Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 212/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 212/2016

Miðvikudaginn 15. febrúar 2017

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 3. júní 2016, kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 15. mars 2016 um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem hún varð fyrir þann X.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi varð fyrir slysi við vinnu þann X þegar [...] ók á hana. Slysið var tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands og bótaskylda samþykkt. Með bréfi, dags. 17. mars 2016, var kæranda tilkynnt að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins hafi verið metin 7% en þar sem örorkan hafi verið minni en 10% greiðist ekki örorkubætur.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 8. júní 2016. Með bréfi, dags. 9. júní 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 29. júní 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að úrskurðarnefnd velferðarmála taki til endurskoðunar mál hennar með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum í málinu og matsgerð C læknis og D hrl., dags. 30. júní 2015. Að mati kæranda hafi afleiðingar slyss hennar ekki verið rétt metnar í hinni kærðu ákvörðun. Örorka hennar sé vanmetin af hálfu stofnunarinnar.

Kærandi telji ljóst að í tillögu að mati á varanlegri læknisfræðilegri örorku, dags. 20. desember 2015, sem liggi hinni kærðu ákvörðun til grundvallar, sé ekki tekið tillit til einkenna kæranda frá öxl og henni ákvörðuð örorka eingöngu vegna hálstognunar, verkja og ósamhverfrar hreyfiskerðingar. Virðist þessi niðurstaða fyrst og fremst byggjast á túlkun matslæknisins á umsögn í læknisvottorði E, dags. 11. febrúar 2015, um einkenni kæranda frá öxl, þar sem fjallað sé um einkenni kæranda frá öxl með eftirfarandi hætti:

Einkenni hennar benda til tognunaráverka á háls og herðasvæði hægra megin og leiða einkennin talsvert niður í handlegginn. Er þó ekki að finna nein merki um taugaskaða heldur virðist þetta vera mest verkjatengt og hún hlífir sér vegna verkja og getur ekki tekið á að fullu. Sömuleiðis er ekki hægt að finna né hægt að sýna fram á sérstaklega áverka á öxlina.

Kærandi bendi á að matslæknirinn virðist slíta úr samhengi í vottorði E þar sem hann fjalli sérstaklega um verki kæranda á herðasvæði, hálssvæði og verkjum og kraftminnkun í hægri hendi. Í vottorðinu sé því vísað til þess að áverkar sjáist ekki á röntgenmyndum af öxlinni, en kærandi telji af og frá að einkenni sem hún glími við geti eingöngu verið greind með myndatöku. Kærandi bendi enn fremur á að hún hafi kvartað um verk frá hægri öxl sautján dögum eftir slysið hjá heimilislækni, samanber umfjöllun í sjúkraskrá vegna komu til heimilislæknis, dags. X, þar sem segi:

X ára kvk sem fékk högg á háls og mjóhrygg þegar [...] keyrði á hana í vinnu X. Var orðin skárri viku eftir slysið og fór aftur í vinnu og nú versnandi aftur í hálsi og herðum þessa vikuna. Með leiðni í hægri öxl og finnst hún ekki ná að rétta alveg úr fingrum í hægri hendi.

[...]
Hreyfigeta um öxl: Nær fullri abduction hægra megin en það veldur verk, kemur ekki handlegg almennilega aftan við bak hægra megin.

Í fyrirliggjandi matsgerð C og D sé einkennum hennar á matsfundi lýst með ítarlegum hætti, þar með talið einkennum frá öxl. Í matsgerðinni sé ótvírætt talið að orsakatengsl séu á milli einkenna kæranda og slyssins og vísað til læknisfræðilegra gagna því til stuðnings. Kærandi telji því engin gögn styðja þá niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands að hafna orsakatengslum á milli einkenna kæranda frá öxl, sem séu klárlega til staðar við skoðun á matsfundum, og slyssins. Kærandi telji því hina kærðu ákvörðun vera ranga.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að bætur samkvæmt slysatryggingu laga nr. 100/2007 um almannatryggingar séu sjúkrahjálp, dagpeningar, örorkubætur og dánarbætur, sbr. 31. gr. laga um almannatryggingar.

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um varanlega læknisfræðilega örorku sé sjálfstætt mat sem stofnuninni sé falið að gera lögum samkvæmt, sbr. 2. gr. laga um almannatryggingar. Stofnunin byggi ákvörðun sína á fyrirliggjandi gögnum þegar litið sé svo á að mál sé að fullu upplýst og stofnunin sé ekki bundin af niðurstöðu annarra sérfræðinga. Þá taki Sjúkratryggingar Íslands sjálfstæða ákvörðun um hvort orsakatengsl séu á milli einkenna og hins tilkynnta slyss.

Örorka sú sem metin sé samkvæmt IV. kafla almannatryggingalaga, með síðari breytingum, sé læknisfræðileg örorka þar sem metin sé skerðing á líkamlegri og eftir atvikum andlegri færni hjá einstaklingum sem orðið hafi fyrir líkamstjóni. Við matið sé stuðst við miskatöflur örorkunefndar þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka séu metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum án tillits til starfs eða menntunar tjónþola og án þess að líta til þess hvaða áhrif örorkan hafi á getu til öflunar atvinnutekna.

Um greiðslu bóta vegna varanlegrar læknisfræðilegrar örorku gildi reglur 34. gr. laga um almannatryggingar.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda verið hæfilega ákvörðuð 7%. Við ákvörðunina hafi verið stuðst við fyrirliggjandi gögn, þar á meðal tillögu að mati á varanlegri læknisfræðilegri örorku, dags. 20. desember 2015, sem F læknir hafi gert.

Við ákvörðun um varanlega læknisfræðilega örorku hafi verið miðað við miskatöflur örorkunefndar frá árinu 2006, lið VI.A.a., vegna eftirstöðva hálstognunar, verkja og ósamhverfrar hreyfiskerðingar. Sérstaklega hafi verið tekið fram að tekið hafi verið undir það mat E bæklunarlæknis að einkenni kæranda hafi bent fyrst og fremst til tognunaráverka á háls- og herðasvæði hægra megin og ekki hafi verið nein merki um taugaskaða og hlífi kærandi sér vegna verkja og taki af þeim sökum ekki á að fullu við skoðun. Varanleg læknisfræðileg örorka hafi verið metin 7% vegna þessa.

Kærandi telji að varanlegar afleiðingar slyssins hafi verið vanmetnar og vísi til þess að F læknir virðist slíta ummæli E úr samhengi í vottorði hans, en í vottorðinu sé vísað til þess að áverkar sjáist ekki á röntgenmyndum af öxlinni, en kærandi telji af og frá að einkenni sem hún glími við geti eingöngu verið greind með myndatöku. Þá bendi kærandi enn fremur á að hún hafi kvartað um verki frá hægri öxl sautján dögum eftir slysið hjá heimilislækni.

Í vottorði E, dags. 11. janúar 2015, komi fram að segulómunarrannsókn og röntgenrannsóknir af öxlinni hafi verið innan eðlilegra marka. Einkenni kæranda hafi bent til tognunaráverka á háls og herðasvæði hægra megin og hafi einkennin leitt talsvert niður í handlegginn. Þó hafi ekki verið að finna nein merki um taugaskaða heldur hafi þetta virst vera mest verkjatengt og kærandi hafi hlíft sér vegna verkja og hafi ekki getað tekið á að fullu. Þá hafi hvorki verið að finna né hægt að sýna sérstaklega fram á áverka í öxlinni.

Einnig vísi kærandi til matsgerðar C og D hrl., dags. 30. júní 2015, en sú matsgerð hafi legið fyrir í gögnum málsins þegar ákvörðun hafi verið tekin um læknisfræðilega örorku vegna slyssins og hafi það verið sérstaklega tekið fram af G, yfirtryggingalækni Sjúkratrygginga Íslands. Þá hafi hann einnig vísað sérstaklega til læknisvottorðs E þar sem hann hafi talið á grundvelli eigin skoðunar og rannsókna að ekki hafi orðið áverki á hægri öxl í slysinu.

Það sé þannig afstaða Sjúkratrygginga Íslands að afleiðingar slyssins hafi verið réttilega metnar til varanlegrar læknisfræðilegrar örorku í hinni kærðu ákvörðun. Mat F læknis sé vel rökstutt og einkennum eða ástandi lýst með ítarlegum hætti. Um sé að ræða matslækni sem hafi reynslu í mati á heilsutjóni og ekkert hafi komið fram sem sýni fram á að mat hans sé rangt.

Að mati Sjúkratrygginga Íslands hafi því ekkert komið fram í málinu sem gefi tilefni til þess að víkja frá hinni kærðu ákvörðun. Að öllu virtu beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun um varanlega læknisfræðilega örorku.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ágreining um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir þann X. Sjúkratryggingar Íslands mátu varanlega slysaörorku kæranda 7%.

Í læknisvottorði H, sérfræðings á Landspítalanum, dags. X, segir svo um slysið þann X:

„A er X ára gömul kona sem vinnur í J og það var keyrt á hana af [...] í dag á milli kl 11:00-12:00. [...] var ekki á mikilli ferð, en hann ók á vinstri handlegg hennar. Hún datt við þetta aftur fyrir sig á bakið og kvartar helst um í mjóbakinu og neðst í lendarhrygg, síðan er hún farin að fá verki í hálsinn.

[...]

Niðurstaða

Niðurstaða skoðunar og rannsóknar

Skoðun: A er ekki verkjuð að sjá og gefur ágæta sögu. Hún hreyfir sig vel.

Höfuð: Það eru engin áverkamerki.

Háls: Hún er vægt stirð í hálsinum við extention og flection, aðeins aum við þreifingu hægra megin niður á herðar.

Brjóstkassi: Það eru engin áverkamerki á thorax.

Bak: Hún er aum á milli herðarblaða og eins neðst í lendarhryggnum, þar sem hún lendir. Það eru engir aðrir áverkar.

Meðferð / batahorfur

Í hverju er meðferð fólgin og hverjar eru batahorfur?

Meðferð, texti: A fær vinnuvottorð í viku og lyfseðil fyrir Parkodin og Ibufen. Hún fær almenn ráð og um viðbrögð við tognunum og mari. Þetta ætti að jafna sig á 10-14 dögum.“

Í örorkumatstillögu F, sérfræðings í endurhæfingarlækningum, dags. 20. desember 2015, segir um skoðun á kæranda þann 17. desember 2015:

„Tjónþoli hreyfir sig eðlilega. Göngulag er eðlilegt og það eru engar stöðuskekkjur, en hæ. öxl er aðeins sigin miðað við þá vinstri. Hún getur gengið á tám og hælum og staðið öðrum fæti. Við skoðun á hálsi vantar 3 fingurbreiddir að haka nemi við bringubein í framsveigju. Rétta í hálslið var skert. Snúningshreyfing til vinstri var 50-60° og 80-85° til hægri. Við að halla höfði til hliðar var hreyfiferilinn 30° til vinstri og kvartaði hún um tog óþægindi hæ. megin í hálshryggjarvöðvum í endastöðu. Til hægri gat hún hallað höfði í 50°. Við þreifingu voru eymsli í SCM vöðva og festum hans við viðbein hæg. megin. Eymsli voru í hliðlægum vöðvum hálshryggjar, aðallega hæ. megin. Ekki voru bankeymsli yfir hryggjartindum í hálshrygg, en þrýstings eymsli á svæði í kringum C4 hryggjarliðinn fyrst og fremst í aðlægum langvöðvum. Ekki voru eymsli á herðasvæði, né milli herðablaða eða á lendhrygg. Við framsveigju á hrygg vantaði 6 cm upp á að fingur næðu að gólfi. Hliðarhalli og bolvinda í öxlum voru eymsli í kringum axlarhyrnu og upphandlegs hnútu og á herðablaði hæ. megin. Eymslin voru f.o.f. við efri trapzius og levator scapula vöðvafestum. Ekki var hægt að greina vöðvarýrnun á axlargrindarsvæði né hæ. handlegg.

Við skoðun á öxlum var fráfærsluhreyfing í hæ. öxl og framsveifla án skerðingar í virkum hreyfiferli. Tjónþoli kvartaði um verki þegar hún náði 120° í fráfærslu og upp í 180° og fannst eins og smella í öxlinni. Hún kvartaði um óþægindi við fráfærslu gegn mótstöðu. Snúningsgeta bæði inn og út reyndist innan eðlilegra marka eða 90°. Hreyfigeta í olnbogum, úlnliðum og fingrum var eðlileg. Bæði beygja og réttigeta í fingrum hæ. handar voru eðlileg. Tjónþoli tók minna á, á móti álagi við allar hreyfingar í hæ. handlegg og hönd en vi. megin. Máttminnkun þessi fylgdi ekki neinni ákveðinni taugabraut. Engin brottfallseinkenni greindust og snertiskyn var metið jafnt og óskert og engin merki um dofa greindust við skoðun. Taugviðbrögð voru eðlileg.

Sjúkdómsgreining:

T 91.8 Eftirstöðvar annara tilgreindra áverka á hálsi og bol“

Niðurstaða matsins er 7% og í samantekt segir svo:

„Afleiðingar slyssins þann X hnykk áverki þegar tjónþoli varð fyrir [...] sem ók á hægri ferð og rakst utan í hana í hálfsitjandi stöðu og hún féll í gólfið. Á slysadeild kom fram að við skoðun hafi tjónþoli ekki verið verkjuð að sjá og hafi hreyft sig vel. Engin áverkamerki sáust. Vægur stirðleiki var í hálsi við beygju og réttu og aðeins aum við þreifingu hægra megin niður á herðar. Engin áverkamerki voru á brjóstkassa, en hún var aum á milli herðablaða og eins neðst í lendhrygg þar sem hún lenti. Tekið er fram að engir aðrir áverka hafi fundist við skoðun og um væg einkenni sé að ræða. Sjúkdómsgreining tognun á hálshrygg, brjósthrygg og mar á mjóbaki og mjaðmagrind. Tveimur dögum síðar leitaði hún aftur á slysadeild vegna versnandi einkenna, aðallega frá hálsi og herðum hæ. megin. Einnig verið að fá dofa í hæ. hendi og átt erfitt með að sofa. Talið var að um ölnartaugamein væri að ræða skv. klíniskri greiningu. Lýst var að hún hafi verið stíf í hálsi og aum í mjúkpörtum hæ. megin við hrygginn. Eðlileg skoðun á axlarliðum. Í X kemur fram að mati bæklunarlæknis að einkenni tjónþola bendi til tognunaráverka á háls- og herðasvæði hæ. megin og leiði einkenni talsvert niður í handlegginn. Ekki sé þó nein merki um taugaskaða heldur virðist þetta vera verkjatengt og hlífi tjónþoli sér vegna verkja og geti ekki tekið á að fullu. Sömuleiðis sé ekki hægt að sýna fram á áverka á öxlinni.

Eftirstöðvar í dag eru verkir í hálshrygg og á herðasvæði út á axlargrind og niður í vöðvafestur á herðablaði. Við skoðun má greina máttminnkun án sérstakrar fylgni við ákveðna taugabraut og tjónþoli kvartar um óþægindatilfinningu sem hvorki séu beint verkir né dofi í hönd og fingrum. Myndgreiningar bæði röntgen og segulómun svo og taugaleiðnipróf hafa ekki sýnt fram á áverkamerki eða taugaskaða og verið innan eðlilegra marka. Því er tekið undir það mat bæklunarlæknisins frá því í X að einkenni tjónþola bendi f.o.f. til tognunaráverka á háls- og herðasvæði hæ. megin og ekki séu nein merki um taugaskaða og hlífi tjónþoli sér vegna verkja og af þeim sökum taki ekki á að fullu við skoðun. Með hliðsjón af töflum örorkunefndar frá 2006 kafla VI.A.a. er gerð tillaga um að varanleg læknisfræðileg örorka sé rétt metin 7% vegna eftirstöðva hálstognunar, verkja og ósamhverfrar hreyfiskerðingar.

Gerð er tillaga um að varanleg læknisfræðileg örorka A í kjölfar slysins þann X sé hæfilega metin 7% (sjö af hundraði).“

Lögmaður kæranda hefur lagt fram örorkumatsgerð C bæklunarlæknis og D hrl., dags. 30. júní 2015, en matsgerðina unnu þeir að ósk lögmannsins, vátryggingafélags og vinnuveitanda kæranda. Um skoðun á kæranda þann 3. júní 2015 segir svo í matsgerðinni:

„X ára gömul kona sem kom vel fyrir og gaf góða sögu. A sat kyrr meðan á viðtali stóð. Hún er X cm á hæð og X kg að þyngd. Hún hlífði nokkuð hægri handlegg þegar hún fór úr peysu og bol fyrir líkamsskoðun. Hægri öxl aðeins sigin niður miðað við þá vinstri. Það munaði tveimur fingurbreiddum að A næði með höku að bringu. Í endastöðu fann hún fyrir eymslum hægra megin við hálshryggssúlu. Yfirréttugeta var skert og sömu eymsli komu til og við framsveigju en þessu til viðbótar fann hún fyrir straum niður í hægri vísifingur og löngutöng. Snúningsgeta höfuðs 80° til hægri og hreyfing eymslalaus. Snúningsgeta 60° til vinstri og endastöðueymsli hægra megin við hálshryggssúlu. Sömu eymsli komu fram við hliðarsveigju höfuðs til vinstri þar sem að hreyfigeta var 30°. Sveigjugeta höfuðs 50° til hægri og hreyfing eymslalaus. Það voru engin miðlínueymsli til staðar upp eftir hálshryggssúlu. Það voru engin eymsli yfir vöðvum og festum vinstra megin á háls- og herðasvæði og engin eymsli voru yfir vöðvum á eða innanvert við vinstra herðablað. Veruleg eymsli voru í vöðvum og festum hægra megin á háls- og herðasvæði og eins yfir vöðvum á og innanvert við hægra herðablað. Bolvindur 80° til beggja átta. Snúningur yfir til hægri eymslalaus en í endastöðu bolvindu yfir til vinstri þá fann A fyrir eymslum í hægra herðablaði. Það voru engin þreifieymsli yfir hryggjartindum í brjósthryggssúlu. Engin þreifieymsli voru yfir langvöðvum vinstra megin við brjósthryggssúlu. Eymsli voru yfir langvöðvum hægra megin við efsta hluta brjósthryggssúlu en ekki neðar en það. Hreyfigeta um vinstri axlarlið eðlileg og eymslalaus. Engin eymsli yfir upphandleggshnútu á vinstri öxl. Engin eymsli voru yfir vinstri axlarhyrnulið og sinaklemmupróf neikvæð m.t.t. vinstri axlar. Virk frásveigjugeta hægri handleggs 170°. Eymsli aftanvert í öxlinni síðustu 10°. Hlutlaust var hægt að ná fullri hreyfigetu en eymsli jukust við það. Virk framlyftugeta handleggsins 180° og hreyfing eymslalaus. Hlutlausar snúningshreyfingar um axlarlið 90/90. Báðar hreyfingar eymslalausar. Virk útsnúningshreyfing um axlarliðinn eðlileg en eymsli í hægra herðablaði í endastöðu. Eymsli versnuðu og kraftur var minnkaður þegar hreyfing var athuguð gegn álagi. Í virkri innsnúningshreyfingu um hægri axlarlið þá náði A með hægri þumalfingur á neðanvert mjóbakssvæði. Fann fyrir eymslum í öxlinni í endastöðu. Í virkri innsnúningshreyfingu um vinstri axlarlið þá náði A með vinstri þumalfingur eymslalaust að neðanverðu brjóstbaki. Það voru þreifieymsli yfir upphandleggshnútu á hægri öxl. Þreifieymsli voru yfir hægri axlarhyrnulið en engin óbein eymsli voru til staðar í axlarhyrnuliðnum. Eymsli komu fram í öxlinni við Neer´s sinaklemmupróf en ekki við Hawkin´s sinaklemmupróf. Engin eymsli komu fram við kraftprófun á hægri axlarbunguvöðva en kraftur var minnkaður. Engin rýrnun hins vegar sjáanleg í vöðvanum. Hreyfigeta um hægri olnbogalið eðlileg en allar hreyfingar kraftminni en vinstra megin og þá sérstaklega beygjuhreyfing. Hreyfingar hins vegar eymslalausar, þ.á.m. þegar hreyfingar voru athugaðar gegn álagi. Engin þreifieymsli voru yfir hnútum á hægri olnboga. Í hvíldarstöðu var A með alla fingur hægri handar að undanskildum þumalfingri í vægri beygjustöðu. Náði ekki fullri réttu sjálf um liðina en hlutlaust var hægt að ná fullri réttu í öllum fingrum án eymsla. Hreyfingar í hægri hendi fremur kraftlitlar og þá sérstaklega við að færa fingur frá hvor öðrum (abduktion). Engin einkenni komu fram við bank yfir miðtaug á olnboga- eða úlnliðssvæði. Phalen´s próf neikvætt. Engin einkenni komu fram þegar þreifað var yfir ölnartaug aftan við innri olnbogahnútu eða þegar bankað var yfir tauginni á úlnliðssvæði. Froment´s próf neikvætt. Eðlileg tilfinning í efri útlimum og taugaviðbrögð beggja vegna eðlileg.“

Niðurstaða framangreindrar örorkumatsgerðar C og D er sú að varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vegna slyssins teljist vera 15%. Í samantekt matsgerðarinnar segir:

„Þann X varð A fyrir því að [...] ók á hana þar sem hún kraup við vinnu sína í J. [...] var á lítilli ferð og lenti á vinstri handlegg A sem féll og fékk högg á mjóbak og höfuð. Hún fékk far á Slysa- og bráðadeild um tveimur tímum eftir slysið. Við skoðun þar var hún með eymsli í hálsi, brjóstbaki og mjóbaki. Ekki talin ástæða til myndgreiningarannsókna og fékk hún við útskrift vottorð um óvinnufærni í eina viku. Leitaði tveimur dögum eftir slysið á Slysadeildina á ný og var þá versnandi í hálsi og var með dofa í hægri hendi. Var frá vinnu í tvær vikur og byrjaði síðan að vinna í hálfu starfi. Hún fékk beiðni um sjúkraþjálfun hjá heimilislækni í apríl og byrjaði þá í sjúkraþjálfun hjá K sem hún var í fram í X. Í X var henni vísað af L á Slysadeildina á ný vegna máttleysis í hægri hendi. Grunur var um klemmda taug og var henni vísað í taugaleiðimælingu sem var eðlileg. Leitaði til E, bæklunarskurðlæknis þann X vegna óþæginda í hálsi, hægri öxl og vegna minnkaðs krafts í hægri hendi. E léta gera segulómrannsókna af hægri öxl og röntgenrannsókn af hálsi og sýndu þessar rannsóknir engin áverkamerki. Taldi E að um væri að ræða afleiðingar tognunar í hálsi og herðasvæði hægra megin. Ráðlagði E áframhaldandi sjúkraþjálfun. Um þetta leyti hætti A í hálfu starfi og hefur ekki verið í vinnu síðan. Hún byrjaði sjúkraþjálfun í M þann X og er enn í þeirri meðferð.

Nú X eftir slysið kvartar A vegna óþægindi hægra megin í hálsi, á hægra herðarsvæði og í hægra herðarblaði. Er einnig með hreyfiskerðingu í hægri öxl og máttminnkun í hægri hendi. Óþægindi í mjóbaki og brjóstbaki hafa jafnað sig.

Matsmenn telja engan vafa leika á að rekja megi óþægindi þessi til slyssins en hún hafði ekki fyrir óþægindi í hálsi og hægri öxl.

Matsmenn telja að heilsufar hafi verið orðið stöðugt að liðnum fimm mánuðum frá slysinu en þá voru einkenni komin fram og hafa haldist nær óbreytt síðan. Matsmenn telja ekki þörf á frekari meðferð annarri en eigin æfingum.“

Um mat á varanlegum miska kæranda segir í matsgerðinni:

„Varanlegur miski er metinn vegna hálstognunar með leiðnieinkennum og tognunar í hægri öxl (herðasvæði). Varanlegur miski er metinn til 15 stiga.“

Ákvörðun slysaörorku samkvæmt IV. kafla almannatryggingalaga nr. 100/2007, nú laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga, er eingöngu læknisfræðileg þar sem tilteknir líkamsáverkar eru metnir til ákveðins örorkustigs. Félagslegir þættir, svo sem vinnufærni og áhrif örorku á getu til tekjuöflunar, koma ekki til álita. Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatsskrár/miskatöflur örorkunefndar frá árinu 2006 þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka eru metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum, án tillits til starfs eða menntunar tjónþola.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á örorku kæranda og byggir mat sitt á fyrirliggjandi gögnum sem hún telur nægileg. Samkvæmt gögnum málsins varð kærandi fyrir slysi við vinnu sína þann X þegar [...] ók á hana þannig að hún féll aftur fyrir sig á bakið. Kærandi var greind með tognun og ofreynslu á hálshrygg og brjósthrygg auk mars á mjóbaki og mjaðmagrind. Samkvæmt örorkumatstillögu F læknis, dags. 20. desember 2015, eru eftirstöðvar slyssins verkir í hálshrygg og á herðasvæði út á axlargrind og niður í vöðvafestur á herðarblaði. Í örorkumati C bæklunarlæknis og D hrl., dags. 30. júní 2015, kemur fram að kærandi kvarti um óþægindi hægra megin í hálsi, á hægra herðarsvæði og í hægra herðarblaði, auk hreyfiskerðingar í hægri öxl og máttminnkunar í hægri hendi. Samkvæmt hinu kærða örorkumati var varanleg læknisfræðileg örorka kæranda metin 7%.

Ljóst er að kærandi hafði verki í öxl eftir slysið en hvorki röntgenmyndir af axlarlið né segulómun, sem er mun nákvæmari rannsókn, hafa sýnt merki um áverka á liðinn. Samkvæmt sjúkradagpeningavottorði N læknis, dags. X, var gert taugaleiðnipróf sem kom eðlilega út. Vel er þekkt að út frá tognun í hálsi getur verki leitt út í öxl og jafnvel handlegg, án þess að til hafi komið áverki á taugar. Að mati úrskurðarnefndarinnar er mikilvægt að gera greinarmun á máttminnkun vegna lömunar sem hlotist hefur af sköddun á taugavef og máttminnkun sem stafar af því að viðkomandi hlífir sér við átaki vegna sársauka. Samkvæmt gögnum málsins á hið síðarnefnda við um kæranda.

Í gögnum málsins er ekkert sem bendir til áverka á axlarlið né taugar í tilfelli kæranda. Eftir stendur að hún býr við afleiðingar tognunar í hálsi með skertri hreyfigetu. Liður VI.A.a. í miskatöflum örorkunefndar frá 2006 tekur til afleiðinga áverka á hálshrygg. Sá undirliður hans sem við á um ástand kæranda er liður VI.A.a.2. Samkvæmt honum leiðir hálstognun með eymslum og ósamhverfri hreyfiskerðingu til allt að 8% örorku. Lýsingu á einkennum og ástandi kæranda ber vel saman í þeim tveim matsgerðum sem fyrir liggja þótt túlkun matsmanna á þeim gefi mismunandi niðurstöður í mati á varanlegri læknisfræðilegri örorku. Samkvæmt þeirri lýsingu eru einkenni kæranda talsverð en þó ekki eins og mest gæti orðið. Því telur úrskurðarnefnd velferðarmála hæfilegt að meta varanlega læknisfræðilega örorku kæranda 7%, sbr. lið VI.A.a.2.

Það er mat úrskurðarnefndar velferðarmála að samkvæmt læknisfræðilegum gögnum málsins sé varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vegna slyssins þann X réttilega metin í hinu kærða örorkumati, þ.e. 7%, með hliðsjón af lið VI.A.a.2. í miskatöflum örorkunefndar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Staðfest er ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 7% örorkumat vegna slyss sem A varð fyrir þann X.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta