Úrskurður nr. 182/2003 - vinnuslys - bótaskyldu synjað
A
Ú r s k u r ð u r.
Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Ludvig Guðmundsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.
Með bréfi dags. 3. júlí 2003 kærir X, hdl. f.h. A til Úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins um viðurkenningu bótaskyldu vegna slyss kæranda 22. júní 2002.
Þess er krafist að synjun Tryggingastofnunar verði felld úr gildi og tekin ný ákvörðun um að taka umsókn kæranda til greina.
Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með tilkynningu dags. 19. mars 2003 tilkynnti kærandi f.h. B ehf. um slys sem hann varð fyrir 22. júní 2002. Slysi er lýst svo að það hafi orðið í vinnutíma við C en kærandi hafi verið að aka rusli með vörubifreið. Segir að kærandi hafi opnað vinstri hurð til að líta aftur, runnið út og undir framhjól bifreiðarinnar.
Tryggingastofnun synjaði um bótaskyldu með bréfi dags. 8. apríl 2003, þar sem samkvæmt upplýsingum úr skattskrá sé ekki að sjá laun frá B ehf.
Óskað var rökstuðnings með bréfi dags. 10. júní 2003 og er hann dags. 23. júní 2003.
Í rökstuðningi með kæru segir:
„ Umbjóðandi minn byggir á því að hann eigi ótvíræðan rétt til slysabóta úr slysatryggingum almannatrygginga samkvæmt ákvæðum laga nr. 117/1993, enda takmarka þau atriði sem Tryggingastofnun vísar til þann rétt hans ekki með nokkrum hætti.
Tryggingastofnun vísar í rökstuðningi sínum til 22. gr. og 24. gr. laga nr. 117/1993. Í 22. gr. kemur fram það skilyrði að slysatryggingar taki til „slysa við vinnu". Ótvírætt er að slys umbjóðanda míns varð við vinnu hans. Slysið varð í kringum kl. 16 þegar hann var að losa drasl af vörubíl í vinnu sinni hjá B ehf. Í 2. mgr. 22. gr. er útfært nánar hvenær maður telst vera við vinnu og er ótvírætt að umbjóðandi minn telst hafa verið í vinnu í skilningi a- og b-liðar 22. gr.
Í 24. gr. kemur síðan fram að launþegar séu m.a. slysatryggðir og er rökstuðningur Tryggingastofnunar byggður á því að umbjóðandi sé ekki launþegi samkvæmt málvenju og lögskýringum. Það sem kemur hins vegar ekki fram í rökstuðningi Tryggingastofnunar, og stofnunin horfir fram hjá, er að í g-lið 1. mgr. 24. gr. segir að atvinnurekendur sem starfa að eigin atvinnurekstri í öðrum atvinnugreinum en landbúnaði séu slysatryggðir samkvæmt lögunum. Jafnvel þótt umbjóðandi minn teldist ekki launþegi í skilningi a-liðar 1. mgr. 24. gr. er því ótvírætt að hann er slysatryggður sem atvinnurekandi samkvæmt g-lið, en eins og áður var nefnt er hann stofnandi og stjórnarformaður B ehf. og starfar að þeim atvinnurekstri. Umræddur g-liður kom inn í lögin með lögum nr. 74/2002 og í skýringum með ákvæðinu í viðkomandi lagafrumvarpi segir m.a.: „Þá er gert ráð fyrir að atvinnurekendur sem starfa að eigin atvinnurekstri í öðrum atvinnugreinum en landbúnaði séu ávallt slysatryggðir."
Í rökstuðningi Tryggingastofnunar er aðeins vísað til 22. og 24. gr. laga nr. 117/1993, sem samkvæmt framansögðu takmarka rétt umbjóðanda míns ekki á neinn hátt, auk „eðlis máls" og til þess sem Tryggingastofnun hefur „til margra ára stuðst við". Þessar tilvísanir geta að engu leyti hnekkt ótvíræðum lagalegum rétti umbjóðanda míns til slysatrygginga samkvæmt ákvæðum laga um almannatryggingar.
Samkvæmt öllu framansögðu byggir umbjóðandi minn á því að hann eigi rétt til slysatrygginga á grundvelli 22. og 24. gr. laga nr. 117/1993, sem og annarra ákvæða laganna, hvort heldur sem launþegi eða atvinnurekandi, enda varð slysið óumdeilanlega við störf hans fyrir B ehf.”
Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi dags. 21. júlí 2003. Barst greinargerð dags. 5. ágúst 2003. Þar segir:
„ Launþegar eru slysatryggðir við vinnu sína samkvæmt III. kafla laga nr. 117/1993 um almannatryggingar. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laganna telst maður vera við vinnu:
a. þegar hann er á vinnustað á þeim tíma sem honum er ætlað að vera að störfum, svo og í matar og kaffitímum.
b. í sendiferð í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem farnar eru samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Sama gildir um lengri ferðir af þessu tagi ef starfsmaður er á launum hjá vinnuveitanda í ferðinni.
Ennfremur er talið að tildrög slyss verði að hafa verið viðkomandi því starfi sem launþegi sinnir og tryggingagjöld eru greidd vegna. Einnig eru slysatryggðir atvinnurekendur sem starfa í eigin atvinnurekstri sbr. 24. gr. laganna.
Fram kemur í 24. gr. að það séu launþegar sem eru slysatryggðir. Nánari skilgreining er ekki í almannatryggingalögunum um hvað sé launþegi og hvað sé atvinnurekandi. Viðmiðunin er því almenn málvenja og lögskýringar. Meðal annars er litið til laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar en þar er sú krafa m.a. gerð að viðkomandi launþegi hafi unnið tryggingagjaldskylda vinnu til að öðlast rétt til atvinnuleysisbóta og hjá sjálfstætt starfandi skal miða við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi.
Slysatryggingar almannatrygginga eru fjármagnaðar með tryggingagjaldi sem greitt er af öllum launþegum og sérstökum iðgjöldum sbr. 31. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993. Tryggingin nær því til þeirra sem greitt er tryggingagjald vegna en ólaunuð vinna telst ekki falla undir vinnuslysatryggingu almannatrygginga.
Eðli máls samkvæmt þarf sá er sækir um bætur úr almannatryggingum að sýna fram á að tjón hans falli undir reglurnar. Til fjölmargra ára hefur Tryggingastofnun stuðst við upplýsingar frá Ríkisskattstjóra til staðfestingar á launþegasambandi eða til staðfestingar á eigin rekstri atvinnurekanda.
Slysatilkynning kæranda bar með sér að kærandi væri launþegi hjá B og var því synjunarbréf stofnunarinnar til hans í samræmi við það. Það er hins vegar venja til margra ára hjá stofnuninni að skoða jafnframt þann möguleika hvort viðkomandi gæti átt rétt sem atvinnurekandi eða eigin rekstrar vegna tilkynnts máls. Samkvæmt upplýsingum úr skattskrá var kærandi hvorki í launaðri vinnu né með reiknað endurgjald vegna eigin atvinnurekstur á þeim tíma er slys bar að höndum og reyndar ekki síðastliðin 4 ár. Hann fékk hins vegar mánaðarlega örorkubætur frá Tryggingastofnun vegna 75% örorku. Ekki var því að sjá að kærandi uppfyllti skilyrði laganna varðandi vinnu og var því umsókn hans synjað.”
Greinargerðin var send lögmanni kæranda með bréfi dags. 6. ágúst 2003 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða frekari gögnum. Bárust athugasemdir hans dags. 12. ágúst 2003. Þar segir:
„ Eins og fram kemur í kæru byggir kærandi á því að hann eigi ótvíræðan rétt til slysabóta úr slysatryggingum almannatrygginga samkvæmt ákvæðum laga nr. 117/1993, sbr. einkum 22. og 24. gr., þar sem skilyrði bótaréttar koma fram. Þannig er enginn vafi á að slysið varð við vinnu í skilningi 22. gr., enda gerðist það þegar kærandi var að sturta af vörubifreið á C fyrir B ehf., sbr. fyrirliggjandi lögregluskýrslur. Samkvæmt 24. gr. eru bæði launþegar og atvinnurekendur slysatryggðir. Takmörkun á bótarétti kæranda verður því ekki að neinu leyti byggð á lögum um almannatryggingar nr. 117/1993, enda vísar kærði ekki til neinnar slíkrar takmörkunar í lögunum, heldur til annarra atriða sem að sjálfsögðu geta ekki takmarkað skýran lögbundinn rétt kæranda samkvæmt framangreindum ákvæðum.
Þannig byggir kærði á því að m.a. sé „litið til laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar", án þess að nokkuð komi fram í lögum eða lögskýringargögnum um að það skuli gera. Fráleitt er að lög nr. 12/1997 geti breytt skýrum lögbundnum rétti kæranda til slysabóta samkvæmt lögum nr. 117/1993, enda fjalla lög nr. 12/1997 um annað efni og hvergi kemur fram að líta beri til þeirra.
Í greinargerð kærða er síðan að finna eftirfarandi fullyrðingu: „Slysatryggingar almannatrygginga eru fjármagnaðar með tryggingagjaldi sem greitt er af öllum launþegum og sérstökum iðgjöldum sbr. 31. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993. Tryggingin nær því til þeirra sem greitt er tryggingagjald vegna en ólaunuð vinna telst ekki falla undir vinnuslysatryggingu almannatrygginga.". Þessi fullyrðing kæranda, sem virðist mega skilja svo að slysatryggingar ná eingöngu til þeirra sem greitt er tryggingagjald vegna, fæst alls ekki staðist. Hvergi er slíkt skilyrði að finna í lögum nr. 117/1993 og kærði getur ekki einhliða sett slíkt skilyrði sem rýrir lögbundinn rétt kæranda til bóta.
Loks virðist kærði byggja á því að „til fjölmargra ára" hafi kærði stuðst við upplýsingar frá Ríkisskattstjóra til staðfestingar á launþegasambandi eða til staðfestingar á eigin rekstri atvinurekanda. Framkvæmdavenja kærða getur að sjálfsögðu ekki breytt gildandi rétti. Hvergi í lögum nr. 117/1993 kemur fram það skilyrði að fram komi reiknað endurgjald á skattskrá umsækjenda um slysabætur. Kærði hefur því enga heimild til að hafna umsókn kæranda á þeim grunni, enda liggur sem fyrr segir ótvírætt fyrir að slysið varð við vinnu kæranda fyrir B ehf.
Með vísan til alls ofangreinds getur ekki neitt af því sem kærði vísar til skert skýran og lögbundinn rétt kæranda til bóta samkvæmt ákvæðum laga nr. 117/1993. Í þessu sambandi skal einnig bent á að höfnun kærða er afar ósanngjörn þegar höfð er hliðsjón af eðli almannatryggingakerfisins og tilgangs laga nr. 117/1993. Þeir almannahagsmunir sem liggja til grundvallar lagasetningunni leiða til þess að skýra verður bótaákvæði laganna rúmt en ekki þröngt, og að sjálfsögðu ekki með þeim hætti að vikið sé frá lögbundum rétti til bóta með vísan til annarra laga eða framkvæmdavenju kærða. Í þessu sambandi skal bent á eftirfarandi ummæli umboðsmanns Alþingis í áliti hans í máli nr. 2516/1998: „Með hliðsjón af hinu félagslega eðli slysatrygginga almannatrygginga tel ég almennt ekki efni til að beita þröngri lögskýringu á ákvæði laga nr. 117/1993 um rétt til bóta."
Bréf lögmannsins var kynnt Tryggingastofnun.
Niðurstaða úrskurðarnefndar:
Samkvæmt III. kafla laga nr. 117/1993 um almannatryggingar 22. gr. taka slysatryggingar til slysa við vinnu enda sé sá sem fyrir slysi verður tryggður samkvæmt 24. eða 25. gr. sömu laga og að slys hafi ekki hlotist af athöfnum slasaðs sjálfs.
Nokkrir hópar manna eru slysatryggðir samkvæmt III. kafla laga nr. 117/1993, þ.á m. launþegar og atvinnurekendur sem starfa að eigin atvinnurekstri sbr. a. og g. lið 1. mgr. 24. gr. Í 3. mgr. 24. gr. segir að launþegi teljist hver sá sem tekur að sér vinnu gegn endurgjaldi án þess að vera sjálfur atvinnurekandi.
Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort kærandi hafi verið tryggður samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar er hann varð undir vörubifreið og slasaðist við C.
Í rökstuðningi með kæru segir að ótvírætt sé að slys kæranda hafi orðið við vinnu hans í skilningi a- og b-liðar 22. gr. laga um almannatryggingar. Jafnvel þótt kærandi teldist ekki launþegi í skilningi a-liðar 1. mgr. 24. gr. sé það ótvírætt að hann hafi verið slystryggður sem atvinnurekandi samkvæmt g-lið 24. gr. þar sem hann sé stofnandi og stjórnarformaður B ehf. og starfi að þeim atvinnurekstri.
Tryggingastofnun heldur því fram að slysið sé ekki bótaskylt. Samkvæmt upplýsingum úr skattskrá hafi kærandi hvorki verið í launaðri vinnu né með reiknað endurgjald vegna eigin atvinnureksrar þegar slysið varð og ekki heldur síðast liðin fjögur ár.
Kærandi kveðst hafa verið í vinnu hjá B ehf. er slysið varð, en þar var hann stjórnarformaður. B ehf. eru sjálfstæður lögaðili. Til að öðlast bótarétt vegna slyss við vinnu hjá félaginu þarf kærandi að sýna fram á vinnuréttarsamband við félagið. Kærandi hefur talið fram til skatts fyrir árið 2002 og gerir ekki grein fyrir því á skattframtali að hann hafi verið launþegi hjá félaginu og fengið greidd laun vegna starfans, en það er skilyrði samkvæmt 3. mgr. 24. gr. almannatryggingalaga fyrir því að vera launþegi. Kærandi gerir ekki grein fyrir neinum launagreiðslum á árinu.
Ekki nægir fyrir kæranda að vísa til ákvæðis g. liðar 24. gr. til stuðnings kröfu sinni, enda verður ekki séð að hann sé sjálfstæður atvinnurekandi í skilningi greinarinnar þ.e. sem starfar að eigin atvinnurekstri. Stjórnarformannsseta ein og sér hjá félaginu jafngildir ekki vinnu, sem nýtur bótaverndar samkvæmt 22. gr. almannatryggingalaga.
Sá sem leitar eftir bótum samkvæmt slysatryggingum almannatrygginga ber sönnunarbyrði fyrir því að hann eigi bótarétt samkvæmt lögum. Slík sönnun hefur ekki komið fram í máli þessu og því er bótaskyldu synjað.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Bótaskyldu vegna slyss er A varð fyrir þann 22. júní 2002 er hafnað.
F.h. Úrskurðarnefndar almannatrygginga
____________________________________
Friðjón Örn Friðjónsson,
formaður