Mál nr. 641/2020 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 641/2020
Miðvikudaginn 10. mars 2021
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.
Með rafrænni kæru, móttekinni 4. desember 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 1. desember 2020 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn 13. nóvember 2020. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. desember 2020, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 4. desember 2020. Með bréfi, dags. 8. desember 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 6. janúar 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. janúar 2021. Þann 8. mars 2021 bárust viðbótargögn frá kæranda og voru þau send Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. mars 2020.
II. Sjónarmið kæranda
Af kæru má ráða að kærandi óski þess að ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja umsókn hennar um örorkulífeyri verði endurskoðuð.
Í kæru kemur fram að Tryggingastofnun hafi synjað umsókn kæranda um örorku í annað skiptið. Í fyrra skiptið hafi hún átt fjóra mánuði eftir af endurhæfingu sem hún hafi klárað eftir úrskurð úrskurðarnefndarinnar. Tryggingastofnun hafi nú synjað henni á þeim forsendum að hún hafi lent í árekstri í X og að hún sé ólétt. Kærandi sé enn í stuðningi úr endurhæfingunni og hún sé búin að fara í greiningu hjá Þraut. Kærandi sé kvíðasjúklingur með mikla gigt, complex PTSD, spasma í vöðvum (hún eigi erfitt með að slaka á vöðvaspennu án aðstoðar lyfja), hjartsláttartruflanir og sé reglulega í sprautum hjá gigtarlækni vegna þess hversu oft hún sé að festast í bakinu. Ef hún gæti myndi hún með glöðu geði mæta til vinnu á hverjum degi.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkulífeyri.
Umsókn kæranda um örorkumat hafi verið synjað með bréfi, dags. 1. desember 2020, með vísan til þess að ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku hennar þar sem meðferð og endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Tekið hafi verið fram í bréfinu að samkvæmt meðfylgjandi gögnum væri kærandi enn að ná sér eftir bílslys fyrr á árinu, auk þess sem að hún væri þunguð og biði þess að fæða barn sitt [...]. Á þeim forsendum hafi ekki verið talið tímabært að meta örorku hjá henni og hafi því beiðni um örorkumat verið synjað.
Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. eða örorkustyrk samkvæmt 19. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.
Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. Hins vegar sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum.
Í 37. gr. laga um almannatryggingar sé meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins og hafi því öllu verið sinnt í þessu máli.
Málavextir séu þeir að kærandi hafi fyrst sótt um örorkulífeyri hjá Tryggingastofnun þann 17. desember 2019 og aftur þann 13. nóvember 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 1. desember 2020, hafi kæranda verið synjað um örorkumat samkvæmt 18. gr. og 19. gr. laga um almannatryggingar í síðara skiptið þar sem stofnunin hafi talið endurhæfingu enn ekki fullreynda í hennar tilviki, þrátt fyrir að 36 mánaða rétti til endurhæfingarlífeyris samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð væri lokið. Sé það sú ákvörðun sem kærð sé í þessu máli. Fyrri synjun kæranda um örorkumat hafi einnig verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 14/2020 og hafi nefndin staðfest synjun stofnunarinnar.
Kærandi hafi verið á endurhæfingarlífeyrisgreiðslum hjá Tryggingastofnun vegna læknisfræðilegs vanda frá 1. febrúar 2017 til 30. nóvember 2020. Kærandi hafi því lokið 36 mánuðum á endurhæfingarlífeyri. Á þeim tíma hafi kærandi stundað endurhæfingu sína nokkuð stöðugt og hlotið nokkurn bata. Kærandi hafi á þeim tíma meðal annars notið liðsinnis félagsráðgjafa hjá Hringsjá og X við gerð endurhæfingaráætlana, auk geðlæknis og annarra fagaðila ásamt aðstoð heimilislækna og sérgreinalækna vegna stoðkerfisverkja sinna. Þá hafi ýmsar stofnanir og samtök komið að endurhæfingunni eins og Hringsjá og Grettistak.
Við mat á umsókn um örorkulífeyri styðjist tryggingalæknir við þau gögn sem hafa legið fyrir hverju sinni. Við matið að þessu sinni hafi legið fyrir umsókn, dags. 13. nóvember 2020, og læknisvottorð B, dags. 11. nóvember 2020, og svör kæranda við spurningalista vegna færniskerðingar, dags. 13. nóvember 2020. Þá hafi einnig verið til staðar eldri gögn vegna fyrri mata á endurhæfingarlífeyri hjá kæranda.
Í læknisvottorði, sem hafi legið fyrir við synjun Tryggingastofnunar á örorkumati þann 1. desember 2020, komi fram upplýsingar um andlegan vanda, þ.e. kvíða (F41,9) og svefntruflun (F51,0). Þá séu líkamleg einkenni fólgin í liðverkjum (M79,9), verk (R52,9) og festumeini (M77,9) ásamt vefjagigt (M79,7), ótilgreindri gigt (M79,0), hjartsláttaróþægindum (R00,2) og óreglulegum hjartslætti (R00,2). Í vottorðinu komi fram að kærandi sé gengin X vikur plús einn dag og sé settur dagur vegna fæðingar barnsins [...]. Þá sé tekið fram að kærandi sé mjög slæm af verkjum í stoðkerfi og hún sé alltaf að vakna að eigin sögn og sé af þeim sökum í eftirliti hjá gigtarlækni. Einnig telji læknirinn samkvæmt samtali við kæranda að andlega hliðin sé allt í lagi eins og sé miðað við aðstæður. Jafnframt telji læknirinn að núna sé kærandi óvinnufær en að búast megi við að færni aukist með tímanum og að þá sé vonast eftir að líkamlegt ástand lagist og að kærandi geti þá komist aftur á vinnumarkað. Sótt sé um örorku fyrir kæranda vegna þess að rétti til endurhæfingarlífeyris sé lokið hjá Tryggingastofnun.
Af ofangreindum forsendum telji læknar Tryggingastofnunar meðferð kæranda í formi endurhæfingar ekki fullreynda og þar af leiðandi sé ekki tímabært að meta örorku, þrátt fyrir að 36 mánuðum hafi verið náð á endurhæfingarlífeyri hjá stofnuninni samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Auk þess sem í læknisvottorði komi fram að vandinn muni lagast með tímanum.
Þá vilji stofnunin taka fram að þrátt fyrir að mat meðferðaraðila hafi legið fyrir í málinu eigi það ekki að vera til marks um hvenær endurhæfing teljist fullreynd í tilviki kæranda þar sem fremur stutt sé síðan umferðarslys kæranda varð og [...] og þurfi tíma til að ná fullum kröftum á ný.
Samkvæmt þeim forsendum sem hafi verið raktar telji Tryggingastofnun það vera í fullu samræmi við öll gögn málsins að synja kæranda um örorkumat að svo stöddu þar sem talið sé að enn sé hægt að vinna með heilsufarsvanda hennar. Sé þar bæði horft til þess hvers eðlis heilsufarsvandi kæranda sé og þeirra endurhæfingarúrræða sem séu í boði.
Þá skuli áréttað að það sé ekki hlutverk Tryggingstofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna kæranda, þ.e. að koma umsækjendum um endurhæfingarlífeyri og/eða örorkulífeyri í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni.
Í ljósi alls ofangreinds sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að afgreiðsla stofnunarinnar á umsókn kæranda, þ.e. að synja henni um örorkumat að svo stöddu og sjá hver frekari framvinda verði í málum kæranda, hafi verið rétt áður en til örorkumats komi.
Nokkur fordæmi séu fyrir því í úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem tekið sé undir að Tryggingastofnun hafi heimild samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga um félagslega aðstoð til að fara fram á það við umsækjendur um örorkubætur að þeir gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi. Sjá meðal annars í þessu samhengi úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í málum nr. 57/2018, 234/2018, 299/2018, 338/2018, 235/2019, 260/2019, 350/2019, 375/2019, 380/2019, 383/2019 og 24/2020 ásamt fleiri sambærilegum úrskurðum frá síðastliðnu ári.
Í kærunni og öllum öðrum gögnum málsins komi fram að kærandi hafi lokið 36 mánuðum á endurhæfingarlífeyri og eigi því ekki rétt á frekari greiðslum endurhæfingarlífeyris hjá Tryggingastofnun þar sem sá réttur sé tæmdur. Í því sambandi vilji Tryggingastofnun taka fram að mat á því hvort endurhæfing sé fullreynd miðist við læknisfræðilegar forsendur endurhæfingarinnar en ekki önnur atriði eins og til dæmis framfærslu viðkomandi, búsetu eða aðrar félagslegar aðstæður hans eða hvort viðkomandi uppfylli ekki einhver önnur skilyrði endurhæfingarlífeyris hjá stofnuninni. Það sjónarmið hafi einnig verið staðfest í mörgum úrskurðum úrskurðarnefndarinnar eins og til dæmis úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála í málum nr. 20/2013, 33/2016, 352/2017 og 261/2018.
Tryggingastofnun vilji að lokum ítreka það að stofnuninni sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkumat hjá stofnuninni gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Stofnunin telji ljóst að endurhæfing sé ekki fullreynd í tilfelli kæranda, auk þess sem óvinnufærni ein og sér eigi ekki endilega að leiða til örorkulífeyris hjá Tryggingastofnun frekar en það að rétti til endurhæfingarlífeyris hjá sömu stofnun sé lokið.
Jafnframt skuli áréttað að kærð ákvörðun hafi byggst á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 1. desember 2020 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing sé ekki fullreynd, þrátt fyrir að kærandi hafi fullnýtt endurhæfingarlífeyri samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.
Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.
Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:
„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.
Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“
Í læknisvottorði B, dags. 11. nóvember 2020, eru tilgreindar eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:
„[Svefntruflun
Liðverkir
Óreglulegur hjartsláttur
Verkur
Kvíði
Hjarsláttaróþægindi
Festumein
Gigt, ótilgreind
Vefjagigt]“
Um heilsuvanda og færniskerðingu segir:
„Er ólétt, gengin x settur dagur er x.
Er mjög slæm af verkjum í stoðkerfi, er að vakna grátandi af verkjum að eigin sögn, hún er í eftirliti hjá C gigtarlækni. Andlega hliðin er allt í lagi eins og er að hennar sögn miðað við aðstæður.“
Samkvæmt vottorðinu er kærandi óvinnufær en fram kemur að búast megi við að færni hennar aukist með tímanum. Í athugasemdum segir:
„Hún er búin með fulla endurhæfingu, hún er búin að fá síðustu greiðsluna frá endurhæfingunni núna 1.nóv. Ég vonast til að hún komist í betra líkamlegt stand seinna meir, og vonandi kemst hún aftur á vinnumarkaðinn, en það verður tíminn að leiða í ljós.“
Einnig liggur fyrir læknisvottorð B, dags. 17. desember 2019, vegna fyrri umsóknar kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Þar segir um fyrra heilsufar:
„X ára kona með mikla neyslusögu að baki. Átt erfiða æsku […]. Ekki verið í neyslu frá X og gengið vel. Fór þá í meðferð. Fyrst á geðdeild LSH, Vog og eftirmeðferð og áfangaheimili. [...] Fór í Grettistak.
Tilvísun til Þrautar sept 2018, er búin að skoða þetta vel. Hefur verið í Hringsjá.
stefnir á að fara í [nám] e. þetta í X.
[…]
Hún er búin með 3 ár í endurhæfingu. Treystir sér alls ekki útá vinnumarkaðinn eins og staðan er á henni núna, er slæm andlega og líkamlega.
Hefur verið edrú og gengið mjög vel, finnur ekki fyrir neinni löngun í vímuefni.“
Um heilsuvanda og færniskerðingu segir:
„sjá að ofan, er í eftirliti hjá C gigtarlækni, fær regl. sprautur í stoðkerfið (bak, axlir, herðar, mjaðmir). er að taka seloken 23,75mg hálf x 1-2 á dag v/hjartsl.truflunar, finnst það stundum vera lengi að slá á einkenni.
Hefur tekið omeprazol 1 á dag, fannst það slá á einkenni frá meltingarfærum (gutl í maga og verkir), finnst það vera hætt að virka. Reykir. […]
Ristilkrampar, ráðl varðandi mataræði, low fod map.
Ráðl núvitund/slökun.
Lýsir heilaþoku af og til yfir daginn.
Svimi þegar hún reisir sig hratt upp. Ráðl.
Hefur upplifað nokkrum sinnum að hún finni mikla spennu í líkamanum og svo eru t.d. handleggir farnir að herpast, hún þarf meðvitað að losa um þá. Hefur verið að gnísta tönnum mikið, er komin með bitgóm, finnur mikla spennu í kjálkavöðvum.
Verið slæm í baki undanfarið, hefur ekki getað sofið almennilega vegna verkja.
Fékk áðan verk í hæ hné þegar hún sat kyrr, ekki trauma, fannst eins og eitthvað hefði rifnað.
Býr með kærastanum sínum [...] hjá X [...]. Þau ná vonandi að flytja í eigið húsn. fyrir X 2020. Kærastinn hennar veitir henni góðan stuðning.“
Í bréfi D, félagsráðgjafa/verkefnisstjóra hjá Velferðarsviði Reykjavíkur, dags. 2. apríl 2020, segir:
„Endurhæfing í Grettistaki
A hóf þátttöku í undirbúningi að endurhæfingu fyrir einstaklinga með fíknsjúkdóm í X 2016. A hóf síðan eiginlega þátttöku í endurhæfingarúrræði Grettistaks í X 2017.
[…]
A hefur verið í endurhæfingu Grettistaks frá því 15.3.2017 með hléi og líkur 36 mánaða endurhæfingu í lok nóvember 2020. A útskrifaðist úr Hirngsjá í maí 2019. A fór í X [...] 2019 og útskrifaðist úr 1. áfanga í X 2019. A hefur nýtt sér endurhæfinguna í Grettistaki eftir bestu getu. A ætlaði að klára [...]. Hún varð að hætta námi í X 2020 þar sem hún lenti í bílslysi [...] 2020. A er illa haldin eftir bílslysið sérlega í baki og hálsi. Hún er jafnframt snertiaum í hjám og þjáist af höfuðverk vegna höfuðmeiðsla. Fyrir þjáist A af áfallastreytu og vefjagigt. Eftir slysið hafa eikenni áfallastreytu, vefjagigtar og fíknisjúkdóms aukist. A er því alveg óvinnufær vegna fyrrgreyndra þátta og er aftur farin að takast á við fíkn samhliða öðrum einkennum.
A hefur nýtti sér endurhæfinguna í Grettistaki eftir bestu getu. Hún sýnir vilja í að standa sig og vinna í bata sínum þrátt fyrir önnur andleg og líkamleg veikindi og sem hún er að takast á við. Að mati undirritaðrar hefur A síðustu mánuði stundað prógrammið oft af meiri vilja en mætti.
Stoðkerfisvandi og geðraskannir A hamla því að hún geti stundað fullt nám og/eða vinnu að lokinni endurhæfingu í Grettistaki.
Undirrituð telur að endurhæfing A sé fullreynd.
[…]“
Meðal gagna málsins liggur endurhæfingaráætlun Grettistaks, dags. 22. júlí 2020, og þar segir í greinargerð frá endurhæfingaraðila:
„A hóf þátttöku í endurhæfingarúrræðinu Grettistaki á X 2017 vegna fíknisjúkdóms. […] A hefur nýtt sér endurhæfinguna í Grettistaki vel eða eftir bestu getu. A ætlaði að klára [...]. Hún varð að hætta námi í X 2020 þar sem hún lenti í bílslysi [...] 2020. A er illa haldin eftir bílslysið sérlega í baki og hálsi. […] Fyrir þjáist A af áfallastreitu og vefjagigt. Eftir slysið hafa einkenni áfallastreytu, vefjagigtar og fíknisjúkdóms aukist. A er því alveg óvinnufær vegna fyrrgreyndra þátta og er aftur farin að takast á við fíkn samhliða öðrum einkennum.
A vill klára þá 4 mánuði sem hún á eftir í 36 mánaða endurhæfingu til að byggja sig upp andlega og líkamlega til þess að geta komist áfram í nám og síðan á vinnumarkað.“
Fyrir liggur einnig greining og endurhæfingarmat frá Þraut í kjölfar mats og viðtala 12. og 26. ágúst 2020.
Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar svaraði kærandi spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni. Af svörum hennar verður ráðið að hún eigi erfitt með ýmsar daglegar athafnir sökum verkja og þreytu. Kærandi svaraði spurningu um það hvort hún hafi átt við geðræn vandamál að stríða játandi og kvaðst vera með áfallastreitu og kvíða.
Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er Tryggingastofnun heimilt að gera það að skilyrði að umsækjandi um örorku gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem hún sé að ná sér eftir bílslys í [...] 2020 og að hún sé þunguð og eigi von á sér í X 2020. Í bréfinu er kæranda leiðbeint um að hafa samband við heimilislækni til að leita ráðgjafar um þau endurhæfingarúrræði sem í boði eru.
Fyrir liggur að kærandi býr við ýmis vandamál af geðrænum og líkamlegum toga og hefur hún verið í umtalsverðri endurhæfingu vegna þeirra í 36 mánuði en ekki er heimilt samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð að greiða endurhæfingarlífeyri í lengri tíma. Samkvæmt læknisvottorði B, dags. 11. nóvember 2020, telur hún kæranda vera óvinnufæra en búast megi við að færni geti aukist með tímanum. Í vottorðinu segir að vonast sé til að kærandi komist í betra líkamlegt ástand seinna meir og að tíminn muni leiða það í ljós hvort hún komist aftur á vinnumarkaðinn. Samkvæmt bréfi D, dags. 2. apríl 2020, hefur kærandi nýtt sér endurhæfingu eftir bestu getu og undir lokin meira af vilja en mætti. Það sé mat D að endurhæfing kæranda sé fullreynd. Í endurhæfingaráætlun Grettistaks, dags. 22. júlí 2020, kemur fram að í kjölfar slyssins hafi einkenni áfallastreitu, vefjagigtar og fíknsjúkdóms aukist og að hún sé aftur farin að takast á við fíkn samhliða öðrum einkennum.
Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af læknisvottorði B og bréfi og endurhæfingaráætlun Grettistaks að starfsendurhæfing sé fullreynd. Af þeim upplýsingum sem fyrir liggja um heilsufar kæranda fær úrskurðarnefnd ráðið að meiri líkur en minni séu á að kærandi þurfi langan tíma í læknismeðferð áður en tímabært verði að reyna hugsanlega starfsendurhæfingu á ný. Þá horfir úrskurðarnefndin til þess að kærandi hefur nú þegar reynt starfsendurhæfingu í 36 mánuði. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að frekari starfsendurhæfing sé ekki raunhæf að sinni eins og ástandi kæranda er háttað. Úrskurðarnefndin telur því rétt að Tryggingastofnun ríkisins meti örorku kæranda samkvæmt örorkustaðli að undangenginni læknisskoðun.
Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er felld úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. desember 2020, um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Málinu er vísað til Tryggingastofnunar á ný til mats á örorku kæranda.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir