Mál nr. 390/2022 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 390/2022
Miðvikudaginn 19. október 2022
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.
Með rafrænni kæru, móttekinni 2. ágúst 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. júlí 2022 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 11. júlí 2022. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 23. júlí 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing hefði ekki verið fullreynd.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. ágúst 2022. Með bréfi, dags. 3. ágúst 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 19. ágúst 2022, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. ágúst 2022. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að búið sé að neita kæranda um alla möguleika á endurhæfingu hjá VIRK og geðheilsuteymi. Læknir kæranda segi mjög skýrt að kærandi þurfi að fara á örorku. Tryggingastofnun ríkisins synji kæranda á þeim grundvelli að ekki sé búið að reyna endurhæfingu. Kærandi geri kröfu um að fá þessar örorkugreiðslur því að fjölskyldu hennar, sem samanstandi meðal annars af X börnum, bráðvanti stuðning sem fyrst. Læknar og félagsráðgjafar hafi fullan skilning á því að bæði geti kærandi ekki, vegna aðstæðna, sótt endurhæfingu þó að hún væri í boði og að hún myndi ekki breyta starfsgetu hennar, sem sé skert.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærandi hafi sótt um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með umsókn, dags, 11. júlí 2022, en hafi verið synjað með bréfi, dags. 23. júlí 2022, með vísan til þess að ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku hennar þar sem endurhæfing hefði ekki verið fullreynd.
Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.
Tryggingastofnun krefjist staðfestingar á ákvörðun sinni frá 23. júlí 2022 um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.
Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. Hins vegar sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.
Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum.
„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.
Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga.“
Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt, til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, að lagðir séu fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í áðurnefndri 7. gr. sé skýrt að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinnufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris.
Um nánari skilyrði og framkvæmd endurhæfingarlífeyris hjá Tryggingastofnun sé fjallað í reglugerð nr. 661/2020. Í 4. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um upphaf, tímalengd og skilyrði greiðslna og í 5. gr. um sjálfa endurhæfingaráætlunina. Þá tiltaki 6. gr. reglugerðarinnar hverjir geti verið umsjónaraðilar endurhæfingaráætlunar.
Þá sé í 37. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 661/2020 um endurhæfingarlífeyri, meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins og hafi því öllu verið sinnt í þessu máli.
Kærandi hafi fyrst sótt um örorkulífeyri með umsókn, dags. 7. maí 2021, en þeirri umsókn hafi verið vísað frá vegna skorts á gögnum. Kærandi hafi svo sótt aftur um örorkulífeyri með umsókn, dags. 24. júní 2022, en þeirri umsókn hafi verið synjað, dags. 7. júlí 2022, með vísan til þess að samkvæmt gögnum sem fylgt hafi umsókninni væri ekki talið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hefði ekki verið fullreynd. Kærandi hafi í synjunarbréfinu verið hvött til að reyna endurhæfingu og bent á að sækja um endurhæfingarlífeyri þar sem kærandi gæti hugsanlega átt slíkan rétt, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og 4. gr. reglugerðar nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris. Kærandi hafi enn einu sinni sótt um örorkulífeyri með umsókn, dags. 11. júlí 2022, en hafi verið synjað, dags. 23. júlí 2022, með vísan til sömu forsendna og áður.
Sú niðurstaða hafi svo verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála, með kæru, móttekinni 2. ágúst 2022.
Við mat á umsóknum um örorkulífeyri styðjist tryggingalæknir við þau gögn sem liggi fyrir hverju sinni. Við synjun örorkumatsins þann 23. júlí 2022 hafi legið fyrir umsókn kæranda um örorkulífeyri, dags. 11. júlí 2022, synjun VIRK endurhæfingar á beiðni um þjónustu, dags. 10. júní 2022, og eldri gögn vegna fyrri umsókna um örorkulífeyri.
Samkvæmt læknisvottorði B heimilislæknis, dags. 23. júní 2022, sem hafi legið fyrir við synjun Tryggingastofnunar á umsókn um örorkulífeyri þann 7. júlí 2022 sé kærandi greind með félagsfælni (e. social phobias) (F40.1), aðrar svaranir við mikilli streitu (e. other reaction to severe stress) (F43.8), geðlægðarlotu (e. depression nos) (F32.9) og Asperger heilkenni (e. asperger‘s syndrome) (F84.5), sbr. ICD 10. Um fyrra heilsufar kæranda segi að hún sé xx ára C kona sem sé fædd og uppalin fyrir utan D en hafi búið á Íslandi síðan árið 20xx. Kvíði og félagsfælni hafi hamlað henni í aðlögun að íslensku samfélagi. Af sömu ástæðum hafi henni gengið illa að fóta sig á vinnustöðum, þrátt fyrir að vera heilsuhraust og vel menntuð. Hún hafi ekki verið í vinnu síðan árið 20xx og hafi á þeim tíma sinnt börnunum sínum X, sem hún eigi með íslenskum eiginmanni sínum, og heimili þeirra. Um heilsuvanda og færniskerðingu kæranda nú segi að félagskvíða kæranda megi rekja til áfalla í æsku. Þó segi að kærandi hafi ekki þegið neina hjálp vegna þessa vanda, þrátt fyrir ráðleggingar, vegna þess að hún eigi eftir að ganga í gegnum frekara greiningarferli og að sterkur grunur sé um röskun á einhverfurófi. Þá segi að eiginmaður hennar glími við svipaðan vanda, að þau búi endurgjaldslaust í […] og að framfærsla þeirra sé engin. Einnig komi fram að fyrri umsókn um örorku hafi verið hafnað og að tilvísun í endurhæfingu hafi verið það líka þar sem ekki væri talið raunhæft eða tímabært fyrir kæranda að sinna endurhæfingu. Sjálf segi hún að sig langi til að vinna en hún geti það ekki sökum anna með börn og heimili, auk þess að glíma við félagsfælni og kvíða. Að mati höfundar læknisvottorðsins sé kærandi óvinnufær en búast megi við að færni hennar aukist eftir læknismeðferð. Að lokum segi að kærandi þurfi að komast í viðeigandi greiningarferli eins og til dæmis geðheilsuteymi taugaþroskaraskana en að löng bið sé eftir því og eins og staðan sé núna geti kærandi því ekki sótt neina endurhæfingu.
Í greinargerð Tryggingastofnunar er gerð grein fyrir svörum kæranda við spurningalista vegna færniskerðingar. Skýrsla skoðunarlæknis liggi ekki fyrir í málinu en að mati Tryggingastofnunar hafi ekki verið tilefni til þess að senda kæranda til skoðunarlæknis þar sem ekkert hafi verið reynt að vinna með læknisfræðilegan vanda hennar.
Við örorkumatið hafi legið fyrir synjun frá VIRK endurhæfingu á þjónustubeiðni, dags. 10. júní 2022, sem kærandi hafi skilað inn til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína, dags. 11. júlí 2022. Þar segi að beiðni kæranda um þjónustu hjá VIRK hafi verið afgreidd af inntökuteymi VIRK og að niðurstaða þeirra sé sú að starfsendurhæfing sé ekki tímabær/viðeigandi þar sem aðstæður og skortur á félagslegum stuðningi komi í veg fyrir getu og þátttöku kæranda. Þessari niðurstöðu til stuðnings sé vísað til þess að kærandi sé ekki með trygga dagvistun fyrir börnin sín og að hún eigi erfitt með samgöngur. Þá hafi niðurstaða inntökuteymis VIRK enn fremur verið sú að kærandi hafi líklega fremur þörf fyrir þjónustu á vegum heilbrigðiskerfisins og hún verið hvött til að ráðfæra sig við heimilislækni varðandi úrræði á vegum heilsugæslu og/eða félagsþjónustu.
Tryggingastofnun vilji ítreka það að stofnuninni sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkumat hjá stofnuninni gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga um félagslega aðstoð.
Tryggingastofnun leggi sjálfstætt mat á færniskerðingu umsækjanda á grundvelli framlagðra gagna þar sem meðal annars sé horft til sjúkdómsgreininga, heilsufarsögu og upplýsinga um meðferðir/endurhæfingu sem umsækjandi hafi undirgengist í kjölfar veikinda og/eða slysa. Við gerð örorkumats sé Tryggingastofnun því ekki bundin af ályktunum lækna eða annarra meðferðaraðila um meinta örorku eða óvinnufærni umsækjanda. Tryggingastofnun hafi á ný lagt mat á fyrirliggjandi gögn og virt þau í ljósi annarra og nýrri læknisfræðilegra gagna sem liggi fyrir í málinu. Tryggingastofnun sé bundin af staðlinum eins og hann hafi verið ákveðinn. Samkvæmt læknisvottorði, dags. 23. júní 2022, spurningalista vegna færniskerðingar, dags. 24. júní 2022, og öðrum fyrirliggjandi gögnum sé líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún sé metin af sérfræðingum Tryggingastofnunar, slík að ekki sé tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hennar hafi ekki verið reynd og æskilegt væri að kærandi myndi til dæmis reyna einhver úrræði eins og heimilislæknir hennar nefndi áður en til örorkumats komi. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé ekki útilokað að færni kæranda aukist með endurhæfingu. Svo virðist sem félagslegar aðstæður kæranda hafi aðallega staðið í vegi fyrir því að hún hafi látið reyna á að sinna endurhæfingu fremur en að hún teljist fullreynd. Mælt sé með því að kærandi láti reyna á viðeigandi endurhæfingu og sæki um endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun.
Með hliðsjón af ofangreindum forsendum hafi læknum Tryggingastofnunar sýnst að meðferð kæranda í formi endurhæfingar hafi ekki verið fullreynd og þar af leiðandi sé ekki tímabært að meta örorku hjá kæranda, sérstaklega þar sem 36 mánuðum hafi ekki verið náð á endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Telji Tryggingastofnun það því vera í fullu samræmi við öll gögn málsins að synja kæranda um örorkulífeyri að svo stöddu þar sem talið sé að enn sé hægt að vinna með heilsufarsvanda kæranda og auka þannig virkni hennar og starfsgetu.
Það sé því niðurstaða sérhæfðs mats Tryggingastofnunar á möguleikum kæranda til endurhæfingar að endurhæfing sé ekki fullreynd. Kærandi uppfylli þannig ekki það skilyrði 18. gr. almannatryggingalaga að viðeigandi endurhæfing skuli vera fullreynd áður en til örorkumats komi. Í því sambandi vilji Tryggingastofnun einnig taka fram að mat á því hvort endurhæfing sé fullreynd miðist við læknisfræðilegar forsendur endurhæfingarinnar en ekki önnur atriði eins og til dæmis framfærslu kæranda, búsetu eða aðrar félagslegar aðstæður hennar eða það hvort hún uppfylli einhver önnur skilyrði örorku- eða endurhæfingarlífeyris hjá stofnuninni.
Einnig skuli áréttað að það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna umsækjenda, það er að koma umsækjendum um endurhæfingarlífeyri og/eða örorkulífeyri í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. júlí 2022 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt hafi verið að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.
Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.
Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:
„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.
Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“
Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 23. júní 2022. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:
„SOCIAL PHOBIAS
AÐRAR SVARANIR VIÐ MIKILLI STREITU
DEPRESSION NOS
ASPERGER'S SYNDROME“
Um fyrra heilsufar segir í vottorðinu:
„xx ára C stúlka, alin upp fyrir utan D. Flutti til Íslands 20xx. Talar ensku og íslensku. Verið með mikinn kvíða. Mikill félagskvíði og ofhugsar allt. Einhver áfallasaga í æsku, […] en vill lítið fara út í það. Einnig eitthvað áfall fyrir nokkrum árum síðan […] en upplifir einelti frá yfirvöldum í sinn garð í tengslum við það ásamt einelti frá nágrönnum, […].
Finnst hún ekki passa í samfélagið, erfitt með að fúnkera á vinnustað útaf kvíða og félagsfælni. Aldrei verið á kvíða lyfjum og vill helst ekki fara á lyf.
Býr í […] fyrir utan E með eiginmanni sínum sem er íslenskur. Eiga saman x börn á aldrinum x ára - yngsta x mánaða. Hefur aðalega verið að halda heimili og hugsa um börnin sín síðustu ár, finnst gott að hugsa um börnin sín. Ekki verið í vinnu síðan 20xx, vann þá við […].
Er með BS gráðu í F, lærði í G háskóla, og MS gráðu í xx and xx frá H (I). Einnig diploma í xx fá J.
Heilsuhraust, tekur engin lyf, einhver saga um þvagleka sem hefur verið frá æsku og er á leið til kvensjúkdómalæknis að kanna það nánar.“
Þá segir svo um heilsuvanda og færniskerðingu nú:
„xx ára kona upprunalega frá D. Er með mikinn félagskvíða. Mikil áföll í æsku.
Hefur að sögn ekki móttekið neina hjálp með þeim rökum að hún eigi eftir að ganga í gegnum frekara greiningarferli. Sterkur grunur um röskun á einhverfurófi. Var ráðl að ganga til sálfr. en ekki mótttekið þá hjálp.
Hún og eiginmaður sem glímir við svipaðar áskoranir eiga x börn undir x ára aldri. Þau eru aljgörelga án framfærslu. Þau búa endurgjaldslaust í […] í L. Þau lifa bæði í stanslausum ótta við að […]. Það tekur á þau því þau segjast […]. Hins vegar er framfærslan mikið vandamál.
Fyrri umsókn um örorkubætur var hafnað fyrir rúmu ári. Tilvísun í endurhæfingu var einnig hafnað þar sem það var ekki talið raunhæft eða tímabært.
x af x börnum þeirra er án dagvistunnar og eru því heima. Eins búa þau í […] L og erfitt að finna tíma til þess að komast á milli. Hún hefur því engan tíma né möguleika (barnavistun) til að sinna endurhæfingu og það aljgörlega óraunhæft eins og er.
Frá 1. Júlí hafa þau enga framfærslu. Að sögn hefur félagsþjónustann hafnað því að styðja við þau fjárhagslega.
Langar að vinna en getur það ekki sökum anna með börn og heimilii. Einnig hefur það reynst erfitt áður vegna kvíða og erfiðleika með félagsleg samskipti.
Það er sterkur grunur um röskun á einhverfurófi og því þyrfti greiningarferli að fara af stað til að geta veitt viðeigandi stuðning og meðferð.“
Lýsing læknisskoðunar er svohljóðandi í vottorðinu:
„Snyrtileg í eðlilegum holdum. Kemur vel fyrir og kontakt í raun eðliegur en mjög áhyggjufull og mikið niðri fyrir. Grátlabil.
Ekki merki um hugsanavillur eða geðrofseinkenni.“
Í læknisvottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að búast megi við að færni aukist eftir læknismeðferð. Í athugasemdum segir:
„Ég tel að eina úrlausnin hér sé að sækja um tímabundna örorku fyrir A (og eiginmann hennar) þar sem þeirra ástand nú samrýmist örorku og það þarf að tryggja framfærslu. Ekki síður með hag x barna þeirra fyrir brjósti. Nýta þyrfti svo tímann til að senda þau í viðeigandi greiningarferli og fá fyrir þau viðeigandi stuðning, þá væntanlega geðheilsuteymi taugaþroskaraskana, en það er mjög löng bið eftir því og eins og staðan er núna þá gæti A ekki sótt neina endurhæfingu. Það er því aljgört forgangsatriði að tryggja fjárhagslegt öryggi og mun þá vonandi vera hægt að vinda ofan af þessari flækju smám saman og finna viðeigandi úrræði/endurhæfingu.“
Einnig liggur fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar.
Í bréfi frá inntökuteymi VIRK, dags. 10. júní 2022, segir:
„Aðstæður og skortur á félagslegum stuðningi koma í veg fyrir getu og þátttöku. Niðurstaða VIRK er að einstaklingur hafi líklega þörf fyrir þjónustu á vegum heilbrigðiskerfisins.
Beiðni um starfsendurhæfingu fyrir A er vísað frá á þessum tímapunkti. Fram kom í samtali við A að hún er ekki með trygga dagvistun fyrir börn, hún á einnig erfitt með samgöngur til að geta sinnt starfsendurhæfingu. Auk þess kom fram í samtali að A telur ekki raunhæft að stefna á meira en 25% atvinnuþátttöku vegna félagslegra aðstæðna. […]
A er hvött til að ráðfæra sig við heimilislækni varðandi úrræði á vegum heilsugæslu og/eða félagsþjónustu.“
Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Þá var kæranda leiðbeint að fá ráðgjöf hjá heimilislækni um þau endurhæfingarúrræði sem væru í boði.
Fyrir liggur að kærandi býr við vandamál af andlegum toga. Í fyrrgreindu læknisvottorði B, dags. 23. júní 2022, kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að búast megi við að færni aukist eftir læknismeðferð. Þá segir að kærandi sé hvorki að fara á vinnumarkað né geti sinnt endurhæfingu sökum þess að hún hafi ekki möguleika á dagvistun fyrir börnin sín. Í bréfi frá inntökuteymi VIRK, dags. 10. júní 2022, segir að aðstæður og skortur á félagslegum stuðningi komi í veg fyrir getu og þátttöku kæranda í endurhæfingu hjá VIRK. Þá kemur fram að kærandi hafi líklega þörf fyrir þjónustu á vegum heilbrigðiskerfisins. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ekki verði ráðið af þeim upplýsingum sem fram komi í læknisvottorði B, bréfi VIRK eða af eðli veikinda kæranda að endurhæfing geti ekki komið að gagni. Þá liggur fyrir að kærandi hefur ekki fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.
Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. júlí 2022, um að synja kæranda um örorkumat.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkumat, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir