Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 30/2015

Miðvikudaginn 8. apríl 2015

30/2015

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins



ÚRSKURÐUR


Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 23. janúar 2015, kærir A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga kröfu Tryggingastofnunar ríkisins um endurgreiðslu meðlags og upphafstíma barnalífeyrisgreiðslna.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru eftirfarandi samkvæmt málsgögnum. Kærandi fékk greitt meðlag fyrir milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins í byrjun janúar 2015. Barnsfaðir kæranda lést X 2015. Með bréfi, dags. 19. janúar 2015, krafði stofnunin kæranda því um endurgreiðslu meðlags sem þegar hafði verið greitt vegna tímabilsins frá 4. janúar til 31. janúar 2015 að fjárhæð 23.395 kr. Í sama bréfi var kærandi upplýst um rétt hennar til barnalífeyris frá 1. febrúar 2015 og segir að áðurnefnd krafa muni koma til frádráttar á þeim greiðslum.

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir:

„2. Upplýsingar um kæruefni:

Ég A hef fengið greitt meðlag með dóttur minni. Barnsfaðir minn lést X s.l. Í framhaldi af því fékk ég bréf frá tryggingarstofnun þar sem mér er tilkynnt að meðlagið stöðvist X og jafnframt að ég skuldi tryggingarst. meðlag X – Z kr. 23.395. Jafnframt fæ ég barnalífeyrir frá tryggingarst. frá Y sem þýðir að ég fæ engar greiðslur með barninu megnið af X-Z.

3. Rökstuðningur fyrir kæru:

Mér finnst að tryggingarstofnun eigi að borga barnalífeyri um leið og meðlag stöðvast. Barnsfaðir fékk greiddan barnalífeyrir frá TR sem fór til innheimtustofnunar. Samkv. uppl. TR er barnalífeyrir greiddur frá 1. hvers mánaðar til mánaðarmóta. Hvers vegna fær faðirinn ekki barnal. út janúar til greiðslu á meðlagi eftir andlátsdag? Hver á að framfæra barnið þegar faðir er látinn?“

Með bréfi, dags. 29. janúar 2015, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins vegna kærunnar. Greinargerð, dags. 17. febrúar 2015, barst frá stofnuninni þar sem segir:

„1. Kæruefni

Kærð er stöðvun á milligöngu meðlagsgreiðslna frá X 2015 og endurkrafa þess frá þeim tíma.

2. Málavextir

Með bréfi Tryggingastofnunar dags. 19. janúar 2015 var kæranda tilkynnt að stofnunin myndi stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna með barni kæranda frá X 2015 og endurkrefja hann um ofgreitt meðlag frá þeim tíma til og með Z 2015, vegna andláts barnsföður kæranda og meðlagsgreiðanda.  Þá var kæranda einnig tilkynnt í bréfinu að samþykkt hefði verið að greiða kæranda barnalífeyri vegna andláts frá Y 2015.

3. Lög og reglur

63. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, með síðari breytingum, kveður á um það að hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum.

Í 4. gr. reglugerðar nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga, með síðari breytingum, segir að fyrirframgreiðsla meðlags frá Tryggingastofnun skuli nema sömu fjárhæð á mánuði og barnalífeyrir eins og hann er ákveðinn á hverjum tíma samkvæmt lögum um almannatryggingar.  Ef um er að ræða greiðslur fyrir hluta úr mánuði skal hver dagur reiknast sem 1/30 af mánaðarlegri fjárhæð meðlags.

Þá segir í 16. gr. reglugerðarinnar að hafi Tryggingastofnun ofgreitt meðlagsmóttakanda meðlag eða önnur framfærsluframlög eigi stofnunin endurkröfurétt samkvæmt almennum reglum.

Samkvæmt 20. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 er heimilt að greiða barnalífeyri með börnum yngri en 18 ára ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram.

Þá segir í 53. gr. laga um almannatryggingar að allar umsóknir skuli ákvarðaðar svo fljótt sem kostur er og skulu bætur reiknaðar frá þeim degi sem umsækjandinn hefur uppfyllt skilyrðin til bótanna.  Bætur skv. III. kafla, aðrar en lífeyrir skv. IV. kafla, reiknast þó frá fyrsta næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi og falla niður í lok þess mánaðar er bótarétti lýkur.

4. Niðurstaða

Meðlag telst ekki til bóta almannatrygginga heldur er Tryggingastofnun eingöngu milligönguaðili þess og það er síðan innheimt hjá hinum meðlagsskylda af Innheimtustofnun. Með reglugerð nr. 1315/2013 var gerð sú breyting á reglugerð nr. 945/2009 að milliganga Tryggingastofnunar á meðlagi reiknast nú hluta úr mánuði, ef réttur er eingöngu til staðar hluta úr mánuði.

Tryggingastofnun fékk X 2015 þær upplýsingar að barnsfaðir kæranda og meðlagsgreiðandi, B, hefði látist X 2015. Réttur til milligöngu Tryggingastofnunar á meðlagi var því ekki til staðar eftir X 2015 enda hinn meðlagsskyldi látinn og ekki hægt að innheimta það hjá honum eftir andlát hans. Því bar Tryggingastofnun að stöðva milligöngu meðlags til kæranda frá X 2015 og krefja hann tilbaka um það meðlag sem stofnunin hafði haft milligöngu um frá X 2015 til og með Z 2015.

Þá hefur Tryggingastofnun eingöngu heimild til að greiða kæranda barnalífeyri vegna andláts frá fyrsta næsta mánaðar eftir andlát barnsföður kæranda, þ.e. frá Y 2015, sbr. 53. gr. laga um almannatryggingar.“

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 19. febrúar 2015, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að krefja kæranda um endurgreiðslu á meðlagi sem greitt hafði verið fyrir janúar 2015 og upphafstíma barnalífeyrisgreiðslna.

Í kæru til úrskurðarnefndar telur kærandi að stofnuninni beri að greiða henni barnalífeyri frá þeim tíma sem meðlag stöðvist. Barnsfaðir hennar hafi fengið greiddan barnalífeyri sem hafi farið til innheimtustofnunar.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að réttur til milligöngu stofnunarinnar um meðlagsgreiðslur hafi ekki verið til staðar eftir andlátsdag barnsföður kæranda X 2015. Hinn meðlagsskyldi hafi verið látinn og ekki hægt að innheimta meðlagið frá honum eftir andlát hans. Þá segir að stofnunin hafi eingöngu haft heimild til að greiða kæranda barnalífeyri vegna andláts frá fyrsta næsta mánaðar eftir andlát barnsföður hennar, sbr. 53. gr. laga um almannatryggingar.

Í 63. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, segir að hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags samkvæmt úrskurðinum. Sama gildir þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur. Í máli þessu háttar svo til að kærandi fékk greitt meðlag í byrjun X 2015 vegna þess mánaðar fyrir milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins á grundvelli lögformlegrar meðlagsákvörðunar þar um. Barnsfaðir kæranda bar meðlagsskyldu en lést X 2015. Þar sem stofnunin hafði þegar haft milligöngu um meðlagsgreiðslur fyrir Xmánuð var því tekin ákvörðun um að endurkrefja kæranda um meðlag vegna tímabilsins X 2015 til Z 2015.  

Samkvæmt greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins byggir endurkrafan á 16. gr. reglugerðar um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga, nr. 945/2009, þar sem segir að hafi stofnunin ofgreitt meðlagsmóttakanda meðlag eða önnur framfærsluframlög samkvæmt reglugerðinni eigi stofnunin endurkröfurétt skv. almennum reglum. Við úrlausn þessa máls horfir úrskurðarnefnd hins vegar til þess að skv. 63. gr. laga um almannatryggingar er um fyrirframgreiðslu meðlags að ræða á grundvelli lögformlegrar meðlagsákvörðunar. Skilyrði milligöngunnar voru uppfyllt í byrjun mánaðar þegar greiðslan var innt af hendi og kærandi því með réttmætar væntingar til greiðslunnar fyrir Xmánuð.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að fella beri úr gildi endurkröfu Tryggingastofnunar ríkisins á hendur kæranda vegna ofgreidds meðlags á tímabilinu X 2015 til Z 2015.  

Kærandi hefur einnig gert athugasemdir við upphafstíma barnalífeyris hennar en Tryggingastofnun hefur fallist á greiðslur frá Y 2015. Í 20. gr. laga um almannatryggingar segir að barnalífeyrir sé greiddur með börnum yngri en 18 ára ef annað foreldra er látið. Því er ljóst að skilyrði barnalífeyris voru uppfyllt frá andlátsdegi barnsföður kæranda. Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar skulu bætur reiknaðar frá þeim degi sem umsækjandi hefur uppfyllt skilyrðin til bótanna en bætur skv. III. kafla reiknast þó frá fyrsta næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi. Ákvæði um barnalífeyri er að finna í III. kafla laga um almannatryggingar. Þegar af þeirri ástæðu liggur fyrir að upphafstími barnalífeyris kæranda er réttilega ákvarðaður frá 1. febrúar 2015, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar. Úrskurðarnefnd staðfestir því ákvörðun Tryggingastofnunar um upphafstíma barnalífeyris kæranda.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að krefja A, um ofgreitt meðlag er felld úr gildi. Upphafstími barnalífeyris kæranda er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta