Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 279/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 279/2024

Miðvikudaginn 4. september 2024

A og B

v/C

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 15. júní 2024, kærðu A og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. júní 2024 þar sem synjað var um breytingu á gildandi umönnunarmati vegna sonar kærenda, C. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umönnunarmati Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. mars 2024, var umönnun sonar kærenda felld undir 4. flokk, 25% greiðslur, fyrir tímabilið 1. mars 2022 til 31. janúar 2025. Óskað var eftir endurmati með tölvupósti 5. mars 2024 og umsókn 29. apríl 2024. Tryggingastofnun ríkisins synjaði beiðni um breytingu á gildandi umönnunarmati með bréfi, dags. 5. júní 2024. Með tölvupósti 7. júní 2024 óskuðu kærendur eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni og var hann veittur með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. júní 2024.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. júní 2024. Með bréfi, dags. 18. júlí 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 28. júní 2024, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kærendum með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. júlí 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kærenda

Í kæru kemur fram að sonur kærenda sé með sjaldgæft heilkenni sem fylgi margir kvillar sem hann þurfi mikinn stuðning og aðstoð með. Kærendum hafi verið synjað um hærra hlutfall umönnunarbóta þrátt fyrir að það sé afar skýrt hvað barnið þurfi mikla umönnun.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kært sé umönnunarmat stofnunarinnar.

Umönnunargreiðslur séu fjárhagsleg aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna, sem byggi á heimild í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Nánar sé rætt um heimildir og skilyrði greiðslna í reglugerð nr. 504/1997 um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna, með síðari breytingum.

Í lagaákvæðinu og í 1. gr. reglugerðarinnar sé það gert að skilyrði fyrir fjárhagslegri aðstoð frá Tryggingastofnun að barn sé haldið sjúkdómi eða andlegri eða líkamlegri hömlun og að sjúkdómur eða andleg eða líkamleg hömlun hafi í för með sér sannanleg, tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu.

Í 5. gr. reglugerðarinnar sé skilgreining á fötlunar- eða sjúkdómsstigum. Þar sé tilgreint að fara skuli fram flokkun á erfiðleikum barna út frá umönnun, gæslu og útgjöldum, annars vegar vegna barna með fötlun og þroska- og atferlisraskanir, og hins vegar vegna barna með langvinn veikindi.

Í máli kæranda sé um að ræða umönnun, gæslu og útgjöld vegna fatlaðra barna og barna með þroska- og atferlisraskanir og skilgreining á flokkum sé eftirfarandi:

· „fl. 1. Börn, sem vegna mjög alvarlegrar fötlunar, fjölfötlunar, eru algjörlega háð öðrum með hreyfifærni og/eða flestar athafnir daglegs lífs.

· fl. 2. Börn, sem vegna alvarlegrar fötlunar þurfa aðstoð og nær stöðuga gæslu í daglegu lífi t.d. vegna alvarlegrar eða miðlungs þroskahömlunar, hreyfihömlunar, sem krefst notkunar hjólastóls, verulegrar tengslaskerðingar, einhverfu, heyrnarskerðingar, sem krefst notkunar táknmáls/varalesturs, og blindu.

· fl. 3. Börn, sem vegna fötlunar þurfa aðstoð og gæslu í daglegu lífi t.d. vegna vægrar þroskahömlunar, hreyfihömlunar, sem krefst notkunar spelka og/eða hækja við ferli, heyrnarskerðingar, sem krefst notkunar heyrnartækja í bæði eyru, og verulegrar sjónskerðingar á báðum augum.

· fl. 4. Börn með alvarlegar þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem jafna má við fötlun eða geðræna sjúkdóma og krefjast þjálfunar og eftirlits sérfræðinga og aðstoðar í skóla og á heimili og meðal jafnaldra.

· fl. 5. Börn með vægari þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem þurfa aðstoð, þjálfun og eftirlit sérfræðinga.“

Kærandi hafi sótt um umönnunarmat með umsókn, dags. 6. febrúar 2024, sem hafi verið samþykkt samkvæmt 4. flokki, 25% greiðslur með bréfi, dags. 4. mars 2024, fyrir tímabilið 1. mars 2022 til 31. janúar 2025.

Kærandi hafi sótt aftur um umönnunarmat þann 29. apríl 2024 á þeim forsendum að samþykkt umönnunarmat væri ekki í réttum flokki/hlutfalli. Tryggingastofnun hafi með bréfi, dags. 5. júní 2024, synjað umsókninni á þeim grundvelli að framlögð gögn hafi ekki verið talin gefa tilefni til breytinga á gildandi umönnunarmati. Óskað hafi verið eftir rökstuðningi vegna synjunarinnar sem hafi verið veittur með bréfi, dags. 14. júní 2024. Í kjölfarið hafi ákvörðun Tryggingastofnunar verið kærð.

Þegar umönnunarmat sé gert sé byggt á 4. gr. laga um félagslega aðstoð. Þar segi að Tryggingastofnun sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna og taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu.

Nánar sé tilgreint um heimildir til aðstoðar í reglugerð nr. 504/1997 um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna. Í 5. gr. reglugerðarinnar sé ákveðin flokkun vegna umönnunar, gæslu og útgjalda vegna barna með fötlun, veikindi og þroskaraskanir. Þessi flokkun, ásamt fyrirliggjandi gögnum, séu notuð þegar umönnunarmat sé ákvarðað hjá Tryggingastofnun. Í 5. gr. reglugerðarinnar komi fram að undir 4. flokk, töflu I, falli börn sem séu með alvarlegar þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem jafna megi við fötlun eða geðræna sjúkdóma og krefjast þjálfunar og eftirlits sérfræðinga og aðstoðar í skóla og á heimili og meðal jafnaldra.

Yfirfarin hafi verið þau gögn sem hafi legið til grundvallar umönnunarmati. Með umsókn, dags. 6. febrúar 2024, hafi fylgt læknisvottorð, dags. 17. janúar 2024, DNA-rannsókn, dags. 10. janúar 2024, og tvö læknabréf, dags. 17. janúar 2024.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er greint frá því sem fram kemur í læknisvottorði D, dags. 17. janúar 2024. Annað læknabréfanna, dags. 17. janúar 2024, hafi verið útbúið vegna […] í E og hitt vegna umsóknar um forgang í leikskóla. Þar komi fram að mjög mikilvægt væri fyrir drenginn að komast að á leikskóla í umhverfi sem auðveldi áframhaldandi framfarir í þroska. Einnig væri mikilvægt fyrir hann að fá stuðningsfulltrúa.

Þann 4. mars 2024 hafi umönnunarmat verið samþykkt í 4. flokk, 25% greiðslur, fyrir tímabilið 1. mars 2022 til 31. janúar 2025.

Óskað hafi verið eftir endurskoðun ákvörðunarinnar 5. mars 2024 og hafi kæranda verið bent á að senda inn nýja umsókn. Með umsókn, dags. 29. apríl 2024, hafi kærandi sótt um umönnunargreiðslur. Meðfylgjandi hafi verið vottorð, dags. 14. apríl 2024, ásamt læknabréfum, dags. 17. janúar 2024, sem hafi borist með fyrri umsókn. Einnig hafi borist læknisvottorð frá Ráðgjafar- og greiningarstöðinni, dags. 7. maí 2024. Í greinargerð Tryggingastofnunar er greint frá sjúkdómsgreiningum sem tilgreindar eru í vottorðinu. Í vottorðinu komi meðal annars fram að drengurinn hafi í heildina tekið framförum í þroska, ekki hvað síst í hreyfiþroska. Það gangi erfiðlega að næra drenginn. Hann sé með víðtæk frávik í þroska í tengslum við litningafrávik/heilkenni.

Kæranda hafi verið synjað um breytingu á umönnunarmati, dags. 5. júní 2024, óskað hafi verið eftir rökstuðningi, dags. 7. júní 2024, sem hafi verið veittur með bréfi, dags. 14. júní 2024.

Þegar umönnunarmat sé gert sé byggt á 4. gr. laga um félagslega aðstoð. Þar segi að Tryggingastofnun sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna og taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu.

Nánar sé tilgreint um heimildir til aðstoðar í reglugerð 504/1997, með síðari breytingum. Í 5. gr. reglugerðarinnar sé ákveðin flokkun vegna umönnunar, gæslu og útgjalda vegna barna með fötlun, veikindi og þroskaraskanir. Þessi flokkun reglugerðarinnar, ásamt fyrirliggjandi gögnum, séu notuð þegar umönnunarmat sé ákvarðað hjá Tryggingastofnun.

Yfirfarin hafi verið þau gögn sem hafi legið til grundvallar umönnunarmati. Í læknisvottorði frá Ráðgjafar- og greiningarstöðinni, dags. 7. maí 2024, hafi meðal annars komið fram sjúkdómsgreiningarnar þroskahömlun, ótilgreind, hreyfiþroskaröskun, næringarvandi og […] heilkenni. Fram komi að drengurinn hafi í heildina tekið framförum í þroska, hann sé í sjúkraþjálfun og búið sé að vísa honum í iðjuþjálfun. Drengurinn geti gengið með stuðningi en sé kominn stutt áleiðis í málþroska. Hann myndi svolítið hljóð og framfarir séu almennt í hljóðamyndun.

Í umsókn foreldris, dags. 29. apríl 2024, komi fram að drengurinn þurfi mikla eftirfylgd og þjálfun í leikskóla, hann sé ekki byrjaður að ganga og það þurfi stöðugt að fylgjast með honum.

Í samræmi við áðurnefnda lagagrein og reglugerð hafi þótt viðeigandi að fella umönnun, gæslu og útgjöld vegna barnsins undir mat samkvæmt 4. flokki, 25% greiðslur, þar sem ljóst sé að drengurinn sé að glíma við ýmsa erfiðleika sem falli undir þroska- og atferlisröskun. Drengurinn þurfi þjálfun af hendi sérfræðinga ásamt aðstoð og stuðning í leikskóla. Undir 4. flokk falli börn sem séu með alvarlegar þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem jafna megi við fötlun eða geðræna sjúkdóma og krefjist þjálfunar og eftirlits sérfræðinga, aðstoðar í skóla, á heimili og meðal jafnaldra. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi ekki verið staðfest að vandi drengsins sé fötlun og því ekki grundvöllur fyrir hærra mati.

Með vísun til framangreinds telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun um umönnunarmat samkvæmt 4. flokki, 25% greiðslur. Stofnunin telji að miðað við fyrirliggjandi gögn sé ljóst að afgreiðsla málsins hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög, reglur og góða stjórnsýsluhætti.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. júní 2024 á beiðni um breytingu á gildandi umönnunarmati frá 4. mars 2024 vegna sonar kærenda. Í gildandi mati var umönnun drengsins felld undir 4. flokk, 25% greiðslur, frá 1. mars 2022 til 31. janúar 2025.

Ákvæði um umönnunargreiðslur er að finna í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Segir í 1. mgr. þeirrar lagagreinar að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Þá sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda barna með alvarleg þroskafrávik, sem jafna megi við fötlun, og barna með alvarleg hegðunarvandamál sem jafna megi við geðræna sjúkdóma.

Í 3. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð segir að Tryggingastofnun ríkisins meti þörf samkvæmt ákvæðinu og í 4. mgr. sömu greinar segir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar. Gildandi reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna er nr. 504/1997, ásamt síðari breytingum.

Í 5. gr. reglugerðarinnar er mælt fyrir um fimm mismunandi flokka vegna langveikra barna og fimm flokka vegna fatlaðra barna og barna með þroska- og atferlisraskanir. Falla alvarlegustu tilvikin í 1. flokk en þau vægustu í 5. flokk. Vegna þeirra barna sem falla í 5. flokk eru gefin út skírteini til lækkunar lyfja- og lækniskostnaðar en ekki eru greiddar sérstakar mánaðarlegar greiðslur, en það er gert vegna annarra flokka og fara þær greiðslur stighækkandi.

Í reglugerðinni er um að ræða tvenns konar flokkanir, annars vegar vegna umönnunar, gæslu og útgjalda vegna fatlaðra barna og barna með þroska- og atferlisraskanir, tafla I, og hins vegar vegna umönnunar, gæslu og útgjalda vegna langveikra barna, tafla II.

Um fyrri tegund flokkunar, þ.e. vegna umönnunar, gæslu og útgjalda vegna fatlaðra barna og barna með þroska- og atferlisraskanir, segir um 3. og 4. flokk:

„fl. 3.     Börn, sem vegna fötlunar þurfa aðstoð og gæslu í daglegu lífi t.d. vegna vægrar þroskahömlunar, hreyfihömlunar, sem krefst notkunar spelka og/eða hækja við ferli, heyrnarskerðingar, sem krefst notkunar heyrnartækja í bæði eyru, og verulegrar sjónskerðingar á báðum augum.

fl. 4.     Börn með alvarlegar þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem jafna má við fötlun eða geðræna sjúkdóma og krefjast þjálfunar og eftirlits sérfræðinga og aðstoðar í skóla og á heimili og meðal jafnaldra.“

Í umsókn kærenda um umönnunarmat frá 6. febrúar 2024 kemur fram í lýsingu á sérstakri umönnun eða gæslu að drengurinn sé í sjúkra- þroska- og talþjálfun auk iðjuþjálfunar. Drengurinn sé í reglulegu eftirliti hjá sérfræðingum þ.e. bæklunar-, tauga-, hjarta- erfða og tannlækni, heyrna og sjónmælingum, talmeinafræðingi og svefnrannsóknum. Drengurinn þurfi mikla aðstoð við að borða. Einnig er greint frá því að foreldrarnir hafi keypt mikið af þroskaleikföngum og búnaði til að þjálfa drenginn og auk þess segir að móðirin sé í skertu starfshlutfalli vegna umönnunar drengsins. Í greinargerð um tilfinnanleg útgjöld vegna heilsuvanda og meðferðar er greint frá því að drengurinn þurfi að sækja fjölbreytta sérfræðiþjónustu til í Reykjavíkur en fjölskyldan sé búsett í F.

Í umsókn kærenda, dags. 29. apríl 2024, um breytingu á gildandi umönnunarmati, er að mestu leyti sambærileg lýsing á sérstakri umönnun eða gæslu og í fyrri umsókn 6. febrúar 2024. Einnig er greint frá svefnvandamálum drengsins og að erfitt sé að fá pössun fyrir hann sökum mikilla sérþarfa. Í greinargerð um tilfinnanleg útgjöld vegna heilsuvanda og meðferðar er meðal annars greint frá því að móðir drengsins sé í skertu starfshlutfalli vegna umönnunar drengsins og báðir foreldrar hafi misst mikið úr vinnu með tilheyrandi tekjuskerðingu. Kærendur sjái fram að drengurinn verði á bleyjum lengi, hann slíti fötum mjög fljótt og kostnaður vegna matarkaupa sé mikill vegna erfiðleika við að finna fæðu sem drengurinn vilji eða geti borðað. Greint er frá töluverðum kostnaði vegna kaupa á melatónín og ýmsum hlutum/tækjum til að þjálfa hann í ýmsum athöfnum.

Í læknisvottorði G, dags. 7. maí 2024, eru eftirfarandi sjúkdómsgreiningar tilgreindar:

„Þroskahömlun, ótilgreind

Hreyfiþroskaröskun

Næringarvandi

Svefnvandi

Svefnröskun, ótilgreind

[…] heilkenni“

Heilsufars- og sjúkrasögu drengsins er lýst svo í vottorðinu:

„C er X mánaða gamall drengur sem nýlega var vísað á RGR […]. Hann hafði þá nýlega greinst með […] heilkenni. […] Drengurinn er í sjúkraþjálfun og búið er að vísa honum í iðjuþjálfun. Einnig er C í eftirfylgd hjá ýmsum sérfræðingum á LSH. Hann mun byrja í leikskóla í […].

C fæddist eftir 37 vikna meðgöngu eftir gangsetningu vegna […]. […] Fengið var konsúlt frá Erfðafrædideildinni strax við fæðingu og honum fylgt eftir. C er hypotone og honum var vísað til taugalæknis barna […]. Þá var send beiðni í sjúkraþjálfun. C hefur í heildina tekið framförum í þroska, ekki hvað síst í hreyfiþroska. Hann situr vel á gólfi, skríður á fjórum fótum og er nýlega farinn að geta staðið upp sjálfur. Hann getur gengið með stuðningi. Hann hreyfir báða handleggi, grípur um hluti og slíkt. C er kominn stutt áleiðis í málþroska. Hann myndar svolítið hljóð og það eru framfarir almennt í hljóðamyndun. Hann er ekki farinn að babla. C hefur illa ofan af fyrir sér í leik, […]. C sýnir ekki mikla eftirhermu. Sé honum hjálpað getur hann klappað og stundum er hægt að fá hann til að vinka bless. Hann bendir ekki mikið og virðist almennt vera frekar passívur. Það gengur erfiðlega að næra C. Hann borðar lítið af fastri fæðu en drekkur mjólk úr pela. Búið er að sækja um niðurgreiðslu á næringardrykkjum. Það þarf alveg að mata hann. C er linur á munnsvæði og hefur hitt bæði talmeinafræðing og næringarráðgjafa á LSH vegna þess. Drengurinn á einnig erfitt með svefn. Hann er háður pela á nóttunni og það þarf lítið til að hann rumski og byrji að væla. Það er eins og hann nái ekki djúpum svefni. Búið er að panta svefnrannsókn. Að sögn móður reyndist hjartaskoðun eðlileg en eftirfylgd er ráðgerð hjá hjartalækni einu sinni á ári. Það eru ekki merki um heyrnarskerðingu. Búið er að taka röntgenmynd af hrygg sem kom ágætlega út. Hann fær melatonin fyrir svefn.

[…]

Drengurinn er því með víðtæk frávik í þroska í tengslum við litningafrávik/heilkenni. Óskað er eftir endurskoðun á núverandi umönnunarmati í ljósi ofangreindra upplýsinga.“

Einnig liggur meðal annars fyrir niðurstaða DNA rannsóknar, dags. 11. janúar 2024, og læknisvottorð D, dags. 17. janúar 2024. Í læknisvottorðinu er greint frá sjúkdómsgreiningunni […]. Um umönnunarþörf segir:

„Vegna seinkaðs hreyfi- og málþroska þarf hann mun meiri aðstoð og tilsýn en börn á sama aldri og búast má við þroskamunur miðað við jafnaldra muni með tímanum verða enn greinilegri.“

Af kæru fær úrskurðarnefnd ráðið að ágreiningur varði greiðsluflokk og greiðslustig. Í gildandi umönnunarmati var umönnun drengsins felld undir 4. flokk, 25% greiðslur. Í matinu segir að um sé að ræða barn sem þurfi umtalsverðan stuðning, þjálfun, lyfjameðferð og þétt eftirlit sérfræðinga. Til þess að falla undir mat samkvæmt 3. flokki, töflu I, þarf að vera um að ræða börn, sem vegna fötlunar þurfa aðstoð og gæslu í daglegu lífi, til dæmis vegna vægrar þroskahömlunar, hreyfihömlunar, sem krefst notkunar spelka og/eða hækja við ferli, heyrnarskerðingar, sem krefst notkunar heyrnartækja í bæði eyru, og verulegrar sjónskerðingar á báðum augum. Aftur á móti falla börn með alvarlegar þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem jafna má við fötlun eða geðræna sjúkdóma og krefjast þjálfunar og eftirlits sérfræðinga og aðstoðar í skóla og á heimili og meðal jafnaldra, undir 4. flokk í töflu I.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, horfir til þess að sonur kærenda hefur verið greindur með […] heilkenni, ótilgreinda þroskahömlun, hreyfiþroskaröskun, næringarvanda, svefnvanda, og ótilgreinda svefnröskun. Vegna framangreinds er þörf á þjálfun, lyfjameðferð, þéttu eftirliti sérfræðinga og umönnun. Með hliðsjón af framangreindu og heildstæðu mati á vandamálum sonar kærenda telur úrskurðarnefndin að umönnun drengsins hafi réttilega verið felld undir 4. flokk.

Umönnunargreiðslur samkvæmt 4. flokki eru 25%. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að benda á að tekjutap foreldra hefur ekki áhrif á mat á rétti til umönnunargreiðslna samkvæmt 4. gr. laga um félagslega aðstoð. Samkvæmt ákvæðinu er heimildin til greiðslna takmörkuð við þau tilvik þegar andleg og líkamleg hömlun barns hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Þá kemur tekjutap foreldra ekki til skoðunar í 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997.

Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997 er heimilt að meta til hækkunar greiðslna ef um sannanleg, tilfinnanleg útgjöld er að ræða, til dæmis vegna ferða- eða dvalarkostnaðar vegna læknismeðferðar. Kærendur greina frá tíðum ferðum til sérfræðinga í Reykjavík en engar kvittanir eða önnur gögn liggja fyrir um kostnað vegna þeirra. Úrskurðarnefndin telur rétt að benda kærendum á að telji þau að kostnaður vegna umönnunar sé umfram veittar greiðslur geti þau óskað eftir breytingu á gildandi umönnunarmati leggi þau fram ítarleg gögn sem sýni fram á tilfinnanleg útgjöld í samræmi við framangreint ákvæði.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að fella umönnun sonar kærenda undir 4. flokk, 25% greiðslur.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins í máli A og B, um að fella umönnun sonar þeirra, C, undir 4. flokk, 25% greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta