Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 559/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 559/2022

Þriðjudaginn 13. desember 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 30. nóvember 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála drátt á afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn hennar um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með rafrænni umsókn, móttekinni 1. mars 2022. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. maí 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að hún hefði ekki fengið nægjanlega mörg stig samkvæmt örorkustaðli til þess að uppfylla skilyrði til greiðslu örorkulífeyris. Kæranda var metinn örorkustyrkur fyrir tímabilið 1. apríl 2022 til 31. maí 2024. Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 2. nóvember 2022, var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur felld úr gildi og málinu heimvísað til nýrrar meðferðar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. nóvember 2022.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að kæran lúti að málshraða varðandi afgreiðslu á umsókn kæranda um örorkulífeyri á grundvelli 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Augljóst sé að afgreiðsla málsins muni dragast fram úr hófi, án þess að fyrir því séu málefnaleg rök. Eftir að úrskurðarnefnd velferðarmála hafi úrskurðað í máli nr. 416/2022 þann 2. nóvember 2022 hafi Tryggingastofnun borið að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar. Með bréfi þann 23. nóvember 2022 hafi Tryggingastofnun tilkynnt kæranda að hún þyrfti að mæta aftur í læknisskoðun á vegum stofnunarinnar. Í bréfinu hafi ekki verið getið hvenær sú skoðun færi fram. Öll gögn eigi þegar að liggja fyrir í máli kæranda og myndi það tefja afgreiðslu á umsókn hennar úr hófi að senda hana aftur í læknisskoðun.

Þá telji kærandi það íþyngjandi að þurfa ekki einungis að bíða eftir að fá tíma í læknisskoðun heldur einnig að vera gert að ferðast aftur langa leið til að fara aftur í skoðunina. Enda liggi nú þegar fyrir skoðunarskýrsla vegna læknisskoðunar á vegum Tryggingastofnunar og eins og fram komi í 2. málsl. 3. gr. reglugerðar nr. 379/1999 fari læknisskoðun fram ef það sé talið nauðsynlegt. Kærandi hafi ekki fengið skjöl í hendur þess efnis að rökstudd afstaða hafi verið tekin til þess misræmis sem sé á milli skýrslu skoðunarlæknis og annarra gagna málsins og því hvort nauðsyn sé á að kærandi fari aftur í læknisskoðun á vegum Tryggingastofnunar.

Að öllu framangreindu virtu sé þess óskað að Tryggingastofnun íþyngi kæranda ekki að ósekju nema fyrir liggi að önnur læknisskoðun sé nauðsynleg.

III. Niðurstaða

Mál þetta varðar afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda, dags. 1. mars 2022, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Afgreiðsla málsins er kærð á grundvelli 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að ákvarðanir í málum skulu teknar svo fljótt sem unnt er. Í 4. mgr. 9. gr. segir svo að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Verður að telja að stjórnvöldum sé skylt að gera þær ráðstafanir hverju sinni til að mál verði til lykta leidd eins fljótt og unnt er. Við mat á því hvenær telja beri að mál hafi dregist óhæfilega ber að líta til þess hve langan tíma afgreiðsla sambærilegra mála tekur almennt, en einnig ber að taka tillit til umfangs og atvika máls hverju sinni sem og hvort málið varði mikilvæga hagsmuni fyrir aðila máls. Hafi mál dregist umtalsvert fram yfir venjulegan afgreiðslutíma, án þess að fyrir liggi réttlætanlegar ástæður, er um óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls að ræða.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með umsókn, dags. 1. mars 2022. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. maí 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að hún hefði ekki fengið nægjanlega mörg stig samkvæmt örorkustaðli til þess að uppfylla skilyrði til greiðslu örorkulífeyris. Kæranda var metinn örorkustyrkur fyrir tímabilið 1. apríl 2022 til 31. maí 2024. Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 2. nóvember 2022, var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur felld úr gildi og málinu heimvísað til nýrrar meðferðar. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 21. nóvember 2022, var kæranda tilkynnt að málið væri í skoðun hjá stofnuninni. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 23. nóvember 2022, var kæranda tilkynnt að stofnunin hefði ákveðið að boða hana í viðtal og skoðun hjá skoðunarlækni. Þegar liggi fyrir hvaða skoðunarlæknir muni hitta hana verði henni sendar nánari upplýsingar.

Samkvæmt því sem fram kemur í kæru telur kærandi að með því að senda hana aftur til skoðunarlæknis, án þess að fyrir því séu málefnaleg rök, sé verið að draga málið úr hófi fram.  Kærandi telur að öll gögn liggi þegar fyrir.

Í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, sem kveðinn var upp 2. nóvember 2022, taldi nefndin að misræmi væri á milli skoðunarskýrslu og annarra gagna varðandi mat á andlegri færni kæranda. Í ljósi þess var það mat nefndarinnar að rétt væri að nýtt mat færi fram á örorku kæranda. Með hliðsjón af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, telur nefndin eðlilegt að kærandi hafi verið boðuð til nýrrar skoðunar hjá Tryggingastofnun. Fyrir liggur að tvær vikur og fimm dagar liðu frá því að úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð í málinu og þar til Tryggingastofnun tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 21. nóvember 2022, að málið væri í skoðun. Þá liðu þrjár vikur frá úrskurði og þar til kæranda var tilkynnt með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 23. nóvember 2022, að hún yrði boðuð í skoðun hjá skoðunarlækni. Í ljósi þess er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að stofnunin hafi unnið í máli kæranda með viðunandi hætti hvað málshraða varðar. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að afgreiðsla máls kæranda hafi ekki dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ekki er fallist á að afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins í máli A, hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta