Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 426/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 426/2021

Miðvikudaginn 22. september 2021

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, sem barst úrskurðarnefndinni 23. ágúst 2021, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 19. júní 2019 þar sem kæranda var synjað um greiðslu örorkubóta vegna slyss.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 19. júní 2019, var samþykkt bótaskylda úr slysatryggingum almannatrygginga vegna slyss sem kærandi varð fyrir X. Kæranda var bent á að hún gæti átt rétt á endurgreiðslu útlagðs kostnaðar en að dagpeningar eða örorkubætur myndu ekki greiðast þar sem kærandi hafi verið metin til 75% örorku og fái greiddan örorkulífeyri en umræddar bætur greiðist ekki saman, sbr. 14. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. ágúst 2021.


 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá slysinu sem hún varð fyrir og afleiðingum þess sem hún sé enn að glíma við. Sjúkratryggingar Íslands neiti að borga henni bætur fyrir slysið af því að hún sé öryrki og sé búin að vera það í mörg ár. Henni finnist það ekki koma málinu við að stofnunin borgi ekki slysabætur samhliða örorkubótum.

III.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands sem tilkynnt var með bréfi, dags. 19. júní 2019, þar sem synjað var um greiðslu örorkubóta vegna slyss.

Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. ágúst 2021 en þá var kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um sjúkratryggingar löngu liðinn.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Samkvæmt gögnum málsins leið meira en ár frá því að kæranda var tilkynnt um ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands þann 19. júní 2019 og þar til kæra barst úrskurðarnefndinni 23. ágúst 2021. Þegar af þeirri ástæðu skal kæru ekki sinnt, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála þar sem kærufrestur er liðinn, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta