Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 369/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 369/2020

Miðvikudaginn 14. október 2020

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, móttekinni 29. júlí 2020, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 8. maí 2020 um bætur til kæranda úr sjúklingatryggingu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, sem barst Sjúkratryggingum Íslands þann 10. janúar 2019, vegna afleiðinga meðferðar sem fór fram á Landspítalanum þann 4. október til 21. nóvember 2018. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 8. maí 2020, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. júlí 2020. Með bréfi, dags. 12. ágúst 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 26. ágúst 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. ágúst 2020, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi kærir höfnun Sjúkratrygginga Íslands á bótarétti hans samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu og telur að skilyrðum laganna sé fullnægt þannig að hann eigi rétt til bóta vegna líkamstjóns þess sem hlaust af sýkingu í hrygg í kjölfar aðgerðar þann 27. febrúar 2018.

Málavöxtum er lýst í kæru. Kærandi hafi þann 27. febrúar 2018 farið brjósklosaðgerð vegna verkja í baki sem hafi leitt niður í fót. Eftir aðgerðina hafi kærandi losnað við verkinn niður fótinn en áfram haft verki niður í aftanvert læri, sem hafi verið til staðar í um það vil tvo mánuði. Um miðjan júlí hafi orðið skyndileg versnun og kærandi leitað á bráðamóttöku Landspítala þann 28. ágúst 2018, en þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir kæranda í endurkomum sínum á Landspítalanum hafi sýkingin ekki verið greind fyrr en í október, eða fjórum vikum eftir fyrstu komu. Þá fyrst hafi „segulómrannsókn verið framkvæmd sem sýndi aukinn bjúg á hryggjarsvæðinu og sneiðmyndastýrð ástunga á lendhrygg“. Rannsóknir hafi farið fram þar til kærandi greindist með DRESS heilkenni þann 4. nóvember 2018 sem sé sjaldgæft og alvarlegt lyfjaofnæmi. Líðan hans hafi farið versnandi og hann lagst inn á gjörgæsludeild 6. nóvember 2018. Eftir versnun 13. til 14. nóvember 2018 hafi öll sýklalyfjagjöf verið stöðvuð og sterameðferð hafin á ný. Kærandi hafi útskrifast 20. nóvember 2018 og þá verið betri af bakverkjum. Þann 6. janúar 2019 hafi komið í ljós magasár við magaspeglun. Verkir verið túlkaðir sem aukaverkun sterameðferðar. Þann 15. febrúar 2019 hafi kærandi innritast til endurhæfingar á dagdeild Landspítala.

Kærandi telur að hann hafi verið vangreindur þar til í októbermánuði 2018, en þá hafi komið í ljós alvarleg sýking í hrygg. Í október 2018 hafi fyrst verið tekin sneiðmynd og tekið blóðsýni sem rétt hefði verið að gera strax í september 2018 þegar verkur hafði versnað mikið. Kærandi telji augljóst að sú staðreynd að ef ítarleg rannsókn hefði verið framkvæmd í september hefði hann ekki orðið fyrir eins alvarlegri sýkingu með jafn alvarlegum afleiðingum og raun bar vitni.

Samkvæmt lögum nr. 111/2000 eigi þeir meðal annars rétt til bóta sem verði fyrir líkamlegu tjóni í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð hér á landi. Kærandi byggi á 1. og 4. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000. Kærandi telji að líkamstjón hans megi rekja til þess að ekki hafi verið staðið rétt að læknismeðferð í kjölfar aðgerðar þann 27. febrúar 2018 og/eða um sé að ræða fylgikvilla meðferðar sem ósanngjarnt sé að hann þoli bótalaust.

Í bréfi Sjúkratrygginga Íslands frá 8. maí 2020 segi að ekki verið annað séð en að sú meðferð sem fór fram á Landspítala þann 4. október til 21. nóvember 2018 hafi verið hagað eins vel og unnt hafi verið og í samræmi við almennt viðurkennda og gagnreynda læknisfræði. Með vísan til þessa sé ekki um að ræða bótaskylt atvik með vísan til 2. og 3. gr. laga um sjúklingatryggingu. Kærandi sé ósammála niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands og telji ljóst af gögnum málsins að sú mánaðartöf sem varð á réttri greiningu hafi valdið honum varanlegum miska og varanlegri örorku.

Kærandi vekji athygli á því að Sjúkratryggingar Íslands byggi á því að læknar hafi beitt hefðbundnum aðferðum til greiningar á sýkingunni á þeirri meðferð sem fór fram á Landspítala 4. október til 21. nóvember 2018. Kærandi telji að vanrækslan hafi átt sér stað á tímabilinu áður en framkvæmd hafi verið ítarleg rannsókn, þ.e. 28. ágúst 2018 til 4. október 2018, sem Sjúkratryggingar Íslands virðast ekki taka inn í heildarmyndina á greiningartímabili kæranda. Kærandi bendi á að hann hefði mögulega greinst á því tímabili ef fullnægjandi rannsókn hefði verið framkvæmd strax í upphafi. Það sé því ljóst að kærandi hafi verið með sýkingu í hrygg án meðhöndlunar í mánuð þar til hann hafi fyrst fengið sýklalyf og ítarlega rannsókn.

Kærandi telji ljóst af gögnum málsins að stóran hluta af alvarleika sýkingarinnar í hryggnum sé að rekja til mánaðartafar á greiningu. Ef kærandi hefði fengið fullnægjandi meðhöndlun strax frá upphafi hefði hann ekki þurft að kljást við jafn svæsna sýkingu sem leiddi til innlagnar á gjörgæslu. Það sé því rangt mat hjá Sjúkratryggingum Íslands að hefðbundnum aðgerðum hafi verið beitt við greininguna þar sem hann hafi verið sendur heim með verkjalyf án frekari rannsókna fyrsta mánuðinn sem stofnunin virðist ekki taka inn í heildarmat sitt. Ætla megi að hægt hefði verið að afstýra tjóni hefði viðunandi rannsókn verið framkvæmd. Því sé um að ræða brot gegn 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Staða kæranda í dag sé sú að hann finni alltaf fyrir miklum verkjum í baki og hann hafi verið í stöðugri endurhæfingu á sjúkrahúsi og hjá fagaðilum. Að sögn kæranda sé hann kominn á 60% örorkulífeyri og bakið langt frá því að vera bærilegt. Því sé ljóst að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni sem sé bótaskylt samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu.

Í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands segi meðal annars varðandi 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu eftirfarandi:

„Að mati SÍ verður ekki fundið að þessu greiningar- og meðferðarferli. Hryggsýkingar geta verið mjög erfiðar í greiningu og að jafnaði má búast við tveggja til fjögurra mánaðar greiningartöf og að sama skapi meðferðartöf, þótt öllum venjulegum myndgreiningaraðferðum sé beitt. Með vísan til þessa eru skilyrði 1. tl. 2. gr. laganna ekki uppfyllt.“

Með vísan til þess, sem áður hafi komið fram, mótmæli kærandi þessari afstöðu Sjúkratrygginga Íslands. Eins og fram komi í meðfylgjandi sjúkraskrá hafi smitsjúkdómalæknir ekki komið að málinu fyrr en 4. október 2018. Kærandi hafi komið í endurkomur fyrir þann tíma á Landspítala og þrátt fyrir kvartanir hans um verki í baki og niður í fót hafi hvorki verið tekin mynd af kæranda né tekið blóð og ekki talið að um sýkingu væri að ræða, þrátt fyrir að öll einkenni kæranda hafi bent til þess. Kærandi telji því að hægt hefði verið að grípa inn í ástand hans fyrr en gert var.

Í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands segi meðal annars varðandi 4. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000 eftirfarandi:

„Staðbundnar sýkingar í hrygg eftir skurðaðgerðir geta verið alvarlegar og íþyngjandi. Tíðni þeirra er mismunandi í tiltækum heimildum, en er talin allt að 9, 12 eða 18%. Af þessu má ráða að um er að ræða algengan fylgikvilla liðskiptaaðgerðar sem ekki getur verið grundvöllur bótaskyldu samkvæmt 4. tl. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.“

Kærandi mótmæli þessari afstöðu Sjúkratrygginga Íslands með hliðsjón af gögnum málsins. Ljóst sé að tíðni fylgikvillans sé mismunandi líkt og stofnunin greini frá og því þurfi að meta hvert tilvik fyrir sig. Kærandi telji ljóst af gögnum málsins og stöðu hans í dag að sýkingin hafi verið mjög alvarleg og hafi haft miklar heilsufarslegar afleiðingar fyrir hann sem hann enn þann dag í dag stríði við og eigi ekki að þurfa að þola bótalaust.

Með vísan til framangreindrar umfjöllunar sem og gagna þeirra sem fylgi kæru þessari, telji kærandi sig uppfylla skilyrði 1. og 4. tölul. 2. gr. laganna þannig að hann eigi rétt til bóta vegna þess líkamstjóns sem leiddi af vanrækslu rannsóknar eftir aðgerðina. Leiða megi líkur að því að ef rétt hefði verið staðið að læknismeðferð og rannsókn um leið og hann leitaði til Landspítala hefði kærandi ekki þurft að þola jafn svæsna sýkingu og raun bar vitni.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að afstaða Sjúkratrygginga Íslands hafi þegar komið fram í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 8. maí 2020. Sjúkratryggingar Íslands vísi til þeirrar umfjöllunar sem fram komi í gögnum málsins.

Sjúkratryggingar Íslands telji þó rétt að benda á að í kæru sé því haldið fram að kærandi hafi komið í endurkomur á Landspítala frá 28. ágúst til 4. október 2018 án þess að teknar hafi verið af honum myndir eða fengnar blóðprufur, þrátt fyrir kvartanir hans um verki í baki og niður í fót. Í bráðamóttökuskrá Landspítala, dags. 28. ágúst 2018, komi fram að kærandi hafi verið ómskoðaður ásamt því að teknar hafi verið af honum blóðprufur sem hafi komið sakleysislega út. Þá segi í bráðamóttökuskrá, dags. 2. september 2018, meðal annars eftirfarandi:

„ ... Hann hefur síðustu 6 vikur verið með versnandi verki í mjóhrygg. Ekki svo mikið leiðnisverkir í ganglimi eða dofi en í kvöld þegar að hann var að ganga inn á klósetið fékk hann skyndilega mikinn verk og sting í mjóhrygg og verra hægra megin ...“

Þá segi einnig:

„blóðprufa sýnir væga lækkun á Hgb 132 annað í lagi.“

Þannig sé ljóst að grunnrannsókn hafi verið gerð á blóði þann 28. [ágúst] 2018 og 2. september 2018. Óumdeilt sé að kærandi hafi fengið mikinn verk í hrygg þann 2. september 2018, en slíkt sé ekki óvanalegt hjá sjúklingum sem hafi haft brjósklos í hrygg og þurft að gangast undir aðgerð. Með vísan til ofangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að afleiðingar vangreiningar á sýkingu í hrygg sé bótaskyld samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Ef niðurstaðan sé hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkast í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Kærandi byggir kröfu sína um bætur úr sjúklingatryggingu á 1. og 4. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Hann hafi orðið fyrir líkamlegu tjóni sem rekja megi til þess að ekki hafi verið staðið rétt að læknismeðferð og/eða um sé að ræða fylgikvilla meðferðar sem ósanngjarnt sé að hann þoli bótalaust.

Í greinargerð meðferðaraðila, dags. 28. mars 2019, kemur meðal annars fram að kærandi hafi lýst bata í kjölfar brjósklosaðgerðar. Hann hafi síðan leitað á bráðamóttöku Landspítala 28. ágúst 2018 vegna bakverkja. MRI af lendhrygg hafi sýnt post-op breytingar á L4-5 hægra megin með örmyndun og bjúg í aðlægðum liðflötum. Blóðprufur hafi ekki sýnt bólgu og hann útskrifast heim. Kærandi hafi leitað aftur á bráðamóttöku 2. september 2018 vegna slæmra verkja í baki og þurft verkjalyf í æð og útskrifast heim með verkjalyf og stuttan sterakúr. Kærandi hafi leitað á ný á bráðamóttöku 4. október og ný [MRI] rannsókn þann dag hafi sýnt aukinn bjúg. Eðlilegt sökk, CRP og hvít blóðkorn. Hann hafi verið hitalaus. Kærandi hafi lagst inn á lyflækningadeild A2 og gerð hafi verið TS-stýrð ástunga á lendhrygg 5. október vegna versnandi einkenna og nýtilkominna breytinga á MRI sem gefið hafi grun um sýkingu í hrygg. Kærandi hafi verið settur á sýklalyf í æð, Vancomycin og Cefazolin, og fluttur á smitsjúkdómadeild A7. Ræktanir úr blóði og úr sýni hafi reynst neikvæðar. Meðan beðið hafi verið eftir lokaniðurstöðum úr sýklarannsókn hafi kærandi fengið sýklalyf en áfram verið verkjaður og enginn bati. Því hafi sýklalyfjagjöf verið stöðvuð 20. október. Leitað hafi verið ráða hjá verkjateymi vegna erfiðra verkja og einnig fengin ráðgjöf gigtlækna sem hafi ekki séð merki um gigtsjúkdóm. Nýtt MRI þann 17. október hafi sýnt óbreytt ástand miðað við síðustu rannsókn. Tölvusneiðmynd þann 23. október hafi sýnt breytingar grunsamlegar fyrir sýkingu. Gerð hafi verið ný ástunga 24. október. Vefjarannsókn hafi sýnt engar verulegar breytingar og sýklaræktun hafi aftur verið neikvæð. Í kjölfar ástungu hafi kærandi verið settur aftur á sýklalyf meðan beðið hafi verið eftir niðurstöðu, Ceftriaxone, Vancomycin og Doxycyclin. Kærandi hafi veikst með hita aðfaranótt 1. nóvember og fengið útbrot. Fengið hafi verið álit ofnæmislækna og flestöll lyf verið stöðvuð. Næstu sólarhringa áframhaldandi útbrot og hiti þrátt fyrir steragjöf í æð. Sett inn ný sýklalyf 4. nóvember, Daptomycin og Ciprofloxacin. Auk útbrota, eosinophilia og brengluð lifrapróf. Reynst vera DRESS syndrom sem sé svæsið lyfjaviðbragð. Kærandi hafi verið áfram versnandi 6. nóvember með hita og lækkaðan blóðþrýsting og verið fluttur á gjörgæslu. Innlögn þar í tvo daga. Í kjölfarið fengið álit geðlækna en kærandi hafi verið kominn með mikla andlega vanlíðan vegna verkja og alvarlegra veikinda. Aftur versnun með hita 13. til 14. nóvember og aftur hækkun á lifrarprófum og sterar því auknir á ný og Daptomycin stöðvað. Kærandi hafi fengið Methylprednisolon bolus 15. nóvember í samráði við ónæmislækna og síðan 60 mg Predbnisolon daglega. Kærandi hafi svarað þessari meðferð með hitalækkun og batnandi prufum. Nýtt MRI þann 19. nóvember hafi sýnt batnandi mynd með minnkandi bólgu. Á þessum tímapunkti hafi kærandi fengið samtals rúmar fimm vikur af virkri sýklalyfjameðferð gegn spondylodiskit og þeirri meðferð því lokið. Hann hafi útskrifast heim af A7 þann 20. nóvember eftir nærri sjö vikna legu og þá betri af sínum bakverkjum.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Samkvæmt gögnum málsins fór kærandi í brjósklosaðgerð 27. febrúar 2018 á L4/L5 og fékk þokkalegan bata. Í júlí 2018 ágerðust bakverkir kæranda og kom hann til skoðunnar í lok ágúst 2018 og aftur í byrjun september 2018. Kærandi var illa kvalinn af verkjum en rannsóknir bentu ekki til sýkinga. Frekari versnun varð 4. október 2018 og kom þá í ljós að aukin bjúgmyndun var í kringum aðgerðarsvæði. Grunur var um sýkingu og reynt að rækta með ástungu og hafin þriggja lyfja lyfjameðferð sem var stöðvuð 20. október 2018. Eftir að tölvusneiðmynd var tekin af kæranda 23. október 2018 kom upp grunur um sýkingu og var því lyfjameðferð haldið áfram. Kærandi veiktist þá af DRESS heilkenni sem er lífshættulegt og er meðferð vegna veikindanna ítarlega líst í gögnum málsins.

Sýkingar í kjölfar aðgerðar á stoðkerfi, þar með talið við brjósklosaðgerðir, eru vel þekktir fylgikvillar slíkra aðgerða. Ljóst er að kærandi var skoðaður með tilliti til þessa strax í lok ágúst 2018 og í byrjun september 2018, en vísbendingar um sýkingu urðu ekki skýrar fyrr en í byrjun október 2018.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála fékk kærandi sýkingu sem er vel þekktur fylgikvilli brjósklosaðgerða. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi greindur með eðlilegum og tímanlegum hætti en kærandi fékk lyfjatengt heilkenni í kjölfar meðferðar (DRESS). Úrskurðarnefndin telur því að rannsókn og meðferð hafi verið hagað eins vel og unnt hafi verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. 

Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur ef tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð sem ætlað sé að greina sjúkdóm og tjónið sé af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Í lagaákvæðinu eru gefin viðmið hér að lútandi:

  1. Líta skal til þess hve tjónið er mikið.
  2. Líta skal til sjúkdóms og heilsufars viðkomandi að öðru leyti.
  3. Taka skal mið af því hvort algengt sé að tjón verði af umræddri meðferð.
  4. Hvort eða að hve miklu leyti mátti gera ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.

 

Til nánari glöggvunar á því hvaða atriði eigi að leggja til grundvallar við framangreint mat verður að líta til tilgangs löggjafans og hvert markmiðið hafi verið með ákvæðinu. Í greinargerð með ákvæðinu í frumvarpi til laganna kemur fram að markmið með nefndum 4. tölul. 2. gr. sé að ná til heilsutjóns, sem ekki sé unnt að fá bætt samkvæmt 1.-3. tölul. greinarinnar, en ósanngjarnt þyki að menn þoli bótalaust, einkum vegna misvægis á milli þess hve tjónið sé mikið og þess hve veikindi sjúklings voru alvarleg. Þá segir að við matið skuli taka mið af eðli veikinda og hve mikil þau séu svo og almennu heilbrigðisástandi sjúklings. Ef augljós hætta sé á að sjúklingur hljóti mikla örorku eða deyi ef sjúkdómurinn sé látinn afskiptalaus, verði menn að sætta sig við verulega áhættu af alvarlegum eftirköstum meðferðar. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að kærandi hafi fengið vel þekktan fylgikvilla brjósklosaðgerða, sýkingu sem hafi verið meðhöndluð með eðlilegum hætti.

Með hliðsjón af því, sem rakið hefur verið, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði bótaskyldu samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er því staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta