (laryngitis). Á eyðublaði Vinnueftirlitsins komi fram að tilkynningin þjóni fyrst og fremst heilsuvernd og upplýsingasöfnun í vinnuverndarskyni. Í því sambandi bendi Sjúkratryggingar Íslands á að slík tilkynning sé ekki jafngild læknisvottorðs um atvinnusjúkdóm.

Þá sé rétt að benda á að gert sé ráð fyrir að einkenni sem einstaklingar fái í tengslum við innöndun lofttegunda eða örvera í húsnæði sem skemmt sé af raka, gangi til baka þegar þeir einstaklingar sem upplifi einkennin, hætti að dvelja í húsnæðinu og flytjist í annað húsnæði sem sé ekki með rakaskemmdum. Enn fremur sé gert ráð fyrir að sé ekki um ofnæmi að ræða fyrir lífrænum áhættuþáttum eins og myglu sé ekki sérstök hætta á að einkenni komi aftur þótt dvalið sé stutta stund í húsnæði sem hafi einhverja slíka galla. Með öðrum orðum, ekki sé gert ráð fyrir að einstaklingar fái varanlegan skaða af dvöl í húsnæði með rakaskemmdum en almennt sé ekki talið ráðlegt að slíkt húsnæði sé notað til að hýsa vinnustaði eða heimili.

Til þess að sjúkdómur sé viðurkenndur sem atvinnusjúkdómur þurfi að vera unnt að sýna fram á orsakasamband á milli umhverfisþátta á vinnustað og sjúkdóms þess einstaklings sem í hlut á. Meðal þeirra skilyrða sem þurfi að uppfylla sé hvort þekkt samband sé á milli umhverfisþátta sem til staðar voru og sjúkdóms eins og þess sem sannað sé að starfsmaðurinn hafi fengið, hvort þessir umhverfisþættir hafi verið í nægilegu magni til að framkalla sjúkdóminn eða staðið í nægilega langan tíma til þess.

Að mati Sjúkratrygginga Íslands séu of miklir ágallar á upplýsingum í málinu til að unnt sé að samþykkja læknisfræðilegt samband vinnu og sjúkdóms kæranda. Þar af leiðandi sé, að mati stofnunarinnar, ekki mögulegt að staðfesta að læknisfræðilegt orsakasamhengi sé á milli aðstæðna á vinnustað og þeirra varanlegu líkamlegu einkenna sem kærandi hafi. Hugsanlegt sé þó að eitthvað af hinum tímabundnu einkennum kæranda hafi tengst mengun á vinnustað en það sé þó ósannað, enda geti slík einkenni komið án þess að til staðar sé mengun í andrúmslofti á vinnustað. Því telji Sjúkratryggingar Íslands að ekki sé heimilt að víkja frá árs tilkynningarfresti, sbr. 2. mgr. 6. gr. slysatryggingalaga, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 356/2005.

Með vísan til framangreinds beri því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Í viðbótargreinargerð Sjúkratrygginga Íslands, dags. 8. september 2021, segir að þrátt fyrir að kærandi haldi því fram að það að einkenni hennar hafi komið fram eftir að framkvæmdir hafi byrjað í húsnæði vinnustaðar hennar og sýni að mengun á vinnustaðnum sé orsök veikindanna, hafi slík tímaröð ekki sönnunargildi í sjálfu sér, jafnvel þótt vitneskja sé fyrir hendi um að einhver af þeim einkennum, sem kærandi hafi haft eða hafi, geti komið vegna áhrifa tiltekinnar mengunar. Í læknisvottorðum sé talað um að kærandi hafi fengið einkennin í kjölfar framkvæmda á vinnustaðnum en ekki sé fullyrt beint að framkvæmdirnar séu orsök veikindanna, enda sé það ósannað og hafa læknarnir varist að fullyrða að svo sé.

Ekki hafi verið lagðar fram niðurstöður greiningarprófa á tiltekinni sýkingu með örverum eða vefjabreytingum sem vitað sé að komið geti eftir tilteknar sýkingar eins og sveppasýkingu. Ofnæmi fyrir umhverfisþáttum á vinnustað geti skýrt einkenni kæranda en gögn málsins sýni að kærandi greindist ekki með ofnæmi fyrir myglu. Ekki komi fram í gögnum málsins hvort fellipróf hafi verið gert. Sýnt hafi verið fram á með sýnatöku úr húsnæði vinnustaðarins að mygla hafi víða komið fram í sýnum úr húsnæðinu. Hins vegar byggi tengsl einkenna kæranda og umhverfisþátta á tilgátum. Vitað sé að ertandi þættir í umhverfi geti valdið hæsi og barkabólgu og því sé ekki hafnað af Sjúkratryggingum Íslands að kærandi hafi getað fengið einkenni frá öndunarfærum vegna umhverfisþátta. Hins vegar sé því hafnað af hálfu stofnunarinnar að önnur einkenni kæranda geti stafað af myglu eða rakaskemmdum.

Langvinn barkabólga, sem orsakist af ertingu (ertandi lofttegundum eða ögnum), lagist yfirleitt þegar orsakavaldurinn sé fjarlægður eða sé ekki lengur í umhverfi sjúklings. Sama gildi um sýkingar ef sýnt hafi verið fram á sýkingu hjá sjúklingi, til dæmis með ræktun á örverum eða annarri greiningartækni og þegar sjúklingur hafi fengið viðeigandi lyfjameðferð, séu ekki sjáanlegar örmyndanir eða skemmdir á vefjum, svo sem í barka.

Af hálfu Sjúkratrygginga Íslands séu ekki taldar meiri líkur en minni á því að hæsi kæranda eða önnur einkenni, sem ekki hafi horfið og byrjað á þeim tíma sem kærandi hafi verið að vinna í D, stafi beinlínis af þeim umhverfisaðstæðum sem þar voru. Sjúkratryggingar Íslands telji ekki að sannað sé eða sýnt fram á að miklar líkur séu á því að kærandi hafi hlotið varanlega örorku af þeim aðstæðum sem þar hafi ríkt á þeim tíma sem kærandi starfaði þar. Margir aðrir orsakaþættir séu raktir í umfjöllun viðurkenndra fræðirita og gagnagrunna um þá sjúkdóma eða sjúkdómseinkenni sem kærandi eigi við að glíma og séu ekki ósennilegri en umhverfisþættir á vinnustaðnum, ekki síst í ljósi þess að einkenni hafi ekki batnað þegar kærandi hafi hætt að vinna.

Að öllu þessu virtu vilji Sjúkratryggingar Íslands ekki útiloka alveg að loftmengun á vinnustað hafi átt einhvern þátt í að kærandi hafi fengið hæsi í byrjun. Það sé aftur á móti alveg óljóst hver sá þáttur sé og með hliðsjón af orðalagi 5. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga telji Sjúkratryggingar Íslands ekki unnt að ákvarða að einhver varanleg örorka hafi hlotist af dvölinni á vinnustaðnum, enda yfirleitt um áhrif að ræða sem hverfi þegar starfsmaður verði ekki lengur fyrir mengunaráhrifum. Sjúkratryggingar Íslands telji meiri líkur en minni á því að aðrar ástæður liggi að baki þeim veikindum sem hafi leitt til örorku kæranda.

Í viðbótargreinargerð Sjúkratrygginga Íslands, dags. 15. nóvember 2021, er tekið fram að læknabréf, dags. 12. október 2021, sé ekki ritað af sérfræðilækni heldur unglækni starfandi á heilsugæslu þar sem hún tiltaki sínar kenningar um orsök einkenna kæranda.

Eftirfarandi staðreyndir um greiningarskilyrði atvinnusjúkdóms eða umhverfissjúkdóms séu teknar saman af Q, yfirtryggingalækni Sjúkratrygginga Íslands og sérfræðingi í atvinnu- og umhverfissjúkdómum.

„1) Tilvist mengunar. Tiltekin mengun þurfi að hafa verið til staðar í umhverfi starfsmanns. Sú  mengun sem skjalfest sé í tilviki D sé ryk sem myglutegundir hafi ræktast úr. Þótt ýmsar lofttegundir geti losnað úr byggingarefnum sem skemmast af raka liggi ekki fyrir neinar upplýsingar um hvaða lofttegundir hafi verið til staðar í F eða hvort þær hafi verið í magni sem sé meira en brot af mengunarmörkum á vinnustað samkvæmt skrá Vinnueftirlits ríkisins um mengunarmörk. Gögn um mælingar á raka hafi ekki þýðingu í málinu.

2) Almenn orsakatengsl. Það þurfi að vera þekkt að mengunin geti orsakað tiltekinn sjúkdóm. Ekki sé nóg að kenningar séu til um að tiltekin mengun gæti valdið tilteknum sjúkdómi eða að rannsóknir hafi verið gerðar til að leita að slíkum tengslum. Með öðrum orðum, rannsóknarniðurstöður þurfi að vera gagnreyndar og marktækar og hafa birst í ritrýndum greinum. Sé ekki um ofnæmi að ræða þurfi í flestum tilvikum ákveðna „exponeringu“ í formi magns og tímalengdar til að þróa tiltekinn atvinnusjúkdóm. Á hverjum tíma séu ýmsar  kenningar um orsakir sjúkdóma á lofti, en slíkar kenningar geti ekki talist forsenda fyrir því að sýnt hafi verið fram á orsakatengsl milli myglu og einkenna. 

3) Rétt sjúkdómsgreining. Starfsmaðurinn þurfi að vera greindur með sjúkdóminn. Í þessu máli sé annars vegar um að ræða afmarkað vandamál, hæsi eða raddtruflun, og hins vegar ýmis önnur einkenni eða vanlíðan. Sjúkratryggingar Íslands telji ekki að síðari sjúkdómseinkennin geti stafað af þeirri mengun sem kærandi hafi orðið fyrir um tíma í F og að orsakir þeirra séu alveg óljósar og í raun liggi ekki fyrir sjúkdómsgreining vegna þeirra einkenna. Þau einkenni geti sést í margs konar sjúkdómum. 

4) Magn mengunar og dose-response. Það þurfi að vera sýnt fram á að mengunin hafi verið í nægilega miklu magni og nægilega lengi til að valda sjúkdómnum og að sjúkdómurinn hafi komið til eftir að starfsmaðurinn hafi orðið fyrir menguninni. Ekki sé nóg að mengun hafi verið til staðar sé ekki um ofnæmi að ræða. Nauðsynlegt sé að taka tillit til áhrifa magns mengunar (skammtur – viðbrögð /dose – response) sé talið að eituráhrif eða ertingaráhrif valdi sjúkdómi. Það liggi fyrir að samkvæmt rannsókn ofnæmislæknis hafi kærandi ekki verið greind með ofnæmi. Ekkert liggi fyrir um að kærandi hafi verið með sveppasýkingu í barkanum. Ekkert bendi til að lofttegundir frá byggingarefnum hafi verið í hárri þéttni eða yfir mengunarmörkum á vinnustöðum. Sjúkratryggingar Íslands telji því alveg óljóst hvað valdi sjúkdómsástandi kæranda.

5) Orsakatengsl í tilviki tiltekins starfsmanns. Það þurfi að vera sýnt fram á að ákveðin mengun hafi valdið sjúkdómnum hjá viðkomandi starfsmanni og að aðrar mögulegar orsakir sjúkdómsins séu ólíklegri. Sé ekki til að dreifa þekkingu á sjúkdómi starfsmanns eða orsökum hans geti verið ástæða til að leita að tengslum við mengun sem hafi átt sér stað í umhverfi starfsmanns áður en sjúkdómur hafi byrjað. Slík mengun gæti verið orsök sjúkdóms eða  meðvirkandi þótt hún sé ekki aðalorsök. Það sé hins vegar einungis einn af þeim þáttum sem skoðaðir séu.

Ekki sé nóg að giska á að sjúkdómsorsök sé eitthvert umhverfisfyrirbæri sem hafi átt sér stað þegar sjúkdómur hafi fyrst komið fram eða áður en sjúkdómur hafi komið fram enda þótt aðrar augljósar orsakir séu ekki til staðar, sérstaklega þegar þekkt sé að fleira geti valdið umræddum sjúkdómi. Sjúkratryggingar Íslands telji að þótt mengun á vinnustað kunni að hafa átt einhvern þátt í að raddvandamál kæranda hafi byrjað geti það ekki verið orsök þess að vandamálið hafi orðið að varanlegu meini því starfsmaðurinn hafi tiltölulega fljótt losnað úr hinu mengaða umhverfi. 

Séu fleiri starfsmenn með sömu einkenni á sama vinnustað geti það rennt stoðum undir að tengsl séu milli mengunar og sjúkdóms. Oft séu þessi einkenni þó mismunandi og leiði ekki til sömu sjúkdómsgreiningar. Þegar öllu sé á botninn hvolft séu aðrar ástæður en rakaskemmdir í húsum mun algengari orsakir fyrir raddtruflunum og því telji Sjúkratryggingar Íslands að minni líkur en meiri séu á því að orsakir hinna varanlegu raddtruflana kæranda liggi í öðru en tímabundinni dvöl á menguðum vinnustað.

6) Samlegðaráhrif snefilefna. Engar starfsaðferðir eða reglur séu til um hvernig meta ætti áhrif fleiri snefilefna í andrúmslofti á heilsu fólks sem verði fyrir slíkri mengun í einhvers konar blöndu í andrúmslofti eða við inntöku. Fjöldi rannsókna hafi um árabil beinst að því að finna hvort hægt sé að rekja slík tengsl eða áhrif. Þeim miði hægt en grunsemdir séu uppi um að hópar eða heilu þjóðirnar verði almennt fyrir ýmsum neikvæðum áhrifum af margs konar efnum sem finnist í umhverfinu, bæði í mat, snyrtivörum og í andrúmslofti. Fræðimenn hafi smíðað heitið „Idiopathic environmental intolerance“ sem eins konar samheiti fyrir heilsuleysi einstaklinga sem leiti skýringa á heilsuleysi sínu í umhverfinu. Í stuttu máli sagt sé nánast ómögulegt að sanna veikindi einstaklinga út frá þessari nálgun. “

Í viðbótargreinargerð Sjúkratrygginga Íslands, dags. 13. desember 2021, sem rituð er af Q, yfirtryggingalækni Sjúkratrygginga Íslands og sérfræðingi í atvinnu- og umhverfissjúkdómum, kemur eftirfarandi fram um greiningarskilyrði atvinnusjúkdóms eða umhverfissjúkdóms.

Yfirlýsing CDC (Centers for Disease Control), þess aðila sem hafi faglega ábyrgð á heilbrigðisþjónustu Bandaríkjanna:

„Mold can cause fungal allergy and respiratory infections or worsen certain illnesses such as asthma. Molds are microorganisms that are found virtually everywhere, indoors and outdoors. The potential health effects of exposure to indoor mold are of increasing concern. Nevertheless, no conclusive evidence exists that inhalation of indoor mold is associated with a multitude of other health problems.“

Þýðing á framangreindu:

„Mygla getur valdið myglusveppaofnæmi og öndunarfærasýkingum eða gert vissa sjúkdóma verri eins og astma. Myglusveppir eru örverur sem koma nánast alls staðar fyrir inni og úti. Möguleg áhrif þess að vera útsettur fyrir myglu innanhúss á heilbrigði hafa valdið vaxandi áhyggjum. Engu að síður er engin vissa fyrir því að innöndun myglu valdi margvíslegum öðrum áhrifum á heilsu en að ofan er talið.“

Með öðrum orðum sé ekki viðurkennt af þessum aðila að fólk fái eituráhrif af myglu í rakaskemmdu húsnæði. Ýmsir faglegir aðilar og leikmenn hafi verið með vangaveltur um að svo kunni að vera, en langt sé frá að það sé almennt viðurkennt af fagsamfélaginu. Bent sé á að sveppafræðingurinn, sem tilgreindur sé í athugasemdum kæranda, sé ekki læknir og með fullri virðingu fyrir kunnáttu viðkomandi á sérsviði sínu geti þessi sérfræðingur ekki fullyrt neitt um veikindi einstaklinga eða áhrif hugsanlegs sveppaeiturs í umhverfi fólks sem dvelji í rakaskemmdu húnsnæði. Einnig sé bent á að læknirinn, sem getið sé í athugasemdunum, sé ekki sérfræðilæknir.

Þar sem kærandi hafi ekki greinst með ofnæmi eða greinst með sveppasýkingu í öndunarfærum, hafi Sjúkratryggingar Íslands ekki viljað fallast á bótaskyldu í máli hennar á þeim forsendum að hún hafi orðið fyrir eituráhrifum. Þar fyrir utan telji Sjúkratryggingar Íslands ósannað að kærandi hafi andað að sér sveppaeitri.


 

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga vegna meints vinnuslyss X.

Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga taka slysatryggingar almannatrygginga til slysa við vinnu, iðnnám, björgunarstörf, hvers konar íþróttaæfingar, íþróttasýningar, íþróttakeppni eða heimilisstörf, enda sé hinn slasaði tryggður samkvæmt ákvæðum 7. eða 8. gr. laganna. Með slysi er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama hins tryggða og gerist án vilja hans. Samkvæmt 5. mgr. sömu greinar teljast til slysa sjúkdómar sem stafa af skaðlegum áhrifum efna, geislaorku eða öðru hliðstæðu sem ríkjandi eru í hæsta lagi fáeina daga og rekja verður til vinnunnar.

Í þágildandi 1. mgr. 6. gr. segir að þegar slys beri að höndum, sem ætla megi að sé bótaskylt samkvæmt lögunum, skuli atvinnurekandi eða hinn tryggði, sé ekki um atvinnurekanda að ræða, tafarlaust senda tilkynningu um slysið í því formi sem sjúkratryggingastofnunin skipar fyrir um til lögreglustjóra eða umboðsmanns hans (í Reykjavík til sjúkratryggingastofnunarinnar). Þá segir í 2. mgr. 6. gr. að sé vanrækt að tilkynna slys sé hægt að gera kröfu til bóta, sé það gert áður en ár sé liðið frá því að slysið bar að höndum. Heimilt sé þó að greiða bætur þótt ár sé liðið frá því að slys bar að höndum, séu atvik svo ljós að drátturinn torveldi ekki gagnaöflun um atriði sem máli skipti. Einnig segir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins.

Með stoð í 2. mgr. 6. gr. laganna, hefur verið sett reglugerð nr. 356/2005 um tilkynningarfrest slysa. Ákvæði 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar hljóðar svo:

„Skilyrði þess að fallið sé frá kröfu um að slys sé tilkynnt innan tilkynningarfrests er að fyrir liggi öll nauðsynleg gögn sem varpað geta ljósi á málið, þar með talið gögn frá þeim lækni sem sá slasaða fyrst eftir slys eða þeirri sjúkrastofnun sem hann leitaði fyrst til, svo og gögn um fyrra heilsufar slasaða. Jafnframt er skilyrði að fyrir liggi læknisfræðilegt mat á orsakasambandi, þ.e. að unnt sé að meta orsakasamband slyssins og heilsutjóns slasaða.“

Sjúkratryggingum Íslands barst tilkynning um slys kæranda 1. apríl 2020 og voru þá liðin X ár og X mánuðir frá því að meint slys átti sér stað. Frestur til að tilkynna slysið var þá liðinn samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga. Stofnunin synjaði bótaskyldu í málinu á þeirri forsendu að ekki væru uppfyllt skilyrði til að víkja frá árs tilkynningarfresti laganna. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt, að nánar tilteknum skilyrðum uppfylltum, að greiða bætur þótt liðið sé meira en ár frá slysi. Undantekningarákvæðið ber að skýra þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Skilyrði þess að vikið sé frá ársfrestinum er að ljóst sé að orsakasamband sé á milli slyss og þess áverka sem sótt er um bætur fyrir, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 356/2005.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur á það sjálfstætt mat hvort bótaskylda vegna meints slyss kæranda telst vera fyrir hendi og metur það á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægileg. Í tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands er slysinu lýst þannig:

„Í X hófust framkvæmdir á húsnæði hvar vinnuveitandi umbjóðanda míns var með starfsaöstðu sína, sökum myglu- og rakaskemmda. Sama dag byrjaði umbjóðandi minn að finna fyrir ýmsum líkamlegum einkennum og fóru þau stigvaxandi samhliða framkvæmdum. Um var að ræða höfuðverk, þurrk í augum og hálsi, hæsi, bólgur, stíflur í kinn- og ennisholum og hitavellur. Einkennin ágerðust og urður varnaleg en í dag lúta vandamál umbjóðanda míns fyrst og fremst að raddböndum, hún hefur misst röddina, fær endurteknar sýkingar og verður í kjölfarið verulega veik auk þess sem hún er að glíma við viðvarandi höfuðverk, verulega skert minni, skerta úrvinnsluhæfi ásamt öðrum kvillum. Samkvæmt meðfylgjandi vottorði E má ljóst vera að sjúkdómurinn sem umbjóðandi minn er að kljást við verði rakinn til viðveru hennar í húsnæðinu sem vinnuveitandi hennar var með starfsaðstöðu sína í.“

Í læknisvottorði R, læknis á Heilbrigðisstofnun G, dags. 3. maí 2019, kemur fram:

„VEIKINDIN & MEÐFERÐIR

A byrjaði á að leita sér aðstoðar á heilsugæslunni á G, kemur síendurtekið með efri loftvegasýkingar og öndunarfæraóþægindi. Fyrsta koman vegna slíkra einkenna er X. Hún hittir nokkra mismunandi lækna héðan af heilsugæslunni og er sett á ótal mismunandi sýklalyfjakúra og hóstastillandi meðferðir. Vinnuveitendavottorðin sem hún fékk á tímabilinu eru æði mörg.

Nóta frá X:

„Kvartar yfir því að missa röddina þegar að líður á daginn. Telur þetta geti stafað af myglu í starfshúsnæði. Var þá flutt til í starfi og sett á skrifstofu sem að er sérstaklega loftræst. Fór til ofnæmisllæknis þar kemur í ljós að hún er ekki með ofnæmi fyrir myglu. hún fór í myndatöku og var greind með sinusitis og fékk Azitromycin og avamys meðhöndlun.

  1. Er að missa röddina á hverjum degi, er aum í eitlum og þyngsli yfir andliti.“

Nóta frá X:

„Sjá síðustu nótu. Verður háls og fær hita (38.2°) og slappleika x4 í vikuni. Fékk Avamys og Azithromycin kúr sem að hjálpaði ekki. Ofnæmislæknir staðfestir að hún sé ekki með myglusvepsóþole eða ofnæmi. Þetta er búið að vera síðan í júlí í fyrra. Er búinn að vera í vinnu á G í öðru húsnæði án árangurs.

Er á leiðin til HNE læknis í RVK eftir hádegið.

Viðbót: Blóðprufur án athugarsemda og hún segir að HNE læknirinn hafi ekkert fundið.“

Ekkert virðist vinna á þessum veikindum og með tímanum fer A að fá hæsi og missa röddina. Hún missir alla stjórn á röddina og missir getuna til að beita röddinni. Fyrst er það eingöngu þegar hún er við vinnu í D. Hún fær að flytja vinnu sína heim til sín þegar ástandið er orðið viðvarandi og hún nær ekki að losna við óþægindin í hálsinum eða við hæsið.

Þá förum við að leita aðstoðar útfyrir heilsugæsluna.

- Hún fer í meðferð hjá sjúkraþjálfara sem sérhæfir sig í raddböndum.

- Hún fer til eins háls-, nef- og eyrnalæknis (HNE) sem meðhöndlar hana með sterkum innöndunarsterum. Svo fer hún til annars HNE sem sprautar hana með botox í raddböndin.

- Hún hefur meðferð hjá talmeinafræðingi.

Allt kemur fyrir ekki. Í dag hefur hún einungis náð að hluta til stjórn á hæsinu. Röddina hefur hún ekki fengið aftur.

Allt þetta ferli hefur vegið hart að A, við hverja árangurslausu tilraunina á fætur annarri jukust depurð og vonleysi og þunglyndi fór að gera vart við sig. Hún er sett í meðferð við því X.

FYRRA HEILSUFAR

A almennt hraust kona. Hún lenti í slæmu bílslyi X, þar sem hún átti við verkjavandamál að stríða í nokkur á og endaði á örorku vegna þess. Einnig hjartsláttaróregla, migreni og svefntruflun sem hún hefur verið í meðferð við. Þeas. raun ekkert sem getur tengst afleiðingum veikindanna með beinum hætti.

SAMANTEKT

A er X ára gömul almennt hraust kona. Hún fór að finna fyrir óþgæindum í öndunarfærum X. Fyrst um sinn eingöngu þegar hún var við vinnu í F. Með tímanum ágerðust einkennin og fóru að vera viðvarandi, þrátt fyrir að vera farin út af vinnustaðnum. Veikindin ráku hana á heilsugæslu margsinnis og í gegn um fjölda sýklalyfjakúra, meðferða hjá sérfræðingum, sprautum með botox, talmeinaþjálfun o.s.frv. án árangurs.

Afleiðingar þessarra veikinda eru viðvarandi hæsi og raddbeitingarvandi. Þar að auki mikið vonleysi og depurð.“

Þá liggur fyrir skýrsla læknis um meintan atvinnusjúkdóm, dags. 5. febrúar 2019, undirrituð af E lækni, þar sem segir:

„Hefur strfað hjá C og haft starfstöð í húsi D. Hæsi og aðrir raddkvillar, sem A hefur verið að kljást við tengjast veru í húsi D.“

Í máli þessu er ágreiningur um hvort heimilt sé þó að greiða bætur þótt ár sé liðið frá því að slys bar að höndum og þá hvort atvik séu svo ljós að drátturinn torveldi ekki gagnaöflun um atriði sem máli skipti. Við mat á því skiptir máli að fyrir liggi öll nauðsynleg gögn sem varpað geta ljósi á málið, þar með talin gögn frá þeim lækni sem sá slasaða fyrst eftir slys eða þeirri sjúkrastofnun sem hún leitaði fyrst til, svo og gögn um fyrra heilsufar hennar. Jafnframt er skilyrði að fyrir liggi læknisfræðilegt mat á orsakasambandi, þ.e. að unnt sé að meta orsakasamband slyssins og heilsutjóns slasaða. Hér að framan hefur komið fram að úrskurðarnefndin telur fyrirliggjandi gögn nægjanleg. Kemur þá til skoðunar hvort orsakasamband sé á milli sjúkdómseinkenna kæranda og þess að hún varð við vinnu sína útsett fyrir nálægð við myglu vegna rakaskemmda í húsnæði því sem hýsti vinnustað hennar. Fram kemur að einkenni hafi fyrst gert vart við sig þegar farið var að rífa niður klæðningu þar sem undir reyndist vera mygla í umtalsverðu magni. Við rannsóknir á sýnum úr myglunni greindust nokkrar tegundir myglusveppa, þeirra á meðal tegundir sem þekktar eru að því að geta valdið sjúkdómseinkennum í mönnum. Sé einstaklingur með ofnæmi fyrir myglu þarf ekki mikið magn af myglu til að hrinda einkennum af stað. Það á ekki við um kæranda samkvæmt prófun ofnæmislæknis. Hjá þeim sem ekki hafa ofnæmi geta einkenni engu að síður komið fram ef mygla er mikil að vöxtum og ef viðkomandi er útsettur fyrir henni nægilega lengi. Einkenni frá öndunarfærum teljast dæmigerð í þessu sambandi og eins og á við um flest sjúkdómseinkenni geta þau orðið viðvarandi (krónísk) ef þau standa nógu lengi, jafnvel þótt takist að fjarlægja sjúkdómsvaldinn.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála benda gögn málsins til þess að einkenni kæranda hafi tímanleg tengsl við útsetningu fyrir myglu í umtalsverðu magni og að sú útsetning hafi staðið nægilega lengi til að vera til þess fallin að valda sjúkdómseinkennum. Læknar kæranda hafa vottað að þeir telji orsakasamhengi þar á milli. Að öllu framansögðu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að meiri líkur en minni séu á því að orsakasamhengi sé á milli útsetningar kæranda fyrir myglu og sjúkdómseinkenna hennar. Skilyrði ákvæða þágildandi 2. mgr. 6. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga og reglugerðar nr. 356/2005 um tilkynningarfrest slysa, teljast því uppfyllt. Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga er því felld úr gildi og málinu vísað til Sjúkratrygginga Íslands til nýrrar meðferðar.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn A um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga, er felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar Sjúkratrygginga Íslands.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 



[1] https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC4982651/


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta