Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Nr. 131/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 131/2018

Miðvikudaginn 5. september 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 3. apríl 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 20. mars 2018 um að stöðva greiðslu heimilisuppbótar til kæranda afturvirkt til 1. febrúar 2014 og krefjast endurgreiðslu ofgreiddra heimilisuppbótar, auk álags.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 21. október 2013, samþykkti Tryggingastofnun ríkisins umsókn kæranda um heimilisuppbót frá 1. október 2013. Með bréfi, dags. 12. febrúar 2014, var kæranda tilkynnt um að stofnuninni hefðu borist upplýsingar frá Þjóðskrá um breytingu á lögheimili og að greiðslur falli niður frá og með 1. apríl 2014 nema ný umsókn og fylgigögn berist stofnuninni. Kærandi sótti um greiðslur heimilisuppbótar með umsókn, dags. 20. mars 2014. Með bréfi, dags. 2. apríl 2014, var umsókninni synjað á þeim grundvelli að B væri skráð til sama heimilis og kærandi. Með bréfi, dags. 3. janúar 2017, var samþykkt að hefja greiðslur heimilisuppbótar að nýju frá 1. apríl 2014. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. mars 2018, var kæranda tilkynnt um stöðvun heimilisuppbótar frá 1. febrúar 2014 á þeim grundvelli að samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá væri B skráð til lögheimilis á sama stað og hann. Kæranda var veittur frestur til að andmæla væntanlegri stöðvun og innheimtu kröfu með 15% álagi með framlagningu gagna sem staðfesta að þau búi ekki í sömu íbúð eða að þau hafi ekki fjárhagslegt hagræði af sambýlinu. Kærandi andmælti ekki framkominni ákvörðun Tryggingastofnunar. Með bréfi, dags. 12. apríl 2018, var kærandi krafinn um ofgreidda heimilisuppbót frá 1. febrúar 2014, auk 15% álags.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. apríl 2018. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 9. maí 2018, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. maí 2018. Með bréfi, dags. 6. júní 2018, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir frekari rökstuðningi Tryggingastofnunar fyrir þeirri ákvörðun að innheimta kröfu að viðbættu 15% álagi, sbr. 5. mgr. 45. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Rökstuðningur barst frá Tryggingastofnun með bréfi, dags. 27. júní 2018, og var hann sendur kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að fella niður heimilisuppbót til hans verði felld úr gildi og honum veitt heimilisuppbót á ný.

Þá kemur einnig fram í kæru að kærandi hafi alltaf fengið heimilisuppbót og óskar hann eftir að fá rökstuðning fyrir ákvörðuninni.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar um stöðvun greiðslna heimilisuppbótar til kæranda frá 1. febrúar 2014 og endurkrafa þeirra greiðslna frá þeim tíma.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 20. mars 2018, hafi greiðsla heimilisuppbótar verið stöðvuð til kæranda frá og með 1. apríl 2018 þar sem kærandi hafi ekki lengur uppfyllt skilyrði laga um að vera einn um heimilisrekstur þar sem B, […], sé skráð til heimilis á sama stað og kærandi. Komið hafi í ljós við hefðbundið eftirlit hjá Tryggingastofnun að hún hafi verið skráð með lögheimili á sama stað og kærandi frá 3. janúar 2014.

Í bréfi Tryggingastofnunar frá 20. mars 2018 hafi verið veittur frestur til að andmæla og til að skila inn gögnum sem staðfestu að ekki væri um búsetu í sömu íbúð að ræða eða að ekki væri fjárhagslegt hagræði af sambýlinu. Komið hafi fram að ef engin gögn bærust yrði mynduð krafa frá 1. febrúar 2014 og í kjölfarið yrði sent bréf þar sem fram kæmi upphæð kröfunnar með 15% álagi. Kærandi hafi ekki nýtt frestinn til andmæla og því hafi kæranda verið sent bréf, dags. 12. apríl 2018, með upphæð kröfunnar frá 1. febrúar 2014 með 15% álagi, sundurliðað eftir árum.

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða heimilisuppbót til lífeyrisþega sem sé einhleypingur og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Í 8. gr. reglugerðar nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri komi fram að heimilisuppbót verði ekki greidd til aðila sem svo er ástatt um sem hér segi.

„1.  Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra aðila.

2.    Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að hafa sameiginlega aðstöðu varðandi fæði eða húsnæði, t.d. sambýli á vegum félagasamtaka eða ríkis og bæja.

3.    Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að leigja herbergi eða húsnæði með sameiginlegri eldunaraðstöðu með öðrum.“

Þá komi fram í 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð að ákvæði laga nr. 100/2007 um almannatryggingar gildi um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við eigi.

Í 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segi að hafi Tryggingastofnun ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skuli stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til. Einnig eigi Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum.

Þá segi í 5. mgr. 45. gr. laga um almannatryggingar að komi í ljós að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða einstaklingur hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að njóta tryggingar eða fá óréttmætar greiðslur skuli greiðsluþegi endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi.

Í þessu máli sé […]kona kæranda skráð með búsetu á sama lögheimili og hann. Kærandi hafi viðurkennt í símtali við stofnunina 3. maí 2018 að hún búi hjá honum en hún borgi ekki leigu heldur hann og að hann sé einungis að hjálpa henni að koma undir sig fótunum. Kærandi hafi ekki skilað inn gögnum sem gætu sýnt fram á að hann njóti ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýlinu við B.

Í málinu liggi einnig fyrir tveir leigusamningar frá árinu 2014 sem C hafi gert annars vegar við kæranda og hins vegar við B um leigu á sömu eigninni frá sama tíma, þ.e. D frá 3. janúar 2014.

Stofnunin líti svo á að almennt teljist einstaklingar, eldri en tvítugir sem búi saman og séu skráðir með sama lögheimili, hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan nema sýnt sé fram á annað.

Tryggingastofnun telji ljóst að stöðvun á greiðslum heimilisuppbótar til kæranda og endurkrafa þeirra greiðslna vegna breyttra aðstæðna hans, hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög, reglugerðir og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem almennt hafi verið talið að einstaklingur sem býr með öðrum einstaklingi hafi fjárhagslegt hagræði af sambýlinu. Tryggingastofnun telji því ekki ástæðu til þess að breyta þeirri ákvörðun sinni.

Tryggingastofnun telji rétt að beita heimildinni í 5. mgr. 45. gr. laga um almannatryggingar í ljósi þess og með vísan til meðfylgjandi gagna að kærandi hafi vísvitandi látið hjá líða að veita réttar upplýsingar til stofnunarinnar í því skyni að þiggja bætur sem hann hafi ekki átt rétt á.

Í rökstuðningi Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. júní 2018 er vísað til 5. mgr. 45. gr. laga um almannatryggingar er segi að komi í ljós að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða einstaklingur hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að njóta tryggingar eða fá óréttmætar greiðslur skuli greiðsluþegi endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi.

Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá hafi kærandi og B […] og frá þeim tíma hafi hún verið skráð með lögheimili að E. Þann 3. janúar 2014 sé lögheimili hennar skráð að D, sama lögheimili og kærandi. Í málinu liggi fyrir tveir leigusamningar frá árinu 2014 sem C. hafi gert annars vegar við kæranda og hins vegar við B um leigu á sömu eigninni frá sama tíma, þ.e. D frá 3. janúar 2014.

Tryggingastofnun líti svo á að kærandi hafi frá árinu 2014 vísvitandi búið með einstaklingi sem hann njóti fjárhagslegs hagræðis af og þegið ranglega heimilisuppbót frá stofnuninni frá þeim tíma. Gerð leigusamninga þeirra tveggja á árinu 2014 sýni það. Þá hafi kærandi viðurkennt í símtali við stofnunina að hann búi með henni og sjái ekkert athugavert við það og ekki hafi verið nauðsynlegt að láta vita af því.

Tryggingastofnun hafi sett sér vinnureglur varðandi beitingu 5. mgr. 45. gr. laga nr. 100/2007. Samkvæmt þeim skuli beita ákvæðinu þegar um sé að ræða kröfur sem myndist vegna réttinda sem greiðsluþegi hafi ekki átt rétt á og þær nái yfir lengri tíma en 6 mánuði aftur í tímann. Um slíkt sé að ræða í þessu máli og því telji Tryggingastofnun, með vísan til alls ofangreinds og fyrri greinargerðar sinnar, að rétt hafi verið að innheimta kröfu með 15% álagi.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar og endurkrefja kæranda um ofgreiðslu heimilisuppbótar fyrir tímabilið 1. febrúar 2014 til 30. mars 2018 með 15% álagi.

Um heimilisuppbót er kveðið á um í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu, þar sem segir í 1. mgr.:

„Heimilt er að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem býr einn og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.“

Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði ákvæðisins að vera uppfyllt. Í reglugerð nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, með síðari breytingu, eru skilyrði ákvæðisins nánar útfærð. Í 8. gr. reglugerðarinnar segir að einstaklingar sem séu skráðir með sama lögheimili og séu eldri en 18 ára teljist að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan.

Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda lög nr. 100/2007 um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á.

Af gögnum málsins má ráða að kærandi hefur fengið greidda heimilisuppbót frá Tryggingastofnun ríkisins. Við eftirlit Tryggingastofnunar með réttmæti greiðslna kom í ljós að B, […] kæranda, hefði verið skráð með sama lögheimili og kærandi frá 3. janúar 2014. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 20. mars 2018, var kæranda tilkynnt um að sökum framangreinds virtist hann ekki uppfylla skilyrði um að vera einn um heimilisrekstur og að heimilisuppbótin yrði stöðvuð frá 1. apríl 2018. Kæranda var veittur 14 daga frestur til að andmæla og senda gögn sem staðfesti að hann og B byggju ekki í sömu íbúð eða hafi ekki fjárhagslegt hagræði af sambýlinu. Þá sagði að ef engin gögn bærust yrði mynduð krafa frá 1. febrúar 2014. Kærandi andmælti ekki framkominni ákvörðun Tryggingastofnunar. Með bréfi, dags. 12. apríl 2018, var kærandi krafinn um ofgreidda heimilisuppbót frá 1. febrúar 2014, auk 15% álags.

Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár Íslands er lögheimili B skráð á sama stað og lögheimili kæranda og hefur verið það síðan 3. janúar 2014. Þá liggja fyrir afrit af tveimur samhljóða þinglýstum húsaleigusamningum kæranda og B þar sem fram kemur að hún sé leigutaki að sömu fasteign og kærandi frá og með 3. janúar 2014. Einnig liggur fyrir að í ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 20. mars 2018 var kæranda veittur frestur til að leggja fram gögn sem staðfesti að hann búi ekki í sömu íbúð og B eða að kærandi hefði ekki fjárhagslegt hagræði af sambýlinu.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að þau gögn sem liggja fyrir í málinu séu nægjanleg til þess að sýna fram á að kærandi búi ekki einn. Úrskurðarnefndin telur að einstaklingar eldri en 18 ára sem búi saman teljist að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 1052/2009. Engin gögn liggja fyrir um að kærandi njóti ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýlinu, þrátt fyrir að honum hafi verið gefinn kostur á að leggja slíkt fram. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð.

Í hinni kærðu ákvörðun er kveðið á um endurkröfu á ofgreiddri heimilisuppbót, auk álags. Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur til þess að í 1. mgr. 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um þá meginreglu að stofnunin skuli endurkrefja um ofgreiddar bætur. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“

Þá er í 5. mgr. 45. gr. laga um almannatryggingar kveðið á um þau tilvik þegar Tryggingastofnun er heimilt að innheimta óréttmætar greiðslur að viðbættu álagi. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Komi í ljós að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða einstaklingur hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að njóta tryggingar eða fá óréttmætar greiðslur skal greiðsluþegi endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi.“

Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar á Tryggingastofnun ríkisins endurkröfurétt á hendur kæranda samkvæmt almennum reglum hafi hann fengið ofgreiddar bætur. Fyrir liggur að B hefur verið með lögheimili á sama stað og kærandi frá 3. janúar 2014 og jafnframt verið leigutaki fasteignarinnar frá þeim tíma. Í ljósi þess er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar frá þeim tíma. Úrskurðarnefndin fellst því á það mat Tryggingastofnunar ríkisins að greiðslur heimilisuppbótar hafi verið ofgreiddar frá 1. febrúar 2014. Aftur á móti liðu meira en fjögur ár frá því að kærandi fékk greiðslur fyrir febrúar og mars 2014 þangað til Tryggingastofnun ríkisins krafði hann um endurgreiðslu með bréfi, dags. 12. apríl 2018, og því er krafa stofnunarinnar vegna þeirra mánaða fyrnd, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Tryggingastofnun hefur skýra heimild til að endurkrefja kæranda um greiðslur frá 1. apríl 2014, enda voru greiðslur vegna þess tímabils ekki greiddar fyrr en í janúar 2017 eða síðar. 

Samkvæmt 5. mgr. 45. gr. laga um almannatryggingar er það skilyrði fyrir að setja 15% álag á endurgreiðslukröfu að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða einstaklingur hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að njóta tryggingar eða fá óréttmætar greiðslur. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga nr. 8/2014 um breytingar á almannatryggingalögunum, segir svo:

„Í 5. mgr. er fjallað um þau tilvik þegar greiðslur hafa átt sér stað vegna vísvitandi rangrar eða ófullnægjandi upplýsingagjafar eða upplýsingaskorts. Í þeim tilvikum er lagt til að hin ofgreidda fjárhæð skuli endurgreidd að viðbættu 15% álagi. Kemur það í stað 5. mgr. 55. gr. gildandi laga þar sem kveðið er á um greiðslu dráttarvaxta ef um sviksamlegt atferli er að ræða og er sú breyting í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og 17. gr. laga nr. 138/1997, um húsaleigubætur. Hér er þó aðeins gert ráð fyrir álagi á hina ofgreiddu fjárhæð ef um sviksamlegt atferli móttakanda greiðslnanna er að ræða. Tryggingastofnun er eftir sem áður heimilt að kæra mál til lögreglu.“

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi sótti um greiðslur heimilisuppbótar með umsókn, dags. 20. mars 2014. Með bréfi, dags. 2. apríl 2014, var umsókninni synjað á þeim grundvelli að B væri skráð til sama heimilis og kærandi. Með bréfi, dags. 3. janúar 2017, var samþykkt að hefja greiðslur heimilisuppbótar að nýju frá 1. apríl 2014. Í bréfinu kemur fram að Tryggingastofnun hafi afgreitt umsókn kæranda um heimilisuppbót. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun liggur engin umsókn fyrir frá þessu tímabili og stofnuninni er ekki kunnugt um hvers vegna kærandi fékk samþykktar greiðslur aftur í tímann í janúar 2017. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki liggi fyrir að kærandi hafi vísvitandi veitt rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar eða látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að fá greidda heimilisuppbót. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er Tryggingastofnun ríkisins því ekki heimilt að krefja kæranda um álag á skuldina.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til kæranda staðfest. Ákvörðun stofnunarinnar um að endurkrefja kæranda um ofgreidda heimilisuppbót frá X með 15% álagi er felld úr gildi. Fallist er á að skilyrði fyrir endurkröfu ofgreiddrar heimilisuppbótar séu uppfyllt vegna tímabilsins frá 1. apríl 2014, án álags.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til A, er staðfest. Ákvörðun stofnunarinnar um að endurkrefja kæranda um ofgreidda heimilisuppbót frá Felmeð 15% álagi, er felld úr gildi. Fallist er á að skilyrði fyrir endurkröfu ofgreiddrar heimilisuppbótar séu uppfyllt vegna tímabilsins frá 1. apríl 2014, án álags.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta