Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 340/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 340/2024

Miðvikudaginn 27. nóvember 2024

Dánarbú A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 26. júlí 2024, kærði B, f.h. dánarbús A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. maí 2024 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2023.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

A fékk greiddar tekjutengdar greiðslur á árinu 2023. A lést X og tók þá kærandi við öllum réttindum og skyldum hennar. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. maí 2024, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2023 hafi leitt í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð 36.076 kr.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. júlí 2024. Með bréfi, dags. 30. júlí 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 12. ágúst 2024, óskaði Tryggingastofnun eftir frávísun málsins þar sem stofnunin hefði ákveðið að endurupptaka það. Óskað var eftir afstöðu kæranda til bréfs Tryggingastofnunar með bréfi, dags. 3. september 2024. Engar athugasemdir bárust. Með bréfi, dags. 7. október 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir efnislegri greinargerð frá Tryggingastofnun. Með bréfi, dags. 29. október 2024, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 30. október 2024. Athugasemdir bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að dánarbúið sé uppgert. Samkvæmt skattframtali 2024 vegna ársins 2023 hafi myndast inneign að fjárhæð 2.600 kr. og það sé það eina sem sé til í dánarbúinu.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. ágúst 2024, segir að í athugasemdum með kæru komi fram að dánarbú sé uppgert og að það sé eignarlaust. Í málinu liggi fyrir yfirlit um framvindu skipta frá 7. nóvember 2023 þar sem segi að frestur hafi verið veittur vegna einkaskiptaleyfis til 28. júlí 2024. Uppfært yfirlit liggi ekki fyrir í málinu. Tryggingastofnun hafi ákveðið að endurupptaka málið og óska eftir afriti af uppfærðu yfirliti frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu þar sem eignarleysi dánarbúsins sé staðfest. Þá geti kærandi einnig afhent stofnuninni afrit af staðfestingu sýslumanns á eignarleysi búsins. Þar sem Tryggingastofnun hafi ákveðið að endurupptaka málið óski stofnunin eftir að kærumáli þessu verði vísað frá. Komist úrskurðarnefnd velferðarmála að annarri niðurstöðu, áskilji Tryggingastofnun sér hins vegar rétt til að koma að efnislegri greinargerð.

Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að kæra varði niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2023.

Fyrir gildistöku breytingarlaga nr. 18/2023 þann 12. apríl 2023 hafi verið fjallað um útreikning ellilífeyris í III. kafla þágildandi laga nr. 100/2007 um almannatryggingar en í IV. kafla núgildandi laga. Í 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi verið kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun skyldi standa að útreikningi bóta. Sambærileg ákvæði sé finna í 22. og 33. gr. núgildandi laga. Þá hafi sagt í 1. mgr. 23. gr. að fjárhæð fulls ellilífeyris skyldi lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans uns lífeyririnn falli niður. Þá hafi sagt að ellilífeyrisþegi skyldi hafa almennt frítekjumark auk sérstaks frítekjumarks vegna atvinnutekna. Sambærileg ákvæði sé að finna í 21. og 22. gr. núgildandi laga.

Samkvæmt 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi Tryggingastofnun borið að líta til tekna við útreikning bóta, m.a. ellilífeyris. Í 2. mgr. greinarinnar hafi sagt að til tekna samkvæmt III. kafla laganna hafi talist tekjur skv. II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað teljist ekki til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum, sbr. 30. gr. núgildandi laga um almannatryggingar.

Í 5. mgr. 16. gr. þágildandi almannatryggingalaga hafi sagt að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skyldi leggja 1/12 af áætluðum tekjum greiðsluþegans á bótagreiðsluárinu. Þá hafi sagt að áætlun um tekjuupplýsingar skyldi byggjast m.a. á nýjustu upplýsingum frá greiðsluþega, sbr. 39. gr. laganna þar sem hafi sagt að greiðsluþega væri skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem gætu haft áhrif á bætur eða greiðslur. Sambærilegt ákvæði sé að finna í 33. gr. núgildandi laga.

Í 6. mgr. 16. gr. þágildandi almannatryggingalaga komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skyldi Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna, sbr. 33. gr. núgildandi laga. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009.

Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Ef í ljós komi við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar hafi farið um það skv. 55. gr. þágildandi almannatryggingalaga, sbr. 34. gr. núgildandi laga. Í ákvæðunum sé Tryggingastofnun skylduð til að innheimta ofgreiddar bætur af greiðsluþega eða dánarbúi hans. Sú meginregla að ofgreiddar bætur skuli innheimtar sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

A hafi þegið ellilífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun milli 1. janúar til 31. júlí 2023 en hún hafi látist X.

Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur A á árinu 2023 hafi legið fyrir hafi komið í ljós að tekjur hennar hefðu verið vanáætlaðar á tekjuáætlun ársins 2023 og því hafi hún samkvæmt endurreikningi fengið ofgreiddar tekjutengdar greiðslur á árinu 2023 um það sem nemi 36.076 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Kæranda hafi verið tilkynnt um niðurstöðu endurreikningsins með bréfi 28. maí 2024.

Þann 26. júlí 2024 hafi ákvörðunin verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála. Með bréfi, dags. 2. september 2024, hafi Tryggingastofnun tilkynnt um endurupptöku málsins og óskað eftir frekari gögnum sem staðfestu eignaleysi dánarbúsins. Slík gögn hafi ekki borist þannig að stofnunin hafi staðið við fyrri ákvörðun. Í kjölfarið hafi úrskurðarnefndin óskað eftir greinargerð frá Tryggingastofnun vegna kærunnar með bréfi, dags. 7. október 2024.

Við andlát manns taki dánarbú hans við öllum eignum og skuldum hins látna, sbr. 2. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum og o.fl. Á meðan skiptum dánarbús sé ólokið beri dánarbúið ábyrgð á öllum skuldbindingum hins látna. Ljúki skiptum dánarbúsins með einkaskiptum beri erfingjar hins látna óskipta ábyrgð á skuldbindingum búsins samkvæmt 97. gr. laga nr. 20/1991. Samkvæmt yfirliti um framvindu skipta samkvæmt dánarskrá sýslumanns, dags. 12. ágúst 2024, hafi einkaskiptum á dánarbúi kæranda lokið 1. ágúst 2023.

Ljúki skiptum dánarbús á þann hátt að dánarbúið sé lýst eignalaust eða að eignir dugi einungis fyrir útfararkostnaði beri erfingjar ekki ábyrgð á skuldbindingum dánarbúsins. Tryggingastofnun hafi óskað eftir slíkri staðfestingu með bréfi, dags. 2. september 2024. Engin slík staðfesting hafi borist stofnuninni. Auk þess sé skiptum dánarbús ekki lokið með einkaskiptum ef um eignarlaust dánarbú sé að ræða, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 20/1991. Vegna þess líti Tryggingastofnun svo á að erfingjar kæranda beri óskipta ábyrgð á skuldbindingum dánarbúsins og þar með talið á endurgreiðslu ofgreiðslukröfu kæranda vegna endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna til hins látna á árinu 2023.

Kærð ákvörðun sé í samræmi við lög og reglur sem gildi um uppgjör og endurreikning tekjutengdra bóta sem og innheimtu ofgreiddra bóta.

Tryggingastofnun fari því fram á að ákvörðun stofnunarinnar frá 28. maí 2024 um innheimtu ofgreiddra bóta verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2023.

A fékk greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2023. Samkvæmt 47. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 22. og 33. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 1. mgr. 22. gr. segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með tilteknum undantekningum. Á grundvelli 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 34. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Samkvæmt gögnum málsins sendi Tryggingastofnun ríkisins A tillögu að tekjuáætlun, með bréfi, dags. 13. desember 2022, þar sem gert var ráð fyrir 1.372.188 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 648 kr. í fjármagnstekjur á árinu 2023. Ekki voru gerðar athugasemdir við þá áætlun og voru greiðslur reiknaðar út frá framangreindum tekjuforsendum. A lést þann X.

Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2023 reyndust tekjur A á tímabilinu 1. janúar til 31. júlí 2023 vera 848.394 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 41.766 kr. fjármagnstekjur. Niðurstaða endurreiknings Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2023, var sú að sökum tekna hefði A fengið ofgreiddar bætur samtals að fjárhæð 36.076 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta.

Samkvæmt framangreindu reyndust lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur A á árinu 2023 vera hærri en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlun og leiddu til ofgreiðslu. Lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur eru tekjustofnar sem hafa áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. 22. gr. laga um almannatryggingar og A og C-lið 7. gr. laga um tekjuskatt. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur. Einnig liggur fyrir að erfingjar A bera óskipta ábyrgð á skuldbindingum búsins, sbr. 97. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum, en samkvæmt gögnum málsins var einkaskiptaleyfi veitt 17. ágúst 2023 og einkaskiptum lokið 1. desember sama ár.

Að öllu framangreindu virtu er niðurstaða endurreiknings og uppgjörs Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2023 staðfest.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að benda kæranda á að dánarbúið getur freistað þess að leggja fram beiðni um niðurfellingu ofgreiddra bóta til Tryggingastofnunar á grundvelli undanþáguákvæðis 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Þar kemur fram að heimilt sé að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Þá skuli einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna greiðsluþega og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum dánarbús A, á árinu 2023, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta