Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 434/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 434/2024

Miðvikudaginn 27. nóvember 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 13. september 2024, kærði A, ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. maí 2024 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2023.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2023 var sú að kæranda hefðu verið vangreiddar bætur það ár að fjárhæð 203.150 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ákvörðun með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. maí 2024. Kærandi andmælti ákvörðuninni með bréfi, dags. 3. júlí 2024, og Tryggingastofnun ríkisins rökstuddi ákvörðunina með tölvupósti 9. júlí 2024. 

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. september 2024. Með bréfi, dags. 17. september 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 1. október 2024, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. október 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi 3. júlí 2024 sent inn kvörtun til Tryggingastofnunar vegna endurreiknings og upplýsinga stofnunarinnar til Skattsins. Í svari Tryggingastofnunar 12. júlí 2024 hafi komið fram að þann 5. október 2023 hafi stofnunin gert nýja tekjuáætlun eftir að þau hjónin hafi sent inn nýja áætlun í september. Komið hafi fram að útreikningur ársins hafi breyst, bæði fyrir þá mánuði sem þegar hafi verið greiddir og komandi mánuði. Heildargreiðslur Tryggingastofnunar hafi því verið leiðréttar í október eða tveimur mánuðum fyrir síðustu greiðslustaðfestingu, dags 1. desember 2023. Samkvæmt þeirri staðfestingu hafi réttindi kæranda frá áramótum verið 783.289 kr.

Samkvæmt skýringum Tryggingastofnunar hefði átt að standa að réttindin hafi verið samtals 870.553 kr. Staðið sé fast á því að 783.289 kr. hafi verið heildargreiðslur ársins og að uppgjör ársins sé samkvæmt því. Í kæru er vísað í meðfylgjandi töflu þar sem bornar séu saman réttar og rangar tölur varðandi endanlegt uppgjör og endurgreiðslu Tryggingastofnunar. Inneignin hafi réttilega verið 257.298 kr. og sé búið að endurgreiða 203.150 kr. Eftir standi 54.148 kr. skuld stofnunarinnar til kæranda með vöxtum.

Kærandi gerir einnig margvíslegar athugasemdir við málsmeðferð Skattsins.

Kærandi hafi 31. maí 2024 fengið 203.150 kr. endurgreiðslu frá Tryggingastofnun. Rétt inneign sé hins vegar 257.298 kr., mismunur sé 54.148 kr. inneign, sem kærandi eigi inni hjá Tryggingastofnun með vöxtum.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta ársins 2023, þar sem inneign kæranda hjá Tryggingastofnun hafi verið 203.150 kr. Samkvæmt kæru telji kærandi að inneignin hafi með réttu átt að vera 257.298 kr.

Um útreikning örorkulífeyris sé fjallað í IV. kafla laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 33. gr. laganna sé að finna ákvæði um útreikning og endurreikning og í 34. gr. laganna sé að finna ákvæði um ofgreiðslu og vangreiðslu.

Í 47. gr. laganna sé kveðið á um upplýsingaskyldu umsækjenda og greiðsluþega. Þar segi að umsækjanda eða greiðsluþega sé rétt og skylt að taka þátt í meðferð málsins, meðal annars með því að koma til viðtals og veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu svo unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Þá sé skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur eða greiðslur.

Kærandi sé örorkulífeyrisþegi. Í uppgjöri ársins 2023 hafi komið í ljós að endurreiknuð réttindi hans hafi verið hærri en greiðslur. Mismunurinn hafi verið 414.668 kr., að langstærstum hluta vegna tekjutryggingar. Að teknu tilliti til afdreginnar staðgreiðslu (-157.365 kr.) og áður myndaðrar 54.148 kr. kröfu hafi inneign kæranda til útborgunar verið 203.150 kr.

Kærandi hafi talið að inneignin ætti að vera hærri og hafi andmælt niðurstöðunni. Gerðar hafi verið athugasemdir við fjárhæðir sem hafi komið fram í gögnum Tryggingastofnunar sem og hversu mikið stofnunin hafi greitt á árinu 2023. Kærandi hafi fengið ítarlegar útskýringar í tölvupósti 9. júlí 2023.

Á árinu 2023 hafi heildargreiðslur Tryggingastofnunar verið 870.553 kr., en hins vegar taki yfirlit stofnunarinnar tillit til breytinga sem hafi orðið á réttindum. Af þeim sökum komi fram á ýmsum gögnum, s.s. síðasta greiðsluseðli ársins, að greiðslur ársins hafi verið 783.289 kr. En þar hafi verið tekið tillit til 87.264 kr. réttindalækkunar, sem hafi komið til vegna breytinga á tekjuforsendum ársins.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er vísað í yfirlit yfir réttindi ársins og niðurstöður. Með hliðsjón af þeim upplýsingum sem fram komi fram í útreikningum geti stofnunin ekki fallist á kröfur kæranda um útgreiðslu inneignar sem hann telji að hafi verið vangreidd.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er vísað í töflu með útreikningum á réttindum kæranda á grundvelli fyrstu tekjuáætlunar ársins. Því næst er vísað í töflu með útreikningum á grundvelli fyrstu tekjuáætlunar ársins eftir lagabreytingar sem tóku gildi 1. júlí 2023 sem kváðu á um 2,5% hækkun á fjárhæðum almannatrygginga. Að lokum er vísað í tvær töflur með útreikningum á réttindum kæranda út frá tekjuáætlun 27. september 2023, annars vegar vegna greiðslna frá janúar til júní 2023 og hins vegar vegna greiðslna frá júlí til desember 2023.

Í upphafi árs 2023 hafi Tryggingastofnun gert tillögu að tekjuáætlun fyrir árið, byggða á fyrri tekjuáætlunum, staðgreiðsluskrá Skattsins og eldri skattframtölum. Gert hafi verið ráð fyrir að tekjur kæranda samhliða greiðslum stofnunarinnar á árinu yrðu 5.947.296 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 90.000 kr. í fjármagnstekjur. Fjármagnstekjur hjóna teljast til sameignar og séu þetta því heildarfjármagnstekjur kæranda og eiginkonu hans, en einungis helmingur þeirra hafi haft áhrif á kæranda.

Ekki hafi verið gerð athugasemd við tekjuáætlunina og hafi hún því verið lögð til grundvallar greiðslum kæranda. Í greinargerð Tryggingastofnunar er vísað í töflu með útreikningum á réttindum kæranda á mánaðargrundvelli byggða á þessum tekjuforsendum.

Fyrstu mánuði ársins hafi mánaðargreiðslur kæranda verið 70.930 kr., eða þangað til að samþykkt hafi verið lög um 2,5% hækkun á fjárhæðum almannatrygginga sem hafi tekið gildi 1. júlí 2023. Við það hafi mánaðarlegar greiðslur kæranda hækkað upp í 77.193 kr. Í greinargerð Tryggingastofnunar er vísað í töflu með útreikningum.

Þann 1. júlí 2023 hafi kærandi einnig fengið greidda út orlofsuppbót að upphæð 4.410 kr., en orlofsuppbót örorkulífeyrisþega sé reiknuð með þeim hætti að 20% af meðaltali tekjutryggingar á mánuði síðustu 12 mánuði sé greidd út í formi orlofsuppbótar.

Tryggingastofnun hafi 27. september 2023 borist uppfærð tekjuáætlun frá kæranda þar sem áætlaðar lífeyrissjóðstekjur hafi verið hækkaðar í 6.300.000 kr. á árinu og sameiginlegar vaxtatekjur 200.000 kr. Tekjuáætlunin hafi verið afgreidd 5. október 2023 og við það hafi útreikningur ársins breyst, bæði fyrir þá mánuði sem þegar hafi verið greiddir og þá sem eftir hafi átti að greiða. Í greinargerð Tryggingastofnunar er vísað í töflu með útreikningum annars vegar frá janúar til júní 2023 og hins vegar júlí til desember 2023 út frá framangreindri tekjuáætlun 27. september 2023.

Á grundvelli þessarar tekjuáætlunar hafi réttur kæranda til tekjutryggingar lækkað, kærandi hafi ekki átt rétt á tekjutryggingu á tímabilinu janúar til júní og hafi lækkaði niður í 232 kr. fyrir tímabilið júlí til desember. Auk þessa hafi réttur til orlofsuppbótarinnar lækkað um 688 kr.

Við þennan útreikning hafi réttindi kæranda lækkað um 87.264 kr. fyrir þá mánuði sem þegar hafi verið greiddir á grundvelli fyrri tekjuforsenda, en rétturinn til tekjutryggingar á tímabilinu janúar til júní hafi lækkað um. 45.260 kr., rétturinn til tekjutryggingar á tímabilinu júlí til október hafi lækkað um 41.316 kr., auk þess sem orlofsuppbót hafi lækkað um 688 kr. Af þessari réttindalækkun hafi verið dregin frá 33.116 kr. staðgreiðsla skatta og eftir hafi staðið 54.148 kr. krafa. Krafan hafi beðið innheimtu þar til endurreikningur færi fram vorið 2024.

Greiðslur kæranda út árið hafi verið byggðar á þessum útreikningi. Að auki hafi verið greidd 35 kr. í desemberuppbót, en rétturinn til desemberuppbótar sé reiknaður þannig að 30% meðaltal tekjutryggingar á mánuði síðustu 12 mánuði miðað við núgildandi útreikning sé greitt út sem slík greiðsla. Réttur kæranda til tekjutryggingar á því tímabili hafi verið 1.392 kr. og meðaltal mánaðar hafi verið 116 kr. og 30% af þeirri fjárhæð hafi verið 35 kr.

Í lok árs 2023 hafði stofnunin greitt kæranda á grundvelli framangreindra útreikninga alls 870.553 kr. í réttindi og hafi dregið af því 330.375 kr. staðgreiðslu svo að greiðsla til kæranda hafi verið 540.178 kr. Í greinargerð Tryggingastofnun er vísað í töflu um greiðslur ársins.

Vakin sé athygli á því að þegar réttindabreyting eigi sér stað í kerfi Tryggingastofnunar, þá sé gert ráð fyrir því í öðrum gögnum stofnunarinnar. Þannig hafi réttindi kæranda lækkað um 87.264 kr. og hafi það endurspeglast á greiðslustaðfestingum stofnunarinnar, þar sem fram komi á síðasta greiðslustaðfestingu ársins að réttindi frá áramótum hafi verið 783.289 (870.553 mínus 87.264). Sömuleiðis hafi þetta endurspeglast á launamiðum stofnunarinnar þegar birt sé fjárhæð þess sem viðkomandi hafi fengið greitt, þá sé tekið tillit til breytinga sem hafi komið til á árinu.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 28. maí 2024, hafi kæranda verið tilkynnt um niðurstöður uppgjörs ársins 2023 og stöðu réttinda. Þar hafi komið fram að heildargreiðslur til kæranda á árinu 2023 hafi verið 870.553 kr., en réttindi á árinu, reiknuð í samræmi við endanlegar tekjuforsendur skattframtals, hefðu hins vegar verið 1.197.952 kr. Hafi því verið um að ræða 327.399 kr. inneign réttinda miðað við það sem áður hafði verið greitt og að teknu tilliti til 124.249 kr. staðgreiðslu skatta hafi staðið eftir 203.150 kr. inneign til útgreiðslu, en tekið hafði verið tillit til 54.148 kr. kröfu, sem áður hafði verið tilkynnt um.

Ástæðan fyrir þessari inneign hafi verið misræmi í tekjuáætlun sem stofnunin hafi greitt réttindi eftir og endanlegum tekjum skattframtals. Þannig hafi lífeyrissjóðstekjur verið nokkuð lægri en gert hafi verið ráð fyrir eða 5.112.395 kr. og fjármagnstekjur hafi verið hærri en gert hafi verið ráð fyrir á tekjuáætlun, eða 342.716 kr.

Í bréfi stofnunarinnar sem hafi fylgt endurreikningnum megi sjá nánar um niðurstöðu uppgjörs. Þannig hafi verið skráð réttindi undir áður greitt á árinu að upphæð 783.289 kr., sem séu réttindin sem kærandi hafi fengið greidd að frádreginni réttindalækkuninni sem hafi átt sér stað vegna breytinga á árinu. Réttur kæranda til tekjutryggingar hafi aukist í uppgjöri um 401.502 kr. og réttindi kæranda til orlofs- og desemberuppbóta hafi einnig aukist um 13.161 kr. Alls hafi réttindi kæranda fyrir árið hækkað um 414.663 kr.

Af þessari inneign hafi verið dregin 157.365 kr. staðgreiðsla skatta og eftir hafi staðið 257.298 kr. inneign. Þá hafi verið dregin frá 54.148 kr. krafa sem hafi myndast vegna breytinga á árinu 2023 og því hafi staðið eftir 203.150 kr. inneign til útgreiðslu.

Í ljósi alls framangreinds sé niðurstaða Tryggingastofnunar sú að afgreiðslan sé í senn lögmæt og málefnaleg. Fyrir nefndinni fari Tryggingastofnun fram á staðfestingu á kærðri ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2023.

Kærandi fékk greiddan örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2023. Samkvæmt 47. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 30. og 33. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 1. mgr. 30. gr. segir að til tekna samkvæmt VI. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með tilteknum undantekningum. Á grundvelli 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 34. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Samkvæmt gögnum málsins gerði tillaga Tryggingastofnunar að tekjuáætlun ársins 2023, dags. 19. nóvember 2022, ráð fyrir að kærandi fengi 5.947.296 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 90.000 kr. í fjármagnstekjur, sameiginlegar með maka. Kærandi gerði ekki athugasemdir við áætlunina og voru greiðslur miðaðar við þessar forsendur. Kærandi lagði fram nýja tekjuáætlun 27. september 2024, þar sem hann gerði ráð fyrir 6.300.000 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 200.000 kr. í fjármagnstekjur, sameiginlegar með maka. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. október 2023, var kærandi upplýstur um að bótaréttindi hafi verið endurreiknuð og að áætluð hefði verið krafa að fjárhæð 54.148. kr.

Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2023 reyndust tekjur kæranda hafa verið 5.112.395 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 342.716 kr. í fjármagnstekjur, sameiginlegar með maka. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins leiddi í ljós inneign að fjárhæð 203.150 kr. á árinu 2023 að teknu tilliti til áður myndaðrar kröfu og staðgreiðslu.

Samkvæmt framangreindu reyndust tekjur kæranda árinu 2023 ekki hafa verið í samræmi við tekjuáætlun. Um var að ræða lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur sem eru tekjustofnar sem hafa áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. 30. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölul. A-liðar og C-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda. Kærandi gerir athugasemdir við útreikninga Tryggingastofnunar. Úrskurðarnefndin hefur farið yfir útreikningana og gerir ekki athugasemdir við þá. 

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum kæranda á árinu 2023.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta