Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 197/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 197/2016

Miðvikudaginn 8. febrúar 2017

A

gegn

Tryggingstofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 23. maí 2016, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 20. maí 2016 um endurupptöku á ellilífeyrisgreiðslum. Þá er óskað eftir hækkun á lífeyrisgreiðslum til framtíðar.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hóf töku ellilífeyris 1. janúar 2005. Með beiðni, dags. 31. mars 2016, var farið fram á að kærandi fengi afturvirka hækkun á ellilífeyrisgreiðslur frá árinu 2005 til þess dags vegna frestunar á töku ellilífeyris til 70 ára aldurs. Kæranda var synjað um endurupptöku á ellilífeyrisgreiðslum með bréfi, dags. 20. maí 2016.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. maí 2016. Með tölvubréfi sama dag óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 10. júní 2016, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. júní 2016. Engar athugasemdir bárust nefndinni.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að hann fái að njóta leiðréttingar á ellilífeyrisgreiðslur sínar frá 1. janúar 2007 til dagsins í dag vegna frestunar á töku ellilífeyris til 70 ára aldurs.

Þá segir að það sé ekki hægt að gera kröfu um að 70 ára gamalt fólk og eldra hafi þekkingu á tölvu og kunni almenn skil á þeim gögnum sem send séu til eldri borgara. Það sé nóg að lífeyris- og almannatryggingakerfið sé með ólíkindum og afspyrnu lélegur stuðningur til fólks og þegar lögum sé breytt sendi Tryggingastofnun ríkisins frá sér bréf sem eldra fólk kunni ekki skil á. Þannig sé Tryggingastofnun að færa ábyrgð á einstaklinga í stað þess að leiðrétta forsendur fólks sem koma ætti öllum til góða þegar lögum er breytt.

Kærandi krefst þess að honum sé ekki mismunað og að hann fái leiðréttingu sinna mála.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að synjað hafi verið beiðni kæranda um að greiðslur til hans miðist við frestun á töku lífeyris og að sú leiðrétting sé afturvirk til ársins 2005. Tryggingastofnun hafi litið svo á að í beiðni kæranda hafi falist ósk um endurupptöku á ákvörðun stofnunarinnar um útreikning á réttindum til kæranda, þ.á m. mögulegri hækkun vegna frestunar á töku ellilífeyris, frá árinu 2007.

Þá segir að með lögum nr. 166/2006, um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra, hafi verið lögfest ákvæði, nú 23. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007, um heimild til að fresta töku lífeyris, en ákvæðið sé svohljóðandi:

„Þeir sem eiga rétt á ellilífeyri skv. 17. gr. en hafa ekki lagt inn umsókn eða fengið greiddan ellilífeyri geta frestað töku lífeyris til 72 ára aldurs. Frestunin tekur til bóta skv. 17., 20. og 22. gr.

Eftir að bótaréttur hefur verið reiknaður út skal hækka ellilífeyri, tekjutryggingu og heimilisuppbót, sbr. 17. og 22. gr. laga þessara og 8. gr. laga um félagslega aðstoð, um 0,5% fyrir hvern frestunarmánuð fram til 72 ára aldurs eða að hámarki 30%.

Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessarar greinar.“

Þessi lagabreyting hafi tekið gildi 1. janúar 2007 og því geti einstaklingar fyrst frá þeim degi safnað réttindum á grundvelli ákvæðisins.

Kærandi hafi þegið greiðslur ellilífeyris óslitið frá árinu 2007 þegar lagabreytingin tók gildi. Lagabreytingin hafi verið vel kynnt, bæði gagnvart almenningi og bótaþegum. Kæranda hafi einnig verið kynntur réttur hans til greiðslna frá Tryggingastofnun með árlegum upplýsingabréfum sem send hafi verið til hans bréflega. Einnig hafi hann fengið mánaðarlega greiðsluseðla sem fyrst um sinn hafi verið sendir til hans bréflega en síðustu ár hafi verið birtir á Mínum síðum, lokuðu vefsvæði sem hann hafi aðgang að. Ekki hafi borist neinar athugasemdir frá kæranda við réttindi hans að þessu leyti frá því að lagabreytingin tók gildi.

Í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eigi aðili máls rétt á því að mál hans sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Einnig séu mál ekki tekin upp á nýjan leik ef meira en ár er liðið frá þeirri ákvörðun, sem óskað er endurupptöku á, nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Tryggingastofnun telur að skilyrði endurupptöku séu ekki uppfyllt í tilfelli kæranda. Einnig sé ljóst að væru skilyrðin uppfyllt þá væri mun lengri tími liðinn en ár frá því að þær lagabreytingar urðu sem kærandi telur sig geta byggt rétt sinn á og ekki séu veigamiklar ástæður til þess að endurupptaka málið.

Auk þess megi benda á að hugsanleg krafa sé að mestu fyrnd en réttur á einstökum mánaðarlegum greiðslum lífeyris almannatrygginga fyrnist á fjórum árum samkvæmt 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007, sbr. 6. gr. sömu laga.

Ósk kæranda um endurupptöku á útreikningi á lífeyrisréttindum hans, með hliðsjón af frestun á töku lífeyris, til ársins 2005 var því synjað.

Að lokum bendir Tryggingastofnun á að áður hafi reynt á það, fyrir forvera núverandi úrskurðarnefndar velferðarmála, frá hvaða tíma hægt hafi verið að safna réttindum á grundvelli 23. gr. almannatryggingalaga. Sú túlkun Tryggingastofnunar að það hafi fyrst verið frá 1. janúar 2007 að einstaklingar á aldrinum 67 til 72 ára hafi getað safnað réttindum á grundvelli ákvæðisins hafi í þeim tilvikum verið staðfest af úrskurðarnefnd almannatrygginga með úrskurðum í málum nr. 195/2007 og 269/2012. Kærandi hafi verið orðinn 72 ára þegar þessi heimild hafi tekið gildi þann 1. janúar 2007 og því aldrei getað áunnið sér réttindi á grundvelli þessara laga eftir gildistöku þeirra.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni kæranda um að hann njóti hækkunar á ellilífeyrisgreiðslur frá árinu 2007.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að í beiðni kæranda felist annars vegar beiðni um endurupptöku á fyrri afgreiðslu um ellilífeyri og hins vegar beiðni um að njóta hækkunar til framtíðar. Samkvæmt fyrirliggjandi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, sem er ágreiningsmál þessarar kæru, þá synjaði stofnunin kæranda um endurupptöku ákvörðunar um ellilífeyri með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ákvæða laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.

Ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga er svohljóðandi:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum máls. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.“

Ef vikið er að beiðni kæranda um endurupptöku á fyrri afgreiðslu um ellilífeyri þá liggur fyrir að kærandi hefur þegið ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins frá árinu 2005 en þá var kærandi orðinn 70 ára. Þann 1. janúar 2007 tók gildi breyting á almannatryggingalögunum samkvæmt breytingarlögum nr. 166/2006. Sett var ákvæði í 23. gr. laganna sem kvað á um heimild til frestunar á töku lífeyris. Ákvæðið hljóðaði svo:

„Þeir sem eiga rétt á ellilífeyri skv. 17. gr. en hafa ekki lagt inn umsókn eða fengið greiddan ellilífeyri geta frestað töku lífeyris til 72 ára aldurs. Frestunin tekur til bóta skv. 17., 20. og 22. gr.

Eftir að bótaréttur hefur verið reiknaður út skal hækka ellilífeyri, tekjutryggingu og heimilisuppbót, sbr. 17. og 22. gr. laga þessara og 8. gr. laga um félagslega aðstoð, um 0,5% fyrir hvern frestunarmánuð fram til 72 ára aldurs eða að hámarki 30%.

Heimilt er að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessarar greinar.“

Kærandi byggir á því að hækka hafi átt ellilífeyrisgreiðslur til hans með vísan til þessa ákvæðis þar sem hann hafi frestað töku lífeyris til 70 ára aldurs. Beiðni kæranda um hækkun barst Tryggingastofnun rúmlega níu árum eftir að lagaákvæðið tók gildi og því þurfa veigamiklar ástæður að vera fyrir hendi svo að unnt sé að endurupptaka greiðslur til hans frá þeim tíma, sbr. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi hefur allan þann tíma sem hann hefur þegið ellilífeyri ekki gert athugasemdir við útreikning hans.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, sem giltu á árinu 2007, fellur skuld eða önnur krafa, sem ekki hefur verið viðurkennd eða lögsótt innan þeirra tímamarka sem ákveðin eru í lögunum, úr gildi fyrir fyrningu. Kröfur um lífeyri fyrnast á fjórum árum samkvæmt þágildandi 2. tölul. 3. gr. laganna. Sá frestur gildir um einstakar gjaldfallnar ellilífeyrisgreiðslur. Þá er almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda fjögur ár samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Sá frestur gildir um einstakar gjaldfallnar ellilífeyrisgreiðslur, sbr. 3. málsl. 6. gr. laganna. Með vísan til framangreinds er ljóst að krafa kæranda um að njóta hækkunar á ellilífeyri vegna frestunar á töku lífeyris er að mestu leyti fyrnd. Þá horfir úrskurðarnefndin til þess við mat á því hvort veigamiklar ástæður séu fyrir endurupptöku málsins að sá hluti hugsanlegrar kröfu sem ekki er fyrndur varðar liðið tímabil og framfærslu kæranda á þeim tíma er lokið.

Að mati úrskurðarnefnd velferðarmála eru skilyrði fyrir endurupptöku ekki uppfyllt í tilfelli kæranda. Því er staðfest synjun Tryggingastofnunar ríkisins um endurupptöku á lífeyrisgreiðslum til kæranda.

Eins og áður hefur komið fram telur úrskurðarnefnd velferðarmála að kærandi hafi með beiðni sinni til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 31. mars 2016, einnig verið að óska eftir hækkun á ellilífeyrisgreiðslum til framtíðar. Líkt og kærð ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins ber með sér hefur stofnunin ekki formlega tekið afstöðu til hugsanlegs réttar kæranda til að njóta hækkunar á ellilífeyrisgreiðslum til framtíðar. Úrskurðarnefndin hefur ekki heimild til að úrskurða um framangreinda kröfu kæranda fyrr en Tryggingastofnun hefur tekið stjórnvaldsákvörðun um þetta atriði, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Með hliðsjón af framangreindu er þessum hluta málsins vísað til Tryggingastofnunar ríkisins til úrlausnar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins um endurupptöku á ellilífeyrisgreiðslum til A, er staðfest. Kröfu kæranda um hækkun á ellilífeyrisgreiðslum til framtíðar er vísað til Tryggingastofnunar ríkisins til úrlausnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta