Mál nr. 345/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 345/2024
Miðvikudaginn 9. október 2024
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 29. júlí 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. maí 2024 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2023.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2023. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. maí 2024, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna fyrir árið 2023 hafi leitt í ljós 5.670 kr. inneign Kærandi andmælti endurreikningnum og var því svarað með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. júlí 2024.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. júlí 2024. Með bréfi, dags. 30. júlí 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 3. september 2024, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærður sé ítrekaður rangur útreikningur Tryggingastofnunar ríkisins á réttindum og greiðslum til kæranda á árinu 2023. Útreikningnum var andmælt og andmælunum hafi verið svarað með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 15. júlí 2024, en svörin hafi verið full af rangfærslum. Kærandi hafi tvívegis reynt að ítreka þetta til Tryggingastofnunar, en hafi ekki fengið nein svör.
Í bréfi Tryggingastofnunar komi fram að endurreiknuð réttindi í samræmi við endanlegar tekjuforsendur skattframtals hafi verið 588.842 kr. Útreikningur kæranda sé aftur á móti eftirfarandi:
„Grunnlífeyrir 2023 3.740.124 GL = 315.525 * 6 + 307.829 * 6
Lífeyristekjur alls 7.007.898 Lsj úr framtali
Fjármagnstekjur fjsk 234.187 FjT úr framtali
Erl lífeyrir jan-apr 347.415 EL Erlendur lífeyrir eftir apríl veldur ekki skerðingu.
Frestunarálag 17,5% FÁ skv TR
Réttindi ársins = ( GL - ( Lsj + FjT/2 + EL - 300.000 ) * 0,45 ) * ( 1 + FÁ) = 602.236
- en ekki 588.842.“
Yfirlit Tryggingastofnunar yfir greiðslur passi við tölur kæranda að öðru leyti en því að þar vanti endurgreiðslu til hans 26. júní 2023 að fjárhæð 25.000 kr. sem samsvari 40.290 kr. fyrir skatt. Greiðslur til kæranda á árinu séu því:
„Greiðsla Stgr Útborgun
Greiðslur skv. yfirliti 621.988 236.046 378.838
Endurgreitt 26.6 -40.290 -15.290 -25.000
Greiðslur alls 581.698 220.756 353.838“
Furðukrafan frá 25. september 2023 komi málinu ekki við, enda hafi kærandi ekki greitt hana og ítrekað bent á hversu fáránleg hún sé.
Tryggingastofnun þurfi því að gera upp við kæranda samkvæmt eftirfarandi:
„Réttindi 602.236 228.548 373.687
Greiðslur alls 581.698 220.756 353.838
Uppgjör 20.538 7.792 19.849“
Greiðsla Tryggingastofnunar til kæranda að fjárhæð 5.670 kr. komi til frádráttar þannig að stofnunin skuldi kæranda 14.179 kr.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2023.
Fyrir gildistöku breytingarlaga nr. 18/2023 hafi verið fjallað um útreikning ellilífeyris í III. kafla þágildandi laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi verið kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun skyldi standa að útreikningi bóta.
Samkvæmt 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi Tryggingastofnun borið að líta til tekna við útreikning bóta, meðal annars ellilífeyris, sbr. 33. gr. núgildandi laga um almannatryggingar. Í 2. mgr. sömu greinar hafi sagt að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teldust tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teldist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum, sbr. 30. gr. núgildandi laga um almannatryggingar.
Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi ellilífeyrir lækkað um tiltekið hlutfall af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn félli niður. Í 2. málsl. málsgreinarinnar hafi sagt að ellilífeyrisþegar skyldu hafa sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna.
Eftir gildistöku breytingarlaganna 12. apríl 2023 hafi verið fjallað um útreikning ellilífeyris í breyttum III. kafla laga um almannatryggingar. Samkvæmt 21. gr. núgildandi laga um almannatryggingar lækki ellilífeyrir um tiltekið hlutfall af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 22. gr., uns lífeyririnn falli niður. Í 3. mgr. 22. gr. sé kveðið á um almennt og sérstakt frítekjumark ellilífeyrisþega.
Í þágildandi og núgildandi 20. gr. laga um almannatryggingar segi að hafi töku ellilífeyris verið frestað skuli fjárhæð ellilífeyris hækka hlutfallslega til frambúðar, byggt á tryggingafræðilegum grunni, reiknað frá ellilífeyrisaldri fram til þess tíma er taka lífeyris hefst.
Samkvæmt 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi Tryggingastofnun borið að líta til tekna við útreikning bóta, meðal annars endurhæfingarlífeyris. Í 2. mgr. greinarinnar hafi sagt að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teldust tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teldist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum, sbr. 30. gr. núgildandi laga um almannatryggingar. Þar á meðal séu fjármagnstekjur á borð við vexti og verðbætur og söluhagnað. Sambærilegt ákvæði sé nú að finna í 22. gr. núgildandi laga.
Í 5. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi sagt að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skyldi leggja 1/12 af áætluðum tekjum greiðsluþegans á bótagreiðsluárinu. Auk þess hafi komið fram að áætlun um tekjuupplýsingar skyldi byggjast meðal annars á nýjustu upplýsingum frá greiðsluþega, sbr. 39. gr. laganna þar sem hafi sagt að greiðsluþega væri skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem gætu haft áhrif á bætur eða greiðslur. Sambærilegt ákvæði sé að finna í 33. gr. núgildandi laga.
Í 6. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi komið fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna, sbr. 33. gr. núgildandi laga. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009.
Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem komi fram í skattframtölum.
Komi í ljós við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar hafi farið um það samkvæmt 55. gr. þágildandi laga um almannatryggingar, sbr. 34. gr. núgildandi laga. Í ákvæðunum sé Tryggingastofnun skylduð til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.
Um miðbik árs 2023 hafi Tryggingastofnun endurskoðað meðferð á erlendum lífeyri við útreikning á lífeyrisgreiðslum frá stofnuninni, í samræmi við breytingar sem hafi verið gerðar á lögum um almannatryggingar í apríl sama ár, sbr. lög nr. 18/2023. Breytingin hafi falist í því að frá 1. maí 2023 hafði lífeyrir almannatrygginga frá ríkjum sem Ísland hafði gert samninga við, í samræmi við nánari ákvæði samninganna, ekki áhrif við útreikning á lífeyrisgreiðslum frá Tryggingastofnun.
Kærandi hafi þegið ellilífeyri frá Tryggingastofnun allt árið 2023.
Undir lok árs 2022 hafi Tryggingastofnun gert tillögu að tekjuáætlun ársins 2023, þar sem gert hafi verið ráð fyrir lífeyrissjóðstekjum að upphæð 6.754.320 kr., erlendum lífeyrissjóðstekjum að upphæð 1.024.923 kr. (6.568 SEK) og fjármagnstekjum að upphæð 96.000 kr. Fjármagnstekjur hjóna séu sameiginlegar og hafi áhrif til helminga gagnvart hvoru fyrir sig við útreikning.
Stofnuninni hafi borist uppfærð tekjuáætlun vegna ársins 2023 þann 15. desember [2022] þar sem kærandi hafi gert ráð fyrir að lífeyrissjóðstekjur ársins yrðu 6.754.320 kr., erlendar lífeyristekjur yrðu 1.118.344 kr. (7.167 SEK) og fjármagnstekjur ársins yrðu 120.000 kr. Þessar forsendur hafi verið lagðar til grundvallar greiðslum kæranda í upphafi árs 2023.
Þann 26. maí 2023 hafi Tryggingastofnun borist á ný uppfærð tekjuáætlun frá kæranda þar sem áætlaðar lífeyrissjóðstekjur ársins hafi verið hækkaðar upp í 6.950.000 kr. Réttindi kæranda hafi í kjölfarið verið endurreiknuð til samræmis við þessar breyttu forsendur. Greiðsluréttur kæranda hafi þá lækkað út árið og krafa hafi myndast vegna þeirra mánaða sem þegar hafi verið greiddir út á grundvelli lægri tekjuforsenda. Þannig hafi réttindin sem þegar hafi verið greidd lækkað um 51.738 kr. og að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta hafi staðið eftir krafa til innheimtu að upphæð 32.103 kr. Kæranda hafi verið tilkynnt að krafan kæmi ekki til innheimtu fyrr en í kjölfar uppgjörs ársins 2023 sem fram færi árið 2024, sbr. bréf stofnunarinnar dags. 26. júní 2023. Sama dag hafi verið bókuð 25.000 kr. innborgun frá kæranda sem hafi gengið upp í þessa kröfu, svo að eftirstöðvar hennar hafi verið 7.104 kr.
Þann 1. júlí 2023 hafi fjárhæð fulls ellilífeyris hækkað, sbr. reglugerð 690/2023.
Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 16. ágúst 2023, hafi kæranda verið tilkynnt um breytta meðferð erlendra tekna við útreikning stofnunarinnar í kjölfar lagabreytinga sem hafi tekið gildi þann 1. apríl 2023. Í kjölfarið hafi réttindi kæranda verið endurreiknuð og 195.886 kr. inneign hafi myndast fyrir þá mánuði sem þegar hafi verið greiddir á árinu. Að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta og eftirstöðva af áðurnefndri 7.104 kr. kröfu, hafi myndast 114.443 kr. inneign sem hafi verið greidd til kæranda.
Ný tekjuáætlun hafi borist frá kæranda. dags. 2. september 2023, og þar hafi áætlaðar lífeyrissjóðstekjur verið hækkaðar upp í 7.500.000 kr. og fjármagnstekjur í 240.000 kr. Samkvæmt þessum breyttu forsendum hafi réttindi ársins verið endurreiknuð og krafa hafi myndast vegna þeirra mánaða sem þegar hafi verið greiddir. Réttindi kæranda hafi lækkað um 202.702 kr. og að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta hafi staðið eftir 125.777 kr. krafa sem yrði ekki innheimt fyrr en að loknu uppgjöri ársins 2023.
Við uppgjör ársins 2023 hafi réttindi kæranda verið endurreiknuð í samræmi við endanlegar tekjuforsendur ársins. Samkvæmt þeim hafi lífeyrissjóðs- og fjármagnstekjur kæranda á árinu verið ofáætlaðar. Nánar tiltekið hafi lífeyrissjóðstekjur verið 7.007.898 kr. og fjármagnstekjur 234.187 kr. á árinu 2023. Á grundvelli endurreiknings hafi réttindi kæranda hækkað um 221.294 kr. Að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta hafi staðið eftir 131.447 kr. inneign.
Áður hafi myndast kröfur vegna breytinga á árinu að upphæð 157.881 kr. (32.104 kr. og 125.777 kr.) en á móti hafi komið 32.104 kr. innborganir (annars vegar innborgun upp á 25.000 kr. og skuldajafnaðar 7.104 kr.). Því hafi staði eftir 125.777 kr. krafa til innheimtu við uppgjör. Þegar inneigninni hafi verið skuldajafnað við áður myndaða kröfu hafi legið eftir 5.670 kr. inneign sem hafi verið greidd út.
Í greinargerð Tryggingastofnunar er vísað í frekari útreikning á réttindum kæranda á árinu 2023 í uppgjöri ársins 2023.
Kærð ákvörðun sé í samræmi við lög og reglur sem gilda um uppgjör og endurreikning tekjutengdra bóta sem og greiðslu vangreiddra bóta.
Tryggingastofnun fari því fram á að ákvörðun stofnunarinnar, dags. 28. maí 2024, um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna kæranda á árinu 2023 verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2023.
Kærandi fékk greiddan ellilífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun á árinu 2023. Samkvæmt 47. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.
Í 22. gr. og 33. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með tilteknum undantekningum. Samkvæmt 4. tölul. 2. mgr. 22. gr., sem tók gildi 1. maí 2023, kemur fram að lífeyrir almannatrygginga frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við, í samræmi við nánari ákvæði samninganna, teljast ekki til tekna. Samkvæmt 21. gr. laga um almannatryggingar skal ellilífeyrir lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 22. gr., uns lífeyririnn fellur niður. Þá segir að ellilífeyrisþegi skuli hafa 300.000 kr. almennt frítekjumark við útreikning ellilífeyris og 2.400.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna.
Á grundvelli 33. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 34. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.
Samkvæmt tekjuáætlun kæranda, móttekinni 15. desember 2022, gerði hann ráð fyrir að á árinu 2023 fengi hann 6.754.320 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 1.111.292 kr. í erlendar lífeyrissjóðstekjur og 120.000 kr. í fjármagnstekjur. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 27. desember 2022, var kærandi upplýstur um móttöku tekjuáætlunarinnar og greiðslur voru greiddar í samræmi við hana. Kærandi útbjó nýja tekjuáætlun 26. maí 2023 þar sem hann gerði ráð fyrir 6.950.000 kr. í lífeyrissjóðstekjur og óbreyttum öðrum tekjum. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. júní 2024, var kærandi upplýstur um að framangreind tekjuáætlun hefði verið samþykkt og auk þess var hann upplýstur um áætlaða kröfu að fjárhæð 32.104 kr. Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar greiddi kærandi samdægurs 25.000 kr. inn á framangreinda kröfu. Vegna breyttra reglna um meðferð erlendra tekna við útreikning réttinda kæranda sem tóku gildi 1. apríl 2023, var kæranda tilkynnt í bréfi stofnunarinnar, dags. 16. ágúst 2023, að vegna þessara breytinga hefðu réttindin verið endurreiknuð og hafi hann því fengið 114.443 kr. greiddar að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta og 7.104 kr. eftirstöðva eldri kröfu. Kærandi útbjó nýja tekjuáætlun 2. september 2024 þar sem hann gerði ráð fyrir 7.500.000 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 240.000 kr. í fjármagnstekjur og að erlendar lífeyrissjóðstekjur væru óbreyttar. Með bréfi Tryggingstofnunar, dags. 25. september 2023, staðfesti stofnunin innsenda tekjuáætlun og var kærandi jafnframt upplýstur um áætlað kröfu að fjárhæð 125.777 kr. og voru greiðslur ársins greiddar út frá framangreindum tekjuforsendum út árið 2023.
Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2023 reyndust tekjur kæranda á árinu vera 7.007.898 í lífeyrissjóðstekjur, 3.300.000 kr. í séreignarsjóð og 234.187 kr. í fjármagnstekjur sameiginlegar með maka og 372.780 kr. í erlendan lífeyrissjóð. Niðurstaða endurreiknings Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2023 leiddi til inneignar að fjárhæð 5.670 kr.
Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur. Kærandi gerir athugasemdir við útreikninga Tryggingastofnunar. Úrskurðarnefndin hefur farið yfir útreikningana og gerir ekki athugasemdir við þá.
Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum ársins 2023.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir